Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11821/2022)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu dómsmálaráðuneytisins á stjórnsýslukæru.

Að fengnum skýringum ráðuneytisins taldi umboðsmaður ekki tilefni til að taka málið til frekari athugunar að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. september 2022.

   

  

Vísað er til kvörtunar yðar 26. ágúst sl. fyrir hönd A, B, C og D yfir töfum á afgreiðslu dómsmálaráðuneytisins á stjórnsýslukæru umbjóðenda yðar 13. apríl 2022 þar sem kærð var ákvörðun sýslumannsins á Norðurlandi vestra 17. febrúar 2022 um skráningu tilkynningar um breytingu á stjórn Brynju, Hússjóðs Öryrkjabandalagsins.

Með bréfi 4. júlí sl. upplýsti ráðuneytið yður um að það hefði móttekið kæruna og aflað umsagnar og gagna frá sýslumanninum og gefið gagnaðila færi á að koma á framfæri athugasemdum í tilefni af henni. Umsögn sýslumannsins, ásamt fylgiskjölum, var jafnframt send umbjóðendum yðar og þeim gefinn kostur á að koma á framfæri frekari gögnum og sjónarmiðum. Þá kom fram í bréfinu að ráðuneytið myndi leitast við að afgreiða kæru umbjóðenda yðar svo fljótt sem unnt væri en vegna fjölda mála sem væru til umfjöllunar mætti búast við að afgreiðsla málsins myndi dragast nokkuð. Að öllu óbreyttu væri ákvörðunar að vænta innan sex mánaða frá dagsetningu bréfsins.

Af ákvæðum laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, leiðir að umboðsmaður fjallar að jafnaði ekki um mál fyrr en þau hafa verið leidd til lykta innan stjórnsýslunnar, sbr. m.a. 3. mgr. 6. gr. laganna. Þegar umboðsmanni berast kvartanir sem lúta að töfum á á afgreiðslu mála hefur hann í framkvæmd talið að framangreint ákvæði standi því ekki í vegi að óskað sé eftir svörum frá viðkomandi stjórnvaldi um hvað líði afgreiðslu og meðferð málsins og þá einkum ef ekkert liggur fyrir um hvort aðilar máls hafi verið upplýstir um hvenær niðurstöðu sé að vænta. Samkvæmt lögunum er það þó verulegum takmörkunum háð að hvaða leyti umboðs­maður getur haft bein afskipti af málsmeðferð stjórnvalda, s.s. þegar kvörtun lýtur að töfum á afgreiðslu máls sem enn er til meðferðar.

Í ljósi framangreinds og upplýsinga um stöðu málsins sem fram koma í svörum ráðuneytisins tel ég ekki tilefni til þess að taka það til frekari athugunar að svo stöddu en tek fram að standist áform ráðuneytisins ekki getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun vegna tafa.  

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 læt ég málinu hér með lokið. Ef umbjóðendur yðar telja sig enn beitta rangsleitni að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins geta þeir, eða þér fyrir þeirra hönd, leitað til mín að nýju með kvörtun þar að lútandi.