Almannatryggingar.

(Mál nr. 11860/2022)

Óskað var m.a. eftir endurupptöku á dómsmáli.  

Fyrir lá að viðkomandi afplánaði refsivist samkvæmt dómi og að erindi hefði verið beint til lögreglu og væri nú til meðferðar hjá ríkissaksóknara í kjölfar kæru hans. Þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til starfa dómstóla voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um þann þátt málsins. Hinn angi kvörtunarinnar var til meðferðar hjá ríkissaksóknara og því ekki skilyrði til að fjalla um það heldur.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. september 2022.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 22. september sl. þar sem þér óskið m.a. eftir endurupptöku í máli yðar, en fyrir liggur að þér afplánið nú refsivist samkvæmt dómi. Þá kemur fram í kvörtuninni að þér hafið beint erindi til lögreglu sem nú sé til meðferðar hjá ríkissaksóknara í kjölfar kæru yðar.

Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að samkvæmt b-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa dómstóla. Í samræmi við það fellur utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um niðurstöðu dómstóla í einstökum málum sem fyrir þá hafa verið lögð. Um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar, að því leyti sem kvörtunarefni fellur innan starfssviðs umboðsmanns, er fjallað í 6. gr. laga nr. 85/1997. Þar segir í 3. mgr. að ef skjóta megi máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinni í málinu. Af því leiðir að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt innan stjórnsýslunnar.

Af kvörtun yðar verður ráðið að hún lúti annars vegar að niðurstöðu dómstóla í máli yðar og hins vegar að máli sem nú er til meðferðar hjá ríkissaksóknara. Brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar. Athygli yðar er þó vakin á því að á grundvelli nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sker Endurupptökudómur úr um hvort heimila skuli endurupptöku dómsmála sem dæmd hafa verið í héraði, Landsrétti eða Hæstarétti. Teljið þér ástæðu til getið þér freistað þess að leita til Endurupptökudóms með beiðni yðar, en með þessari ábendingu hefur engin afstaða verið tekin til þess hvort tilefni sé til að beina henni í þann farveg.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.