Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11846/2022)

Kvartað var yfir töfum hjá ríkisskattstjóra á afgreiðslu umsóknar um endurgreiðslu virðisaukaskatts frá 12. október 2020. 

Í svari ríkisskattstjóra til umboðsmanns kom fram að nýverið hefði verið óskað eftir frekari gögnum frá viðkomandi. Að þeim fengnum yrði allt kapp lagt á að ljúka málinu innan tveggja vikna. Ekki var því ástæða fyrir umboðsmann til að aðhafast frekar að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 19. október 2022.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 15. september sl. sem beinist að ríkis­skattstjóra og lýtur að töfum á afgreiðslu umsóknar yðar frá 12. október 2020 um endurgreiðslu virðisaukaskatts.

Í tilefni af kvörtun yðar var ríkisskattstjóra ritað bréf 21. september sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvað liði meðferð og afgreiðslu málsins. Nú hafa borist svör frá ríkisskattstjóra 18. október sl. þar sem fram kemur að stofnunin hafi með bréfi 17. október sl. farið þess á leit við yður að þér legðuð fram frekari gögn. Þá er í svarinu tekið fram að að fengnum þeim gögnum verði allt kapp lagt á að ljúka málinu innan tveggja vikna. Loks er tekið fram að miklar annir hjá stofnuninni hafi tafið málið sem þó afsaki ekki þann drátt sem orðið hefur á meðferð málsins og er beðist velvirðingar á því.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum á afgreiðslu máls og í ljósi  áforma stofnunarinnar um að ljúka því á næstunni tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af henni að svo stöddu.

Lýk ég því meðferð minni á henni með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Verði frekari tafir á meðferð málsins getið þér leitað til mín á ný teljið þér ástæðu til þess.