Landbúnaðarmál.

(Mál nr. 11781/2022)

Kvartað var yfir ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem hafnaði beiðni um undanþágu frá 100% framleiðsluskyldu upp í mjólkurkvóta á þeim grundvelli að ekki yrði séð að þær ástæður sem tilgreindar væru í beiðninni gætu fallið undir tiltekið undanþáguákvæði búvörulaga.

Af synjunum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og matvæla­ráðu­neytisins við beiðnum viðkomandi varð ekki ráðið að því hafi verið hafnað að sterkt sólskin, hár lofthiti eða þurrkar gæti almennt fallið undir téða undanþágureglu heldur hefðu þær veður­farsaðstæður sem byggt hefði verið  á ekki verið taldar á því stigi að fullnægja skilyrðum hennar. Í ljósi samhengi lagagreinarinnar og forsögu hennar, og að virtu því svigrúmi sem verður að játa hlutaðeigandi ráðuneyti við beitingu matskenndrar undanþágureglu, taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við mat ráðuneytanna. 

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 4. október 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 12. júlí sl. yfir ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðuneytisins sem yður var tilkynnt með tölvubréfi 29. nóvember 2021. Með ákvörðuninni hafnaði ráðuneytið beiðni yðar 19. þess mánaðar um undanþágu frá 100% framleiðsluskyldu upp í mjólkurkvóta á þeim grundvelli að ekki yrði séð að þær ástæður sem tilgreindar væru í beiðninni gætu fallið undir undanþáguákvæði 1. mgr. 32. gr. búvörulaga nr. 99/1993. Beiðni yðar sama efnis 13. desember 2021 var hafnað með tölvubréfi matvælaráðuneytisins 7. febrúar sl. og var þar m.a. vísað til þess að ákvæðið hefði verið túlkað þröngt og ríkar ástæður þyrfti til að vikið væri frá framleiðsluskyldu.

Kvörtun yðar byggist á því að góðviðri í formi sólskins og hita sumarið 2021, er leiddi til rýrari heyja og þar með minni nytjar í mjólkurk­úm á býli yðar, beri að fella undir matskennt skilyrði um „óvenju­legt veðurfar“ í undanþágureglu 1. mgr. 32. gr. laga nr. 99/1993, og því hafi borið að fallast á beiðni yðar um greiðslur samkvæmt bú­vöru­samningi óháð framleiðslu. Téð ákvæði 1. mgr. 32. gr. laga nr. 99/1993, með síðari breytingum, hljóðar svo:

„Heimilt er að ákveða að greiðslur í samræmi við samning skv. 30. gr. verði greiddar til framleiðanda óháð framleiðslu á lögbýli eða garðyrkjubýli ef framleiðsluskilyrði hafa raskast tímabundið vegna náttúruhamfara, þannig að búskapur hafi dregist saman eða fallið niður um tíma, t.d. vegna stórfellds öskufalls eða jökulflóða, vegna óvenjulegs veðurfars, alvarlegra búfjár- eða plöntusjúkdóma eða vegna þess að afurðasala frá býlinu hefur verið bönnuð af ástæðum sem hlutaðeigandi framleiðandi gat ekki haft áhrif á.“   

Samkvæmt greininni er það forsenda fyrir veitingu undanþágu samkvæmt henni að framleiðsluskilyrði hafi raskast tímabundið vegna „náttúru­ham­fara“ sem því næst eru nánar tilgreindar í dæmaskyni, en þar á meðal er „óvenjulegt veðurfar“. Greininni var bætt við lög nr. 99/1993 með 9. gr. laga nr. 102/2016. Í athugasemdum við það frumvarp sem varð að síðar­greindu lögunum kom m.a. fram að reglu þessa efnis væri að finna í ákvæði til bráðabirgða W sem næði þó aðeins til beingreiðslna og gæðastýringarálags (Alþt. 145. löggjafarþing 2015-2016, þskj. 1108). Téð bráðabirgðaákvæði W hafði verið breytt með lögum nr. 129/2012 á þá leið að á eftir orðunum „öskufalls eða jökulflóða“ í 1. málsl. 1. mgr. bættist við „vegna óvenjulegs veðurfars“. Af athugasemdum við það frumvarp sem varð að lögum nr. 129/2012 og framsöguræðu atvinnu- og nýsköpunar­ráðherra vegna málsins verður ráðið að talið hafi verið nauðsynlegt að tilgreina þetta atriði sérstaklega til þess að unnt væri að bregðast við aðstæðum á borð við þær sem komu upp á Norðurlandi vegna óveðurs á haustmánuðum 2012 sem olli miklu tjóni hjá bændum (Alþt. 141. löggjafarþing 2012-2013, þskj. 562, bls. 5 og 49. fundur Alþingis 8. desember 2012). Fyrrgreint bráðabirgðaákvæði W hafði verið bætt við lög nr. 99/1993 með 2. gr. laga nr. 46/2010 og var tilefni þeirrar laga­setningar tjón bænda af völdum öskufalls vegna goss í Eyjafjallajökli vorið 2010.

Samkvæmt framangreindu verður ekki ráðið af lögskýringargögnum að með núgildandi ákvæði 1. mgr. 32. gr. laga nr. 99/1993 hafi ætlunin verið að víkja frá þeirri kröfu að framleiðsluskilyrði verði að hafa raskast vegna „náttúruhamfara“ sem samkvæmt almennum málskilningi eru óviðráðanlegir og stórfelldir náttúruviðburðir. Fremur verður að leggja til grundvallar að vilji löggjafans hafi staðið til þess að taka af vafa um að „óvenjulegt veðurfar“ gæti við vissar aðstæður falið í sér náttúru­hamfarir í þessum skilningi og þá án þess að því væri slegið föstu svo ætti við um ótíð eða slæmt árferði. Í því sambandi má einnig hafa til hlið­sjónar að ofviðri hefur ekki verið talið til náttúruhamfara í skilningi laga nr. 55/1993, um Náttúruhamfaratryggingu Íslands, sbr. 4. gr. laganna. Þá er það almenn lögskýringarregla í íslenskum rétti, sem m.a. var vísað til í svari matvælaráðuneytisins til yðar, að túlka beri undan­þágureglur laga þröngt.

Af synjunum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og matvæla­ráðu­neytisins við beiðnum yðar verður ekki ráðið að því hafi verið hafnað að sterkt sólskin, hár lofthiti eða þurrkar geti almennt fallið undir undanþágureglu 1. mgr. 32. gr. laga nr. 99/1993 heldur hafi þær veður­farsaðstæður sem þér byggðuð beiðnirnar á ekki verið taldar á því stigi að fullnægja skilyrðum hennar. Í ljósi þess sem að framan greinir um samhengi lagagreinarinnar og forsögu hennar, og að virtu því svigrúmi sem verður að játa hlutaðeigandi ráðuneyti við beitingu matskenndrar undanþágureglu tel ég ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við það mat ráðuneytanna. 

Með vísan til alls þess sem að framan greinir lýk ég hér með umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.