Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 11698/2022)

Kvartað var yfir uppsögn starfsmanns á reynslutíma við Háskóla Íslands og samskiptum við yfirmenn í aðdraganda þeirra og meðferð á kvörtunum vegna eineltis.

Með hliðsjón af dómaframkvæmd Hæstaréttar og svigrúms til uppsagnar á reynslutíma taldi umboðsmaður ekki forsendur til að gera athugasemdir við ákvörðun háskólans. Hvað eineltið snerti voru kvartanir þess efnis enn til meðferðar hjá skólanum og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um þann þátt málsins. Þá varð ekki séð að fyrirliggjandi upplýsingar um ætluð ámælisverð samskipti að öðru leyti væru þess eðlis að umboðsmaður tæki þær til sérstakrar athugunar. Ef ágreiningur væri uppi um þau atriði væri rétt að dómstólar leystu úr því.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. september 2022.

   

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 19. maí sl. fyrir hönd A yfir starfslokum hans við Háskóla Íslands svo og samskiptum við yfirmenn í aðdraganda þeirra og meðferð þeirra á kvörtunum hans vegna eineltis. Í kvörtuninni er haldið fram að með framgöngu háskólans í málinu  hafi verið brotið gegn ýmsum lagareglum, m.a. rannsóknarreglu, andmælareglu og meðalhófsreglu  stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í gögnum málsins kemur fram að A hafi verið ráðinn forstöðumaður rannsóknarseturs Háskóla Íslands á X til fimm ára frá og með 1. maí 2021. Í ráðningarsamningi var tekið fram að reynslutími væri sex mánuðir og gagnkvæmur uppsagnarfrestur væri einn mánuður á reynslutímanum. Þá liggur fyrir samkomulag aðila, undirritað 22. október 2021, um að reynslutími samningsins framlengdist um þrjá mánuði en önnur ákvæði hans giltu óbreytt. Með bréfi Háskóla Íslands til A 28. janúar sl. var honum sagt upp störfum með vísan til ráðningarsamnings þeirra og fyrrnefnds samkomulags um að reynslutími hefði verið níu mánuðir í stað sex.

  

II

1

Leggja verður til grundvallar að uppsögn fyrrgreinds ráðningarsamnings A hafi verið ákveðin og tilkynnt áður en umsaminn reynslutími rann út. Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, skulu starfsmenn ríkisins, aðrir en embættismenn, ráðnir til starfa ótímabundið með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Skal sá frestur vera þrír mánuðir að loknum reynslutíma, nema um annað sé samið í kjarasamningi. Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 43. gr. laganna hefur forstöðumaður stofnunar rétt til að segja starfsmanni upp störfum eftir því sem fyrir er mælt í ráðningarsamningi. Í 1. mgr. 44. gr. laganna segir að skylt sé að veita starfsmanni áminningu skv. 21. gr. þeirra og gefa honum færi á að bæta ráð sitt áður en honum er sagt upp störfum ef uppsögn á rætur að rekja til ástæðna sem þar eru greindar. Annars sé ekki skylt að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um ástæður uppsagnar áður en hún tekur gildi.

Hugtakið „reynslutími“ er ekki skilgreint sérstaklega í lögum nr. 70/1996 eða lögskýringargögnum með frumvarpi til þeirra laga. Í framkvæmd hefur þó verið gengið út frá því að reynslutíma sé ætlað að gefa aðilum ráðningarsamnings færi á að athuga alla þætti starfsins og meta hvort rétt sé að ótímabundin eða lengri ráðning taki að því loknu við. Af dómafordæmum Hæstaréttar verður jafnframt ekki annað ráðið en að því hafi verið slegið föstu að veitingarvaldshafa sé að jafnaði heimilt að segja starfsmanni upp á reynslutíma án þess að tilgreina ástæður uppsagnarinnar eða veita hlutaðeigandi starfsmanni kost á að neyta andmælaréttar, sbr. dóma réttarins frá 16. desember 1999 í máli nr. 296/1999, 8. nóvember 2001 í máli nr. 131/2001 og 10. mars 2005 í máli nr. 378/2004.

Í upplýsingum frá Háskóla Íslands kemur fram að uppsögnin hafi byggst á því mati háskólans að útséð hefði verið um að A myndi ná nauðsynlegum árangri þar eð hann hefði ekki þá færni í stjórnun og samskiptum sem starfið krefðist. Það er ekki hlutverk umboðsmanns að taka slíkt mat stjórnvalds, sem grundvallað er á málefnalegu sjónarmiði, til endurskoðunar. Þá verður, með vísan til samkomulags um að framlengja reynslutímann, ekki annað séð en að háskólinn hafi gætt meðalhófs í aðdraganda uppsagnarinnar. Með hliðsjón af framangreindum dómum og þess svigrúms sem aðilar hafa til uppsagnar á reynslutíma tel ég mig því ekki hafa forsendur til athugasemda við ákvörðun háskólans um að segja umbjóðanda yðar upp störfum 28. janúar sl.

  

2

Í kvörtun yðar kemur fram að viðbragðsteymi vegna eineltis hafi til meðferðar kvartanir A vegna framkomu nafngreindra starfsmanna Háskóla Íslands í hans garð. Samkvæmt því hefur Háskóli Íslands ekki enn lokið meðferð þess hluta máls umbjóðanda yðar er lýtur að ásökunum um einelti.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu þess sem fer með stjórnsýsluvald kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í þessu ákvæði felst að til að hægt sé að kvarta til umboðsmanns út af máli eða tilteknum þætti máls verður að liggja fyrir ákvörðun eða athöfn stjórnvalds sem felur í sér afstöðu þess til kvörtunarefnisins, óháð því hvort þar er um að ræða mál í heild eða tiltekinn þátt þess. Þá leiðir af 3. mgr. 6. gr. laganna að umboðsmaður fjallar að jafnaði ekki um mál fyrr en þau hafa verið leidd til lykta innan stjórnsýslunnar. Með vísan til framangreindra upplýsinga um að Háskóli Íslands hafi ekki lokið meðferð þess hluta máls umbjóðanda yðar er lýtur að ásökunum um einelti eru ekki skilyrði að lögum til þess að umboðsmaður fjalli að svo stöddu um þann þátt málsins.

Þá verður ekki séð að fyrirliggjandi upplýsingar um ætluð ámælisverð samskipti að öðru leyti, svo sem að starfsmenn háskólans hafi brotið gegn þagnarskyldu eða friðhelgi einkalífs, séu þess eðlis að umboðsmaður taki þær til sérstakrar athugunar. Jafnframt skal bent á að sé uppi ágreiningur um þau atriði er eðlilegt að dómstólar leysi úr slíkum ágreiningi. Er það í samræmi við áralanga framkvæmd umboðsmanns Alþingis um að best fari á því að dómstólar útkljái álitaefni sem lúta að sönnunaratriðum enda er við úrlausn slíkra mála iðulega nauðsyn á frekari sönnunarfærslu, til að mynda aðila- og vitnaskýrslum. Vísast hér til c-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 þar sem fram kemur að varði kvörtun réttarágreining sem á undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr geti umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það. Eins og ákvæðið ber með sér er þar gengið út frá ákveðinni verkaskiptingu milli umboðsmanns og dómstóla og að mál geti verið þannig vaxin að heppilegra sé að leyst verði úr þeim fyrir dómstólum. Ég tek þó fram að með þessu hef ég enga afstöðu tekið til þess hvort tilefni sé til að bera mál þetta undir dómstóla.

  

III

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.