Fangelsismál. Frumkvæðisathugun. Agaviðurlög. Þvagsýnataka. Upplýsingagjöf til fanga. Tilhögun við tilfærslu fanga á milli húsa og deilda í fangelsi. Birting reglna um áfangaheimili Verndar. Stjórnarskrá. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Evrópskar fangelsisreglur.

(Mál nr. 2805/1999)

Umboðsmaður ákvað að taka til athugunar að eigin frumkvæði tilgreinda þætti um réttarstöðu afplánunarfanga og meðferð mála hjá fangelsisyfirvöldum. Beindist athugun hans að reglum um agaviðurlög í fangelsum, lagagrundvelli þeirra og framkvæmd, reglum og framkvæmd við töku þvagsýna, upplýsingagjöf til fanga við komu þeirra til afplánunar, tilhögun við tilfærslu fanga á milli húsa og deilda í fangelsinu að Litla-Hrauni og að birtingu reglna fangelsismálastofnunar um vistun á áfangaheimili Verndar.

Umboðsmaður gerði grein fyrir því að hann hefði ákveðið að beina athugun sinni á þessu stigi að framangreindum atriðum sökum þess að þar reyndi á í hvaða mæli settar hefðu verið formlegar og birtar reglur sem liggja ættu til grundvallar framkvæmd stjórnvalda sem fjalla um málefni fanga. Tilvist slíkra reglna væri liður í að tryggja réttaröryggi þeirra sem sæta afplánun í fangelsum. Auk þess skipti það miklu fyrir þá aðila sem sinna eftirliti með stjórnsýslu á þessu sviði, eins og umboðsmann Alþingis, að geta sannreynt við athuganir sínar hvort afgreiðslur mála einstakra fanga væru í samræmi við slíkar fyrirfram settar reglur.

Umboðsmaður fjallaði samkvæmt þessu í fyrsta lagi um þær kröfur sem gera yrði til forms agaviðurlaga. Tók hann fram að athugun hans hefði leitt í ljós að agaviðurlögum væri nú beitt vegna brota fanga á „húsreglum“ sem settar hefðu verið einhliða af viðkomandi forstöðumanni. Taldi umboðsmaður að ekki væri hægt að fullyrða að lög nr. 48/1988, um fangelsi og fangavist, girtu fyrir að lægra sett stjórnvöld, s.s. fangelsismálastofnun eða eftir atvikum forstöðumenn einstakra fangelsa, settu við ákveðnar aðstæður almennar reglur um beitingu agaviðurlaga. Lagði hann þó áherslu á að þegar ekki nyti við skýrrar lagaheimildar væri það í betra samræmi við almenn réttaröryggissjónarmið sem dregin yrðu af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins og mannréttindareglum á þessu sviði að til grundvallar beitingu agaviðurlaga vegna agabrota lægi almenn stjórnvaldsfyrirmæli sett af ráðherra og birt með þeim opinbera hætti sem lög kvæðu á um. Benti hann á að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefði í þessu máli tekið fram að það hefði haft í hyggju að setja slíkar almennar reglur um notkun og beitingu agaviðurlaga gagnvart föngum og málsmeðferð slíkra mála á árinu 2000 en fyrirætlunum þessum hefði ekki verið fylgt eftir. Beindi hann þeim tilmælum til ráðuneytisins að það framkvæmdi sem fyrst þessi áform sín og að við setningu þeirra yrði fylgt þeim sjónarmiðum sem gerð væru grein fyrir í álitinu.

Þá fjallaði umboðsmaður almennt um kröfur sem gera yrði til efnislegs inntaks reglna um agaviðurlög. Tók hann fram að við skýringu laga nr. 48/1988 um þetta atriði hefði hann tekið nokkurt tillit til ákvæða 35. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna. Var það niðurstaða umboðsmanns að í reglum sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið áformar að setja væri rétt að afstaða yrði tekin til þess hvaða athafnir, eða eftir atvikum athafnaleysi, ætti að leiða til beitingar agaviðurlaga og þá nánar til hvaða tegundar slíkra viðurlaga. Þá væri rétt að tekin yrði afstaða til þess hvert skuli vera leyfilegt hámark einstakra tegunda agaviðurlaga.

Umboðsmaður fjallaði almennt um svokallað „pakkafyrirkomulag“ við ákvörðun tegundar og umfangs agaviðurlaga. Taldi hann það vafasamt að umrætt fyrirkomulag væri alfarið í samræmi við þann lagagrundvöll sem ákvarðanir um agaviðurlög ættu að byggjast á. Beindi hann þeim tilmælum til ráðuneytisins að það léti fara fram athugun á því hvort ekki væri rétt og nauðsynlegt að gera breytingar á framkvæmd ákvarðana um agaviðurlög að þessu leyti að teknu tilliti til þeirra sjónarmiða sem rakin væru í álitinu um þetta atriði.

Þá fjallaði hann um málsmeðferðarreglur við framkvæmd agaviðurlaga samkvæmt lögum nr. 48/1988. Benti hann á að ekki hefðu verið sett nánari fyrirmæli um meðferð mála þegar fyrir lægi grunur um agabrot. Þá hefði athugun hans leitt í ljós að ekki væru til staðar skráðar reglur um meðferð mála í slíkum tilvikum í „húsreglum“ fangelsa eða í öðrum almennum fyrirmælum settum af fangelsisyfirvöldum. Lýsti hann sjónamiðum sínum um skýringu ákvæða laganna um rannsóknarskyldu fangelsisyfirvalda, einkum í tilefni af ákvörðun um að setja fanga í einangrun. Að því er varðaði beitingu einangrunar sem einni tegund agaviðurlaga var það niðurstaða umboðsmanns að í ljósi eðlis þess úrræðis sem einangrun væri í samanburði við önnur agaviðurlög yrði að miða við að gerðar væru ríkar kröfur til stjórnvalda um að mál væri nægjanlega upplýst áður en til greina kæmi að beita einangrun og að sú ráðstöfun gengi ekki lengra en nauðsyn bæri til. Taldi hann að almennt yrði að leggja til grundvallar að ef ekki væri gerður reki að því að fá fram sjónarmið læknis um líkamlegt og andlegt ástand fanga áður en honum væri gert að sæta einangrun á grundvelli 30. eða 31. gr. laga nr. 48/1988 leiddi það til þess að meðferð málsins yrði ekki talin uppfylla lagakröfur um rannsókn máls. Þá var það niðurstaða hans að með því að fanga væri ekki tryggð nauðsynleg læknisþjónusta við vistun hans í fangelsi, og þá einkum þegar honum væri gert að sæta einangrun, ættu stjórnvöld á hættu að meðferð slíks máls yrði talin brjóta í bága við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Í álitinu fjallaði umboðsmaður um birtingu reglna fangelsismálastofnunar um afplánun fanga á áfangaheimili Verndar. Lagði hann áherslu á að umræddar reglur væru opinbers eðlis og tækju til samskipta fanga og stjórnvalda í tilefni af beitingu tiltekins lögbundins úrræðis. Sökum þessa og í ljósi réttaröryggissjónarmiða taldi hann það betur í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að slíkar reglur væru birtar með almennum og opinberum hætti. Beindi hann því þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að það léti fara fram athugun á því hvort ekki væri rétt að færa umræddar reglur í búning almennra stjórnvaldsfyrirmæla sem birtar væru í B-deild Stjórnartíðinda samkvæmt lögum nr. 64/1943, um birtingu laga og stjórnvaldaerinda.

Þá fjallaði umboðsmaður um þau almennu sjónarmið sem hafa þyrfti í huga við framkvæmd lagareglna sem gilda um töku þvagsýna hjá föngum. Var það niðurstaða hans að skýra yrði ákvæði 1. mgr. 29. gr. laga nr. 48/1988, þar sem heimilt er að taka þvag- og blóðsýni úr fanga, með þeim hætti, með tilliti til sjónarmiða um áhrif meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins við þessar aðstæður, að ef vafi léki á því hvort nauðsynlegt væri að beita slíku úrræði yrðu stjórnvöld að láta hjá líða að framkvæma það. Taldi umboðsmaður að miða yrði við það sem meginreglu við framkvæmd þvagsýnatöku að rökstuddur grunur yrði að liggja fyrir um fíkniefnaneyslu áður en ákvörðun væri tekin um að framkvæma slíkt úrræði. Féllst hann á að 1. mgr. 29. gr. laga nr. 48/1988 girti ekki fyrir það að heimilt kynni að verða að framkvæma slíka ráðstöfun í ákveðnum almennum tilvikum án þess að rökstuddur grunur lægi fyrir um neyslu fíkniefna. Gera yrði þó þá kröfu að skýrlega lægi fyrir að framkvæmdin væri reist á sjónarmiðum sem með beinum og málefnalegum hætti tengdust tilgangi þess og gengi ekki lengra en nauðsyn bæri til. Umboðsmaður gerði ekki athugasemdir við það að jafnan væri tekið þvagsýni úr föngum við komu þeirra í fangelsi. Taldi hann það styðjast við málefnaleg sjónarmið að gera fanga að gefa þvagsýni við endurkomu í fangelsi úr dagsleyfi. Á hinn bóginn var það niðurstaða hans að vafasamt væri að byggt væri á almennri reglu þess efnis að allir fangar skyldu sæta þvagsýnatöku áður en þeir færu í dagsleyfi án þess að fyrir lægi grunur um neyslu fíkniefna. Þá taldi umboðsmaður heimild til töku þvagsýna í tilefni af reglubundnu eftirliti til að fylgjast með neyslu fíkniefna yrði ekki leidd af orðalagi 1. mgr. 29. gr. laga nr. 48/1988 án þess að málefnalegt og rökstutt tilefni væri til að ætla að viðkomandi fangi stundaði fíkniefnaneyslu. Hins vegar taldi hann ekki tilefni til að gera athugasemdir við að tekið væri þvagsýni úr fanga þegar hann væri fluttur úr öryggisdeild á almenna deild að því tilskildu að grundvöllur slíkrar ráðstöfunar væri sá sami og byggt væri á þegar tekin væru þvagsýni úr fanga við komu hans í fangelsið. Beindi hann þeim tilmælum til ráðuneytisins að það sæi til þess að ákvarðanir um töku þvagsýna og meðferð slíkra mála yrði hagað í samræmi við framangreind sjónarmið.

Umboðsmaður fjallaði um upplýsingagjöf til fanga við móttöku þeirra í afplánun. Gerði hann athugasemdir við það að þær upplýsingar sem fangar fá við móttöku í fangelsi væru ekki samræmdar og þeim búinn staður í einum samfelldum upplýsingapakka. Einnig lagði hann áherslu á að hraðað yrði fyrirætlan stjórnvalda um að útbúa slíkan upplýsingapakka, sem fangar á Litla-Hrauni fá við móttöku þeirra, fyrir önnur fangelsi. Þá benti hann á að fangelsisyfirvöld hefðu lýst því yfir að unnið hefði verið að því að útbúa upplýsingabækling handa íslenskum og erlendum föngum en því verki væri ekki lokið. Beindi hann þeim tilmælum til ráðuneytisins að leitast yrði við að framkvæma nefndar ráðstafanir til bættrar upplýsingagjafar til fanga sem fyrst. Þá voru það tilmæli hans til ráðuneytisins að það sæi til þess að upplýsingum um möguleika fanga til að leita til umboðsmanns Alþingis í trúnaði, skriflega eða símleiðis, yrði bætt við þau gögn sem fangar fá afhent við móttöku í afplánun og að þar fylgi heimilisfang skrifstofu hans eða símanúmer.

Umboðsmaður taldi þessu næst að ganga yrði út frá því sem meginreglu að lágmarksréttindi þau sem fram kæmu í stjórnsýslulögum ættu að jafnaði við um ákvarðanir fangelsisyfirvalda um rétt eða skyldu fanga. Enda þótt 10. gr. laga nr. 48/1988 gerði beinlínis ráð fyrir því að fangelsisyfirvöld gætu tekið ákvarðanir um tilflutning fanga á milli húsa og deilda í fangelsi, meðal annars vegna hegðunar fanga, taldi hann að með því yrði ekki slegið föstu að slíkar ákvarðanir væru ekki stjórnvaldsákvarðanir í merkingu stjórnsýslulaga. Var það niðurstaða hans að hefði ákvörðun um tilfærslu fanga veruleg áhrif á líf hans sökum þess að hún væri tekin gegn vilja hans, vegna hegðunar hans og leiddi til verri aðbúnaðar fyrir hann, væri ekki útilokað að slík ákvörðun teljist hafa slík áhrif á „rétt“ fanga að hún teldist stjórnvaldsákvörðun sem félli undir 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Taldi hann að haga bæri hinni almennu framkvæmd þessara mála þannig að vafi leiddi frekar en ekki til þess að reglum stjórnsýslulaga yrði fylgt við undirbúning og töku slíkrar ákvörðunar. Þyrftu stjórnvöldu í þessu efni að gæta þess að haga störfum sínum með þeim hætti að fylgt væri vönduðum stjórnsýsluháttum. Tók hann fram að þetta leiddi hins vegar ekki til þess að útilokað væri að tilfærsla fanga á milli húsa og deilda gæti í ákveðnum tilvikum, meðal annars vegna hreinna skipulagsákvarðana, verið talin ákvörðun sem félli utan þess að vera stjórnvaldsákvörðun í merkingu stjórnsýslulaga.

Umboðsmaður ítrekaði að dóms- og kirkjumálaráðuneytið og fangelsismálastofnun hefðu lýst því yfir í tilefni af þessari frumkvæðisathugun hans að þau hefðu haft í hyggju að framkvæma tilteknar ráðstafanir, bæði um setningu almennra reglna um ákveðin atriði og einnig að því er varðar framkvæmdaratriði. Lagði hann áherslu á að enn hefði ekki orðið af þessum fyrirætlunum. Sökum þessa tók umboðsmaður loks fram að niðurstöður hans í þessu áliti leiddu einkum í ljós mikilvægi þess að ráðuneytið og fangelsismálastofnun myndu framkvæma eins fljótt og unnt væri umræddar fyrirætlanir. Þá gerði hann grein fyrir því að það yrði áhersluatriði í störfum hans og frekari athugunum á málefnum fanga að fylgja því eftir.

EFNISYFIRLIT:



I. Frumkvæðisathugun

II. Fyrirspurn umboðsmanns og skýringar stjórnvalda

III. Almennt um lagareglur á sviði fangelsismála

IV. Agaviðurlög

1. Inngangur

2. Almenn atriði

3. Reglur um agaviðurlög og framkvæmd þeirra

3.1. Inngangur

3.2. Form reglna um agaviðurlög

3.2.1. Ákvæði Evrópsku fangelsisreglnanna

3.2.2. Söguleg þróun reglna um agaviðurlög

3.2.3. Kröfur til forms reglna um agaviðurlög

3.3. Efnislegt inntak reglna um agaviðurlög

3.4. „Pakkafyrirkomulag“ við ákvörðun tegundar og umfangs agaviðurlaga

3.5. Reglur um málsmeðferð við framkvæmd agaviðurlaga

V. Birting reglna um vistun á áfangaheimili Verndar

VI. Reglur og framkvæmd við töku þvagsýna

VII. Upplýsingagjöf til fanga við móttöku í afplánun

VIII. Tilfærsla fanga á milli húsa og deilda á Litla-Hrauni

IX. Fyrirætlanir stjórnvalda um setningu almennra reglna o.fl.

X. Niðurstöður



I.

