Samgöngumál.

(Mál nr. 11834/2022)

Kvartað var vegna atviks í tengslum við skimun í öryggisskyni á Keflavíkurflugvelli. Annars vegar yfir framgöngu starfsmanna Isavia ohf. og hins vegar lögregluþjóna. 

Isavia er opinbert hlutafélag sem starfar að jafnaði á grundvelli einkaréttar þótt það sé í eigu ríkisins. Því voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um þann þátt kvörtunarinnar er laut að framkomu starfsmanna félagsins. Þá varð ekki ráðið að leitað hefði verið með erindið til nefndar um eftirlit með lögreglu og því ekki skilyrði til frekari meðferðar umboðsmanns að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 17. október 2022.

   

  

Vísað er til kvörtunar yðar 8. september sl. sem þér beinið að Isavia ohf. í tengslum við atvik sem átti sér stað á Keflavíkurflugvelli þegar þér voruð skimaðir í öryggisskyni er þér voruð á leið í flug.

Af kvörtuninni og þeim gögnum sem henni fylgdu verður ráðið að hún beinist annars vegar að framkomu starfsmanna Isavia ohf. við yður umrætt sinn og hins vegar að framgöngu lögregluþjóna lögreglustjórans á Suðurnesjum, sem kvaddir voru til af starfsmönnum Isavia ohf., við frekari leit í kjölfarið. Virðist óánægja yðar einkum beinast að framkvæmd lögregluþjónanna á líkamsleit og leiðbeiningum þeirra að því er réttarstöðu yðar varðaði. Í því sambandi takið þér fram að umrædd afskipti hafi leitt til þess að þér misstuð af flugi yðar auk þess sem hlutir og fjármunir í yðar eigu hafi horfið úr fórum yðar.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í 1. mgr. 3. gr. laganna er kveðið á um að starfssvið hans taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Þá segir í 2. mgr. sömu greinar að starfssvið umboðsmanns taki einnig til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga.

Isavia ohf. er opinbert hlutafélag. Það starfar því að jafnaði á grundvelli einkaréttar þó það sé í eigu ríkisins. Sá hluti kvörtunar yðar er lýtur að framkomu starfsmanna Isavia ohf. verður ekki talinn þess eðlis að hann falli undir 2. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Af framangreindum sökum brestur lagaskilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar að þessu leyti.

Hvað varðar athugasemdir yðar við framgöngu lögregluþjóna lögreglustjórans á Suðurnesjum skal tekið fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Á grundvelli þessa ákvæðis hefur verið talið rétt að eftir atvikum hafi verið leitað til þeirra sérhæfðu eftirlitsaðila sem kunna að vera fyrir hendi innan stjórnsýslunnar áður en umboðsmaður tekur mál til meðferðar á grundvelli kvörtunar.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að nefnd um eftirlit með lögreglu starfar á grundvelli 35. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og er hlutverk hennar m.a. að taka við kvörtunar- og kærumálum á hendur lögreglu, m.a. vegna starfsaðferða lögreglu eða framkomu starfsmanns  sem fer með lögregluvald, sbr. a-lið 1. mgr. 35. gr. a. laganna. Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið leitað til nefndarinnar með erindi yðar og brestur því lagaskilyrði til þess að hún verði tekin til frekari meðferðar að svo stöddu.

Í ljósi þess að gert er ráð fyrir að leitað sé þeirra leiða sem færar eru innan stjórnsýslunnar áður en umboðsmaður getur tekið mál fyrir eru ekki skilyrði til þess að fjalla um kvörtun yðar að svo stöddu. Ég bendi yður á að þér getið freistað þess að leita með kvörtunarefni yðar til nefndar um eftirlit með lögreglu. Ef þér kjósið að leita til nefndarinnar en teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni afstöðu hennar getið þér leitað til umboðsmanns að nýju. Með þessari ábendingu hef ég þó enga afstöðu tekið til til kvörtunarefnis yðar.

Með vísan til framangreinds læt ég máli yðar lokið af minni hálfu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.