Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt í þrjá mánuði á þeim grundvelli að með því að hafna að mæta í „prófanir“ hjá fyrirtæki í kjölfar atvinnuviðtals hefði atvinnuviðtali í reynd verið hafnað í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.
Ekki voru efni til að gera athugasemdir við niðurstöðu nefndarinnar en hvað snerti ágreining hvar orð stóð gegn orði benti umboðsmaður viðkomandi á að það yrði að vera dómstóla að leysa úr slíku.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 17. október 2022.
I
Vísað er til kvörtunar yðar 25. ágúst sl. er lýtur að úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 7. júlí sl. í enduruppteknu máli nr. 351/2021. Með úrskurðinum var staðfest ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt yðar í þrjá mánuði á þeim grundvelli að með því að hafna því að mæta í „prófanir“ hjá X ehf., í kjölfar atvinnuviðtals, hefðuð þér hafnað atvinnuviðtali í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar. Í kvörtun yðar eru einkum gerðar athugasemdir við að úrskurðarnefndin hafi ekki tekið til greina andmæli yðar um að ekki hafi staðið til að greiða yður laun fyrir að mæta í „prófanir“.
Kvörtun yðar er framhald á eldra máli yðar hjá umboðsmanni sem lauk með áliti 26. apríl 2022 í máli nr. 11360/2021. Var þar komist að þeirri niðurstöðu að úrskurðarnefnd velferðarmála hefði ekki upplýst mál yðar með fullnægjandi hætti. Byggðist sú niðurstaða einkum á því að þau gögn sem lágu fyrir hjá nefndinni hefðu ekki verið fullnægjandi til að varpa ljósi á það hvort þér teldust hafa hafnað atvinnuviðtali eða starfi í skilningi laga nr. 54/2006. Hafa gögn þess máls verið höfð til hliðsjónar við meðferð kvörtunar yðar.
II
Samkvæmt 13. gr. laga nr. 54/2006 er það eitt af almennum skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna að launamaður sé í virkri atvinnuleit samkvæmt 14. gr. laganna, en þar kemur m.a. fram að til að teljast í virkri atvinnuleit þurfi hann að hafa frumkvæði að starfsleit og vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og uppfyllir skilyrði annarra laga.
Í 57. gr. laga nr. 54/2006 er mælt fyrir um viðurlög við því ef starfi eða atvinnuviðtali er hafnað. Þar segir í 1. mgr. að sá sem hafni starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla laganna fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar sé tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. greinarinnar. Hið sama eigi við um þann sem hafni því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.
Samkvæmt 4. mgr. 57. gr. skal Vinnumálastofnun meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. greinarinnar hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna nánar tiltekinna ástæðna og þá er kveðið á um ítrekunaráhrif fyrri viðurlagaákvarðana í 61. gr. laganna sem heimila niðurfellingu bótaréttar í þrjá mánuði.
Líkt og rakið er í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 11360/2021 leiðir af framanröktum lagagrundvelli og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að úrskurðarnefnd velferðarmála ber að afla nægilegra upplýsinga um það hvort hinum tryggða hafi með sannanlegum hætti boðist starf eða atvinnuviðtal í skilningi laganna, hvort hann hafi hafnað slíku boði og þá hvaða ástæður hafi legið því til grundvallar. Hafi úrskurðarnefndin fullnægt rannsóknarskyldu sinni og reynt til þrautar að afla upplýsinga sem skýrt gætu mál fellur það í hlut nefndarinnar að leysa úr þeim vafa um staðreyndir sem kunna að vera í málinu á grundvelli mats- eða sönnunarreglna.
Af kvörtun yðar og gögnum málsins virðist óumdeilt að þér dróguð yður úr umsóknarferlinu í kjölfar samskipta yðar við X ehf. Hins vegar er uppi ágreiningur um ástæður þess og þá einkum hvort staðið hafi til að þér greiða yður laun fyrir að mæta í „prófanir“. Í málinu liggur fyrir að í kjölfar endurupptöku þess óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum frá X ehf., en í svari fyrirtækisins kom m.a. fram að ávallt væru greidd laun fyrir prufudaga. Stendur því orð gegn orði um þetta atriði. Þá var svar fyrirtækisins kynnt yður án þess að athugasemdir bærust.
Samkvæmt úrskurði nefndarinnar var það mat hennar að viðbrögð yðar í kjölfar samskipta yðar við X ehf., þar sem þér dróguð yður úr umsóknarferlinu, væru þess eðlis að þau jafngiltu höfnun á atvinnuviðtali, enda hefðu þau orðið til þess að þér kæmuð ekki lengur til greina í starfið. Þá var það mat nefndarinnar að þær skýringar sem þér hefðuð gefið væru ekki þess eðlis að þær féllu undir 4. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006.
Eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar sem og gögn málsins tel ég ekki efni til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu nefndarinnar að ákvörðun yðar um að hafna því að mæta í „prófanir“ hjá X ehf. hafi falið í sér höfnun á atvinnuviðtali í skilningi laga nr. 54/2006. Þá tel ég mig ekki hafa forsendur til að leggja til grundvallar að rannsókn málsins eða meðferð þess að öðru leyti hafi ekki samræmst lögum. Að því leyti sem kvörtun yðar lýtur að mati nefndarinnar á því hvort yður hafi borið að vinna launalaust í áðurnefndum „prófunum“ tel ég að um sé að ræða réttarágreining sem eðlilegt sé að dómstólar leysi úr, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Hef ég þá í huga að við efnislega úrlausn ágreiningsins kann að reyna á sönnunarfærslu, svo sem með aðilaskýrslum eða vitnaframburðum, og síðan mati á sönnunargögnum. Um þessi atriði eru dómstólar betur í stakk búnir að leysa úr en umboðsmaður Alþingis. Ég tek fram að með þessu hefur engin afstaða verið tekin til þess hvort tilefni sé til þess leggja málið fyrir dómstóla eða hver væri líkleg niðurstaða dómsmáls þar um.
III
Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. og c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.