Innflutningur.

(Mál nr. 11869/2022)

Kvartað var yfir úrskurði fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem staðfesti ákvörðun tollgæslustjóra um að stöðva sendingum á rafmagnshlaupahjólum og golfskutlum til landsins.

Þar sem kvörtunin laut að úrskurði sem kveðinn var upp utan þess ársfrests sem áskilinn er til að umboðsmaður geti tekið kvörtun til meðferðar voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um erindið.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. október 2022.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 3. október sl., f.h. X ehf., en af henni verður ráðið að hún beinist að úrskurði fjármála- og efna­hags­ráðu­­neytisins 14. júní 2021 þar sem staðfest var ákvörðun tollgæslu­stjóra um að stöðva sendingu á 40 rafmagnshlaupahjólum og tveimur golf­skutlum til landsins.

Þar sem ekki varð fyllilega ráðið af kvörtun yðar að hvaða ákvörðun eða athöfn stjórnvalds hún laut hafði starfsmaður umboðsmanns samband við yður símleiðis í því skyni að afla frekari upplýsinga um efni hennar. Í símtalinu kom fram að þér væruð aðallega ósáttir við fyrrgreindan úrskurð ráðuneytisins en einnig við málsmeðferð Vinnu­eftir­litsins í málinu. Í kjölfarið senduð þér umboðsmanni ýmis gögn og samskipti við stjórnvöld vegna málsins.

Um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns er fjallað í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þar segir í 2. mgr. að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur. Í 3. mgr. sömu greinar kveður á um að ársfresturinn hefjist frá þeim tíma er æðra stjórnvald fellir úrskurð sinn í málinu ef máli er skotið til æðra stjórnvalds.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að úrskurði fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem var kveðinn upp utan árfrestsins eru ekki skilyrði að lögum til þess að hún verði tekin til frekari meðferðar. Hið sama á við um samskipti yðar við önnur stjórnvöld, sem þér senduð umboðs­manni afrit af, í tengslum við málið enda verður ekki annað ráðið en að þau hafi einnig átt sér stað utan fyrrgreinds árfrests. Tölvubréf yðar til fjármála- og efnahagsráðherra 24. mars sl. hróflar ekki við þeirri niðurstöðu.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.