Skattar og gjöld.

(Mál nr. 11824/2022)

Kvartað var yfir úrskurði innviðaráðuneytisins sem staðfesti ákvörðun sýslumannsins á Vestfjörðum um að leggja á vanrækslugjald þar sem ökutæki hafði ekki verið fært til reglubundinnar skoðunar eða endurskoðunar innan tiltekins frests.  

Í lögum og reglugerð er mælt fyrir um að eigandi (umráðamaður) ökutækis beri ábyrgð á að það sé skoðað innan tiltekins frests og greiða skuli vanrækslugjald sé þess ekki gætt. Jafnfram er kveðið á um hvenær skoða eigi ökutæki auk þess sem skoðunarmiði á skráningarmerki gefi til kynna það ár sem næst skuli færa það til skoðunar. Taldi umboðsmaður því hvorki tilefni til að gera athugasemdir við þá afstöðu ráðuneytisins að sýslumanni beri ekki skylda til að vekja sérstaka athygli eigenda ökutækja á því hvenær þeim beri að færa þau til skoðunar né niðurstöðuna að öðru leyti.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. október 2022.

   

    

Vísað er til kvörtunar yðar 28. ágúst sl. vegna úrskurðar innviðaráðuneytisins 15. júlí sl. Með úrskurðinum staðfesti ráðuneytið ákvörðun sýslumannsins á Vestfjörðum um að leggja á yður vanrækslugjald samkvæmt 74. gr. umferðarlaga nr. 77/2019, þar sem ökutæki yðar hefði ekki verið fært til reglubundinnar skoðunar eða endurskoðunar innan tiltekins frests. Í kvörtuninni gerið þér einkum athugasemdir við að ekki hafi verið fallist á beiðni yðar um niðurfellingu gjaldsins þar sem yður hafi ekki verið send sérstök tilkynning um það hvenær færa skyldi bifreiðina til reglubundinnar skoðunar.

Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 74. gr. umferðarlaga skal færa ökutæki, skráð hér á landi, til reglubundinnar almennrar skoðunar (aðalskoðunar) í samræmi við reglur sem ráðherra setur á grundvelli 3. mgr. lagagreinarinnar. Ber eigandi (umráðamaður) ökutækis ábyrgð á því að ökutæki sé fært til skoðunar í samræmi við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 74. gr. laganna. Í 3. mgr. greinarinnar segir að ráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um skoðun ökutækja, svo sem um skilyrði og tíðni aðalskoðunar skv. 1. mgr., hverjir annist skoðun og um álagningu og innheimtu vanrækslugjalds, sbr. 4 til 6. mgr. Þá segir í 4. mgr. að hafi eigandi (umráðamaður) ökutækis ekki fært ökutæki til skoðunar innan tilgreindra tímamarka skuli greiða sérstakt vanrækslugjald er rennur í ríkissjóð í nánar tilteknum tilvikum, þ. á m. þegar ökutæki hefur ekki verið fært til aðalskoðunar fyrir lok annars mánaðar frá því er ökutækið skyldi fært til aðalskoðunar.

Með stoð í 3. mgr. 74. gr. umferðarlaga hefur ráðherra sett reglugerð nr. 414/2021, um skoðun ökutækja. Í 6. gr. reglugerðarinnar er mælt fyrir um tíðni reglubundinnar skoðunar. Þar segir í 6. mgr. að fólksbifreiðar og eftirvagna skuli færa til reglubundinnar skoðunar í þeim mánuði sem síðasti tölustafur á skráningarmerki ökutækis vísar til, sbr. þó 7. gr. Þannig skuli t.d. ökutæki með skráningarmerki sem endar á 1 fært til skoðunar í janúar og ökutæki með skráningarmerki sem endar á 0 í október. Í 23. gr. reglugerðarinnar er að finna fyrirmæli um skoðunarmiða ökutækja en þar segir í 2. mgr. að við skoðun skuli skoðunarmaður setja skoðunarmiða á þar til gerðan reit á skráningarmerki ökutækis. Þá skal áletrun skoðunarmiða gefa til kynna að ökutæki hafi fengið reglubundna skoðun og það ártal sem ökutæki skal næst fært til reglubundinnar skoðunar, sbr. a-lið 6. mgr. sömu greinar. Um fjárhæð og álagningu vanrækslugjalds er svo nánar fjallað í 45. og 46. gr. reglugerðarinnar.

Fyrir liggur að yður hafi borið, í samræmi við framangreindar reglur, að færa ökutæki yðar til reglubundinnar skoðunar hjá viðurkenndri skoðunarstofu í maí 2021. Það var hins vegar ekki gert fyrr en 13. ágúst þess árs eða að liðnum meira en tveimur mánuðum frá lokum maí. Eins og áður hefur verið rakið er í umferðarlögum og reglugerð nr. 414/2021 mælt fyrir um að eigandi (umráðamaður) ökutækis beri ábyrgð á að ökutæki sé fært til skoðunar innan tiltekins frests og skuli greiða sérstakt vanrækslugjald sé það ekki gert. Þar er jafnframt kveðið á um það hvenær ökutæki skuli fært til skoðunar auk þess sem skoðunarmiði á skráningarmerki ökutækis gefi til kynna það ártal sem það skal næst fært til reglubundinnar skoðunar. Að þessu virtu tel ég ekki efni til að gera athugasemdir við þá afstöðu innviðaráðuneytisins að á sýslumanni hafi ekki hvílt skylda til að vekja sérstaka athygli eigenda ökutækja á því hvenær þeim bæri að færa þau til skoðunar eða niðurstöðu þess að öðru leyti.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.