Skipulags- og byggingarmál.

(Mál nr. 11794/2022)

Kvartað var yfir Skipulagsstofnun og svæðisráði um strandsvæðisskipulag á Austfjörðum og gerðar athugasemdir við áform um fiskeldi.  

Þar sem málið virtist enn til meðferðar hjá Skipulagsstofnun voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 20. september 2022.

  

  

Vísað er til kvörtunar [félagsins X] 2. ágúst sl. vegna áforma um eldi á 10.000 tonnum af laxi í Seyðisfirði. Í kvörtuninni, sem beint er að Skipulagsstofnun og svæðisráði um strandsvæðisskipulag á Austfjörðum, eru gerðar ýmsar athugasemdir við þau áform.

Í tilefni af kvörtuninni skal tekið fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Af þessu ákvæði leiðir að almennt er ekki gert ráð fyrir því að umboðsmaður hafi afskipti af málum á meðan þau eru til meðferðar hjá stjórnvöldum.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að kynningarfundur um tillögur svæðisráða að strandsvæðisskipulagi fyrir Vestfirði og Aust­firði var haldinn hjá Skipulagsstofnun 9. ágúst sl. en kynningartíma tillagnanna, þar sem óskað var eftir athugasemdum við efni þeirra eða umhverfismat, lauk 15. september sl. Af því verður ekki annað ráðið en að úrvinnsla athugasemdanna standi nú yfir og að málið sé enn til meðferðar hjá Skipulagsstofnun og svæðisráði. Brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtun félagsins verði tekin til meðferðar að svo stöddu.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um málið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Telji félagið sig enn rangsleitni beitt, að fenginni endanlegri niðurstöðu stjórnvalda, þ. á m. innviða­rá­ðherra sem fer með staðfestingarhlutverk á strandsvæðisskipulagi samkvæmt 13. gr. laga nr. 88/2018, um skipulag hafs- og strandsvæða, er því frjálst að leita til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.