Málsmeðferð og starfshættir stjórnsýslunnar.

(Mál nr. 11801/2022)

Kvartað var yfir úrskurði heilbrigðisráðuneytisins sem vísaði frá kæru þar sem farið var fram á að það tæki til skoðunar afstöðu embættis landlæknis að fallast hvorki á að afturkalla né breyta efni tiltekins bréfs. 

Með tilliti til atvika máls taldi umboðsmaður ekki forsendur til að gera athugasemdir við niðurstöðu ráðuneytisins að vísa kærunni frá þar sem ekki lægi fyrir kæranleg stjórnvaldsákvörðun.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 6. október 2022, sem hljóðar svo:

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar dags. 9. ágúst sl., fyrir hönd A, yfir úrskurði heilbrigðisráðuneytisins nr. 015/2022 frá 13. júní sl. Með úrskurði ráðuneytisins var kæru A vísað frá en með henni var farið fram á að ráðuneytið tæki til skoðunar þá afstöðu embættis landlæknis 20. janúar 2022 að fallast hvorki á að afturkalla né breyta efni bréfs, dags. 16. mars 2016, sem embættið sendi velferðarráðuneytinu þar sem m.a. var fjallað um tilteknar athugasemdir A.

Gildissvið stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er afmarkað í I. kafla þeirra. Í fyrri málsl. 2. mgr. 1. gr. segir að lögin gildi þegar stjórn­völd, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Af ákvæðinu leiðir að lögin gilda ekki ef ekki er um að ræða þess konar ákvarðanir, þ.e. svokallaðar stjórnvaldsákvarðanir. Í 26. gr. laganna er að finna kæruheimild vegna stjórnvaldsákvarðana til æðra stjórnvalds.

Fyrir liggur að heilbrigðisráðuneytið vísaði frá kæru yðar vegna þeirrar afstöðu embættis landlæknis að fallast ekki á beiðni yðar um að afturkalla eða leiðrétta bréf þess frá 16. mars 2016 til velferðarráðuneytisins, nú heilbrigðisráðuneytið. Í  úrskurði ráðuneytisins kemur fram að tilgangur bréfsins hefði aðeins verið að upplýsa ráðuneytið um tiltekin atriði í tengslum við umfjöllun A um lyfjagagnagrunn embættis landlæknis. Bréfið hefði engar lögfylgjur haft í för með sér og hefði ekki falið í sér töku stjórnvaldsákvörðunar. Það sama ætti við um bréf embættis landlæknis til A 20. janúar sl. þar sem fram kom sú afstaða embættisins að ekki væru forsendur til að afturkalla eða breyta efni bréfsins frá 16. mars 2016. Eftir að hafa kynnt mér úrskurð ráðuneytisins og umrædd bréfaskipti tel ég ekki forsendur til að gera athugasemdir við niðurstöðu þess að vísa frá kæru A þar sem ekki hafi legið fyrir kæranleg stjórnvaldsákvörðun. Í því sambandi hef ég í huga að ekki verður annað ráðið en að markmið téðra bréfaskipta hafi verið að veita ráðuneytinu upplýsingar, m.a. í tilefni af opinberri gagnrýni á áreiðanleika lyfjagagnagrunns embættisins og jafnframt leitast við að leiðrétta tiltekin atriði í því sambandi. Þannig hafi hvorki í bréfinu frá 2016 né afstöðu þess 20. janúar sl. falist ákvörðun sem beindist sérstaklega að A eða varðaði réttindi hennar eða skyldur í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga.

Þá tel ég að öðru leyti ekki tilefni til athugasemda við svör ráðuneytisins til yðar enda fæ ég ekki annað ráðið m.a. í tengslum við fyrri kvartanir A til umboðsmanns m.a. í máli 9650/2018, sem m.a. lutu að bréfinu frá 16. mars 2016, en að það hafi í samræmi við yfirstjórnunar- og eftirlitshlutverks þess tekið athugasemdir yðar til skoðunar varðandi téð bréfaskipti en ekki talið þau gefa tilefni til frekari viðbragða. Tel ég því ekki tilefni til að taka úrskurð ráðuneytisins til frekari athugunar.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.