Börn.

(Mál nr. 11600/2022)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, sem vísaði frá kæru vegna ákvörðunar barnaverndar um að synja beiðni um að taka barnabarn í fóstur, á þeim grundvelli að ákvörðunin væri ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.  

Í ljósi ótvíræðs orðalags í barnaverndarlögum um að ákvarðanir um  val á fósturforeldrum sæti ekki kæru til annars stjórnvalds, varð ekki annað ráðið en kæruheimild í reglugerð ætti sér ekki viðhlítandi stoð í lögum og yrði þar af leiðandi ekki beitt. Þá taldi umboðsmaður ekki forsendur til að fullyrða  að mat barnaverndarinnar hefði verið bersýnilega óforsvaranlegt eða ákvörðunin hefði að öðru leyti ekki samræmst lögum.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 4. október 2022, sem hljóðar svo:

  

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar 14. mars sl. sem lýtur að úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 22. febrúar sl. í máli nr. 611/2021. Með úrskurðinum vísaði nefndin frá kæru yðar vegna ákvörðunar Barna­verndar Reykjavíkur 20. október sl. um að synja beiðni yðar um að taka barnabarn yðar í fóstur, á þeim grundvelli að ákvörðunin væri ekki kæran­leg til úrskurðarnefndarinnar. Í kvörtuninni gerið þér jafnframt athugasemdir við málsmeðferðartíma nefndarinnar. Að beiðni umboðsmanns bárust gögn málsins frá nefndinni 9. maí sl.

  

II

Í umræddri ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur voru yður veittar þær leiðbeiningar að unnt væri að skjóta ákvörðuninni til úrskurðarnefndar velferðarmála í samræmi við 18. gr. reglugerðar nr. 804/2004, um fóstur, en í þeirri grein er fjallað um beiðni nákominna ættingja um að taka barn í fóstur. Í 1. mgr. greinarinnar kemur fram að óski nákominn ættingi, sem fengið hefur leyfi Barnaverndarstofu, eftir að taka barn í fóstur beri barnaverndarnefnd að meta hvort það þjóni hagsmunum barnsins best að ráðstafa því í fóstur til viðkomandi. Þá segir í 2. mgr. greinarinnar að nákominn ættingi geti skotið synjun barna­verndarnefndar til kærunefndar barnaverndarmála, nú úrskurðar­nefndar velferðarmála. Fram kemur í 40. gr. reglugerðarinnar að hún sé sett á grundvelli nánar tiltekinna ákvæða barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Líkt og rakið var í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 611/2021 segir í 4. mgr. 33. gr. barnaverndarlaga að val barna­verndar­nefndar á þeim sem tekur að sér að annast barn sem vistað er utan heimilis samkvæmt 25. og 27. til 29. gr. laganna sé ekki kæranlegt til úrskurðarnefndar velferðarmála eða annars stjórnvalds. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 80/2011, um breytingu á barnaverndarlögum, sem færði téð lagaákvæði í lögin, segir m.a. að með ákvæðinu sé lagt til það nýmæli að mæla fyrir um að val barna­verndarnefndar á þeim sem tekur að sér að annast barn sem vistað er utan heimilis sé ekki kæranleg ákvörðun. Það hafi í för með sér að hvorki foreldrar sem barn hefur búið hjá né þeir sem óska eftir að annast barn geta skotið ákvörðuninni til kærunefndar eða annars stjórnvalds (þskj. 57, 139. lögg.þ. 2010-2011, bls. 32).

Af framangreindu tilefni tek ég fram að af svonefndri lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins leiðir að almenn stjórnvalds­fyrir­mæli á borð við reglugerðir verða að eiga sér stoð í lögum og mega ekki fara í bága við þau. Í ljósi ótvíræðs orðalags 4. mgr. 33. gr. barna­verndarlaga um að ákvarðanir um val á fósturforeldrum sæti ekki kæru til annars stjórnvalds, verður ekki annað ráðið en að framangreind kæruheimild 18. gr. reglugerðar nr. 804/2004 eigi sér ekki viðhlítandi stoð í lögum og verði þar af leiðandi ekki beitt. Af þeim sökum tel ég ekki forsendur til að gera efnislegar athugasemdir við þá niðurstöðu úr­skurðarnefndarinnar að ákvörðun Barnaverndar Reykjavíkur í máli yðar hafi ekki verið kæranleg til nefndarinnar, þrátt fyrir leiðbeiningar barnaverndar þar um.

  

III

Í ljósi framangreinds hef ég tekið til skoðunar umrædda ákvörðun Barna­verndar Reykjavíkur. Í ákvörðun barnaverndar voru ákvæði barna­verndar­laga nr. 80/2002 og reglugerðar nr. 804/2004, um fóstur, rakin sem og þau sjónarmið sem áskilið er að líta beri til við val á fóstur­for­eldrum. Var það mat barnaverndar að það væri andstætt hagsmunum barnsins ef það yrði fært af því fósturheimili sem það dvelji nú á og það fært á heimili yðar.

Um val á fósturforeldrum er fjallað í 67. gr. barnaverndarlaga. Þar segir m.a. í niðurlagi 2. mgr. greinarinnar að velja beri fóstur­foreldra af kostgæfni og með tilliti til þarfa og hagsmuna barnsins sem í hlut á. Val á fósturforeldrum skuli miða að því að tryggja stöðug­leika í lífi barns og valda sem minnstri röskun á högum þess.

Val barnaverndarnefndar á fósturforeldri felur í sér matskennda stjórn­valdsákvörðun, en við töku slíkra ákvarðana hafa stjórnvöld ákveðið svigrúm til mats. Við það mat ber þeim þó að gæta að skráðum og óskráðum reglum stjórnsýsluréttar við undirbúning og töku ákvörðunar auk þeirra sérreglna sem gilda um viðkomandi málaflokk. Í samræmi við 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýtur athugun umboðsmanns við þessar aðstæður fyrst og fremst að því hvort málsmeðferð og ákvörðun stjórnvalds hafi verið í samræmi við lög og þá einkum hvort matið hafi byggst á fullnægjandi upplýsingum og hvort þær ályktanir sem dregnar eru af þeim gögnum og upplýsingum sem lágu fyrir í máli séu ekki bersýnilega óforsvaranlegar. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að leggja til grundvallar eigið mat á því hvert efni ákvörðunar hefði átt að vera.

Eftir að hafa kynnt mér ákvörðunina sem og gögn málsins tel ég mig ekki hafa forsendur til að fullyrða að mat Barnaverndar Reykjavíkur hafi verið bersýnilega óforsvaranlegt eða ákvörðunin hafi að öðru leyti ekki samræmst lögum. Hef ég þar einkum í huga fyrrgreint svigrúm sem stjórnvaldið hefur í málum sem þessum.

Með vísan til þess sem er rakið að framan er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ég vek þó athygli yðar á því að athugun mín á þessu máli hefur orðið mér tilefni til að rita úrskurðarnefnd velferðarmála meðfylgjandi bréf.