Börn.

(Mál nr. 11826/2022)

Kvartað var yfir skorti á upplýsingum um andmælarétt í bréfi frá dómsmálaráðuneytinu í tengslum við meðferð þess á kæru vegna úrskurðar sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.  

Þar sem ljóst var að úrskurður sýslumannsins hafði verið kærður til ráðuneytisins og var þar til meðferðar voru ekki skilyrði til að umboðsmaður tæki kvörtunina til meðferðar að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. september 2022.

 

 

Vísað er til kvörtunar yðar 29. ágúst sl. Af kvörtun yðar fæ ég ráðið að þér séuð ósáttir við að ekki sé getið um andmælarétt yðar í bréfi dómsmálaráðuneytisins 10. ágúst sl. í tengslum við meðferð þess á kæru yðar á úrskurði sýslu­mannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 11. maí sl. þar sem hafnað var að ákvarða inntak umgengni yðar við barn yðar.

Samkvæmt 78. gr. barnalaga nr. 76/2003 er heimilt að kæra úrskurði sýslumanns til dómsmálaráðherra innan tveggja mánaða frá dagsetningu þeirra. Ástæða þess að yður er bent á framangreint er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra stjórnvald þegar það á við, hafa lokið umfjöllun sinni um málið. Af kvörtun yðar er ljóst að þér hafið kært úrskurð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu til dómsmálaráðuneytisins og verður ekki annað ráðið en að málið sé enn til meðferðar hjá ráðuneytinu.

Brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar að svo stöddu og lýk ég því umfjöllun minni um hana, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ef þér teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.