Frumkvæðisathugun

Málefni fanga og ákvarðanir stjórnvalda um meðferð mála þeirra sem sæta afplánun hafa frá því að umboðsmaður Alþingis tók til starfa verið einn stærsti einstaki málaflokkur þeirra kvartana sem umboðsmanni hafa borist. Þá er algengt að fangar leiti til skrifstofu umboðsmanns með fyrirspurnir símleiðis. Umboðsmaður hefur einnig heimsótt fangelsi, kynnt sér aðstæður þar og rætt við fanga og starfsfólk.

Í ljósi framangreinds ákvað ég samkvæmt heimild í 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að taka til skoðunar að eigin frumkvæði ákveðna þætti í réttarstöðu afplánunarfanga og meðferð mála hjá fangelsisyfirvöldum og hefur sú athugun sem ég lýk með áliti þessu nánar tiltekið beinst að eftirfarandi atriðum:



· Reglum um agaviðurlög í fangelsum, lagagrundvelli þeirra og framkvæmd.

· Reglum og framkvæmd við töku þvagsýna.

· Upplýsingagjöf til fanga við komu þeirra til afplánunar.

· Tilhögun við tilfærslu fanga á milli húsa og deilda í fangelsinu að Litla-Hrauni.

· Birting reglna fangelsismálastofnunar um vistun á áfangaheimili Verndar.



Ástæða þess að ég valdi að beina athugun minni að þessum atriðum er að þar reynir á í hvaða mæli settar hafa verið formlegar og birtar reglur sem liggja til grundvallar framkvæmd fangelsisyfirvalda. Tilvist slíkra reglna er liður í því að tryggja réttaröryggi þeirra sem sæta afplánun í fangelsum. Auk þess skiptir það miklu fyrir þá aðila sem sinna eftirliti með stjórnsýslu á þessu sviði eins og umboðsmann Alþingis að geta sannreynt við athuganir sínar hvort afgreiðslur mála einstakra fanga séu í samræmi við slíkar fyrirfram settar reglur.

Við upphaf þessarar athugunar, sem tilkynnt var dóms- og kirkjumálaráðuneytinu með bréfi, dags. 3. ágúst 1999, beindist athugun mín einnig að réttarstöðu gæsluvarðhaldsfanga en ég hef nú ákveðið að fjalla um það mál í sérstöku frumkvæðismáli og verða bréfaskipti mín og fangelsisyfirvalda þar að lútandi rakin í því máli.

Vegna framangreindrar frumkvæðisathugunar hef ég heimsótt ríkisfangelsin að Litla-Hrauni, að Kópavogsbraut 17 og hegningarhúsið á Skólavörðustíg. Voru aðstæður og aðbúnaður í fangelsunum kannaðar og rætt við starfsmenn þeirra og fanga ásamt því að veita einstökum föngum, sem þess óskuðu, kost á viðtali. Þá voru mér afhent tiltekin gögn um starfsemina meðal annars viðeigandi „húsreglur“. Auk þess hef ég átt fundi með dóms- og kirkjumálaráðherra, starfsmanni ráðuneytisins og forstjórum fangelsismálastofnunar þar sem efni athugunarinnar var rætt.

Þess skal getið að í tengslum við þá almennu athugun sem lýst er í áliti þessu heimsótti ég og starfsmaður minn umboðsmann danska þjóðþingsins og kynntum okkur hvernig þar er staðið að eftirliti með málefnum fanga. Liður í því var að taka þátt í úttekt og athugun á tveimur fangelsum í Danmörku. Þá hafa málefni fanga og eftirlit umboðsmanna með stjórnsýslu á því sviði verið til umræðu á ýmsum sameiginlegum fundum umboðsmanna þjóðþinga og nú síðast á fundi umboðsmanna í Evrópu sem umboðsmaður Evrópusambandsins boðaði til í samvinnu við umboðsmennina í Belgíu í september sl.

Þá minni ég á að ákvarðanir stjórnvalda um málefni fanga og reglur um framkvæmd þeirra mála hafa iðulega verið viðfangsefni Mannréttindadómstóls Evrópu. Meðal annars vegna þessa er lögfesting mannréttindasáttmála Evrópu hér á landi með lögum nr. 62/1994 sérstakt tilefni til þess að huga að því hvernig framkvæmd íslenskra stjórnvalda í þessum málum fellur að ákvæðum sáttmálans og þeirri túlkun hans sem liggur fyrir í niðurstöðum dómstólsins.

Eins og áður greindi var dóms- og kirkjumálaráðuneytinu tilkynnt um að ég hefði ákveðið að hefja þessa athugun að eigin frumkvæði með bréfi, dags. 3. ágúst 1999. Ráðuneytið svaraði þessu bréfi mínu með bréfi, dags. 16. nóvember 1999, að fenginni greinargerð fangelsismálastofnunar, dags. 28. september 1999. Það eru því liðin rúm tvö ár frá því að ég tilkynnti ráðuneytinu um upphaf þessarar athugunar. Í svörum ráðuneytisins komu meðal annars fram ráðagerðir um að setja reglur um ákveðin atriði, þar með talið tilteknar reglur á árinu 2000, og ákveðnar úrbætur á þeim sviðum sem fyrirspurnir mínar beindust að. Í samræmi við þau lagasjónarmið sem starf umboðsmanns Alþingis byggir á hef ég lagt áherslu á að í þeim tilvikum þegar stjórnvöld lýsa vilja til að bæta úr þeim atriðum sem til athugunar eru hjá mér fái þau hæfilegan tíma til þess áður en til frekari athugunar kemur af minni hálfu. Vegna þeirrar afstöðu sem lýst hafði verið af hálfu ráðuneytisins og fangelsismálastofnunar kaus ég að bíða um stund með athugun mína á málinu og fylgjast með framgangi hinna boðuðu áforma af hálfu stjórnvalda. Eftirgrennslan mín leiddi hins vegar í ljós að þessi áform stjórnvalda hafa ekki gengið eftir enn. Ég taldi því ekki rétt að bíða lengur með að ljúka athugun minni á málinu.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 27. nóvember 2001.



II.

Fyrirspurn umboðsmanns og skýringar stjórnvalda

Með svohljóðandi bréfi, dags. 3. ágúst 1999, tilkynnti ég dóms- og kirkjumálaráðuneytinu að ég hefði ákveðið að hefjast handa með frumkvæðisathugun þessa og óskaði af því tilefni eftir skýringum ráðuneytisins. Bréf mitt var meðal annars svohljóðandi:



„1.

Reglur um agaviðurlög og framkvæmd þeirra.

Í áliti umboðsmanns Alþingis frá 20. nóvember 1996 í málinu nr. 1506/1995 (SUA 1996:120) vék umboðsmaður að ákvæðum Evrópsku fangelsisreglnanna sem samþykktar voru af ráðherranefnd Evrópuráðsins 12. febrúar 1987. Um reglur þessar segir m.a. svo í álitinu:



„[Evrópskum fangelsisreglum] var komið á framfæri við aðildarríki Evrópuráðsins með tilmælum ráðherranefndar ráðsins frá 12. febrúar 1987 (Recommendation No (87) 3) og þær fela í sér lágmarksvernd til handa föngum. Þær fela ekki í sér beinar skuldbindingar að þjóðarétti. Ekki hefur komið fram, að íslensk stjórnvöld hafi gert neinn fyrirvara að því er þær snertir. Samkvæmt því og með hliðsjón af efni þessara reglna verður að telja, að yfirvöldum fangelsismála hér á landi beri í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að gæta þeirra í störfum sínum.“



Í Evrópskum fangelsisreglum er fjallað um „aga og refsingar“ í ákvæðum 33.- 40. gr. reglnanna. Ákvæði 35. gr. reglnanna fjallar sérstaklega um agaviðurlög í fangelsum og er svohljóðandi:



„Í lögum og reglugerðum þar til bærra yfirvalda skal kveða á um:

a. hver háttsemi teljist agabrot,

b. hverri refsingu megi beita, og um hvern tíma,

c. hvaða yfirvöld megi leggja á slíkar refsingar,

d. hvernig áfrýja megi, og hvert sé valdssvið þess sem áfrýjað er til.“



Í skýringariti með Evrópsku fangelsisreglunum, sem gefið var út á vegum Evrópuráðsins á árinu 1987 og endurútgefið á árinu 1994, er vikið að ákvæði 35. gr. á bls. 48. Þar segir m.a. að með ákvæðinu sé lögð áhersla á þann lagagrundvöll sem reglur um beitingu agaviðurlaga þurfi að styðjast við.

Um fangelsi og fangavist gilda lög nr. 48/1988, með síðari breytingum. Um beitingu agaviðurlaga fer nú eftir ákvæðum V. kafla laganna, sem ber heitið „öryggi í fangelsum og agaviðurlög“. Í ákvæði 31. gr. laganna kemur fram að heimilt sé að beita nánar tilgreindum agaviðurlögum vegna brota á „reglum fangelsis“, m.a. einangrun í allt að 30 daga, sbr. 4. tölul. ákvæðisins. Með 4. mgr. 35. gr. er forstöðumanni fangelsis fengið vald til þess að kveða á um hvort beita skuli agaviðurlögum. Fram kemur sú skylda hans að ganga úr skugga um hvernig broti var háttað með því að yfirheyra fangann og með annarri rannsókn eftir aðstæðum áður en hann tekur ákvörðun um agaviðurlög. Þá skulu ákvarðanir um agaviðurlög bókaðar og birtar fanga í viðurvist vitnis samkvæmt 1. málsl. 5. mgr. 31. gr. Samkvæmt 2. málsl. 5. mgr. 31. gr. laganna sætir ákvörðun um agaviðurlög kæru til dómsmálaráðuneytisins og er skylt að skýra fanga frá því um leið og ákvörðun er birt. Tekið er fram að þegar ákvörðun er kærð skuli gögn málsins þegar send ráðuneytinu. Ráðuneytinu er síðan skylt að taka ákvörðun innan tveggja sólarhringa frá því að kæra barst, ella fellur ákvörðun úr gildi.

Ég minni á að ákvarðanir fangavarða og forstöðumanns fangelsis við málsmeðferð og beitingu agaviðurlaga eru stjórnvaldsákvarðanir í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Um þær fer því eftir málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga að því leyti sem eigi er kveðið strangar á um málsmeðferð í lögum nr. 48/1988, um fangelsi og fangavist, sbr. 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga. Þá verða ákvarðanir fangavarða og forstöðumanns að vera reistar á málefnalegum sjónarmiðum og meginreglum stjórnsýslulaga um jafnræði og meðalhóf. Að því er varðar meðalhófsregluna sérstaklega vek ég athygli á þýðingu hennar við beitingu þeirra úrræða sem tæk eru að lögum við meðferð fanga, enda geta þau oft og tíðum haft í för með sér beina líkamlega valdbeitingu og aðrar aðgerðir sem ætla verður að geti haft mikil áhrif á daglegt líf hlutaðeigandi fanga, s.s. einangrun og sviptingu ýmissa réttinda sem þeir njóta í fangelsinu.

Með hliðsjón af þeim atriðum sem rakin eru hér að framan óska ég þess með vísan til 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneyti yðar geri grein fyrir sjónarmiðum sínum í tilefni af eftirfarandi spurningum er lúta að ofangreindum lagareglum og framkvæmd agaviðurlaga í íslenskum fangelsum. Þá óska ég þess að ráðuneytið sendi mér nauðsynleg gögn til skýringar á svörum sínum, sbr. 7. gr. laga nr. 85/1997:



1. Óskað er eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort og þá með hvaða hætti það telji ákvæði 31. gr. laga nr. 48/1988, um fangelsi og fangavist, með síðari breytingum, fullnægja þeim kröfum til lagaheimilda fyrir beitingu agaviðurlaga í fangelsum sem fram koma í tilvitnuðu ákvæði 35. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna.

2. Hvernig er háttað framkvæmd ákvæðis 1. mgr. 31. gr. laga nr. 48/1988, einkum með tilliti til birtingar og kynningar á „reglum fangelsis“ sem liggja til grundvallar agaviðurlögum?

3. Óskað er eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort og þá með hvaða hætti sú framkvæmd ákvæðis 1. mgr. 31. gr. laga nr. 48/1988, að húsreglur fangelsa séu alfarið lagðar til grundvallar við beitingu agaviðurlaga, sé annars vegar í samræmi við lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins einkum að því er varðar kröfur um lagagrundvöll íþyngjandi stjórnvaldsákvarðana, og hins vegar vandaða stjórnsýsluhætti með tilliti til lámarksskilyrðis 35. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna um að reglur um agaviðurlög komi fram í „lögum og reglugerðum þar til bærra yfirvalda“.

4. Óskað er eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort og þá með hvaða hætti efni húsreglna fangelsa fullnægi þeim lágmarkskröfum sem fram koma í 35. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna, en þar segir að lýsing þeirrar háttsemi sem teljist agabrot og hverri refsingu megi beita, og um hvern tíma, skuli koma fram í lögum og reglugerðum þar til bærra yfirvalda.

5. Óskað er eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort og þá með hvaða hætti það telji að ákvæði 31. gr. laga nr. 48/1988, að því leyti sem það heimilar forstöðumanni fangelsis að kveða á um agaviðurlög og þá sérstaklega einangrun fanga í allt að 30 daga vegna agabrots, sé í samræmi við 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu, með síðari breytingum. Ég minni í þessu sambandi á álit umboðsmanns Alþingis frá 21. september 1990 í málinu nr. 170/1989 (SUA 1990:97).

6. Hvernig er almennt háttað málsmeðferð í fangelsum landsins þegar agaviðurlögum er beitt? Óskað er af þessu tilefni eftir lýsingu á málsmeðferðinni frá því grunur vaknar um að brot á agareglum hafi verið framið og til þess er ákvörðun um agaviðurlög liggur fyrir, og þá eftir atvikum framkvæmd þeirra ef hún hefur átt sér stað áður en endanleg ákvörðun um beitingu agaviðurlaga liggur fyrir.

7. Óskað er eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort og þá með hvaða hætti það telji að málsmeðferð við beitingu agaviðurlaga í fangelsum fullnægi almennt kröfum 2. málsl. 4. mgr. 31. gr. laga nr. 48/1988, og meginreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, m.a. um rannsóknarskyldu, andmælarétt, jafnræði og meðalhóf. Ég óska þess að mér verði send gögn sem fyrir liggja til upplýsingar um þetta atriði.

8. Hvaða sjónarmið eru lögð til grundvallar þegar ákveðið er að taka þvagsýni úr afplánunarföngum? Ég óska eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort og þá með hvaða hætti það telji að þau sjónarmið sem lögð eru til grundvallar við töku ákvarðana um þvagsýnatöku séu í samræmi við meginreglur stjórnsýslulaga um jafnræði og meðalhóf, sbr. 11. og 12. gr. laganna.

9. Óskað er eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort og þá með hvaða hætti það telji að málsmeðferð við töku ákvarðana um einangrunarvistun fullnægi lágmarkskröfum 3. mgr. 38. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna? Ég óska þess að mér verði send viðeigandi gögn til upplýsingar um þetta atriði. [...]



[2.]

