Almannatryggingar.

(Mál nr. 11753/2022)

Kvartað var yfir landlækni og úrskurðarnefnd velferðarmála. Annars vegar vegna ákvörðunar landlæknis um að synja beiðni um eyðingu upplýsinga úr sjúkraskrá og hins vegar úrskurði nefndarinnar sem staðfesti synjun Sjúkratrygginga Íslands við umsókn um bætur úr sjúklingatryggingu.

Til að upplýsingum fáist eytt úr sjúkraskrá þarf að sýna fram á að þær séu bersýnilega rangar eða villandi. Taldi umboðsmaður að ekki væru ástæðu til að gera athugasemd við þá afstöðu landlæknis  að nokkuð þyrfti til að koma svo fallist yrði á eyðingu slíkra upplýsinga og ekki væru forsendur til að fullyrða að mat landlæknis hefði verið óforsvaranlegt eða ákvörðun hans að öðru leyti ekki verið í samræmi við lög.

Samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu greiðast ekki bætur ef rekja má tjón til eiginleika lyfs sem notað er við rannsókn eða læknismeðferð. Af umsókninni um bætur úr sjúklingatryggingunni varð ekki annað ráðið en hún hefði fyrst og fremst byggst á því að tjón mætti rekja til eiginleika lyfs en ekki atvika er vörðuðu lækna eða starfsfólk heilbrigðisþjónustu. Engu að síður hefði nefndin metið hvort unnt hefði verið að afstýra tjóninu með annarri jafngildri meðferð. Með hliðsjón af atvikum málsins taldi umboðsmaður ekki forsendur til að gera athugasemd við niðurstöðu nefndarinnar.  

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 20. september 2022.

   

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 24. júní sl. sem beinist að landlækni og úrskurðarnefnd velferðarmála. Lýtur kvörtunin annars vegar að ákvörðun landlæknis 2. mars sl. um að synja beiðni yðar um eyðingu upplýsinga úr sjúkraskrá yðar. Hins vegar lýtur hún að úrskurði úrskurðarnefndar vel­ferðarmála 2. febrúar sl. í máli nr. 454/2021 þar sem staðfest var synjun Sjúkratrygginga Íslands við umsókn yðar um bætur úr sjúklinga­tryggingu.

Að beiðni umboðsmanns bárust frekari upplýsingar um kvörtun yðar sem og gögn 16. júlí sl., en jafnframt bárust upplýsingar frá yður 15. ágúst sl.

  

II

Með erindi til landlæknis 15. febrúar sl. óskuðuð þér eftir því að öllum skráðum upplýsingum í sjúkraskrá yðar yrði eytt. Í ákvörðun land­læknis voru ákvæði laga nr. 55/2009, um sjúkraskrár, rakin sem og þau skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt svo fallist verði á eyðingu upplýsinga úr sjúkraskrá. Var þar lagt til grundvallar að alla jafna yrði að túlka þau skilyrði þröngt og þá á þann veg að nokkuð mikið þyrfti að koma til svo færslum yrði eytt. Var það mat landlæknis, eftir yfirferð á máli yðar að ekki væri unnt að verða við beiðni yðar enda væri ekki sýnt fram á að allar sjúkraskrárupplýsingar yðar væru bersýnilega rangar eða villandi. Þá var yður jafnframt leiðbeint um heimildir samkvæmt lögum nr. 55/2009 til að takmarka aðgang að sjúkraskrá yðar, fá skráðar athugasemdir við hana sem og að fá upp­lýsingar leiðréttar að fengnu samþykki umsjónaraðila. 

Um sjúkraskrár gilda samnefnd lög nr. 55/2009. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna er tilgangur þeirra að setja reglur um sjúkraskrár þannig að unnt sé að veita sjúklingum eins fullkomna heil­brigðis­þjónustu og kostur er á hverjum tíma og tryggja um leið vernd sjúkra­skrárupplýsinga. Um rétt sjúklings við færslu sjúkraskráa er fjallað í 7. gr. laganna. Þar segir í 2. mgr. að telji sjúklingur eða umboðs­maður hans að sjúkraskrárupplýsingar séu rangar eða villandi skuli athugasemd um það skráð í sjúkraskrána. Sé sýnt fram á að upplýsingar í sjúkraskrá séu bersýnilega rangar eða villandi er heimilt með samþykki umsjónaraðila að leiðrétta þær í sjúkraskrá viðkomandi enda sé þess gætt að ekki glatist upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna réttar­ágreinings. Neiti umsjónaraðili að leiðrétta sjúkraskrárupp­lýsingar sem sjúklingur telur bersýnilega rangar eða villandi getur sjúklingur skotið þeirri synjun til landlæknis, en óheimilt er að eyða upplýsingum úr sjúkraskrá nema með samþykki landlæknis.

Mat landlæknis á því hvort upplýsingar í sjúkraskrá teljist bersýnilega rangar eða villandi felur í sér matskennda stjórnvalds­ákvörðun, en við töku slíkra ákvarðana hafa stjórnvöld ákveðið svigrúm til mats. Við það mat ber ber þeim þó að gæta að skráðum og óskráðum reglum stjórnsýsluréttar við undirbúning og töku ákvörðunar auk þeirra sérreglna sem gilda um viðkomandi málaflokk. Í samræmi við 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýtur athugun umboðs­manns við þessar aðstæður fyrst og fremst að því hvort málsmeðferð og ákvörðun stjórnvalds hafi verið í samræmi við lög og þá einkum hvort matið hafi byggst á fullnægjandi upplýsingum og hvort þær ályktanir sem dregnar eru af þeim gögnum og upplýsingum sem lágu fyrir í máli séu ekki bersýnlega óforsvaranlegar. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að leggja til grundvallar eigið mat á því hvert efni ákvörðunar hefði átt að vera.

