Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 11719/2022)

Kvartað var yfir ráðningu í stöðu aðstoðaryfirlögregluþjóns án þess að staðan hefði verið auglýst.

Í svörum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kom m.a. fram að tímabundin setning í starfið hefði ekki samræmst ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Leitast hefði verið við að leiðrétta það og eftirleiðis yrði farið að ákvæðum starfsmannalaga í samræmi við tiltekin álit umboðsmanns. Þar sem stjórnvaldið féllst á að annmarkar hefðu verið á málsmeðferð var ekki tilefni til frekari athugunar eða eftirfylgni.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 7. október 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 3. júní sl. yfir því að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefði ráðið í stöðu aðstoðaryfirlögregluþjóns án þess að staðan hefði verið auglýst.  

Í tilefni af kvörtuninni var óskað eftir upplýsingum og skýringum frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, sbr. bréf umboðsmanns 16. júní og 13. september sl. sem þér fenguð afrit af. Í svarbréfi lögreglustjóra 7. júlí sl. kom fram að hann hefði sett mann í stöðuna 1. maí sl. til sex mánaða. Í síðara svarbréfi, 4. október sl., sagði m.a.: 

„Eftir yfirferð LHR liggur fyrir að umrædd setning samræmist ekki ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996.

Tekið skal fram að leitast var við að leiðrétta þetta ferli og var staðan auglýst þann 29. júní sl. og viðkomandi var settur til 31.12.2022. Embættið mun eftirleiðis fara að ákvæðum starfsmannalaga í samræmi við álit umboðsmanns í máli nr. F109/2022 og áliti í máli nr. 9487/2017.“

Af framangreindu er ljóst að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur viðurkennt að fyrrnefnd ákvörðun um setningu í stöðu aðstoðaryfirlögregluþjóns hafi ekki verið í samræmi við lagaákvæði um skyldu til þess að auglýsa laus embætti, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996. Enn fremur var því lýst yfir að lögreglustjóri myndi framvegis gæta að ákvæðum um auglýsingaskyldu.  

Það er hlutverk umboðs­manns Alþingis að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitar­félaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Störf umboðsmanns eru þess eðlis að viðbrögð hans geta almennt ekki orðið önnur en að lýsa þeirri afstöðu að meðferð mála hjá stjórnvöldum hafi ekki verið í samræmi við lög og vandaða stjórn­sýsluhætti og eftir atvikum beina þeim tilmælum til stjórnvalda að endur­skoða einstök mál, sbr. b-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Þar sem fyrir liggur í þessu máli að stjórnvaldið hefur fallist á að annmarkar hafi verið á málsmeðferð þess tel ég í ljósi framangreinds um hlutverk umboðsmanns ekki nægilegt tilefni til frekari athugunar eða eftirfylgni málsins.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.