Upplýsingagjöf til fanga við móttöku í afplánun.

Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna skal hverjum fanga við móttöku látnar í té skriflegar upplýsingar um þær reglur sem gilda um meðferð fanga í þeim hóp sem fanginn tilheyrir, agakröfur stofnunarinnar, réttar leiðir til öflunar upplýsinga og til að leggja fram kvartanir. Jafnframt um öll önnur málefni sem þörf er á til að hann skilji réttindi og skyldur fanga og aðlagist lífsháttum innan stofnunarinnar. Þá kemur fram í 2. mgr. 41. gr. reglnanna að ef fangi skilur ekki hinar skriflegu upplýsingar sem honum er látnar í té skuli þær skýrðar fyrir honum munnlega. Að því er varðar erlenda fanga skal að auki getið lokamálsl. 45. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna þar sem kveðið er á um sérstakar ráðstafanir til að sinna þörfum erlendra fanga að því er varðar möguleika þeirra á að fylgjast með fréttum m.a. með lestri dagblaða, tímarita og annarra rita, ef um tungumálaörðugleika er að ræða.

[...] Þá tek ég sérstaklega fram að eigi er að finna skráðar reglur í íslenskum lögum eða reglugerðum um upplýsingagjöf til fanga við móttöku í afplánun. Með hliðsjón af því, og með tilliti til ofangreindra ákvæða Evrópsku fangelsisreglnanna, óska ég þess að ráðuneyti yðar geri grein fyrir skýringum sínum við eftirfarandi spurningar og láti mér í té þau gögn sem fyrir liggja og veita frekari upplýsingar um þessi atriði:



1. Eru til skráðar reglur um upplýsingagjöf til fanga við komu þeirra til afplánunar? Ef svo er óska ég eftir því að mér verði sent afrit af þeim reglum.

2. Hvernig er háttað framkvæmd við upplýsingagjöf til fanga við móttöku þeirra í afplánun?

3. Óskað er eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort og þá með hvaða hætti það telji framkvæmd fangelsisyfirvalda við upplýsingagjöf til fanga við móttöku þeirra í afplánun fullnægi lágmarksskilyrðum 1. mgr. 41. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna?

4. Hvernig er háttað upplýsingagjöf til erlendra fanga og þeirra sem sæta gæsluvarðhaldsvist í íslenskum fangelsum?

5. Óskað er eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort og þá með hvaða hætti það telji að framkvæmd fangelsisyfirvalda við upplýsingagjöf til erlendra afplánunar- og gæsluvarðhaldsfanga fullnægi lágmarksskilyrðum 2. mgr. 45. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna.

6. Hvaða ráðstafanir eru gerðar til þess að gefa erlendum afplánunarföngum og gæsluvarðhaldsföngum kost á að fylgjast með fréttum m.a. með lestri dagblaða, tímarita og annarra rita, ef um tungumálaörðugleika er að ræða? Óskað er eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort og þá með hvaða hætti það telji þá framkvæmd fullnægja lokamálsl. 45. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna?



[…]



[3.]

Tilhögun við tilfærslu fanga milli húsa og deilda í fangelsinu að Litla-Hrauni.

Í heimsókn kjörins umboðsmanns Alþingis og starfsmanna hans í fangelsið að Litla-Hrauni í október 1998 kom í ljós að komið hafði verið á fót 11 klefa deild, svonefndri „fíkniefnalausri deild“ sem stundum er kölluð „fyrirmyndarfangadeildin“. Er hún staðsett á efstu hæð húss nr. 4. Fangar, sem þar eru, njóta ýmissa réttinda og fríðinda, s.s. meiri aðgangs að leikfimisal, fleiri heimsókna, nánast ótakmarkaðs aðgangs að síma og aðgangs að myndbandaleigu. Eru þessi réttindi veitt fyrir „fyrirmyndarhegðun“.

Ég minni hér á ofangreinda umfjöllun um lagagrundvöll ákvarðana fangavarða og forstöðumanna fangelsa og kröfur sem gerðar eru til slíkra ákvarðana samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Með tilliti til eðlis þeirra ákvarðana sem hér um ræðir, þ.e. tilfærslu fanga á milli húsa og deilda tengdri hegðun þeirra í vistinni, tel ég rétt að minna sérstaklega á meginreglu 11. gr. stjórnsýslulaga um jafnræði, og þýðingu hennar í þessu tilviki að því er varðar þær kröfur sem hún gerir til þess að sambærileg tilvik njóti sambærilegrar meðferðar.

Með hliðsjón af því sem rakið er hér að framan óska ég eftir afstöðu ráðuneytisins til eftirgreindra spurninga, og sendi mér viðeigandi gögn sem nauðsynleg eru til frekari upplýsingar á svörum sínum:



1. Hafa verið settar skráðar reglur um tilhögun við tilfærslu fanga á milli húsa og deilda í fangelsinu að Litla-Hrauni? Ef svo er þá óska ég eftir því að mér verði gerð grein fyrir hvort og þá með hvaða hætti þessar reglur hafi verið kynntar föngum.

2. Hvaða sjónarmið eru lögð til grundvallar við töku ákvarðana um tilfærslu fanga „upp á við“ eða „niður á við“ á milli húsa og deilda í fangelsinu að Litla-Hrauni? Óskað er eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort og þá með hvaða hætti það telji að þessi sjónarmið séu í samræmi við meginreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um jafnræði og meðalhóf, sbr. 11. og 12. gr. laganna.

3. Hvernig er háttað málsmeðferð við töku ákvarðana um tilfærslu fanga á milli húsa og deilda í fangelsinu að Litla-Hrauni? Óskað er eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort og þá með hvaða hætti það telji að þessi málsmeðferð samrýmist ákvæðum stjórnsýslulaga, m.a. um leiðbeiningarskyldu, rannsóknarskyldu og andmælarétt.“



Í svarbréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 16. nóvember 1999, kemur fram að ráðuneytið hafi farið þess á leit við fangelsismálastofnun að hún léti ráðuneytinu í té svör í tilefni af spurningum mínum, sbr. bréf stofnunarinnar til ráðuneytisins 28. september 1999. Jafnframt segir í bréfi ráðuneytisins til mín að það geri svör fangelsismálastofnunar í bréfi, dags. 28. september 1998, að sínum.

Í bréfi sínu til mín bætir ráðuneytið þó við að það telji að þrátt fyrir þá skoðun fangelsismálastofnunar að húsreglur fangelsanna teljist fullnægjandi stjórnsýslufyrirmæli, og þar með næg lagaheimild til grundvallar agaviðurlögum, hyggist ráðuneytið taka af tvímæli í þessum efnum og sjá til þess að á árinu 2000 verði settar almennar reglur um notkun og beitingu agaviðurlaga gagnvart föngum og málsmeðferð slíkra mála, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um fangelsi og fangavist.

Í umræddu svarbréfi fangelsismálastofnunar til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 28. september 1999, í tilefni af athugun minni, eru færðar fram skýringar og upplýsingar í 5 liðum sem eru að meginstefnu til í samræmi við efnisskipan bréfs míns 3. ágúst 1999. Hef ég því ákveðið að taka hér á eftir orðrétt upp efni bréfs fangelsismálastofnunar í viðeigandi köflum þessa álits.

Ég tel rétt að taka fram að á þeim tíma sem ákvörðun var tekin af minni hálfu, sbr. framangreint bréf mitt til dóms- og kirkjumálaráðherra, dags. 3. ágúst 1999, að hefja athugun að eigin frumkvæði í málefnum fanga, voru til meðferðar hjá mér meðal annars 5 kvartanir einstakra fanga. Ritaði ég einnig fyrirspurnarbréf til dóms- og kirkjumálaráðherra 3. ágúst 1999 vegna þessara mála. Að því marki sem þessar kvartanir lutu hins vegar að atriðum sem tengdust frumkvæðisathugun minni tók ég fram í niðurlagi þessara bréfa til ráðherra að þess væri óskað af minni hálfu að afstaða og skýringar, er lytu að öðru leyti að þeim atriðum sem frumkvæðisathugun mín tæki til, yrðu settar fram í svarbréfi ráðuneytisins í tilefni af þeirri athugun. Í ljósi þessa tek ég í viðeigandi köflum þessa álits orðrétt upp þær skýringar sem fylgdu bréfum ráðherra, og eftir atvikum fangelsismálastofnunar, af framangreindu tilefni.



III.

Almennt um lagareglur á sviði fangelsismála



Um fangelsi og fangavist gilda lög nr. 48/1988, með síðari breytingum. Voru þetta fyrstu heildstæðu lögin á þessu sviði. Áður var fjallað um framkvæmd refsivistar í V. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Meginákvæði um refsivistarstofnanir var hins vegar að finna í lögum nr. 38/1973, um fangelsi og vinnuhæli.

Í almennum athugasemdum greinargerðar við frumvarp það er varð að lögum nr. 48/1988 kemur fram að nauðsynlegt hafi þótt að um fangelsi og fangavist giltu ein heildarlög þar sem skil milli ákvæði V. kafla almennra hegningarlaga og laga um fangelsi og vinnuhæli væru óljós. Þá hafi þótt nauðsynlegt að lögfesta ýmis ákvæði um réttarstöðu fanga sem miðað við framangreinda skiptingu hefðu átt að vera í V. kafla almennra hegningarlaga en að ekki hafi þótt viðeigandi að hafa þau í þeim lögum. Auk þess sagði í athugasemdunum að frumvarpið tæki mið af þáverandi aðstæðum hér á landi í fangelsismálum og hefði það ekki í för með sér grundvallarbreytingar á framkvæmd fullnustu óskilorðsbundinna refsidóma. Hafi við samningu þess verið höfð hliðsjón af norrænni löggjöf á þessu sviði. (Alþt. 1987-1988, A-deild, bls. 2087.)

Ég hef í þessari athugun minni á framangreindum atriðum um málefni fanga horft nokkuð til þróunar á þessu réttarsviði á Norðurlöndum og einnig á vettvangi alþjóðlegs samstarfs ríkja. Kemur þetta nánar fram í umfjöllun minni í köflum IV-VIII.

Ég tek fram að við athugun mína á þessum atriðum hef ég orðið þess var að lagaákvæði og almenn stjórnsýslufyrirmæli hér á landi á sviði fangelsismála er um margt fábrotnari og sundurleitari heldur en í samsvarandi löggjöf í Danmörku og Noregi, einkum að því er varðar reglur um agaviðurlög og meðferð mála í tilefni af atvikum og aðstæðum sem upp koma í daglegum samskiptum fanga og fangelsisyfirvalda. Hið sama á einnig við um stjórnsýslufyrirmæli og almennar vinnureglur. Leiðir þessi aðstaða til þess að nauðsynlegt sé að horfa til þeirra reglna, viðmiða og mælikvarða sem mótaðir hafa verið í milliríkjasamstarfi, s.s. í Evrópsku fangelsisreglum og samningi Evrópuráðsins um varnir gegn pyndingum og annarri ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Þá verður einnig að taka tillit til úrlausna alþjóðlegra stofnana á vettvangi Evrópuráðsins, s.s. Mannréttindadómstóls Evrópu og pyndingarnefndar Evrópuráðsins, þegar leitast er við að skýra nánar íslenskar lagareglur.

Ég minni á að umboðsmanni Alþingis er samkvæmt 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, ætlað að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Skal hann gæta þess að hún fari fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Þetta lagaákvæði byggir á því að auk laga og skráðra reglna beri stjórnvöldum í störfum sínum að fylgja vönduðum stjórnsýsluháttum. Það leiðir síðan af þeirri aðstöðu að eftir því sem lög og skráðar reglur eru fáorðari um það á hvern hátt stjórnsýslan skuli haga störfum sínum eru almennt meiri líkur á því að stjórnvöld á viðkomandi sviði þurfi oftar að huga að því hvort stjórnsýsla þeirra sé í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Auk þess leiðir þessi aðstaða til þess að umboðsmaður Alþingis þarf í meira mæli en endranær, við framkvæmd þess eftirlits- og leiðbeiningarhlutverks sem honum er falið með lögum í því skyni að tryggja réttaröryggi, að styðja niðurstöður sínar við afmörkun á því hvað telja beri vandaða stjórnsýsluhætti í hverju tilviki við meðferð mála á þessu sviði, sbr. 2. gr. laga nr. 85/1997.



IV.

Agaviðurlög



1. Inngangur

Afplánun refsidóms í fangelsi felur í sér frelsisskerðingu viðkomandi fanga. Verður hann því að dvelja þann tíma sem honum er gert að sæta afplánun í því umhverfi og undir þeim reglum sem gilda um vistun þar. Það kemur síðan í hlut fangelsisyfirvalda og starfsfólks fangelsanna að framfylgja þeim reglum og halda uppi röð og reglu þar. Vistun í fangelsi er undantekning frá þeirri grundvallarreglu að menn sé frjálsir að ráða dvalarstað sínum og líkama, sbr. meginreglu 67. gr. stjórnarskrár lýðveldsins Íslands nr. 33/1944, en þar segir að engan megi svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum. Þá er tekið fram í 68. gr. stjórnarskrárinnar að engan megi beita pyndingum né annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Það hefur lengi verið tíðkað og er almennt viðurkennt að yfirstjórn fangelsis þurfi að hafa ákveðnar heimildir til að grípa inn í ef fangar fylgja ekki þeim reglum sem gilda um vistun í fangelsinu og beita hlutaðeigandi viðurlögum. Sú aðstaða að fangar eru sviptir frelsi sínu, og einnig sú aðstaða að það kann að vera komið undir ákvörðunarvaldi hlutaðeigandi fangelsisstjórnar í hvaða mæli fangi fær að hafa samskipti við aðila innan og utan fangelsisins, hefur leitt til þess að málefni fanga og ákvarðanir stjórnvalda þar um hafa lengi verið viðfangsefni alþjóðlegs mannréttindastarfs. Auk ákvæða sem að þessu lúta beint og óbeint í alþjóðlegum mannréttindasamningum, t.d. mannréttindasáttmála Evrópu frá 1950 og alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 1966, má nefna að bæði Sameinuðu þjóðirnar árið 1955 og Evrópuráðið, fyrst 1973 og aftur 1987, hafa samþykkt og birt sérstök tilmæli til aðildarríkja sinna í formi svonefndra fangelsisreglna. Eins og nánar er vikið að á öðrum stað í áliti þessu eru þessar fangelsisreglur ekki bindandi að þjóðarétti en kunna hins vegar að hafa önnur áhrif.

Hér skal einnig minnt á að með lögum nr. 15/1990 hafa verið sett fyrirmæli vegna aðildar Íslands að Evrópusamningi um varnir gegn pyndingum og annarri ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu frá 26. nóvember 1987. Ákvarðanir um beitingu agaviðurlaga og framkvæmd slíkra mála verður því að haga í samræmi við þau mörk sem stjórnarskrá, alþjóðlegar skuldbindingar íslenska ríkisins og lög setja stjórnvöldum að þessu leyti. Það er síðan til viðbótar álitaefni hverju sinni hvort ástæða sé til þess af hálfu stjórnvalda að gera betur en þessar lágmarksreglur segja til um og þá með tilliti til vandaðra stjórnsýsluhátta en ég minni á að umboðsmanni Alþingis er með 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997 ætlað að gæta þess að stjórnsýslan fari fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti.