Sem fyrr greinir eru það skilyrði fyrir eyðingu upplýsinga í sjúkra­skrá að sýnt sé fram á að þær séu bersýnilega rangar eða villandi. Í ljósi þess tel ég ekki efni til að gera athugasemdir við þá afstöðu landlæknis að nokkuð þurfi að koma til svo fallist verði á eyðingu slíkra upplýsinga.  Eftir að hafa kynnt mér ákvörðun landlæknis og þau gögn sem fylgdu kvörtun yðar tel ég mig jafnframt ekki hafa forsendur til að fullyrða að mat landlæknis hafi verið bersýnlega óforsvaranlegt eða ákvörðun hans hafi að öðru leyti ekki samræmst lögum. Hef ég þar einkum í huga fyrrgreint svigrúm sem landlæknir hefur í málum sem þessum.

  

III

Af gögnum málsins verður ráðið að 28. apríl 2020 hafi þér sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu. Byggðist umsóknin á því að þér hefðuð orðið fyrir nánar tilteknu tjóni sem rekja mætti til notkunar á lyfinu Cordarone sem yður hefði verið ávísað. Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands 7. júní 2021 var umsókn yðar hafnað og kærðuð þér þá ákvörðun til úrskurðafnefndar velferðarmála. Með úrskurði nefndarinnar 2. febrúar sl. var ákvörðun Sjúkratrygginga staðfest. Var niðurstaða nefndarinnar á því reist að samkvæmt lögum nr. 111/2000 greiddust bætur ekki samkvæmt lögunum ef rekja mætti tjón til eiginleika lyfs sem notað væri við rannsókn eða læknismeðferð. Þá taldi nefndin að gögn málsins styddu ekki að unnt hefði verið að afstýra tjóninu með annarri jafn­gildri meðferð, enda hefði ýmis önnur lyfjagjöf áður verið reynd með vandkvæðum af nánar tilteknum ástæðum.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 111/2000 eiga sjúklingar, sbr. 2. gr. laga um réttindi sjúklinga, sem verða fyrir líkamlegu eða geð­rænu tjóni hér á landi í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð á sjúkrahúsi, heilsugæslustöð eða annarri heilbrigðisstofnun, í sjúkra­flutningum eða hjá heilbrigðisstarfsmanni sem starfar sjálfstætt og hlotið hefur löggildingu landlæknis til starfans, rétt til bóta samkvæmt lögunum. Í 1. mgr. 2. gr. laganna er kveðið á um að bætur skuli greiða án tillits til þess hvort einhver beri skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til atvika sem rakin eru nánar í 1. til 4. töluliðar laga­greinarinnar, þar á meðal ef mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings. Þá segir í 3. mgr. 3. gr. að bætur sam­kvæmt lögunum greiðist ekki ef rekja megi tjón til eiginleika lyfs sem notað er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð nema þegar um sé að ræða klínískar lyfjarannsóknir á mönnum, án bakhjarls, samkvæmt stað­festingu viðkomandi heilbrigðisstofnunar.

Í athugasemdum við 3. gr. í frumvarpi til laga nr. 111/2000 segir að undantekning 3. mgr. greinarinnar nái ekki til tjóns sem sjúklingur verði fyrir vegna þess að læknir gefi röng eða ófullnægjandi fyrirmæli um töku lyfja eða starfsfólki verði á mistök við lyfjagjöf. Tjón af nefndum orsökum eigi sjúklingur rétt á að fá bætur fyrir samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 2. gr. laganna. Þá sé bótaréttur einnig fyrir hendi ef heilsutjón hljótist af lyfi og því hefði mátt afstýra með annarri jafngildri meðferð, nema það hefði í för með sér sambærilega áhættu á að sjúklingur hlyti tjón af lyfinu, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 2. gr. Hið síðastnefnda geti einkum átt við þegar lyf hafi hættuleg aukaáhrif þótt það sé notað á réttan hátt (Alþt. 1999-2000, A-deild, bls. 4426).

Með lögum nr. 111/2000 hefur löggjafinn falið Sjúkratryggingum Íslands, og eftir atvikum úrskurðarnefnd velferðarmála, að leggja mat á hvort tjón megi að öllum líkindum rekja til þeirra atvika sem mælt er fyrir um í 1. til 4. töluliðar 1. mgr. 2. gr. laganna. Líkt og áður er rakið er athugun umboðsmanns í slíkum tilvikum ákveðin takmörk sett. Þegar mat stjórnvalds byggist á læknisfræðilegum sjónarmiðum, eins og ákvörðun um hvort skilyrði fyrir greiðslu bóta séu uppfyllt, hefur umboðsmaður almennt ekki forsendur til að endurskoða efnislega slíkt sérfræðilegt mat.

Af umsókn yðar verður ekki annað ráðið en að hún hafi fyrst og fremst byggst á því að þér hefðuð orðið fyrir tjóni sem rekja mætti til eiginleika lyfs, en ekki til atvika er varða lækna eða starfsfólk heilbrigðisþjónustu. Engu að síður lagði úrskurðefnd velferðarmála, sem m.a. var skipuð lækni, mat á það hvort hvort unnt hefði verið að afstýra tjóninu með annarri jafngildri meðferð. Að þessu virtu og eins og atvikum málsins er háttað að öðru leyti tel ég mig ekki hafa for­sendur til að gera athugasemdir við þessa niðurstöðu nefndarinnar.

  

IV

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.