Kvartað var yfir því að sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum hefði ekki fallist á að taka fæðingarvottorð útgefið af Landspítatala gilt við könnun hjónavígsluskilyrða.
Ekki varð annað ráðið en málið væri enn til meðferðar hjá embætti sýslumanns og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um erindið að svo stöddu. Auk þess mætti skjóta niðurstöðu hans, þegar þar að kæmi, til dómsmálaráðuneytisins áður en til kasta umboðsmanns gæti komið.
Kvörtunin varð þó umboðsmanni tilefni til að spyrja sýslumann um tiltekin atriði í tengslum afgreiðslu þessa máls, m.a. á hvaða lagagrundvelli framkvæmd sýslumanns væri reist. Einnig hvort eitthvað sé því til fyrirstöðu að sýslumaður leiti sjálfur til Þjóðskrár Íslands og afli fæðingarvottorðs.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. október 2022.
Vísað er til kvörtunar yðar 27. september sl. yfir því að sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum hafi ekki fallist á að taka gilt fæðingarvottorð yðar útgefið af Landspítala sem þér lögðuð fram vegna umsóknar um útgáfu könnunarvottorðs vegna hjónavígslu.
Með kvörtun yðar fylgdu tölvupóstsamskipti yðar við starfsmann sýslumanns. Í tölvubréfi starfsmannsins til yðar 26. september sl. kom fram sú afstaða að til þess að unnt væri að afreiða umsókn yðar þyrftuð þér að leggja fram fæðingarvottorð útgefið af Þjóðskrá Íslands. Í því sambandi var vísað til reglugerðar nr. 55/2013, um könnun hjónavígsluskilyrða.
Í tilefni af kvörtuninni skal tekið fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Af þessu ákvæði leiðir að almennt er ekki gert ráð fyrir því að umboðsmaður hafi afskipti af málum á meðan þau eru til meðferðar hjá stjórnvöldum.
Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að af fyrrgreindu samskiptum yðar við embætti sýslumanns verður ekki annað ráðið en að mál yðar sé enn til meðferðar hjá embættinu. Brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar að svo stöddu. Ég vek einnig athygli yðar á að samkvæmt 3. mgr. 14. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 getur hvort hjónaefni um sig skotið synjun könnunarmanns um útgáfu könnunarvottorðs til dómsmálaráðuneytisins, sbr. 132. gr. laganna, þar sem m.a. er kveðið á um tveggja mánaða kærufrest. Þannig kann yður að vera fær sú leið að leita til ráðuneytisins með stjórnsýslukæru fari svo að sýslumaður synji umsókn yðar. Teljið þér yður enn rangindum beittan að fenginni niðurstöðu framangreindra stjórnvalda getið þér leitað til umboðsmanns á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.
Ég tel þó rétt að upplýsa yður um að athugun mín á máli yðar hefur orðið mér tilefni til að rita sýslumanninum í Vestmannaeyjum bréf það sem fylgir hjálagt í ljósriti.
Í samræmi við framangreint lýk ég hér með umfjöllun minni um mál yðar að svo stöddu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.
Bréf umboðsmanns til sýslumannsins í Vestmannaeyjum 10. október 2022 hljóðar svo:
Til umboðsmanns Alþingis leitaði nýlega A, og kvartaði yfir því að sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum hafi ekki fallist á að taka gilt fæðingarvottorð hans, útgefið af Landspítala, sem hann lagði fram vegna umsóknar um útgáfu könnunarvottorðs vegna hjónavígslu. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu með bréfi til A, dags. í dag, á grundvelli 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, þar sem lagaskilyrði voru ekki uppfyllt til að taka kvörtunina til meðferðar að svo stöddu.
Þrátt fyrir framangreindar lyktir málsins gagnvart A hefur umboðsmaður staðnæmst við þá afstöðu embættis sýslumanns sem fram kom í tölvubréfi starfsmanns þess til A 26. september sl. þess efnis að við meðferð umsókna um útgáfu könnunarvottorðs vegna hjónavígsluskilyrða sé nauðsynlegt að leggja fram fæðingarvottorð útgefið af Þjóðskrá Íslands. Í því sambandi var vísað til reglugerðar nr. 55/2013, um könnun hjónavígsluskilyrða. Á vefsíðu Þjóðskrár Íslands kemur fram að fæðingarvottorð kosti 2750 kr.