Athugun mín á beitingu agaviðurlaga í fangelsum hér á landi hefur í tilefni af þessu frumkvæðismáli beinst að núgildandi lagagrundvelli agaviðurlaga, birtingu þeirra reglna sem ákvarðanir um agaviðurlög eru byggðar á og framkvæmd þeirra. Verður hér fyrst vikið að almennum atriðum í því sambandi.



2. Almenn atriði

Við skoðun á fyrirkomulagi íslenskra laga um beitingu agaviðurlaga í fangelsum landsins verður að hafa í huga það grundvallarsjónarmið að hagsmunir þeirra sem þolað hafa dóm í opinberu máli og hlotið óskilorðsbundna fangelsisrefsingu verða ekki skertir umfram það sem lög heimila. Við mat á kröfum þeim sem lög gera verður þó að taka fullnægjandi tillit til þeirra sérstöku aðstæðna sem fyrir hendi eru við fullnustu refsidóma í afplánunarfangelsum og þess erfiða hlutverks sem stjórnvöldum er falið á þessu sviði. Sú réttarþróun sem orðið hefur á þessum vettvangi í öðrum vestrænum ríkjum, sem meðal annars endurspeglast í mannréttindastarfi Evrópuráðsins, leiðir í ljós að það svigrúm sem játa verður stjórnvöldum við fullnustu refsidóma útilokar ekki möguleika utanaðkomandi aðila eins og dómstóla og óháðra eftirlitsaðila svo sem umboðsmanns Alþingis til að taka til athugunar fyrirkomulag framkvæmdarinnar og einstakar ákvarðanir.

Ég tel rétt í þessu sambandi að minna hér á meginreglu 5. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna en nánar verður vikið að þessum reglum síðar í þessu áliti. Þar segir að vernd persónulegra réttinda fanga, með sérstöku tilliti til lögmætis ráðstafana sem fela í sér innilokun, skuli tryggð með eftirliti samkvæmt þeim reglum er gilda í viðkomandi landi. Þá kemur fram í ákvæðinu að eftirliti skuli sinnt af yfirvaldi á sviði dómsýslu eða öðrum aðila sem til þess er löglega skipaður og heimild hefur til að vitja fanga og tilheyrir ekki fangelsisyfirvöldum.

Ég tek fram að ég hef ekki á þessu stigi tekið það til sérstakrar athugunar hvernig háttað er eftirliti hér á landi af því tagi sem mælt er fyrir um í framangreindri 5. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna. Mér er hins vegar ekki kunnugt um að formlega sé slíkt eftirlit til staðar af hálfu aðila sem til þess hefur verið sérstaklega skipaður og tilheyrir ekki fangelsisyfirvöldum. Í samræmi við þá stöðu sem umboðsmaður Alþingis hefur áður talið Evrópsku fangelsisreglurnar hafa hér á landi læt ég við það sitja hér að vekja athygli hlutaðeigandi stjórnvalda á þessu atriði og þá með það í huga að líta verður svo á að með þessu ákvæði fangelsisreglnanna sé markmiðið að auka og bæta réttaröryggi á þessu sviði.



3. Reglur um agaviðurlög og framkvæmd þeirra

3.1. Inngangur



Í tilvitnuðu svarbréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 16. nóvember 1999, sem ritað var í tilefni af fyrirspurnarbréfi mínu 3. ágúst 1999, er vísað til skýringa fangelsismálastofnunar í bréfi, dags. 28. september 1999, sem stofnunin ritaði að beiðni ráðuneytisins af því tilefni eins og greinir í kafla II.

Í bréfi fangelsismálastofnunar er sett fram sú skoðun sem ráðuneytið felst á að húsreglur fangelsanna séu fullnægjandi stjórnsýslufyrirmæli í merkingu 1. mgr. 31. gr. laga nr. 48/1988. Séu þær þannig nægar lagaheimildir til grundvallar agaviðurlögum. Í bréfi stofnunarinnar er þó tekið fram að fangelsismálastofnun telji „eðlilegt [að] agaviðurlög og beiting þeirra sæti endurskoðun með jöfnu millibili“. Þá megi taka „til skoðunar hvort rétt sé að kveða á um þá háttsemi sem telst agabrot í refsivist í lögum eða reglugerð og huga að endurskoðun húsreglna“.

Þá tekur dóms- og kirkjumálaráðuneytið fram í bréfi sínu til mín að þrátt fyrir þá afstöðu að húsreglur fangelsanna væru fullnægjandi stjórnsýslufyrirmæli hafi það haft í hyggju að taka af tvímæli í þessum efnum og sjá til þess að á árinu 2000 yrðu settar almennar reglur um notkun og beitingu agaviðurlaga gagnvart föngum og málsmeðferð slíkra mála, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 48/1988.

Ég tel rétt að vekja athygli á því að í tilefni af kvörtun tiltekins fanga sem barst mér 18. maí 1999 ritaði ég dóms- og kirkjumálaráðuneytinu tvö bréf, dags. 3. ágúst 1999 og 15. mars 2000, og óskaði skýringa á tilteknum atriðum sem á reyndi í málinu og vikið verður nánar að hér síðar. Í síðara svarbréfi ráðuneytisins, dags. 18. maí 2000, eru staðfest þau sjónarmið sem að framan eru rakin og að öðru leyti tekið svo til orða um nefndar húsreglur og birtingu þeirra:



„Samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun eru reglur Fangelsisins Litla-Hrauni kynntar öllum föngum sem koma til afplánunar, svo fljótt sem auðið er eftir komu í fangelsið og er farið sérstaklega yfir reglurnar með föngunum. Reglur fangelsisins hanga auk þess uppi á öllum deildum fangelsisins þannig að tryggt er að reglurnar séu aðgengilegar öllum föngum. Þessar reglur teljast til almennra stjórnsýslufyrirmæla, enda settar af þar til bærum stjórnsýsluaðila, og eru birtar á fullnægjandi hátt. Í reglum fangelsisins er að finna reglur sem varða hegðun fanga, umgengnisreglur við samfanga og starfsfólk fangelsisins en einnig má leiða ýmsar reglur af ákvæðum laga og reglugerða.“



Enda þótt dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafi, eins og áður er rakið, greint frá því að það hafi í hyggju að setja almennar reglur um notkun og beitingu agaviðurlaga tel ég samt sem áður rétt að fjalla hér meðal annars um þær kröfur sem íslensk lög og þjóðréttarlegar skuldbindingar gera til forms og efnis agaviðurlaga. Í þessu efni minni ég á að langur tími er liðinn síðan ráðuneytið lýsti því yfir að það væri ætlun þess að setja almennar reglur á þessu sviði en mér hefur ekki enn borist afrit af slíkum reglum og þær hafa ekki enn verið settar samkvæmt upplýsingum sem ég hef aflað.

Í annan stað hef ég haft það hér í huga að með því að ég fjalli um lagakröfur til forms og efnis agaviðurlaga liggur fyrir álit mitt á efni þeirra reglna sem nú eru í gildi og framkvæmd þeirra en eins og síðar verður rakið í áliti þessu tel ég að núverandi réttarástand kunni að samrýmast illa vönduðum stjórnsýsluháttum og eftir atvikum þeim kröfum sem leiddar verða af íslenskum lögum og þjóðarétti.



3.2. Form reglna um agaviðurlög

3.2.1. Ákvæði Evrópsku fangelsisreglnanna



Í bréfi mínu 3. ágúst 1999 til dóms- og kirkjumálaráðherra tók ég fram að í áliti umboðsmanns Alþingis frá 20. nóvember 1996 í málinu nr. 1506/1995 (SUA 1997:120) hefði verið vikið að ákvæðum Evrópsku fangelsisreglnanna sem samþykktar voru af ráðherranefnd Evrópuráðsins 12. febrúar 1987. Í álitinu kemur fram að þessar reglur feli í sér lágmarksvernd til handa föngum. Þær feli hins vegar ekki í sér beinar skuldbindingar að þjóðarétti. Þá segir að ekki hafi komið fram að íslensk stjórnvöld hafi gert neinn fyrirvara að því er þær snertir. Samkvæmt því og með hliðsjón af efni reglnanna verði að telja að yfirvöldum fangelsismála hér á landi beri í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að gæta þeirra í störfum sínum. Af bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og skýringum fangelsismálastofnunar verður ekki ráðið að stjórnvöld dragi í efa réttmæti þessarar niðurstöðu umboðsmanns Alþingis um gildi Evrópsku fangelsisreglnanna fyrir framkvæmd fangelsismála hér á landi. Þá tek ég fram að rétt er að hafa í huga efni reglnanna við túlkun á íslenskum lagareglum um agaviðurlög.

Í Evrópsku fangelsisreglunum er fjallað um agaviðurlög í ákvæðum 33. – 40. gr. reglnanna. Í ákvæði 35. gr. reglnanna er kveðið á um að í lögum og reglugerðum þar til bærra yfirvalda skuli kveða á um, (a) hver háttsemi teljist agabrot, (b) hverri refsingu megi beita og um hvern tíma, (c) hvaða yfirvöld megi leggja slíkar refsingar og (d) hvernig áfrýja megi og hvert sé valdsvið þess sem áfrýjað er til.

Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. reglnanna er óheimilt að refsa fanga nema samkvæmt ákvæðum áðurnefndra laga eða reglugerða. Í skýringarriti með reglunum, gefnu út af Evrópuráðinu á árinu 1987 og endurútgefnu 1994, er vikið að því á bls. 48 að með 35. gr. reglnanna sé lögð áhersla á þann lagagrundvöll sem reglur um beitingu agaviðurlaga þurfi að styðjast við. Af 35. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna verður þar af leiðandi ráðið að talið hefur verið rétt að gera þá kröfu að reglur um beitingu og framkvæmd agaviðurlaga komi fram í lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum með fullnægjandi stoð í lögum. Þannig liggi fyrir ákvörðun löggjafans eða hlutaðeigandi stjórnvalda samkvæmt viðhlítandi heimild í settum lögum um setningu fyrirmæla um agaviðurlög við afplánun fangelsisdóma.



3.2.2. Söguleg þróun lagareglna um agaviðurlög



Um beitingu agaviðurlaga í fangelsum hér á landi gilda ákvæði V. kafla laga nr. 48/1988, um fangelsi og fangavist, sbr. 4. gr. laga nr. 123/1997. Samkvæmt upphafsákvæði 1. mgr. 31. gr. laga nr. 48/1988 er heimilt að beita fanga agaviðurlögum fyrir „brot á reglum fangelsis“. Fyrir breytingu á lögum nr. 48/1988 með 4. gr. laga nr. 123/1997 var samhljóða ákvæði að finna í 26. gr. laganna. Í athugasemdum greinargerðar með því ákvæði kemur fram að það komi í staðinn fyrir 47. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en í greinargerðinni er hvorki vikið sérstaklega að því hver skuli setja „reglur fangelsis“ né hvert efni eða form þeirra skuli vera. (Alþt. 1987-1988, A-deild, bls. 2097.)

Í upphaflegu ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 47. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 kom fram að ákvæði um viðurlög við brotum fanga á reglum hegningarhússins skyldi setja í „konunglegri tilskipun“. Í athugasemdum greinargerðar við þetta ákvæði hegningarlaganna sagði að „hér [væru] taldar þær refsingar við agabrotum, sem lagðar [væru] á fanga, sem [brytu] reglur hegningarhússins. Nánari reglur um refsingar þessar [skyldi] setja í konunglegri tilskipun“. (Alþt. 1939, A-deild, bls. 364.)

Ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 47. gr. almennra hegningarlaga var fyrst breytt með 4. gr. laga nr. 100/1951, um breyting á almennum hegningarlögum nr. 19 12. febr. 1940, á þann veg að í stað konunglegrar tilskipunar skyldi setja ákvæði um viðurlög við brotum fanga á reglum hegningarhússins með reglugerð. Samkvæmt athugasemdum greinargerðar með lögum nr. 100/1951 þótti rétt vegna stofnunar lýðveldis á Íslandi að afnema allar tilvísanir til konunglegra tilskipana og vísa í staðinn til reglugerða. (Alþt. 1951, A-deild, bls. 174.) Ákvæði 47. gr. almennra hegningarlaga var breytt í annað sinn með 6. gr. laga nr. 42/1985, um breyting á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 með áorðnum breytingum, og afnumin tilvísun til brota á „reglum hegningarhússins“. Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögunum segir svo:



„Í núgildandi grein segir að „ákvæði um viðurlög við brotum fanga á reglum hegningarhússins skal setja með reglugerð.“ Þær reglur sem vísað er til hafa almennt ekki verið settar fyrir einstök fangelsi. Um það hvað er brot á reglum fangelsa ríkir óvissa. Í framhaldi af þessari lagabreytingu er ráðgert að setja í reglugerð um fangavist ítarleg ákvæði um beitingu agaviðurlaga.“ (Alþt. 1984-1985, A-deild, bls. 3060.)



Ákvæði 6. gr. laga nr. 42/1985 breytti 47. gr. almennra hegningarlaga á þann veg að ekki var lengur vísað til brota á „reglum hegningarhússins“. Þá var sett sjálfstætt efnisákvæði í 4. mgr. 47. gr. almennra hegningarlaga um að í reglugerð skyldi setja nánari ákvæði um beitingu agaviðurlaga.

Með lögum nr. 48/1988, um fangelsi og fangavist, voru lagareglur um agaviðurlög flutt úr hegningarlögunum og yfir í þau lög. Jafnframt var 47. gr. almennra hegningarlaga felld úr gildi. Í núgildandi 1. mgr. 31. gr. laga nr. 48/1988, sem er efnislega samhljóða upphaflegu ákvæði 1. mgr. 26. gr. sömu laga, er vísað til brota á „reglum fangelsis“ án þess að sérstaklega sé tekið fram í ákvæðinu, öðrum ákvæðum laganna eða lögskýringargögnum, hver skuli setja slíkar reglur eða hvers efnis þær eigi að vera. Þá er ekki lengur að finna lagaskyldu til að setja reglugerð um beitingu agaviðurlaga eins og í eldri ákvæðum um sama efni.

Þess skal getið að við setningu laga nr. 48/1998 var farin sú leið að mæla ekki fyrir um skyldu eða heimildir til að setja reglugerðir í einstökum ákvæðum laganna heldur var þá í 30. gr. laganna, sbr. nú 36. gr., sett reglugerðarheimild. Í 1. mgr. ákvæðisins var mælt fyrir um að setja skyldi í reglugerð nánari ákvæði um tilgreind atriði og voru „reglur fangelsis“ eða nánari fyrirmæli um agaviðurlög ekki þar á meðal. Í 2. mgr. sama ákvæðis var síðan almenn heimild til að setja í reglugerð nánari ákvæði samkvæmt lögunum. Tekið skal fram að almennar reglur um framkvæmd agaviðurlaga hafa ekki verið settar á grundvelli þessa síðastnefnda ákvæðis.



3.2.3. Kröfur til forms reglna um agaviðurlög



Allt frá gildistöku 47. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 var samkvæmt framangreindu með skýrum hætti gert ráð fyrir því í lögum að nánar yrði mælt fyrir um agaviðurlög í almennum stjórnvaldsfyrirmælum, fyrst í konunglegri tilskipun og síðan í reglugerð. Þá var með tilvitnuðum athugasemdum greinargerðar með 6. gr. laga nr. 42/1985 rakið að „óvissa“ hefði ríkt um hvað væri brot á reglum fangelsis. Væri því með breytingunni stefnt að því að setja ítarlegar reglur um beitingu agaviðurlaga í reglugerð.

