Eignir ríkisins.

(Mál nr. 11811/2022)

Kvartað var yfir að landspilda í eigu ríkisins hefði verið leigð án undangenginnar auglýsingar.  

Í kjölfarið kom í ljós að spildan hafði verið leigð án auglýsingar fyrir 32 árum. Því voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um málið þar sem kvörtunin barst ekki innan tilskilins tímafrests.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 5. október 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 16. ágúst sl. fyrir hönd A yfir því að landspilda í eigu ríkisins hafi verið leigð  án undangenginnar auglýsingar, en samkvæmt kvörtuninni er hann eigandi aðliggjandi jarðar.

Um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns er fjallað í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þar segir í 2. mgr. að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur. Þá segir í 3. mgr. sömu lagagreinar að ef skjóta megi máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta byggir á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta eða bæta úr ágöllum sem verið hafa á fyrri athöfnum og ákvörðunum þeirra áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun.

Í tilefni af kvörtun yðar hafði starfsmaður umboðsmanns samband við yður símleiðis þar sem óskað var eftir frekari upplýsingum um málið. Þar kom fram að landspildan hafi verið leigð án auglýsingar fyrir 32 árum. Hins vegar kynni leigusamningurinn að hafa verið endurnýjaðar frá þeim tíma en þér hefðuð ekki nánari upplýsingar um það.

Að þessu virtu er ljóst að kvörtun yðar, að því marki sem hún beinist að upphaflegri ráðstöfun ríkisins á landspildunni, barst ekki innan þess tímafrests sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Brestur því lagaskilyrði til þess að sá þáttur kvörtunar yðar verði tekin til frekari meðferðar. Að því leyti sem hún lýtur að hugsanlegri endurnýjun á leigusamningi spildunnar tel ég, í ljósi þeirra sjónarmiða sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, rétt að þér leitið fyrsta kastið með erindi yðar til Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseignir og eftir atvikum fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem stofnunin heyrir undir, áður en þér leitið til mín með kvörtun.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.