Menntamál

(Mál nr. 11884/2022)

Kvartað var yfir tiltekinni grein í úthlutunarreglum Menntasjóðs námsmanna þar sem kveðið er á um skyldu lánþega til að undirrita skuldabréf rafrænt.

Í kvörtuninni kom fram að í kjölfar úrskurðar málskotsnefndar Menntasjóðs námsmanna hafi viðkomandi verið heimilað að undirrita skuldabréf með blekpenna en ekki rafrænt. Ekki varð því séð að kvörtunarefnið snerti beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Brast þar með skilyrði til að umboðsmaður tæki kvörtunina til frekari athugunar. Hún varð þó tilefni til að óska eftir afstöðu háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, til þess hvort þau ákvæði úthlutunarreglna sem um ræddi ættu sér fullnægjandi stoð í lögum um Menntasjóð námsmanna, áður en umboðsmaður ákvæði hvort hann tæki það atriði til frekari athugunar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 2. nóvember 2022.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 16. október sl. sem beinist að grein 8.1.1 í úthlutunarreglum Menntasjóðs námsmanna fyrir skólaárið 2022-2023 sem birtar voru með auglýsingu nr. 378/2022 þar sem kveðið er á um skyldu lánþega til að undirrita skuldabréf rafrænt. Í því sambandi er bent á að með úrskurði málskotsnefndar Menntasjóðs námsmanna í máli yðar nr. M-5/2021 var ákvörðun sjóðsins um að áskilja rafræna undirritun yðar á skuldabréf felld úr gildi með vísan til þess að sambærileg regla í eldri úthlutunarreglum sjóðsins ætti sér ekki stoð í lögum.

Hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafn­ræði sé í heiðri haft í stjórn­sýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórn­sýsluhætti og tilgreindar siðareglur, sbr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum, sem heyra undir eftirlit umboðsmanns samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna, kvartað af því tilefni til hans. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann þarf að liggja fyrir ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða snertir beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Í kvörtun yðar takið þér fram að í kjölfar úrskurðar málskotsnefndar menntasjóðs námsmanna hafi yður verið heimilað að undirrita skuldabréf með blekpenna en ekki rafrænt. Í ljósi þessa verður ekki séð að umrædd atriði í kvörtun yðar snerti beinlínis hagsmuni yðar eða réttindi umfram aðra. Brestur því laga­skilyrði til þess að umboðsmaður taki kvörtun yðar til frekari athugunar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997.

Ég tel þó rétt að upplýsa yður um að athugun mín á máli yðar hefur orðið mér tilefni til að rita háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra bréf það sem fylgir hjálagt í ljósriti.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar.

             

   


  

Bréf umboðsmanns til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra dags. 2. nóvember.

    

Til umboðsmanns Alþingis leitaði nýlega nafngreindur maður með kvörtun yfir því að í grein 8.1.1 í úthlutunarreglum Menntasjóðs námsmanna fyrir skólaárið 2022-2023, sem birtar voru með auglýsingu nr. 378/2022, sé gerður áskilnaður um rafræna undirritun lánþega á skuldabréf fyrir hverja útborgun láns. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, þar sem lagaskilyrði voru ekki uppfyllt til að taka kvörtunina til meðferðar.

Með ofangreindri kvörtun fylgdi úrskurður málskotsnefndar Menntasjóðs námsmanna í máli nr. M-5/2021 frá 1. júlí 2021 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að óheimilt hefði verið á grundvelli þágildandi greinar 8.1.1 í úthlutunarreglum að krefjast þess af kæranda að hann undirritaði skuldabréf með rafrænum hætti og synja honum ella um útgreiðslu námsláns enda hefði skort skýra og ótvíræða heimild í lögum til slíkrar ákvörðunar. Var í því sambandi m.a. vísað til ákvæða í IX. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993, eins og lögunum var breytt með lögum nr. 51/2003, þar sem fjallað er um rafræna meðferð stjórnsýslumála og tekið fram að þau veiti ekki heimild til að einskorða meðferð stjórnsýslumála við rafræna meðferð. Þá er tekið fram að til þess að víkja megi frá ákvæðunum með þeim hætti að lánþegum hjá Menntasjóði sé meinað að njóta þess réttar til námsláns sem lög nr. 60/2020, um Menntasjóð námsmanna, áskilja þeim þurfi að vera fyrir hendi skýr og ótvíræð heimild í lögum.

Umþrætt ákvæði þágildandi greinar 8.1.1 er samhljóða því ákvæði greinar 8.1.1 í núgildandi reglum er ofangreind kvörtun til umboðsmanns laut að. Í báðum greinum segir: „Lánþegar undirrita skuldabréf fyrir hverja útborgun láns með rafrænum hætti.“ Þá virðist sambærilegur áskilnaður um rafræna meðferð máls gerður í grein 1.3.1 í úthlutunarreglunum, sem lýtur að rafrænni umsókn um námslán, svo og grein 1.3.4, sem gerir þá kröfu að einstaklingar sem ekki eiga rafræn skilríki þurfi að hafa umboðsmann til að skrifa undir rafræn skuldabréf.

Með hliðsjón af framangreindu og áður en umboðsmaður tekur ákvörðun um hvort hann taki mál þetta til frekari athugunar á grundvelli þeirra heimilda sem honum eru fengnar samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og í ljósi þess að samkvæmt 36. gr. laga nr. 60/2020 setur háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra téðar úthlutunarreglur, að fengnum tillögum Menntasjóðsins, er þess óskað, sbr. 5. og 7. gr. laganna, að ráðuneytið lýsi afstöðu sinni til þess hvort þau ákvæði úthlutunarreglna Menntasjóðs námsmanna, sem lýst er hér að ofan, eigi sér fullnægjandi stoð í lögum nr. 60/2020, um Menntasjóð námsmanna.

Þess er óskað að svör berist umboðsmanni eigi síðar en 23. nóvember nk.