Hér að framan var því lýst með hvaða hætti ákvæði um agaviðurlög voru flutt yfir í lög um fangelsi og fangavist nr. 48/1988. Var þá ekki lengur mælt beinlínis fyrir um að ráðherra væri skylt að setja reglur um agaviðurlög í reglugerð heldur var honum fengin almenn reglugerðarheimild til nánari afmörkunar á ákvæðum laganna, sbr. nú 2. mgr. 36. gr., sbr. 5. gr. laga nr. 123/1997.

Við mat á því hvaða kröfur verði að gera til forms þeirra reglna sem varðað geta agaviðurlögum samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laga nr. 48/1988, með tilliti til meðal annars 35. Evrópsku fangelsisreglnanna, tel ég að hafa verði í huga að ákvarðanir um beitingu agaviðurlaga eru í eðli sínu íþyngjandi fyrir þann fanga sem í hlut á. Kunna þær jafnvel að leiða til verulegra íþyngjandi ráðstafana á borð við einangrunar fangans. Ég legg þó áherslu á að taka verður tillit til þeirra sérstöku aðstæðna og sjónarmiða um öryggi og skipulag í fangelsum sem hér eiga við. Þau sjónarmið geta þó ekki haft þau áhrif að gerðar séu minni kröfur um formlegan grundvöll reglna um agaviðurlög en almennt eru gerðar til íþyngjandi stjórnvaldsákvarðana samkvæmt lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Hef ég í þessu efni einnig haft í huga áðurnefnda 35. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna.

Athugun mín á framkvæmd agaviðurlaga í fangelsum þeim sem ég hef heimsótt og kvartanir þær sem mér hafa borist hafa leitt í ljós að agaviðurlögum er nú beitt vegna brota fanga á „húsreglum“ sem settar hafa verið einhliða af viðkomandi forstöðumanni án staðfestingar forstjóra fangelsismála-stofnunar eða dóms- og kirkjumálaráðherra. Þá hafa slíkar reglur ekki verið birtar í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 64/1943, laga um birtingu laga og stjórnvaldaerinda, sbr. til hliðsjónar dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Valašinas gegn Litháen frá 24. júlí 2001, sbr. 123. mgr. í forsendum dómsins. Þar tók dómstóllinn sérstaklega fram að óheppilegt hefði verið að almennar reglur um beitingu agaviðurlaga í fangelsum hefðu ekki verið birtar með lögformlegum hætti áður en tekin hefði verið ákvörðun um beitingu þeirra. Þó lagði dómstóllinn á það áherslu að umræddar reglur hefðu verið rækilega kynntar innan umrædds fangelsis og að fangar hefðu haft aðgang að þeim.

Þegar skoðað er orðalag 31. gr. laga nr. 48/1988 og önnur ákvæði laganna kemur í ljós að hvergi er beinlínis gert ráð fyrir því að forstöðumanni fangelsis sé fengin heimild til að setja stjórnvaldsfyrirmæli í merkingu 2. gr. laga nr. 64/1943, um birtingu laga og stjórnvaldaerinda.

Það leiðir af 13. og 14. gr. stjórnarskrárinnar að ef lög mæla ekki fyrir um hvaða stjórnvald skuli setja almenn stjórnvaldsfyrirmæli þá er það jafnan verkefni þess ráðherra sem fer með yfirstjórn viðkomandi málaflokks samkvæmt lögum og auglýsingu nr. 96/1969, um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands, að setja slíkar reglur. Í 1. gr. laga nr. 48/1998 er mælt fyrir um að dómsmálaráðherra fari með yfirstjórn fangelsismála. Ég tek hins vegar fram að ekki verður fullyrt að útilokað sé að lægra sett stjórnvald geti á grundvelli almennra reglna stjórnsýsluréttarins sett reglur í formi almennra fyrirmæla við tilteknar aðstæður ef lög gera beinlínis ráð fyrir tilvist þeirra. Verður í slíkum tilvikum þó að gera þá kröfu að slíkar reglur séu nauðsynlegar svo að stjórnvaldið geti rækt verkefni sín og ráðherra hafi ekki gert reka að því að setja slíkar reglur.

Ég minni á að lög nr. 48/1988, um fangelsi og fangavist, fólu í sér að horfið var frá því fyrirkomulagi að skylt væri að setja almennar reglur um agaviðurlög í reglugerð. Í lögskýringargögnum kemur ekki fram hvort til þess hafi legið sérstakar ástæður. Ég tel því að ekki sé unnt að fullyrða að lög nr. 48/1988 girði fyrir að lægra sett stjórnvald, s.s. fangelsismálastofnun eða eftir atvikum forstöðumenn einstakra fangelsa, setji við ákveðnar aðstæður almennar reglur sem legið geta til grundvallar beitingu agaviðurlaga í merkingu 31. gr. laganna. Ég legg þó áherslu á að þegar ekki nýtur við skýrrar lagaheimildar þar um er það í betra samræmi við þau almennu réttaröryggissjónarmið sem leiða af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, og einnig mannréttindareglum á þessu sviði, að til grundvallar beitingu á heimildarákvæðum laga um agaviðurlög vegna „brota á reglum fangelsis“ liggi almenn stjórnvaldsfyrirmæli, sett af ráðherra og birt með opinberum hætti eins og lög kveða á um.

Ég bendi einnig á að ekkert í texta laga nr. 48/1988 eða lögskýringargögnum gefur nægjanlegt tilefni til að ætla að umrædd breyting, þ.e. að horfið var frá því fyrirkomulagi að skylt væri að setja reglur um agaviðurlög í reglugerð, yrði talin fela í sér þá ætlun löggjafans að fela einstökum forstöðumönnum fangelsa að setja reglur sem heimilt yrði að leggja til grundvallar við beitingu agaviðurlaga. Ég bendi þó á að það kynni eftir atvikum að vera fullnægjandi meðal annars með tilliti til vandaðra stjórnsýsluhátta að gera þá kröfu, með hliðsjón af efni þeirra lagareglna sem veita slíkum reglum stoð, að reglur sem settar séu af lægra settu stjórnvaldi hljóti staðfestingu ráðherra og séu birtar með þeim hætti er greinir í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 64/1943.

Ákvæði 31. gr. laga nr. 48/1988 veitir heimild til að beita tilgreindum agaviðurlögum gagnvart föngum og þá meðal annars sviptingu réttinda sem þeir almennt njóta samkvæmt lögunum og reglugerðum og sviptingu vinnulauna. Í lagaákvæðinu er hins vegar ekki tekin afstaða til þess í tilefni af hvaða háttsemi og í hvaða mæli, t.d. um tímalengd, einstökum agaviðurlögum verður beitt. Ákvörðun um beitingu agaviðurlaga hefur í ýmsum tilvikum veruleg áhrif á möguleika fanga til að njóta þeirra réttinda sem lög veita þeim innan fangelsis. Má þar nefna að svipting vinnulauna felur í sér að fangi er tímabundið sviptur aflafé sem meðal annars er ætlað, ef hann hefur ekki aðra fjármuni, til að standa undir nauðsynlegum útgjöldum fanga við kaup á persónulegum hreinlætisvörum. Ég hef einnig við athuganir mínar á kvörtunum og öðrum erindum sem mér hafa borist frá föngum veitt því athygli að í framkvæmd kunna athafnir fanga sem fela í sér brot á reglum fangelsisins að leiða til þess að breyting verður á högum þeirra án þess að um slíkt sé tekin ákvörðun í formi agaviðurlaga.

Eins og nánar verður lýst í kafla VII hér á eftir hefur það verið almenn regla að færa fanga milli deilda innan fangelsisins ef þeir brjóta reglur fangelsisins án þess að um það sé fjallað í ákvörðun um agaviðurlög. Var þannig á hluta þess tíma sem þessi athugun mín hefur staðið yfir minna framboð á mat og matvælum fyrir fanga á þeirri deild sem þeir sem gert hafði verið að sæta agaviðurlögum eru almennt fluttir á. Þegar fangi á Litla-Hrauni hefur nám hjá Fjölbrautaskóla Suðurlands er þeim gert að undirrita yfirlýsingu til skólans þar sem þeir meðal annars undirgangast að það varði brottvísun úr náminu ef leifar fíkniefna finnast í þvagi hans. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 48/1988 skal fangi eiga kost á því að stunda nám. Hér verður ekki fjallað um þessi tilvik með tilliti til núgildandi reglna um agaviðurlög heldur er bent á þau til að minna á að eins og lagagrundvelli ákvarðana um agaviðurlög er háttað væri það að minnsta kosti í betra samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti og þær kröfur sem leiða af mannréttindareglum ef settar væru og birtar reglur sem fela í sér afstöðu æðsta handhafa framkvæmdavalds á þessu sviði um hvernig heimildarákvæðinu skuli beitt.

Ég tek líka fram að hvað sem líður hugleiðingum um hver sé lögbær aðili til að setja slíkar reglur tel ég rétt að benda á að athugun mín hefur ekki leitt í ljós að sérstök ástæða sé til þess að lægra sett fangelsisyfirvöld, t.d. forstöðumenn fangelsa, setji slíkar reglur með tilliti til þess að þörf sé stöðugra breytinga eða endurskoðunar á reglum fangelsis að þessu leyti. Þannig eru til dæmis enn í gildi fyrir fangelsið á Litla-Hrauni húsreglur sem dagsettar eru 6. mars 1998.

Ég vek athygli á því að í áðurnefndum dómi sínum frá 24. júlí 2001 tekur Mannréttindadómstóll Evrópu sérstaklega fram að þrátt fyrir að reglur um beitingu agaviðurlaga í viðkomandi fangelsi hefðu verið rækilega kynntar föngum væri það óheppilegt að almennar reglur um beitingu agaviðurlaga hefðu ekki verið birtar með lögformlegum hætti áður en tekin var ákvörðun um beitingu þeirra. Vegna þessa er sérstök ástæða til að leggja áherslu á að formleg setning reglna af þessu tagi og opinber birting þeirra er auk þess að tryggja almennt réttaröryggi fanga mikilvægt atriði til að þeir sem fyrir utan fangelsi eru, t.d. aðstandendur, lögmenn, frjáls félagasamtök sem láta sig málefni fanga varða og eftirlitsaðilar, geti betur gert sér grein fyrir því á hvaða grundvelli ákvarðanir um agaviðurlög einstakra fanga eru teknar og hvort þar sé gætt jafnræðis og meðalhófs.

Umboðsmaður Alþingis hefur ítrekað fjallað um kvartanir fanga í tilefni af því að þeir hafa verið látnir sæta agaviðurlögum. Í þeim álitum hefur umboðsmaður ekki áður tekið afstöðu til forms reglna um agaviðurlög eins og því hefur verið háttað frá gildistöku laga nr. 48/1988. Nú hefur dóms- og kirkjumálaráðuneytið í bréfi til mín, dags. 16. nóvember 1999, í tilefni af þessari athugun minni, gert grein fyrir að ráðuneytið hafi ákveðið að taka af tvímæli í þessum efnum og sjá til þess að settar verði almennar reglur um notkun og beitingu agaviðurlaga gagnvart föngum og málsmeðferð slíkra mála. Um heimild til að setja slíkar reglur er í bréfi ráðuneytisins vitnað til 2. mgr. 36. gr. laga um fangelsi og fangavist. Það er því afstaða ráðuneytisins að slíkar reglur verði settar með reglugerð af hálfu ráðherra og birtar í samræmi við það.

Ég tel að þessi afstaða dóms- og kirkjumálaráðuneytisins sé í góðu samræmi við þau sjónarmið sem ég hef lýst hér að framan. Tel ég að hún sé jafnframt í samræmi við þá vönduðu stjórnsýsluhætti á þessu sviði sem leiddir verða af 35. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna. Með tilliti til þessarar afstöðu ráðuneytisins tel ég ekki þörf á að ég fjalli nánar, að minnsta kosti að sinni, um hvaða kröfur ég tel að gera verði að lögum til forms og birtingu reglna sem stjórnvöld setja um agaviðurlög vegna brota á reglum fangelsis. Ég tek þó fram að ég tel ekki unnt að fullyrða að það eitt hvernig staðið er að setningu og birtingu núgildandi húsreglna í fangelsum leiði til þess að ákvarðanir um agaviðurlög samkvæmt 31. gr. laga nr. 48/1988 vegna brota á þessum húsreglum yrðu taldar ógildanlegar. Hef ég þá meðal annars haft í huga þá löngu framkvæmd sem lýst hefur verið hér að framan.

Ég legg hins vegar áherslu á að þessi niðurstaða á ekki að gefa stjórnvöldum tilefni til þess að hverfa frá því að setja umræddar reglur með þeim hætti sem þau hafa áformað. Kemur þar til sú aukna áhersla á mannréttindi, bæði við lagasetningu og úrlausnir dómstóla, sem gætt hefur á síðustu árum samhliða auknum kröfum til stjórnsýslunnar bæði um lagagrundvöll ákvarðana og málsmeðferð.

Í samræmi við framangreint eru það tilmæli mín til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að það framkvæmi sem fyrst þau áform sem lýst var í bréfi þess til mín, dags. 16. nóvember 1999, að setja almennar reglur um notkun og beitingu agaviðurlaga gagnvart föngum og málsmeðferð slíkra mála, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 48/1988, um fangelsi og fangavist. Eru það jafnframt tilmæli mín að við setningu þeirra reglna verði fylgt þeim sjónarmiðum sem ég geri grein fyrir í áliti þessu og þá einnig um efnislegt inntak reglna um agaviðurlög og málsmeðferð.



3.3. Efnislegt inntak reglna um agaviðurlög



Ákvæði 1. mgr. 31. gr. laga nr. 48/1988, um fangelsi og fangavist, er svohljóðandi:



„Fyrir brot á reglum fangelsis má beita fanga eftirtöldum agaviðurlögum:

1. Áminningu.

2. Sviptingu réttinda sem fangar almennt njóta samkvæmt lögum þessum og reglugerðum.

3. Sviptingu vinnulauna.

4. Einangrun í allt að 30 daga.“



Orðalag 31. gr. laga nr. 48/1988 hefur aðeins að geyma upptalningu á þeim agaviðurlögum sem heimilt er að beita vegna brota á reglum fangelsis. Af lögmætisreglu stjórnsýsluréttar og almennum réttaröryggiskröfum leiðir að agaviðurlagareglur verða hins vegar að vera skýrar og glöggar þannig að almennt megi af lestri þeirra ráða réttan skilning á efni þess banns eða boðs sem þær hafa að geyma. Að auki er gerð sú krafa með 35. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna, sem áður er rakin, að í lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum komi meðal annars fram hver háttsemi teljist agabrot, hverri refsingu megi beita og um hvern tíma, sbr. stafliðir a og b í ákvæðinu.

