Menntamál.

(Mál nr. 11690/2022)

Kvartað var yfir framkomu starfsmanna Tækniskólans og vanmats á námi úr öðrum skólum. 

Þar sem þær ákvarðanir sem kvartað var undan voru eldri en eins árs þegar kvörtunina barst voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um þá.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 20. september 2022.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 11. maí sl. yfir Tækniskólanum, sér í lagi vegna framkomu nafngreindra starfsmanna og vanmats á námi úr öðrum skólum. Í kvörtuninni kemur einnig fram að þér hafið ítrekað sent ráðu­neyti menntamála erindi vegna Tækniskólans. Af því tilefni óskaði umboðs­maður eftir að mennta- og barnamálaráðuneytið upplýsti hvort erindi yðar vegna Tækniskólans hefðu borist og þá hvað liði meðferð og afgreiðslu þeirra. Ráðuneytið svaraði með bréfi 5. júlí sl. þar sem fram kom að það teldi að erindum yðar hefði verið svarað með fullnægjandi hætti, sbr. meðal annars bréf þess til yðar 20. janúar 2021 svo og tölvu­bréf 1. júlí sl. Með bréfinu til umboðsmanns fylgdi afrit af skrif­legum samskiptum yðar við ráðuneytið. Athugasemdir yðar vegna svarbréfs ráðu­neytisins til umboðsmanns bárust umboðsmanni 26. júlí sl.

Mælt er fyrir um starfssvið umboðsmanns Alþingis í 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og í 6. gr. laganna er mælt fyrir um skilyrði fyrir því að kvörtun verði tekin til meðferðar. Af þessum lagaákvæðum leiðir meðal annars að umboðsmaður fjallar ekki um kvartanir sem beinast að starfsemi einkaaðila, eins og Tækniskólanum, nema að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá þarf kvörtun að berast innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá er um ræðir var til lykta leiddur. Af því leiðir að ekki eru skilyrði að lögum til þess að umboðsmaður taki til athugunar þau atvik eða ákvarðanir í kvörtun yðar sem eru eldri en frá 11. maí 2021.

Svo sem starfsmaður umboðsmanns upplýsti yður um í símtali 12. ágúst sl. liggja ekki fyrir hjá umboðsmanni skrifleg gögn um að Tækniskólinn hafi tekið ákvörðun 11. maí 2021 eða síðar um það mat á námi yðar úr öðrum skólum sem kvörtun yðar lýtur að. Í símtalinu greinduð þér frá því að lögmaður yðar hefði rætt við stjórnendur Tækniskólans um málið á þessu ári en yður væri óljóst um hvort niðurstaða hefði fengist. Það verður því ekki séð af erindi yðar að það uppfylli skilyrði 6. gr. laga nr. 85/1997 til að verða tekið til meðferðar sem kvörtun. Þegar af þeirri ástæðu er ekki tilefni til frekari umfjöllunar um hvort það fellur undir starfssvið umboðsmanns að fjalla um umræddar ákvarðanir Tækniskólans.

Að því er varðar mennta- og barnamálaráðuneytið, áður mennta- og menningarmálaráðuneytið, er einungis tölvubréf þess 1. júlí sl. innan áðurnefnds ársfrests. Eftir að hafa yfirfarið önnur gögn málsins, þ.m.t. bréf til yðar 20. janúar 2021, sem vísað er til í tölvubréfinu, tel ég ekki ástæðu til að gera athugasemdir umrætt tölvubréf eða taka þátt ráðu­neytisins í máli yðar að öðru leyti til nánari athugunar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.