Skattar og gjöld.

(Mál nr. 11828/2022)

Kvartað var yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur um álagningu stöðubrotsgjalds.  

Ekki varð annað séð af gögnum málsins, þ. á m. ljósmyndum af vettvangi, en að bifreiðinni hefði verið lagt í trássi við lög. Því var ekki tilefni til að gera athugasemdir við lögmæti ákvörðunar bílastæðasjóðs.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 22. september 2022.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 31. ágúst sl. sem lýtur að ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur 20. ágúst sl. um álagningu stöðubrotsgjalds fyrir brot gegn b-lið 1. mgr. 29. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Laut brotið að því að bifreið yðar hefði verið lagt í minna en fimm metra fjarlægð frá næstu brún akbrautar á þvervegi. Gögn málsins bárust umboðsmanni 21. september sl. samkvæmt beiðni þar um.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 29. gr. umferðarlaga má eigi stöðva ökutæki eða leggja því á vegamótum eða innan fimm metra frá næstu brún akbrautar á þvervegi. Eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar sem og gögn málsins, þ. á m. ljósmyndir af vettvangi, verður ekki annað séð en að bifreið yðar hafi umrætt sinn verið lagt í minna en fimm metra fjarlægð frá næstu brún akbrautar á þvervegi sem heimilað hafi álagningu stöðubrotsgjalds, sbr. b-lið 1. mgr. 109. gr. umferðarlaga. Tel ég því ekki efni til að gera athugasemdir við lögmæti ákvörðunar Bílastæðasjóðs.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.