Ég minni á að það er almenn regla íslensks réttar að túlka beri lög í samræmi við skuldbindingar ríkisins að þjóðarétti. Enda þótt Evrópsku fangelsisreglurnar teljist ekki bindandi fyrir íslenska ríkið að þjóðarétti minni ég á þá niðurstöðu umboðsmanns Alþingis í áliti frá 20. nóvember 1996, mál nr. 1506/1995, að yfirvöldum fangelsismála hér á landi beri í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að gæta þeirra í störfum sínum. Ég tel samkvæmt þessu að við beitingu íslenskra laga er lúta að réttarstöðu afplánunarfanga og meðferð þeirra beri stjórnvöldum eins og kostur er að taka tillit til Evrópsku fangelsisreglnanna. Þetta á meðal annars við beitingu á 31. gr. laga nr. 48/1988. Í samræmi við ákvæði 35. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna og vandaða stjórnsýsluhætti er þannig rétt að tekin sé afstaða til þess hvaða agaviðurlögum skuli beitt í hverju tilviki og um hámark hverra viðurlaga fyrir sig í almennum stjórnvaldsfyrirmælum ef á annað borð er tekin ákvörðun um að nýta þá heimild um beitingu agaviðurlaga sem ákvæðið hefur að geyma.

Af efni 35. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna og skýringum við hana verður ráðið að afplánunarfangi verði að fá raunhæft tækifæri á að vita fyrirfram hvaða tegund agaviðurlaga verði beitt verði hann uppvís að tiltekinni háttsemi í afplánuninni og einnig um efni og tímalengd slíkra viðurlaga. Tilgangur agaviðurlaga í refsivist er að ýmsu leyti sambærilegur þeim sem liggur til grundvallar setningu refsiákvæða í merkingu 1. og 31. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá eru áhrif slíkra viðurlaga í refsivistinni að jafnaði íþyngjandi fyrir viðkomandi fanga. Ég tel eðlilegt að draga þá ályktun að almenn og sérstök varnaðaráhrif agaviðurlaga í fangelsum og tilgangur þeirra að draga úr hættu á röskun á öryggi og friði í afplánuninni minnki ef ekki er til að dreifa skýrum og glöggum reglum sem gefa föngum kost á því vita nánar um afleiðingar gerða sinna. Í ljósi íþyngjandi eðlis agaviðurlaga og tilgangs þeirra að sporna við óæskilegum og oft og tíðum ólögmætum athöfnum fanga í afplánun tel ég rétt að hafa hér nokkra hliðsjón af þeim kröfum sem leiða af lagasjónarmiðum um skýrleika refsiákvæða, sbr. 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994, sem staðfest hafa verið í íslenskri dómaframkvæmd, sbr. einkum dóm Hæstaréttar 27. janúar 2000 í máli nr. 442/1999.

Ég minni í þessu efni á álit umboðsmanns Alþingis frá 21. september 1990 í máli nr. 170/1989 (SUA 1990:97). Var þar tekið fram að fangi sem sakaður væri um brot á reglum fangelsis í merkingu 1. mgr. 31. gr. laga nr. 48/1988, þágildandi 26. gr. sömu laga, gæti í vissum tilvikum talist borinn sökum um refsiverðan verknað í skilningi 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu frá 28. júní 1984 í máli Campbell og Fell gegn Englandi.

Athugun mín á framkvæmd agaviðurlaga í fangelsum hefur, eins og áður er rakið, leitt í ljós að agaviðurlögum er nú beitt vegna brota fanga á „húsreglum“ sem settar hafa verið af forstöðumanni viðkomandi fangelsis án staðfestingar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Í bréfi mínu, dags. 3. ágúst 1999, til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins óskaði ég meðal annars eftir afstöðu ráðuneytisins til þess „hvort og þá með hvaða hætti efni húsreglna fangelsa fullnægi þeim lágmarkskröfum sem fram koma í 35. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna“. Í bréfi fangelsismálastofnunar, dags. 28. september 1999, sem ritað var að beiðni dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í tilefni af athugun minni, kemur eftirfarandi meðal annars fram um þetta atriði:



„[...] Í húsreglum er að finna reglur sem varða hegðun fanga, umgengnisreglur við samfanga og starfsfólk fangelsisins en einnig má leiða ýmsar reglur af ákvæðum laga og reglugerða. Í 5. gr. húsreglna er vikið að vörslu áfengis, lyfja og fíkniefna, sbr. einnig 27. gr. l. nr. 48/1988. Einnig má nefna 6. gr. húsreglna, en þar segir að fanga sé óheimilt að fara burt af fangelsissvæðinu nema að fengnu leyfi fangelsisyfirvalda eða í fylgd fangavarða. Brot á reglu þessari getur varðað einangrun sbr. 1. mgr. 30. gr. l. nr. 48/1988 og telst strok. Einnig má nefna 4., 9. og 12. gr. en brot á þeim reglum getur varðað við almenn hegningarlög og sæta slík brot almennt kæru til lögreglu. Kæra til lögreglu hefur þó ekki áhrif á það hvort fanga eru gerð agaviðurlög vegna málsins heldur það hvort að um brot á reglum fangelsisins sé að ræða.

Telja verður að eðlilegt sé að agaviðurlög og beiting þeirra sæti endurskoðun með jöfnu millibili. Fangelsismálastofnun telur að taka megi til skoðunar hvort rétt sé að kveða á um þá háttsemi sem telst agabrot í refsivist í lögum eða reglugerð og huga að endurskoðun húsreglna. Sá hluti reglnanna sem kveður á um almennar umgengnisreglur fanga hljóta þó ávallt að eiga heima í húsreglum.“



Ég tel rétt að taka hér orðrétt upp „húsreglur fyrir fanga á Litla-Hrauni“, dags. 6. mars 1998, sem mér bárust með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 16. nóvember 1999, en þær munu enn vera í gildi. Ég tek fram að athugun mín á húsreglum í ríkisfangelsinu að Kópavogsbraut 17 og hegningarhúsinu á Skólavörðustíg hefur leitt í ljós að þær reglur eru sambærilegar húsreglum fangelsisins að Litla-Hrauni. Húsreglur fangelsisins á Litla-Hrauni, dags. 6. mars 1998, eru svohljóðandi:



1. gr. Eftir að fangi hefur hafið afplánun og læknisrannsókn hefur farið fram, skal hann hefja störf við þau verkefni sem honum eru falin, svo framarlega sem læknir hefur ekki úrskurðað hann óvinnufæran. Vinnuskylda er alla daga nema laugardaga og helgidaga. Reglulegt nám getur komið í stað vinnuskyldu.

2. gr. Fanga ber að koma kurteislega fram við starfsfólk fangelsisins og hlýða fyrirmælum þess. Telji fangi sig órétti beittan, getur hann kært til fangelsisstjóra.

3. gr. Fanga ber að sýna tillitssemi og kurteisi í umgengni við samfanga sína. Telji fangi sig órétti beittan af samfanga, getur hann kært til varðstjóra.

4. gr. Fangi skal aldrei beita samfanga eða starfsfólk fangelsisins ofbeldi.

5. gr. Fanga er óheimilt að afla sér, veita viðtöku eða aðstoða aðra fanga við að komast yfir hvaðeina sem bannað er að nota í fangelsinu, svo sem áfengi, lyf, fíkniefni, áhöld og verkfæri. Óheimilt er að bera inn í klefa nokkuð það er tilheyrir sameiginlegum vistarverum fanga, svo sem úr setustofu eða matsal.

6. gr. Fanga er óheimilt að fara burt af fangelsissvæðinu nema að fengnu leyfi fangelsisyfirvalda, eða í fylgd fangavarða. Reyni fangi að felast innan fangelsissvæðisins á hann á hættu að viðurlögum verði beitt sem um strok væri að ræða.

7. gr. Fangi skal ekki hvetja samfanga sína til mótþróa við starfsfólk fangelsisins, né til að brjóta gegn settum reglum.

8. gr. Fanga ber að halda klefum sínum hreinum og snyrtilegum. Rúmföt skulu vera í þar til gerðri geymslu þegar þau eru ekki í notkun. Hið sama gildir um skó og fatnað. Klefadyr má ekki skilja eftir opnar. Fanga er óheimilt að hengja myndir, blöð eða muni annarsstaðar en á þar til gerða töflu í klefanum. Fangi skal ganga snyrtilega um húsnæði og lóð fangelsisins og gæta þess að vinna ekki tjón á eigum þess. Á hverri deild fangelsisins skulu fangar annast sameiginlega þrif og ræstingu sameiginlegs húsnæðis og sjá um að í eldhúsi, matsal og setustofu deildarinnar sé ávallt allt í röð og reglu.

9. gr. Fangi er ábyrgur fyrir tjóni sem hann veldur á lausafé og fasteignum ríkisins, og verður haldið eftir af launum hans eða dagpeningum til greiðslu skaðabóta.

10. gr. Reykingar eru bannaðar í öllu húsnæði fangelsisins sem fangar ganga um sameiginlega, en eru leyfðar inni á klefum fyrir luktum dyrum.

11. gr. Fanga ber að takmarka hávaða frá útvarpi, sjónvarpi eða öðrum hljómtækjum svo sem mögulegt er. (Æskilegt að nota heyrnartól.)

12. gr. Fanga er bannað að hafa í vörslum sínum efni sem inniheldur barnaklám, kynferðisathafnir er tengjast ofbeldi, kynferðisathafnir og tilburði til slíks með dýrum og annað efni er sýnir afbrigðilegt kynlíf.

13. gr. Fangi skal í einu og öllu fara að settum lögum og reglugerðum um fangelsi og fangavist, svo og öðrum reglum sem kunna að verða settar af fangelsisyfirvöldum.



Brot gegn ofanskráðum reglum varða viðurlögum sbr. 30. og 31. gr. laga nr. 48/1988 um fangelsi og fangavist, og geta auk þess haft áhrif við afgreiðslu beiðna um dagsleyfi og/eða reynslulausn. Við brot á reglunum getur einnig komið til brottflutnings af deild.“



Ekki er í sjálfu sér ástæða til þess að ég geri í þessu áliti athugasemdir við einstakar greinar í reglunum. Ég tel þó rétt að taka eftirfarandi almenn atriði fram.

Í fyrsta lagi er ljóst að í reglunum er hvorki að finna tilgreiningu á því hvaða agaviðurlagategund er heimilt að beita í hverju tilviki fyrir sig né nein afmörkun á leyfilegri tímalengd einstakra agaviðurlagategunda. Áður er rakin sú niðurstaða mín að lögmætisregla stjórnsýsluréttar og 35. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna leiði til þess að rétt sé að almennar reglur stjórnvalda um beitingu agaviðurlaga hafi að geyma skýra tilgreiningu á slíkum atriðum.

Í annan stað tek ég fram að gæta verður þess að lýsingar á hátterni fanga, sem leitt getur til agaviðurlaga, séu ekki of almennt orðaðar þannig að það verði erfiðleikum bundið fyrir fanga að meta hvort tiltekið atferli kunni að fara í bága við hátternisreglur. Bendi ég á orðalag í 2., 3., upphafsmálsl. 8. gr. og 12. gr. reglnanna i.f. í þessu sambandi. Minni ég til hliðsjónar á þau sjónarmið sem lögð hafa verið til grundvallar við mat á því hvort refsiákvæði teljist nægjanlega skýrt þannig að því verði beitt sem gildri refsiheimild í merkingu 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994.

Í tilvitnuðu bréfi fangelsismálastofnunar, dags. 28. september 1999, til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins kemur meðal annars fram að telja verði eðlilegt að „agaviðurlög og beiting þeirra sæti endurskoðun með jöfnu millibili“. Telur stofnunin að „taka megi til skoðunar hvort rétt sé að kveða á um þá háttsemi sem telst agabrot í refsivist í lögum eða reglugerð og huga að endurskoðun húsreglna“. Þá segir hins vegar að „sá hluti reglnanna sem kveður á um almennar umgengnisreglur fanga hljóta þó ávallt að eiga heima í húsreglum“.

Af þessu tilefni tek ég fram að rétt er að gera skýran greinarmun í almennum reglum um agaviðurlög í fangelsum á þeim hátternisreglum sem verða látin varða agaviðurlögum ef út af þeim er brugðið og almennum umgengnisreglum. Á hinn bóginn er ég ekki sammála því sem fram kemur í tilvitnuðu bréfi fangelsismálastofnunar að „umgengnisreglur fanga [hljóti] þó ávallt að eiga heima í húsreglum“. Eðlilegast er að mínu áliti og betur í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti og sjónarmið um réttaröryggi fanga að almennar hátternisreglur í fangelsum, hvort sem þær varða agaviðurlögum eða ekki, komi fram á heildstæðan og samræmdan hátt í einu reglukerfi sem birt er með almennum og opinberum hætti. Í því sambandi tek ég fram að af athugun minni verður ekki séð að aðstæður í þeim fangelsum sem til staðar eru hér á landi séu með þeim hætti að þörf sé breytilegra hátternisreglna og umgengnisreglna eftir því hvar fangi er vistaður. Ég bendi hins vegar á að ekki er með þessu verið að útiloka að nauðsynlegt kunni að vera að setja einhverjar sérreglur um vistun fanga í tilteknum fangelsum vegna sérstakra aðstæðna og aðbúnaðar sem þar er til staðar en ekki í öðrum fangelsum.

Í ljósi þess sem að framan er rakið tel ég að í þeim reglum sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið áformar að setja sé rétt að afstaða verði tekin til þess í fyrsta lagi hvaða athafnir, eða eftir atvikum athafnaleysi, eigi að leiða til beitingar agaviðurlaga og þá nánar til hvaða tegundar slíkra viðurlaga. Þá sé rétt að tekin verði afstaða til þess hvert skuli vera leyfilegt hámark einstakra tegunda agaviðurlaga.

Taka verður fram að það er sérstaklega mikilvægt í ljósi framangreindra sjónarmiða að tekin verði skýr afstaða í slíkum reglum til þess hvenær og hvað lengi sé heimilt að vista fanga í einangrun, sbr. 4. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 48/1988. Líta verður svo á að það úrræði að vista afplánunarfanga í einangrun feli almennt í sér þungbærari ráðstöfun en leiðir af afplánun óskilorðsbundinnar fangelsisvistar um tiltekin tíma, sbr. álit umboðsmanns Alþingis frá 21. september 1990 í máli nr. 170/1989 (SUA 1990:97) og álit mitt frá 15. ágúst 2001 í máli nr. 3123/2000. Vísa ég hér einnig til 64. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna en þar segir að vegna frelsissviptingar sé fangelsun refsing í sjálfu sér. Aðstæður sem föngum eru búnar og meðferð skuli því ekki auka þá þjáningu sem í fangelsun felst nema slíkt tilheyri eðlilegum aðskilnaði fanga eða sé nauðsynlegt til að halda uppi aga.



