Skipulags- og byggingarmál.

(Mál nr. 11722/2022)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem synjaði kröfu um ógildingu  ákvörðunar bæjarstjórnar Garðabæjar um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir norðurhluta Hnoðraholts. Í kvörtuninni voru gerðar ýmsar athugasemdir við efni deiliskipulagsins, málsmeðferð stjórnvalda og ákvörðun nefndarinnar um að sameina mál viðkomandi öðru. 

Umboðsmaður fékk ekki betur séð en kröfurnar í málunum tveimur hefðu að meginstefnu verið þær sömu og því ekki ástæða til að gera athugsemdir við sameiningu þeirra. Þá yrði ekki annað ráðið en nefndin hefði tekið afstöðu til meginmálsástæðna viðkomandi. Hvað deiliskipulagið snerti þá varð ekki annað ráðið en aðþað hefði verið unnið í samræmi við lög og reglur þar um. Ekki væru vísbendingar um að byggt hefði verið á ómálefnalegum sjónarmiðum heldur hefðu breytingar á skipulaginu komið til vegna breyttra þarfa og aðstæðna í sveitarfélaginu. Umboðsmaður benti á að það væri svo hlutverk dómstóla að leysa úr ágreiningi um bótaskyldu og fjárhæð bóta ef til slíks kæmi.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. september 2022.

  

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar 7. júní sl. yfir úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 25. nóvember sl. í málum nr. 61 og 62/2021. Með úrskurðinum synjaði nefndin kröfu yðar og annarra málsaðila um ógildingu ákvörðunar bæjastjórnar Garðabæjar 18. mars 2021 um að sam­þykkja nýtt deiliskipulag fyrir norðurhluta Hnoðraholts.

Í kvörtuninni eru gerðar athugasemdir við að mál yðar nr. 62/2021 hafi verið sameinað máli nr. 61/2021. Þá gerið þér ýmsar athugasemdir við efni deiliskipulagsins og þá málsmeðferð sem viðhöfð var við undirbúning þess. Ekki hafi verið tekið tillit til væntinga yðar um að deiliskipulag frá 1996 og rammaskipulag frá 2008 héldist óbreytt og að hið nýja deiliskipulag rýri verðmæti fasteignar yðar. Þá teljið þér að ekkert raunverulegt samráð hafi átt sér stað um skipu­lags­breytingarnar.

  

II

1

Athugasemdir yðar í tengslum við sameiningu máls yðar nr. 62/2021 og máls nr. 61/2021 lúta einkum að því að þér teljið kröfur málsaðila ólíkar auk þess sem þér teljið umfjöllun úrskurðarnefndarinnar um máls­ástæður yðar ekki fullnægjandi.

Af þessu tilefni bendi ég á að reglur stjórnsýsluréttarins koma ekki í veg fyrir að meðferð á stjórnsýslukærum sem lúta að sömu atvikum og þar sem kröfugerð er sambærileg séu sameinuð svo lengi sem hagsmunir aðila máls standa því ekki í veg. Að baki sameiningu mála kunna að búa ýmis rök, m.a. hagræðis- og skilvirknissjónarmið. Í 5. málslið 5. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála, er auk þess sérstaklega vísað til þess að nefndinni sé heimilt að sameina mál þegar kærur eru samkynja. Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins fæ ég ekki betur séð en að kröfur yðar og kærenda í máli nr. 61/2021 hafi að meginstefnu verið þær sömu, þ.e. að áðurnefnd ákvörðun Garða­bæjar yrði ógilt. Þótt málsástæður að baki kröfugerðinni hafi ekki alfarið verið þær sömu tel ég ekki ástæðu til að gera athugasemdir við ákvörðun nefndarinnar um að sameina framangreind mál enda verður ekki séð að sú ráðstöfun hafi farið í bága við hagsmuni yðar.

Svo sem áður er vikið að teljið þér sameiningu málanna hafa orðið til þess að málsástæður yðar hafi ekki fengið fullnægjandi umfjöllun hjá nefndinni. Í þessum efnum tek ég fram að í íslenskum stjórn­sýslurétti hefur ekki verið talið að á stjórnvöldum hvíli fortakslaus skylda til að taka sérhverja málsástæðu sem aðili hefur fært fram til rökstuddrar úrlausnar. Á hinn bóginn hefur verið talið að almennt verði að gera þær kröfur að a.m.k. sé tekin afstaða til megin­máls­ástæðna sem aðilar færa fram og hafa verulega þýðingu fyrir niðurstöðu málsins.

