Börn

(Mál nr. 11823/2022)

Kvartað var yfir vinnubrögðum barnaverndarnefndar í tilteknu sveitarfélagi. 

Þar sem erindið hafði ekki verið borið upp við Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 22. september 2022.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 29. ágúst sl. yfir vinnubrögðum barna­verndarnefndar X vegna málefna barna yðar sem búsett eru hjá móður þeirra í X.

Samkvæmt 8. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 fer Gæða- og eftirlits­stofnun velferðarmála með eftirlit með gæðum þjónustu sem er veitt á grundvelli laganna eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum. Í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2021, um Gæða- og eftirlits­stofnun velferðarmála, segir að markmið með starfsemi stofnunarinnar sé að sú þjónusta sem lýtur að eftirliti stofnunarinnar sé traust, örugg og í samræmi við ákvæði laga, reglugerða, reglna, samninga og leiðbeininga. Í 1. málslið 1. mgr. 17. gr. gr. sömu laga segir að notendur þjónustu sem lýtur að eftirliti Gæða- og eftirlits­stofnunar velferðarmála geti beint kvörtun yfir gæðum þjónustunnar til stofnunarinnar. Þá tekur stofnunin einnig við ábendingum um þjónustu undir eftirliti stofnunar­innar sem er ekki í samræmi við gæðaviðmið eða ákvæði laga, reglugerða, reglna, samninga og leiðbeininga, sbr. 1. málsliður 1. mgr. 13. gr. laganna.

Ástæða þess að ég bendi yður á framangreind lagaákvæði er sú að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns Alþingis fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fyrst fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en kvartað sé til aðila utan stjórnkerfis þeirra. Þar sem ekki liggur fyrir að þér hafið leitað til Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála með framangreindar athugasemdir yðar eru ekki skilyrði að lögum til að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar að svo stöddu.

Með vísan til framangreinds lýk ég því umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ég bendi yður hins vegar á að ef þér leitið til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála og teljið yður beitta rangsleitni að fenginni niðurstöðu stofnunarinnar getið þér leitað til umboðsmanns á ný með kvörtun þar að lútandi.