Skipulags- og byggingarmál.

(Mál nr. 11805/2022)

Kvartað var yfir afstöðu byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar til tiltekinnar framkvæmdar.

Þar sem ákvörðunin hafði ekki verið borin undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. september 2022.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 12. ágúst sl. vegna afstöðu byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar  5. sama mánaðar til erindis yðar er laut að ætluðum óleyfisframkvæmdum vegna bílastæða við [...]. Í svari byggingarfulltrúa fólst sú afstaða að samþykki sveitarfélagsins lægi fyrir vegna framkvæmdanna og því væri ekki um óleyfisframkvæmd að ræða. Af kvörtun yðar verður ráðið að ágreiningur sé um hvort tilskilin leyfi hafi verið fyrir hendi og þá hvort byggingarfulltrúa hafi borið að aðhafast á þeim grundvelli.

Í X. kafla laga nr. 160/2010, um mannvirki, er fjallað um rannsóknir, þvingunarúrræði og viðurlög. Þar segir m.a. í 1. mgr. 55. gr. laganna að sé byggingarleyfisskyld framkvæmd samkvæmt 9. gr. þeirra hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni, ekki sótt um leyfi fyrir breyttri notkun mannvirkis, það byggt á annan hátt en leyfi stendur til, mannvirkið eða notkun þess brýtur í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi stöðvað slíkar framkvæmdir eða notkun tafarlaust og fyrirskipað lokun mannvirkis. Þá segir m.a. í 2. mgr. greinarinnar að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Í 56. gr. laganna er svo kveðið nánar á um aðgerðir til að knýja fram úrbætur. Þá segir í 59. gr. að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar séu á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæðið byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið freistað þess að kæra ákvörðun byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Eru því ekki uppfyllt skilyrði til þess að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar að svo stöddu. Ég tek þó fram að með þessu hef ég enga afstöðu tekið til þess hvaða meðferð og afgreiðslu erindi yðar ætti að hljóta hjá úrskurðarnefndinni. Kjósið þér að fylgja máli yðar frekar eftir og teljið þér yður enn rangsleitni beittan, að fenginni afstöðu nefndarinnar, getið þér leitað til umboðsmanns á ný með kvörtun þar að lútandi.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.