Af forsendum úrskurðarnefndarinnar verður ekki annað ráðið en að hún hafi tekið afstöðu til meginmálsástæðna yðar, svo sem um þýðingu skilmála um lagningu Vorbrautar í stokk fyrir gildi deiliskipulagsins og athugasemda yðar við málsmeðferð sveitarfélagsins. Yður var auk þess bent á að það ætti ekki undir úrskurðarnefndina að skera úr um hvort þér hefðuð orðið fyrir tjóni vegna hins kærða deiliskipulags. Ég tel því ekki tilefni til að fjalla frekar um þetta atriði í kvörtun yðar.

  

2

Eins og áður segir eru í kvörtuninni gerðar margvíslegar athugasemdir við efni deiliskipulagsins. Af kvörtun yðar að þessu leyti verður ekki annað ráðið en að þér teljið að sveitarfélaginu hafi verið óheimilt að breyta deiliskipulagi á svæðinu með þeim hætti sem gert var.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitar­stjórnir gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana. Þær fjalla um leyfisumsóknir og veita framkvæmdaleyfi og hafa eftirlit með framkvæmd skipulagsáætlana og framkvæmdaleyfisskyldum framkvæmdum. Með lögunum er sveitarstjórnum falið víðtækt vald í skipulagsmálum innan sinna staðarmarka, sem þó sætir takmörkunum sem leiða af lögum og stjórnvaldsfyrirmælum. Í VIII. kafla laganna er gert ráð fyrir því að sveitarstjórn geti breytt samþykktu deiliskipulagi ef það telur þörf á því. Líkt og á við um aðrar athafnir stjórnvalda verður mat á því hvort slík þörf sé fyrir hendi að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum í samræmi við réttmætisreglu stjórnsýsluréttar. Í lögunum er jafnframt gert ráð fyrir sérstakri málsmeðferð þar um en fara ber með breytingar eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða nema í tilviki óverulegra breytinga, sbr. 1. og 2. mgr. 43. gr. laganna.

Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins var deiliskipu­lags­tillagan fyrir Hnoðraholt norður kynnt íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum og framkomnar athugasemdir og ábendingar vegna til­lögunnar teknar til umfjöllunar og þeim svarað, sbr. umsögn 19. nóvember 2020, í samræmi við 4. mgr. 40. gr. og 3. mgr. 41. gr. skipu­lagslaga. Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti í kjölfarið deili­skipu­lagstillöguna að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar, sbr. 3. mgr. 41. gr. laganna. Tillagan var í kjölfarið send Skipulagsstofnun til lögboðinnar yfirferðar og að lokum birt í B-deild Stjórnartíðinda 13. apríl 2021 í samræmi við 1. mgr. 42. gr. laganna.

Ekki verður annað séð af gögnum málsins en að deiliskipulags­breytingin hafi verið unnin í samræmi við lög og reglur þar um. Í gögnum málsins eru auk þess ekki vísbendingar um að byggt hafi verið á ómálefnalegum sjónarmiðum heldur hafi deiliskipulagsbreytingin m.a. komið til vegna breyttra þarfa og aðstæðna í sveitarfélaginu.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið sem og heimildum og svigrúmi Garðabæjar til að breyta deiliskipulagi tel ég ekki efni til að gera athugasemdir við niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um að hafna kröfum yðar um ógildingu ákvörðunar bæjar­stjórnar Garðabæjar 18. mars 2021. Í ljósi framangreinds og þess hvernig samráð sveitarfélaga er útfært í lögum nr. 123/2010 tel ég ekki heldur efni til að fjalla frekar um athugasemdir yðar við samráð sveitarfélagsins í tengslum við téða skipulagsbreytingu.

Í þessum efnum hef ég einnig í huga að fasteignaeigendur geta almennt ekki haft réttmætar væntingar um óbreytt skipulag innan bæjar- eða borgarmarka, en sveitarfélögum ber á hinn bóginn að bæta fasteignaeigendum það tjón sem þeir geta sýnt fram á að þeir hafi orðið fyrir við gildistöku skipulags, sbr. 51. og 51. gr. a. skipu­lagslaga. Það fellur aftur á móti utan starfssviðs umboðsmanns Alþingis að leysa úr ágreiningi um bótaskyldu og fjárhæð bóta. Kemur þar m.a. til að við úrlausn um þessi efni getur skipt máli að leggja mat á sönnunargildi skýrslna sem aðilar gefa. Þá geta önnur sönnunar­gögn, svo sem matsgerðir, og mat á sönnunargildi þeirra einnig skipt máli, meðal annars við mat á tilvist og umfang bótaskyldu. Því hefur verið litið svo á að það sé hlutverk dómstóla að leysa úr slíkum álitaefnum, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég tek þó fram að með þeirri ábendingu hef ég enga afstöðu tekið til þess hvernig slíku máli myndi lykta fyrir dómi.

  

III

Þá gefa aðrar athugasemdir sem koma fram í kvörtuninni ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar af minni hálfu.     Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um mál yðar, sbr. 1. mgr. og c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.