Almannatryggingar.

(Mál nr. 11842/2022)

Spurt var hvort skerðingar á ellilífeyri aldraðra frá Tryggingastofnun standist stjórnarskrá. 

Það er hvorki hlutverk umboðsmanns að láta í té almennar álitsgerðir né veita svör við almennum fyrirspurnum um gildandi rétt. Þá tekur starfssvið hans ekki til starfa Alþingis og þá ekki heldur að taka afstöðu til þess hvernig tekist hefur til með löggjöf þess. Þar sem kvörtunin laut að þessum þáttum voru ekki skilyrði til að fjalla um hana.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 20. september 2022.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 13. september sl. þar sem þér berið upp spurningu um hvort skerðingar á ellilífeyri aldraðra frá Trygginga­stofnun standist stjórnarskrá. 

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðs­­mann Alþingis, er hlut­verk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórn­­sýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórn­sýslu­hætti og tilgreindar siðareglur. Samkvæmt 4. gr. laganna getur hver sá sem telur stjórnvald hafa beitt sig rangsleitni borið fram kvörtun við umboðsmann. Til þess að kvörtun verði tekin til meðferðar verður hún að uppfylla ákveðin lagaskilyrði sem kveðið er á um í 6. gr. laga nr. 85/1997.

Samkvæmt framangreindu er það ekki hlutverk umboðsmanns Alþingis að láta í té almennar álitsgerðir eða svör við almennum fyrirspurnum um gildandi rétt, heldur að fjalla um kvartanir yfir því að stjórnvöld hafi ekki í ákveðnum tilvikum farið að lögum eða fylgt vönduðum stjórnsýsluháttum í störfum sínum. Loks skal þess og getið að skerðingar á ellilífeyri ráðast af lögum nr. 100/2007, um almanna­tryggingar. Í a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 er kveðið á um að starfssvið umboðsmanns taki ekki til starfa Alþingis. Það er því almennt ekki í verkahring umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Í ákvæðum þessa stafliðar felst að ekki er unnt að kvarta til umboðsmanns yfir laga­setningu Alþingis. Þar sem ég fæ ekki betur séð en að efni kvörtunar yðar lúti að þáttum sem löggjafinn hefur tekið afstöðu til brestur því einnig á þessum grundvelli skilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég athugun minni á kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.