Í III. kafla hjúskaparlaga nr. 31/1993, með síðari breytingum, er fjallað um könnun á hjónavígsluskilyrðum sem upp eru talin í II. kafla laganna. Þar segir í 1. mgr. 13. gr. laganna að áður en hjónavígsla fari fram skuli hjónaefni leggja fram vottorð þess efnis að könnun hafi átt sér stað á hjónavígsluskilyrðum samkvæmt því sem segir í II. kafla laganna og að lög tálmi ekki ráðahagnum. 1. mgr. 14. gr. laganna segir m.a. að sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra annist könnun á hjónavígsluskilyrðum. Fer könnunin fram í lögsagnarumdæmi þar sem annað hjónaefna á lögheimili. Í 3. mgr. 13. gr. sömu laga kemur fram að ráðherra setji reglugerð um könnun á hjónavígsluskilyrðum, þar á meðal um þau skilríki sem krefja skal hjónaefni um við gæslu þessara skilyrða, svo sem gögn til staðfestingar á fæðingu, hjúskaparstöðu og um lok fyrri hjúskapar frá þar til bæru yfirvaldi. Þá segir að könnunarmanni sé heimilt að afla framangreindra upplýsinga eða gagna hjá Þjóðskrá Íslands, sýslumönnum og dómstólum með rafrænum hætti. Framangreindum aðilum beri að veita könnunarmanni rafrænan aðgang að umbeðnum upplýsingum eða gögnum búi þeir yfir þeim.
Á framangreindum grunni hefur ráðherra sett reglugerð nr. 55/2013, með síðari breytingum, um könnun hjónavígsluskilyrða og viðurkenningu á hjónavígslu sem farið hefur fram erlendis. Þar er í 1. mgr. 2. gr. fjallað um gögn sem leggja skal fram þegar óskað er eftir könnun á hjónavígsluskilyrðum. Er þar m.a. áskilið að lagt sé fram fæðingarvottorð. Í 4. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar er áréttuð heimild könnunarmanns til að afla upplýsinga eða gagna samkvæmt 1. mgr. greinarinnar hjá Þjóðskrá Íslands, sýslumönnum og dómstólum með rafrænum hætti. Framangreindum aðilum ber að veita könnunarmanni rafrænan aðgang að umbeðnum upplýsingum eða gögnum búi þeir yfir þeim. Afli könnunarmaður nauðsynlegra upplýsinga eða gagna við könnun hjónavígsluskilyrða með rafrænum hætti hjá Þjóðskrá Íslands, sýslumönnum og dómstólum ber honum að upplýsa hjónaefni um fyrirhugaða upplýsingaöflun í samræmi við 2. mgr. 17. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Með vísan til framangreinds er þess óskað, sbr. 5. og 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum upplýsi umboðsmann um eftirfarandi:
- Þess er óskað að sýslumaður geri grein fyrir á hvaða lagagrundvelli sú framkvæmd er reist að krefja hjónaefni um fæðingarvottorð útgefið af Þjóðskrá Íslands og þar með taka ekki gilt framlagt fæðingarvottorð útgefið af Landspítala í því skyni að kanna hvort tiltekin hjónavígsluskilyrði séu uppfyllt. Í því sambandi er m.a. haft í huga að ekki verður betur séð en að með því sé kostnaði og vinnu af því að staðreyna þau atriði sem nauðsynlegt er að þessu leyti velt yfir á umsækjendur.
- Óskað er skýringa á því hvort eitthvað sé því til fyrirstöðu að sýslumaður leiti sjálfur, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga nr. 31/1993 og 4. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 55/2013, til Þjóðskrár Íslands í því skyni að afla fæðingarvottorðs.
Þess er óskað að svör berist umboðsmanni eigi síðar en 31. október 2022.