3.4.„Pakkafyrirkomulag“ við ákvörðun tegundar og umfangs agaviðurlaga



Í tilefni af kvörtun fanga, sem barst mér 20. nóvember 1998, og beindist að málsmeðferð við töku ákvörðunar um agaviðurlög, ritaði ég dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bréf sama dag og ég sendi framangreint bréf mitt til ráðuneytisins, dags. 3. ágúst 1999, í tilefni af þessu frumkvæðismáli mínu. Í svarbréfi ráðuneytisins í tilefni af nefndri kvörtun, dags. 30. desember 1999, sagði meðal annars svo:



„Á undanförnum árum hafa jafnan verið kærðar á milli 10-20 ákvarðanir um agaviðurlög árlega til ráðuneytisins. Af þeim fjölda hefur einu sinni komið til þess að ekki var kveðinn upp úrskurður innan tímamarkanna og tvisvar hefur farið úrskeiðis sending og tilkynning til hlutaðeigandi fanga. Við þær aðstæður hafa viðurlögin sem viðkomandi sætti á þeirri stundu, fallið niður. Algengustu viðurlögin eru svipting dagpeninga/vinnulauna, síma-, bréfa- og sendingabann. Þegar agaviðurlögin hafa lotið að fíkniefnabroti eða synjun á að láta í té þvagsýni hafa heimsóknir ennfremur verið takmarkaðar við heimsóknarherbergi í öryggisálmu, þar sem snertingar eru ekki leyfðar og viðræður fara fram í gegnum gler/plast.“



Athugun mín og kvartanir þær sem mér hafa borist frá föngum um beitingu agaviðurlaga leiða í ljós að stjórnvöld beita almennt heimild 31. gr. laga nr. 48/1988 með því sem nefna mætti „pakkafyrirkomulagi“ við ákvörðun agaviðurlaga og er þá vísað til þess að í umræðum við stjórnendur fangelsisins var því lýst svo af þeirra hálfu að agaviðurlögin væru ákveðin sem mismunandi „pakkar“. Endurspeglast þetta fyrirkomulag í þeim úrskurðum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins sem ég hef fjallað um í tilefni af kvörtunum fanga sem mér hafa borist. Hefur þetta að auki verið staðfest af fulltrúum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, forstjóra fangelsismálastofnunar, forstöðumanni og starfsmönnum fangelsisins á Litla-Hrauni á fundum þeim sem ég hef átt með þessum aðilum.

Samkvæmt umræddu fyrirkomulagi við ákvörðun agaviðurlaga fær fangi tiltekinn „pakka“ af agaviðurlögum fyrir hvert brot oftast án þess að fram fari sérstakt mat á eðli brotsins. Fyrsta brot leiðir að jafnaði til áminningar en þegar kemur að „pökkunum“ er almennt um að ræða tímabundna takmörkun á rétti til heimsókna, til notkunar á síma, til að senda bréf og tímabundna sviptingu dagpeninga eða vinnulauna. Fer þá nánar tiltekið umfang og eðli „pakkans“ eftir því hvort um er að ræða fyrsta eða annað brot eða síðari brot. Annað brot leiðir því að jafnaði til tiltekins „pakka“ af agaviðurlögum, þriðja brot til tiltekins „pakka“, o.s.frv. Það skal ítrekað að þarna er verið að lýsa fyrirkomulaginu eins og það kom mér almennt fyrir sjónir en gera verður ráð fyrir að finna megi einstakar undantekningar frá þessu vegna eðlis brota viðkomandi fanga.

Miðað við þá almennu framkvæmd sem ég hef lýst hér að framan verður ekki annað séð en að á skorti í framkvæmd að fram fari einstaklingsbundið mat á því hvaða tegund agaviðurlaga, og þá um hvern tíma, skuli koma til í tilefni af hverju agabroti fyrir sig. Sökum þessa legg ég á það áherslu að skýra verður orðalag 31. gr. laga nr. 48/1988, sbr. til hliðsjónar 35. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna, með þeim hætti að fangelsisyfirvöldum beri að haga ákvörðun um tegund og umfang agaviðurlaga með þeim hætti að hún sé í eðlilegu hlutfalli við eðli og alvarleika þess agabrots sem um ræðir hverju sinni og þá um leið fallin til þess að viðhalda aga og reglu innan fangelsisins. Leiðir þessi skýring ákvæðisins einnig af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ég minni á að beiting agaviðurlaga felur í sér íþyngjandi inngrip inn í líf afplánunarfanga sem gengur lengra en að jafnaði á að leiða af afplánuninni einni og sér, sbr. þau sjónarmið sem rakin eru hér að framan. Beiting slíks úrræðis þarf því að byggja á lögmætum grundvelli og vera studd við málefnaleg sjónarmið þar sem þess hefur verið gætt með fullnægjandi hætti að úrræðið gangi ekki lengra en nauðsyn er á hverju sinni. Ég ítreka að hliðstæð sjónarmið kunna þannig að vera til staðar við beitingu agaviðurlaga í fangelsum og þegar endranær eru teknar ákvarðanir um að láta mann sæta refsingum eða öðrum refsikenndum viðurlögum í opinberu máli.

Í ljósi þess sem að framan er rakið tel ég vafasamt að umrætt „pakkafyrirkomulag“ sem almennt hefur verið viðhaft við ákvörðun agaviðurlaga sé í samræmi við þann lagagrundvöll sem ákvarðanir um agaviðurlög eiga að byggjast á. Beini ég því þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að það láti fara fram athugun á því, og þá í tengslum við þá fyrirætlan þess um að setja almennar reglur um agaviðurlög og framkvæmd þeirra sem að framan er rakið, hvort ekki sé rétt að gera breytingar á framkvæmd ákvarðana um agaviðurlög að þessu leyti að teknu tilliti til framangreindra sjónarmiða.



3.5. Reglur um málsmeðferð við framkvæmd agaviðurlaga



Með bréfi mínu til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 3. ágúst 1999, óskaði ég meðal annars eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort og þá með hvaða hætti það teldi að málsmeðferð við beitingu agaviðurlaga í fangelsum yrði almennt talin fullnægja kröfum 2. málsl. 4. mgr. 31. gr. laga nr. 48/1988 og meginreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá óskaði ég eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort og þá með hvaða hætti það teldi að málsmeðferð við töku ákvarðana um einangrunarvistun fullnægði lágmarkskröfum 3. mgr. 38. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna.

Í áðurnefndu bréfi fangelsismálastofnunar til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins af þessu tilefni er rakin meðferð mála við rannsókn og undirbúning ákvarðana um agaviðurlög. Tekið er sérstaklega fram að „[eðli] máls samkvæmt [sé] rík ástæða til að bregðast hratt við brotum á reglum fangelsisins til að halda uppi góðri reglu og öryggi í fangelsinu. Jafnframt [sé] leitast við að vinna mál eins vandlega og kostur er“. Í bréfi stofnunarinnar segir síðan meðal annars svo:



„[...] Í 30. gr. laga nr. 48/1988 eru taldar upp þær ástæður sem geta legið til grundvallar ákvörðun um einangrunarvistun. Fangelsisyfirvöld hafa litið svo á að um tæmandi talningu væri að ræða.

Mikið hefur dregið úr því að fangar séu einangraðir í kjölfar agabrots og má reyndar segja að slíkt heyri til undantekninga. Fangi er því aðeins einangraður að um alvarlegt og/eða ítrekað agabrot sé að ræða. Ennfremur hefur einangrunartímanum verið stillt í hóf og er nú oftast um örfáa daga að ræða. [...]

Ef ákvörðun er tekin um að vista afplánunarfanga í einangrun vegna agabrots er hann að öllu jöfnu fluttur austur að Litla-Hrauni. Fjöldi einangrunartilvika sl. 3. ár í fangelsunum á höfuðborgarsvæðinu í kjölfar agabrots hafa aðeins verið 4, en af öryggisástæðum 3 tilvik [...]

Leitast er við að haga framkvæmd einangrunar í samræmi við ástand fanga. [...] Fangelsismálastofnun veit ekki betur en að hliðsjón hafi verið höfð af reglu þessari þegar um gæsluvarðhaldsfanga er að ræða.“



Í tilefni af kvörtun fanga, sem barst mér 20. nóvember 1998, og beindist að málsmeðferð fangelsisyfirvalda við töku ákvörðunar um agaviðurlög, ritaði ég, eins og fyrr greinir, dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bréf sama dag og ég sendi framangreint bréf mitt til ráðuneytisins í tilefni af þessu frumkvæðismáli. Ég tel rétt að taka hér orðrétt upp eftirfarandi athugasemdir úr svarbréfi ráðuneytisins til mín af því tilefni, dags. 30. desember 1999:



„Rétt þykir af þessu tilefni að rekja aðdraganda og skýringar á lagabreytingum sem orðið hafa á lögum um fangelsi og fangavist að því er varðar málskot á ákvörðun fangelsis um agaviðurlög til dómsmálaráðuneytisins og tímamörk í því sambandi.

Í fyrstu heildstæðu lögunum um fangelsi og fangavist nr. 48/1988 er fjallað um agaviðurlög í 26. gr. Þar er ekki vikið að málskotsreglum. Jafnframt var tekið fram að einangrun megi ekki lengja fangavist um meira en þriðjungs dæmds refsitíma nema með samþykki fangelsismálastofnunar og aldrei um meira en helming. Varð þetta tilefni álits umboðsmanns Alþingis hinn 21. september 1990, þar sem hann telur að ákvæði 26. gr. geti hæglega farið í bága við ákvæði 5. og 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og að þarna sé um að ræða meinbugi á íslenskum lögum. Taldi hann m.a. óheimilt að telja tíma sem fangi er hafður í einangrun, sem viðbót við refsitíma.

Með frumvarpi til laga um breyting á lögum um fangelsi og fangavist nr. 48 19. maí 1988, sem lagt var fram af hálfu dóms- og kirkjumálaráðherra á 113. löggjafarþingi 1990, Nd. 83. mál, þskj. 85, segir að í frumvarpinu séu lagðar til breytingar á 25. og 26. gr. laganna til þess að bæta úr þeim göllum á lögunum sem fram koma í framangreindu áliti umboðsmanns Alþingis.

Eftir að málið var tekið til meðferðar á Alþingi kom það til kasta allsherjarnefndar neðri deildar. Í skjölum Alþingis liggja fyrir nefndarálit meiri hluta nefndarinnar, þskj. nr. 360, og álit minni hluta nefndarinnar, þskj. nr. 386.

Nauðsynlegt er að rekja þær hugleiðingar er fram koma í nefndarálitunum. Í frumvarpstextanum segir að ákvörðun um agaviðurlög sæti kæru til dómsmálaráðuneytisins og skuli fanga skýrt frá því um leið og ákvörðun er birt. Í nefndaráliti meiri hlutar allsherjarnefndar neðri deildar segir að sérstaklega hafi verið kannað hvort setja eigi tímamörk á úrskurð dómsmálaráðuneytisins um kæru á ákvörðun um einangrun eða agaviðurlög.

Einnig hvort rétt sé að fangi geti kært ákvörðun forstöðumanns um agaviðurlög til Fangelsismálastofnunar og síðan kært ákvörðun stofnunarinnar til dómsmálaráðuneytisins, en Fangelsismálastofnun hafi óskað eftir slíku fyrirkomulagi. Síðan segir orðrétt í téðu nefndaráliti: Hvað varðar tímamörk til þess að kveða upp úrskurð um kæru er meiri hl. nefndarinnar sammála um að setja dómsmálaráðuneytinu tveggja sólarhringa frest til þess eftir að gögn málsins hafa borist. Gögnin skulu send ráðuneytinu þegar eftir að úrskurður um agaviðurlög eða einangrun hefur verið kveðinn upp. Þannig er reynt að tryggja að fangi sæti ekki óréttmætum agaviðurlögum nema í þann skamma tíma sem rannsókn málsins á að taka. Ef úrskurður um kæru er ekki kveðinn upp innan tímamarkanna falla ákvarðanir forstöðumanns um agaviðurlög eða einangrun niður. Meiri hl. nefndarinnar telur að þessi breyting á frumvarpinu tryggi rétt fanga eins vel og kostur er á og flytur því tillögu um hana. - -

Frumvarpið með áorðnum breytingum allsherjarnefndar urðu að lögum nr. 31/1991. Lokamálsliður 5. mgr. 26. gr., sem síðar breyttist í lokamálslið [4. mgr.] 31. gr. núgildandi laga um fangelsi og fangavist, hljóðar nú svo:

„Ákvörðun um agaviðurlög sætir kæru til dómsmálaráðuneytisins og skal skýra fanga frá því um leið og ákvörðun er birt. Þegar ákvörðun er kærð skulu gögn málsins þegar send dómsmálaráðuneytinu. Ráðuneytið skal taka ákvörðun innan tveggja sólarhringa frá því að kæra barst, ella fellur ákvörðun úr gildi. “

Á þeim árum sem liðin eru hefur túlkun þessa ákvæðis verið ákveðin á þann veg, sem hér greinir: Kæra telst berast þann dag sem hún berst ráðuneytinu á skrifstofutíma, þ.e. frá kl. 08 - 16 virka daga. Kæra sem berst í símbréfi, er talin berast á þeim degi sem hún berst í ráðuneytið, nema að hún berist eftir kl. 16; þá er hún talin hafa borist næsta virkan dag. Kæra sem berst í pósti, er talin berast þann dag sem pósturinn er opnaður og bókaður.

Tveggja sólarhringa fresturinn hefur verið túlkaður svo, að ráðuneytið er talið hafa þann dag sem kæran berst og næsta samliggjandi dag, óháð því hvort um virkan dag, helgan dag eða stórhátíðadag er að ræða, til þess að ljúka því að kveða upp úrskurð í málinu. Dæmi: Hafi kæra borist milli kl. 08-16 á föstudegi í ráðuneytið, skal úrskurður kveðinn upp (og birtur) fyrir lok laugardags.

Á undanförnum árum hafa jafnan verið kærðar á milli 10-20 ákvarðanir um agaviðurlög árlega til ráðuneytisins. Af þeim fjölda hefur einu sinni komið til þess að ekki var kveðinn upp úrskurður innan tímamarkanna og tvisvar hefur farið úrskeiðis sending og tilkynning til hlutaðeigandi fanga. Við þær aðstæður hafa viðurlögin sem viðkomandi sætti á þeirri stundu, fallið niður. Algengustu viðurlögin eru svipting dagpeninga/vinnulauna, síma-, bréfa- og sendingabann. Þegar agaviðurlögin hafa lotið að fíkniefnabroti eða synjun á að láta í té þvagsýni hafa heimsóknir ennfremur verið takmarkaðar við heimsóknarherbergi í öryggisálmu, þar sem snertingar eru ekki leyfðar og viðræður fara fram í gegnum gler/plast.

Skilningur ráðuneytisins er sá að þegar úrskurður ráðuneytisins er ekki kveðinn upp innan tímamarka eða berst fanga ekki í tæka tíð, eins og að ofan hefur verið lýst, falla niður viðurlögin sem fangelsið hafði ákveðið að fanginn skyldi sæta. Réttaráhrifin eru því þau að fanginn fær aftur greidda fulla dagpeninga/vinnulaun og fær að senda bréf og hringja símtöl og heimsóknir verða án takmörkunar þeirrar, sem ákveðin höfðu verið.“



Um þá ákvörðun að beita fanga agaviðurlögum samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laga nr. 48/1988 eru svohljóðandi ákvæði í 4. og 5. mgr. 31. gr. laganna:



„Forstöðumaður ákveður agaviðurlög samkvæmt grein þessari. Áður en hann tekur ákvörðun skal hann ganga úr skugga um hvernig broti var háttað með því að yfirheyra fangann og með annarri rannsókn eftir aðstæðum.

