Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11838/2022)

Kvartað var yfir framgöngu sveitarfélagsins Bláskógabyggðar vegna hjólhýsabyggðar á Laugarvatni og viðbrögðum innviðaráðuneytisins vegna málsins.

Í ljósi þess að erindið hafði verið sent ráðuneytinu í lok ágúst taldi umboðsmaður ekki að slíkur dráttur hefði orðið á svörum frá því að ástæða væri til að aðhafast að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 22. september 2022.

  

  

Vísað er til erindis yðar 9. september sl. sem verður skilið sem kvörtun yfir framgöngu sveitarfélagsins Bláskógabyggðar vegna hjólhýsabyggðar á Laugarvatni svo og viðbrögðum innviðaráðuneytisins við erindi yðar 30. ágúst sl. til þess vegna málsins.

Um starfsemi sveitarfélaga gilda sveitarstjórnarlög nr. 138/2011 en samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna fer ráðuneyti sveitarstjórnarmála með málefni sveitarfélaga og samkvæmt XI. kafla sömu laga fer ráðherra með almennt stjórnsýslueftirlit með þeim. Ástæða þess að framan­greint er rakið er sú að af ákvæðum laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, leiðir að umboðsmaður fjallar að jafnaði ekki um mál fyrr en þau hafa verið leidd til lykta innan stjórnsýslunnar, sbr. m.a. 3. mgr. 6. gr. laganna. Þar kemur fram að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fyrst fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en kvartað sé til aðila utan stjórnkerfis þeirra. Þar sem fyrir liggur að þér hafið beint athugasemdum yðar til innviðaráðuneytisins, sem hefur samkvæmt framangreindu verið falið með lögum að hafa eftirlit með sveitarfélögum, eru ekki uppfyllt skilyrði til að taka kvörtun yðar til meðferðar að svo stöddu.

Vegna athugasemda yðar er lúta að því að innviðaráðuneytið hafi enn ekki brugðist við framangreindu erindi yðar tek ég fram að almennt ber stjórnvöldum að svara erindum sem þeim berast án ástæðulausra tafa. Í ljósi þess að þér senduð ráðuneytinu erindi í lok ágústmánaðar sl. verður ekki talið að enn hafi orðið slíkur dráttur á svörum frá ráðuneytinu að tilefni sé til að fjalla nánar um þetta atriði í kvörtun yðar að svo stöddu.

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ef þér teljið yður enn rangsleitni beittan að fenginni niðurstöðu innviðaráðuneytisins, getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.