Orku- og auðlindamál.

(Mál nr. 11855/2022)

Kvartað var yfir fyrirhuguðu brottfalli niðurgreiðslna á húshitunarkostnaði.  

Í tilkynningu Orkustofnunar frá 15. september kom fram að viðkomandi hefði 30 daga frest til að koma andmælum á framfæri. Málið var því enn til meðferðar þar og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina að svo stöddu. Þá benti hann á að þegar niðurstaða Orkustofnunar lægi fyrir kynni sú leið að vera fær að bera hana undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 30. september 2022.

 

 

Vísað er til kvörtunar yðar 21. september sl. vegna fyrirhugaðs brottfalls niðurgreiðslna á húshitunarkostnaði fyrir fasteign yðar í Vestmannaeyjum sem yður var tilkynnt um með bréfi Orkustofnunar 15. september sl. Með bréfinu var yður veittur 30 daga frestur til að koma á framfæri andmælum áður en endanleg ákvörðun yrði tekin.

Í tilefni af kvörtuninni skal tekið fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Af þessu ákvæði leiðir að almennt er ekki gert ráð fyrir því að umboðsmaður hafi afskipti af málum á meðan þau eru til meðferðar hjá stjórnvöldum.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að af fyrrgreindu bréfi Orkustofnunar verður ekki annað ráðið en að mál yðar sé enn til meðferðar hjá stofnuninni enda sá frestur sem yður var veittur ekki enn liðinn. Brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar að svo stöddu. Ég vek einnig athygli yðar á að samkvæmt 2. gr. laga nr. 78/2002, um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, fer umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið með yfirstjórn mála samkvæmt lögunum. Þannig kann yður að vera fær sú leið að leita til ráðuneytisins með stjórnsýslukæru að fenginni niðurstöðu Orkustofnunar teljið þér tilefni til. Teljið þér yður enn rangindum beittan að fenginni niðurstöðu framangreindra stjórnvalda getið þér leitað til umboðsmanns á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.

Í samræmi við framangreint lýk ég hér með umfjöllun minni um mál yðar að svo stöddu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.