Fullnusta refsinga.

(Mál nr. 11848/2022)

Kvartað var yfir útivistartíma fanga, framkvæmd heimsókna, lyfjamálum og að sex mánaða bið væri eftir að fá tíma hjá félagsráðgjafa og sálfræðingi á Litla-Hrauni.  

Ekki varð ráðið að erindið hefði verið borið upp við hlutaðeigandi stjórnvöld og þeim gefið færi á að bregðast við og þar af leiðandi ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 4. október 2022, sem hljóðar svo:

 

  

Vísað er til kvörtunar yðar 17. september sl. yfir útivistartíma fanga, fram­kvæmd heimsókna, lyfjamálum og því að það sé sex mánaða bið eftir að fá tíma hjá félagsráðgjafa og sálfræðing.

Af lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, leiðir m.a. að umboðs­maður fjallar almennt ekki um mál nema stjórnvöldum hafi fyrst verið gefinn kostur á að taka afstöðu til þeirra. Kvörtun yðar fylgdu ekki frekari gögn og að öðru leyti verður ekki ráðið af henni að þér hafið komið athugasemdum yðar á framfæri við hlutaðeigandi stjórnvöld og fengið viðbrögð við þeim, til að mynda til forstöðumanns fangelsisins eða Fangelsismálastofnunar, sem samkvæmt 5. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, hefur umsjón með rekstri fangelsa. Þá bendi ég yður á að samkvæmt 4. gr. sömu laga fer dómsmálaráðherra með yfirstjórn fangelsis­mála og eru ákvarðanir samkvæmt lögunum kæranlegar til hans nema annað sé tekið fram, sbr. 1. mgr. 95. gr. laganna. Þar sem þér getið freistað þess að leita til framangreindra stjórnvalda með erindi yðar brestur lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar að svo stöddu.

Í tilefni af kvörtun yðar minni ég þó á að umboðsmaður Alþingis hefur m.a. því hlutverki að gegna að hafa eftirlit með aðstæðum frelsis­sviptra, þ.á m. fanga, á almennum grunni. Með vísan til þess hlutverks hefur umboðsmaður í hyggju að heimsækja fangelsið Litla-Hrauni á næstu vikum. Athugasemdir yðar verða hafðar til hliðsjónar við framkvæmd þessa eftirlits. Áréttað er að það hefur ekki áhrif á framangreinda niðurstöðu mína um að ekki séu forsendur til að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um mál yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Fari svo að þér leitið til framangreindra stjórnvalda með athugasemdir yðar og teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni afstöðu þeirra getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.