Almannatryggingar.

(Mál nr. 11700/2022)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti ákvörðun Tryggingastofnunar að hafna endurupptöku máls vegna endurhæfingarlífeyris og búsetu erlendis.  

Umboðsmaður taldi ekki forsendur til að gera athugasemdir við niðurstöðu nefndarinnar þess efnis að ekki væru veigamiklar ástæður til að taka málið upp að nýju.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 20. september 2022.

  

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar 19. maí sl., fyrir hönd A, yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 19. maí 2021 í máli nr. 666/2020. Með úrskurðinum staðfesti nefndin ákvörðun Trygginga­stofnunar um að synja A um endurupptöku á ákvörðunum um hlutfallslegar greiðslur endurhæfingarlífeyris vegna tímabilsins 1. september 2009 til 28. febrúar 2011. Gögn málsins bárust frá úrskurðarnefnd velferðarmála 2. júní 2022 samkvæmt beiðni þar um.

Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að A hafi fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun fyrir tímabilið 1. september 2009 til 28. febrúar 2010 í samræmi við 79,84% búsetuhlutfall og fyrir tímabilið 1. mars 2010 til 28. febrúar 2011 í samræmi við 78,22% búsetuhlutfall. Þá hafi hann fengið greiddan endurhæfingar­líf­eyri fyrir tímabilið 1. júlí 2015 til 1. júní 2016 með 100% búsetu­hlut­falli.

Hinn 7. júlí 2020 fór A fram á endur­upptöku á fyrr­greindum ákvörðunum um hlutfallslegar greiðslur endurhæfingar­lífeyris þar sem hann taldi ekki heimilt að skerða greiðslurnar vegna búsetu hans erlendis. Tryggingastofnun synjaði beiðninni með vísan til þess að ekki væri að sjá að veigamiklar ástæður mæltu með því að taka málið upp að nýju.

  

II

Um endurupptöku máls er fjallað í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur meðal annars fram að mál verði ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá því að tilkynnt var um ákvörðun nema veiga­miklar ástæður mæli með því. Í lögskýringar­gögnum kemur fram að í ákvæðinu sé að finna skilyrði sem sett séu til þess að viðhalda hæfilegri festu í stjórnsýsluframkvæmd og sé ætlað að koma í veg fyrir að verið sé að endurupptaka mjög gömul mál sem erfitt geti verið að upplýsa. Markmiðið sé að stuðla að því að mál séu til lykta leidd svo fljótt sem unnt sé. Sérstaklega er tekið fram að telji aðili þörf á endur­­upptöku máls beri honum að bera fram beiðni þar að lútandi án ástæðulauss dráttar. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3305.)

Í endurupptökubeiðni A var byggt á því að upphafleg ákvörðun Tryggingastofnunar hafi verið röng, þ.e. að útreikningur búsetuhlutfalls hafi verið rangur miðað við þau gögn sem lágu fyrir þegar ákvörðun í máli hans var tekin og viðeigandi lagaákvæði hafi ekki heimilað skerðingu vegna fyrri búsetu erlendis. Í ljósi þessa fæ ég ekki betur séð en að ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki átt við um tilvik hans. Það ákvæði er hins vegar ekki tæmandi um rétt aðila máls til endurupptöku heldur getur hann einnig átt rétt á grundvelli óskráðra heimilda, s.s. ef ákvörðun er haldin efnislegum annmarka, t.d. reist á röngum lagagrundvelli, eða þegar fyrir liggja rökstuddar vísbendingar um verulegan annmarka á meðferð máls.

Þegar beiðni um endurupptöku styðst við ólögfestar reglur, verður að líta svo á að skyldur stjórnvalds til að fjalla á ný um mál á slíkum grundvelli séu ekki ótímabundnar, sbr. til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis 14. júlí 2004 í máli nr. 3927/2003. Þegar metið er hvort skil­yrði séu til endurupptöku samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 24. gr. stjórn­sýslulaga eða á ólögfestum grunni kunna tómlætis­sjónarmið að hafa þýðingu, t.d. við þær aðstæður að ljóst er að aðili hefur ekki hags­muni af endurupptöku máls þar sem hugsanleg krafa hans teldist fyrnd þótt fallist væri á sjónarmið hans með nýrri ákvörðun. Þótt ekki sé útilokað að stjórnvaldi sé rétt að líta til almennra sjónarmiða, svo sem fordæmisgildis máls, verður að öðru leyti að miða við að mat á því hvort „veigamiklar ástæður“ mæli með endurupptöku þess, eða hvort skylt sé að taka það upp á ólögfestum grunni, lúti einkum að því hversu sannfærandi rök hafi verið leidd að því að þörf sé á endurskoðun með tilliti til þess hvort líklegt sé að ákvörðun verði breytt eða hún afturkölluð, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í málum 11308, 11312 og 11315/2021 frá 8. júní 2022.

Beiðni A 7. júlí 2020 var sett fram um það bil tíu árum eftir að Tryggingastofnun tók ákvarðanir um að ­skerða greiðslur endurhæfingarlífeyris vegna tímabilsins 1. september 2009 til 28. febrúar 2011. Af fyrirliggjandi gögnum um samskipti Tryggingastofnunar við úrskurðarnefndina verður ekki annað ráðið en að hún hafi kosið að bera fyrir sig að hugsanleg krafa hans væri fyrnd, en sú afstaða er á forræði stofnunarinnar. Af úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli hans verður ráðið að við mat á því hvort málið yrði tekið til efnislegrar meðferðar hafi meðal annars verið litið til þessa við mat á því hvaða hagsmuni A hefði af endurupptöku málsins, en þar er vísað til þess að málið varðaði greiðslur vegna tímabils sem væri „löngu liðið“ og allt benti til þess að hugsanleg krafa hans um greiðslur endurhæfingarlífeyris væri fyrnd, auk þess sem nefndin taldi að ekkert benti til þess að málið hefði þýðingar­mikið fordæmisgildi.

Eftir að hafa kynnt mér þau gögn sem fylgdu kvörtun yðar tel ég, eins og mál þetta liggur fyrir og að öllu framan­greindu virtu, ekki efni til að gera athugasemdir þá niðurstöðu nefndarinnar að fallast ekki á beiðni A um endurupptöku eða þær forsendur sem þessar lyktir málsins byggðust á.

  

III

Með vísan til þess sem rakið hefur verið að framan lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.