Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11766/2022)

Kvartað var yfir því að fjármála- og efnahagsráðuneytið hefði ekki afgreitt erindi félags um staðfestingu á reglum þess um tryggingarvernd.  

Ráðuneytið upplýsti umboðsmann um stöðu málsins og að unnið væri að því að greina nýtilkomnar upplýsingar. Innan skamms yrði félaginu birtar upplýsingar um áform ráðuneytisins og að öllu óbreyttu ætti niðurstaða að geta legið fyrir í lok ársins. Ekki var því tilefni til frekari athugunar að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 3. október 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 5. júlí sl. fyrir hönd A sem lýtur að því að fjármála- og efnahagsráðuneytið hafi ekki afgreitt erindi félagsins 26. júlí 2018 um staðfestingu á reglum félagsins um tryggingarvernd.

Með bréfi 27. september sl. upplýsti ráðuneytið umboðsmann um að því hafi borist umsögn Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og viðbótargögn frá Seðlabanka Slóvakíu 23. september sl. Ráðuneytið vinni að því að greina upplýsingarnar og hyggist innan skamms birta félaginu að nýju bréf um áform sín. Í ljósi þessara upplýsinga hylli undir að hægt verði að ljúka málinu með ákvörðun ráðuneytisins. Að öllu óbreyttu eigi niðurstaða málsins að geta legið fyrir í lok þessa árs.

Af ákvæðum laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, leiðir að umboðsmaður fjallar að jafnaði ekki um mál fyrr en þau hafa verið leidd til lykta innan stjórnsýslunnar, sbr. m.a. 3. mgr. 6. gr. laganna. Þegar umboðsmanni berast kvartanir sem lúta að töfum á afgreiðslu mála hefur hann í framkvæmd talið að framangreint ákvæði standi því ekki í vegi að óskað sé eftir svörum frá viðkomandi stjórnvaldi um hvað líði afgreiðslu og meðferð málsins og þá einkum ef ekkert liggur fyrir um hvort aðilar máls hafi verið upplýstir um hvenær niðurstöðu sé að vænta. Samkvæmt lögunum er það þó verulegum takmörkunum háð að hvaða leyti umboðs­maður getur haft bein afskipti af málsmeðferð stjórnvalda, s.s. þegar kvörtun lýtur að töfum á afgreiðslu máls sem enn er til meðferðar.

Í ljósi framangreinds og upplýsinga um stöðu málsins sem fram koma í svörum ráðuneytisins tel ég ekki tilefni til þess að taka það til frekari athugunar að svo stöddu. Standist áform ráðuneytisins ekki getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun vegna tafa.

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 læt ég málinu hér með lokið. Ef umbjóðandi yðar telur sig enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins getur hann, eða þér fyrir hans hönd, leitað til mín að nýju með kvörtun þar að lútandi.