Opinberir starfsmenn

(Mál nr. 11484/2022)

Kvartað var yfir ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, nú innviðaráðuneyti, að greiða ekki þóknun fyrir störf í verkefnisstjórn um framgang verkefnisins Starfsaðstæður kjörinna fulltrúa. 

Í ljósi atvika málsins taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við að viðkomandi hefði ekki fengið greidda þóknun fyrir störf í verkefnisstjórninni. Enda yrði ekki séð að ráðuneytinu hefði borið skylda til þess lögum samkvæmt.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 30. september 2022.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 12. janúar sl. yfir þeirri ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, nú innviðaráðuneytið, að greiða yður ekki þóknun fyrir störf í verkefnisstjórn um framgang verkefnisins Starfsaðstæður kjörinna fulltrúa, en þér voruð skipaðir í hana af ráðherra 16. nóvember sl. samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga 10. sama mánaðar.

Samkvæmt kvörtuninni teljið þér að umrætt fyrirkomulag sé í andstöðu við jafnræðisregluna þar sem tveir af fimm sveitarstjórnar­fulltrúum, sem eiga sæti í stjórninni, fái greidda þóknun fyrir störf sín en aðrir ekki. Í kvörtuninni er einnig rakið að málefnalegar ástæður kunni að búa að baki því að opinberir starfsmenn, sem skipaðir eru sem slíkir í nefndir, starfshópa eða verkefnisstjórnir, fái ekki greitt sérstaklega fyrir störf sín, enda sé það hluti af þeirra starfi. Hið sama gildi ekki um kjörna fulltrúa í sveitarstjórnum sem taka sæti í nefnd, starfshóp eða verkefnisstjórn sem fjalla eigi um málefni sem snerti landið í heild.

Að beiðni umboðsmanns Alþingis bárust gögn málsins og skýringar ráðuneytisins með bréfi 5. apríl sl. og athugasemdir yðar við þær bárust með tölvubréfi 24. sama mánaðar.

Verkefnið Starfsaðstæður kjörinna fulltrúa byggist á ályktun Alþingis 29. janúar 2020 um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019-2033 og aðgerðaráætlun fyrir árin 2019-2023. Þar ályktaði þingið m.a. að náið samráð milli ríkisins í heild, einstakra ráðuneyta, Sambands íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélaga væri mikilvægt við framkvæmd stefnumörkunarinnar. Með því móti yrði tryggð samhæfing við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera og náið samstarf ríkis og sveitarfélaga um framkvæmd áætlunarinnar. Um téð verkefni sagði nánar að markmið þess væri að bæta starfsaðstæður kjörinna fulltrúa og gæta að kynjajafnrétti sveitarstjórnarfólks. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Samband íslenskra sveitar­félaga bæru ábyrgð á verkefninu. Samstarfsaðilar væru félagsmála­ráðuneytið, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Jafnréttisstofa og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Með bréfi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins 7. júní 2021 til Sambands íslenskra sveitarfélaga var rakið að verkefnisstjórn til að vinna að framgangi verkefnisins Starfsaðstæður kjörinna fulltrúa yrði skipuð tveimur fulltrúum ráðherra, þar af yrði annar þeirra formaður, þremur fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga og einum fulltrúa forsætisráðuneytisins. Óskað var eftir því að sambandið tilnefndi fulltrúa sína við fyrsta hentugleika.

Samband íslenskra sveitarfélaga greindi ráðuneytinu frá því með bréfi 10. nóvember 2021 að það tilnefndi yður, þáverandi oddvita í X, í téða verkefnisstjórn. Í niðurlagi bréfsins sagði að samfara tilnefningunni væri gengið út frá því að sambandið myndi engan kostnað bera af fulltrúa sínum í stjórninni auk þess sem það teldi eðlilegt að þóknun yrði greidd fyrir störf í henni. Það væri að auki forsenda fyrir þátttöku fulltrúa sambandsins í stjórninni að ráðu­neytið greiddi allan ferðakostnað fulltrúa sambandsins vegna starfa fyrir hana.

Í skipunarbréfi yðar 16. sama mánaðar greindi ráðuneytið frá því að ekki væri greitt sérstaklega fyrir störf í verkefnisstjórn­inni. Sama dag beinduð þér tölvubréfi til ráðuneytisins þar sem óskað var eftir því að staðfest yrði hvort í þeim orðum fælist að þér fengjuð hvorki greidda þóknun né ferðakostnað. Enn fremur báðuð þér um upplýsingar um hvort það ætti við um alla sem sætu í stjórninni. Í svarbréfi ráðuneytisins sama dag kom fram að það greiddi ekki þóknun til þeirra sem tilnefndir væru til setu í nefndum, starfshópum eða verkefnisstjórnum. Undantekning ætti þó við um þá sem væru tilefndir af ráðherra. Ráðuneytið greiddi hins vegar útlagðan ferðakostnað samkvæmt reglum sem þér yrðu sendar innan skamms. Í framhaldinu hafnaði ráðuneytið athugasemdum yðar við þetta fyrirkomulag. Þar kom m.a. fram í tölvubréfi 7. janúar sl. að gert væri ráð fyrir meira vinnuframlagi af hálfu fulltrúa ráðherra en annarra nefndarmanna. Því næst sagði að ráðuneytið liti svo á að hagaðilum hefði verið boðið að taka þátt í stefnumarkandi vinnu í ráðuneytinu en auðvitað væri um að ræða valkvæða þátttöku af þeirra hálfu. Í fyrrgreindum skýringum ráðuneytisins 5. apríl sl. voru sjónarmið í þessa veru áréttuð.

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið greinir ráðuneytinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga á um hvort rétt sé að fulltrúar sambandsins í verkefnisstjórninni fái greidda þóknun frá ráðuneytinu fyrir störf sín í henni, en samhugur ríkir um að þeir fái endurgreiddan útlagðan ferða­kostnað vegna þeirra starfa. Þá verður ráðið af fyrrgreindri þings­ályktun og öðrum gögnum málsins að óskað hafi verið eftir aðkomu sambandsins að umræddu verkefni þar sem það er samkvæmt 98. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 sameiginlegur málsvari sveitarfélaga í landinu, en af ákvæðum greinarinnar leiðir að það er ekki stjórnvald en þó fjármagnað af opinberu fé. Í ljósi þess sem rakið hefur verið um stöðu sambandsins og þar sem fyrir lá þegar þér voruð skipaðir í verkefnisstjórnina samkvæmt tilnefningu sambandsins að hvorki það né ráðuneytið hygðust greiða yður þóknun fyrir störf í hennar þágu tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við að það hafi ekki verið gert, enda verður ekki séð að ráðuneytinu hafi borið skylda til þess lögum samkvæmt. Vegna athugasemda yðar um brotið hafi verið í bága við jafnræðisregluna skal þess getið að ekki verður fallist á að staða yðar gagnvart ráðuneytinu, sem fulltrúa sambandsins, hafi verið sambærileg í lagalegu tillit við stöðu þeirra sem voru skipaðir í stjórnina sem fulltrúar ráðuneytisins.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég umfjöllun um kvörtun yðar.