Ákvarðanir um agaviðurlög skulu bókaðar og birtar fanga í viðurvist vitnis. Ákvörðun um agaviðurlög sætir kæru til dómsmálaráðuneytisins og skal skýra fanga frá því um leið og ákvörðun er birt. Þegar ákvörðun er kærð skulu gögn málsins þegar send ráðuneytinu. Ráðuneytið skal taka ákvörðun innan tveggja sólahringa frá því að kæra barst, ella fellur ákvörðun úr gildi.“



Ekki hafa verið sett nánari fyrirmæli um málsmeðferð þegar fyrir liggur grunur um agabrot. Þá hefur athugun mín leitt í ljós að ekki eru til staðar skráðar reglur um meðferð mála í slíkum tilvikum í „húsreglum“ fangelsa eða í öðrum almennum fyrirmælum settum af fangelsisyfirvöldum.

Við úrlausn kvartana fanga sem borist hafa umboðsmanni Alþingis hefur ítrekað verið bent á að stjórnvöldum er skylt að gæta meginreglna stjórnsýslulaga, sbr. áður óskráðra meginreglna stjórnsýsluréttar, við meðferð mála um agaviðurlög í fangelsum enda séu slíkar ákvarðanir stjórnvaldsákvarðanir í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 1. febrúar 2001 í máli nr. 271/2000.

Samkvæmt fyrri málslið 4. mgr. 31. gr. laga nr. 48/1988 ákveður forstöðumaður agaviðurlög þau sem mælt er fyrir um í 1. mgr. greinarinnar. Í 2. málslið ákvæðisins er síðan mælt fyrir að forstöðumaður skuli, áður en hann tekur ákvörðun, ganga úr skugga um hvernig broti var háttað með því „að yfirheyra fangann og með annarri rannsókn eftir aðstæðum“. Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögum nr. 48/1988 kemur fram að „forstöðumaður skuli sjálfstætt kanna hvernig broti var háttað áður en hann tekur ákvörðun um beitingu agaviðurlaga“. Síðan segir að þetta ákvæði sé nýmæli í lögum en sé efnislega samhljóða 3. mgr. 27. gr. reglugerðar um fangavistar nr. 206/1957 og að þótt hafi ástæða til að lögfesta þetta ákvæði. (Alþt. 1987-1988, A-deild, bls. 2097.)

Fyrirkomulag 4. mgr. 31. gr. laga nr. 48/1988 gerir ráð fyrir sjálfstæðri og virkri aðkomu forstöðumanns að rannsókn og ákvarðanatöku um hvort beita eigi agaviðurlögum í tilteknu tilviki. Verður þannig með hliðsjón af áðurnefndum ummælum í lögskýringargögnum að telja að hlutverk forstöðumanns sé afmarkað með persónubundnari hætti í lögum nr. 48/1988 en almennt er gert í löggjöf á sviði stjórnsýsluréttar. Þetta fyrirkomulag á að mínu áliti rætur sínar að rekja til þeirra sérstöku aðstæðna sem til staðar eru í afplánunarfangelsum sem endurspeglast einkum í nánum daglegum samskiptum fangavarða og fanga sem eðli máls eru fylgifiskur slíkrar starfsemi.

Með tilliti til réttaröryggis fanga og sjónarmiða um sanngjarna málsmeðferð þegar tekin er ákvörðun um beitingu agaviðurlaga tel ég að skilja beri 4. mgr. 31. gr. laga nr. 48/1988 með þeim hætti að það áskilji að forstöðumaður leggi að jafnaði sjálfur í hverju tilviki mat á hvort rannsókn hafi verið fullnægjandi. Sé honum því rétt að láta hjá líða að taka ákvörðun fyrr en úr hefur verið bætt ef brotalamir hafa verið til staðar á rannsókn máls að hans mati, s.s. að sjónarmið viðkomandi fanga liggi ekki með skýrum hætti fyrir. Ég bendi á það að forstöðumaður verður auk þess að sjá til þess að tiltekin rannsókn sé ekki framkvæmd af þeim starfsmönnum sem eftir atvikum hafa með beinum hætti átt aðkomu að þeim atburði eða atviki sem getur orðið tilefni ákvörðunar um beitingu agaviðurlaga eða hafa beinlínis verið þolendur agabrots. Það leiðir m.ö.o. af 4. mgr. 31. gr. laga nr. 48/1988 að framkvæmd rannsóknar fyrir hönd forstöðumanns þarf að vera í höndum hans sjálfs eða starfsmanna sem koma að málinu með sjálfstæðum og hlutlausum hætti að teknu tilliti til atvika þess.

Ég skil 4. mgr. 34. gr. laga nr. 48/1988, að teknu tilliti til orðalags þess og lögskýringargagna, jafnframt á þá leið að forstöðumaður verður við töku ákvörðunar um hvort beita eigi agaviðurlögum að leggja sjálfstætt mat á öll atvik málsins. Mikilvægt er að meðferð mála við þessar aðstæður sé með þeim hætti að brigður verið ekki bornar á óhlutdrægni forstöðumanns þegar ákvörðun um hvort beita skuli viðurlögum vegna agabrots er tekin.

Ég vek athygli á því að samkvæmt 2. mgr. 36. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna skulu skýrslur um brot sendar „þar til bæru yfirvaldi“ sem taka skal ákvörðun án ástæðulausrar tafar um hvort og þá hvaða viðurlögum skuli beitt. Ekki er að finna skýringar á efni þessa ákvæðis í ofangreindu skýringarriti Evrópuráðsins frá 1994. Af orðalagi ákvæðisins má þó draga þá ályktun að almennt skuli ákvörðun um hvort og þá hvaða agaviðurlögum skuli beitt í hverju tilviki fyrir sig vera tekin af stjórnvaldshafa sem ekki hefur með beinum hætti orðið vitni að eða tekið þátt í að upplýsa um það atvik sem til athugunar er hvort leiða eigi til agaviðurlaga. Með því sé best tryggt réttaröryggi fangans og þá það sjónarmið lagt til grundvallar að sjálfstæður og óhlutdrægur aðili, sem ekki hefur komið að málinu á fyrri stigum, taki afstöðu til þess hvort skilyrði séu til að beita agaviðurlögum. Ég legg á það áherslu að ekki verður þó séð að með ákvæðinu sé takmörkuð sú skylda þess stjórnvalds sem ákvörðunina tekur að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst og ef á skortir að gera fullnægjandi ráðstafanir til þess að bæta þar úr áður en það tekur ákvörðun um hvort beiti eigi agaviðurlögum.

Ég tel rétt á þessu stigi og að teknu tilliti til almenns eðlis athugunar minnar að takmarka hér frekari umfjöllun mína við málsmeðferð í þeim tilvikum þegar tekin er ákvörðun um að vista afplánunarfanga í einangrun vegna agabrots. Þó verður að árétta að þau sjónarmið sem hér fara á eftir eiga einnig að meginstefnu til við þegar ákvarðanir eru teknar um beitingu annarra agaviðurlaga sem fram koma í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 48/1988.

Ég minni á þau sjónarmið sem vikið var að hér að framan um að almennt verði að líta svo á að það úrræði að vista afplánunarfanga í einangrun feli í sér þungbærari ráðstöfun en leiðir af afplánun óskilorðsbundinnar fangelsisvistar um tiltekin tíma, sbr. álit umboðsmanns Alþingis frá 21. september 1990 í málinu nr. 170/1989 (SUA 1990:97) og 64. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna. Enda þótt stjórnvöld verði í öllum málum er varða beitingu agaviðurlaga að gæta að ákvæðum 4. og 5. mgr. 31. gr. laga nr. 48/1988 og meginreglum stjórnsýslulaga verður þannig að hafa í huga að þessar málsmeðferðarreglur eru afstæðar að efni til. Því meira íþyngjandi sem ráðstöfun er sem stjórnvald hyggst beita því meiri kröfur eru gerðar um málsmeðferð og undirbúning ákvörðunar.

Ákvæði um heimildir fangelsisyfirvalda til að vista fanga í einangrun eru tvíþætt. Annars vegar er samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 48/1988 heimilt að einangra fanga frá öðrum föngum þegar það er nauðsynlegt vegna öryggis ríkisins og vegna yfirvofandi hættu á lífi hans eða heilbrigði. Ef hætta er á að fangi valdi meiri háttar eignaspjöllum á húsakosti eða húsbúnaði fangelsisins má einnig halda honum einangruðum frá öðrum föngum svo og til að koma í veg fyrir strok, sbr. þriðji málsl. 1. mgr. 30. gr. laga nr. 48/1988. Samkvæmt 2. mgr. 30. gr. sömu laga er heimilt að einangra fanga til að koma í veg fyrir að hann hvetji aðra til að brjóta reglur fangelsis og hindra að fangi taki þátt í að útvega sér eða öðrum áfengi, önnur vímuefni eða lyf. Fanga má sömuleiðis aðgreina frá öðrum til að afstýra því að hann beiti aðra fanga yfirgangi. Um málsmeðferð við beitingu einangrunar í þessum tilvikum er að finna svofelld ákvæði í 4. og 5. mgr. 30. gr. laga nr. 48/1988:



„Ákvarðanir samkvæmt grein þessari skal bóka og ástæður tilgreindar. Ákvörðun um einangrun sætir kæru til dómsmálaráðuneytisins og skal skýra fanga frá því um leið og ákvörðun er birt. Þegar ákvörðun er kærð skulu gögn málsins þegar send ráðuneytinu. Ráðuneytið skal taka ákvörðun innan tveggja sólarhringa frá því að kæra barst, ella fellur ákvörðun úr gildi.

Samþykki fangelsismálastofnunar þarf til að halda fanga í einangrun samkvæmt grein þessari lengur en 30 daga.“



Í annan stað er, eins og áður segir, að finna heimild í 4. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 48/1988 til að beita einangrun í allt að 30 daga sem agaviðurlög vegna brota á reglum fangelsis. Ákvæði 30. og 31. gr. heimila beitingu einangrunar við eðlisólíkar aðstæður, þ.e. annars vegar í forvarnarskyni til að sporna gegn hættu á lífi og heilbrigði viðkomandi fanga og annarra í fangelsinu, eignum fangelsisins og óæskilegum áhrifum fanga á aðra afplánunarfanga, sjá hér álit mitt frá 15. ágúst 2001 í máli nr. 3212/2000. Hins vegar veitir 4. tl. 1. mgr. 31. gr. laganna heimild til að beita einangrun sem viðurlög við athöfnum eða athafnaleysi sem er bannað eða boðið samkvæmt reglum fangelsis.

Eins og sjá má af því sem rakið er hér að framan er að finna sérstök málsmeðferðarákvæði í lögum nr. 48/1988 um hvorn flokk þessara tilvika, þ.e. annars vegar tilvitnað ákvæði 4. og 5. mgr. 30. gr. að því er varðar fyrri flokkinn en 4. og 5. mgr. 31. gr. að því er varðar síðari flokkinn. Ég tek hins vegar fram að efni þessara ákvæða er að nokkru leyti samhljóða meðal annars um skyldu til að bóka ákvarðanir um einangrun og um kæruheimild til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins ásamt skyldu þess til að afgreiða slíkar kærur innan tveggja sólarhringa frá því að kæra berst ella falli þær úr gildi. Hins vegar er ekki fjallað sérstaklega um það í 4. mgr. 30. gr. laga nr. 48/1988 hver taka eigi ákvörðun um að vista fanga í einangrun á grundvelli fyrirmæla ákvæðisins. Aftur á móti er mælt fyrir um það sérstaklega í 4. mgr. 31. gr. að forstöðumaður ákveði agaviðurlög, þar á meðal einangrun. Þá er í öðru lagi ekki kveðið sérstaklega á um skyldu til að rannsaka atvik máls, meðal annars með því að yfirheyra fangann, í 30. gr. laganna eins og gert er ráð fyrir í síðari málsl. 4. mgr. 31. gr. að því er varðar ákvarðanir um agaviðurlög.

Í áliti mínu frá 7. júlí 2000 í málinu nr. 2426/1998 tók ég fram að gera yrði greinarmun á því hvort einangrun væri beitt eftir ákvæðum 30. eða 31. gr. laga nr. 48/1988. Hvað sem því líður tek ég fram að enda þótt málsmeðferðarákvæði 30. gr. laganna séu ekki jafn ítarleg og samsvarandi ákvæði 31. gr., meðal annars um það hver skuli taka ákvarðanir um einangrun á grundvelli ákvæðisins og hvernig haga skuli rannsókn á málsatvikum af því tilefni, tel ég ekki tilefni til að skýra 4. mgr. 30. gr. með þeim hætti að gerðar séu vægari kröfur að þessu leyti þegar um ákvarðanir um einangrun er að ræða sem eiga sér stoð í því ákvæði. Hafa verður í huga að líkamleg og andleg áhrif einangrunar eru jafn íþyngjandi fyrir þann fanga sem um ræðir hvort sem tilefni úrræðisins eru beiting agaviðurlaga eða þær aðstæður sem greinir í 1. og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 48/1988. Enda þótt 4. mgr. 30. gr. geri ekki sérstaklega ráð fyrir að fram fari rannsókn á atvikum að baki ákvörðun um einangrun á grundvelli ákvæðisins, meðal annars með yfirheyrslu fanga, eins og 4. mgr. 31. gr. geri ráð fyrir, minni ég á að um ákvarðanir samkvæmt 30. gr. gilda meginreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 meðal annars um rannsóknarskyldu stjórnvalda og um andmælarétt aðila. Í raun endurspeglar efnisákvæði 4. mgr. 31. gr. aðeins þær kröfur sem að öðrum kosti yrðu leiddar af 10. gr. stjórnsýslulaga.

Ég tel ástæðu til að taka þetta sérstaklega fram sökum þess að ég hef orðið þess var í störfum mínum að fangelsisyfirvöld taka á stundum ákvarðanir um að aðgreina fanga frá öðrum föngum á grundvelli ástæðna sem aðeins verða taldar heimilar með stoð í 30. gr. laga nr. 48/1988. Í þeim tilvikum legg ég áherslu á að gera verður sambærilegar kröfur til rannsóknar á atvikum slíkra mála áður en ákvörðun er tekin um einangrun. Ég geri mér grein fyrir að þau tilvik sem greinir í 30. gr. laganna hljóta oft og tíðum að vera þess eðlis að skjótra viðbragða er þörf. Hvað sem því líður tel ég að fangelsisyfirvöld verði þá að jafnaði að hafa í huga og ganga fyllilega úr skugga um með viðeigandi ráðstöfunum hvort skilyrði 30. gr. laga nr. 48/1988 séu enn til staðar þannig að einangrun viðkomandi fanga eigi sér fullnægjandi stoð í lögum. Minni ég í því efni á að fangelsiyfirvöld verða ávallt að hafa í huga hvort rétt sé að beita slíku úrræði að teknu tilliti til þeirra sjónarmiða sem búa að baki 12. gr. stjórnsýslulaga um meðalhóf.

Að því er varðar beitingu einangrunar sem einni tegund agaviðurlaga samkvæmt 4. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 48/1988 tek ég fram að í ljósi eðlis þess úrræðis sem einangrun er í samanburði við önnur agaviðurlög sem talin eru upp í 1. mgr. 31. gr., s.s. áminning eða svipting réttinda, verður að miða við það að gerðar séu ríkar kröfur til stjórnvalda um að mál sé nægjanlega upplýst áður en til greina kemur að beita einangrun og að sú ráðstöfun gangi ekki lengra en nauðsyn ber til. Að því er varðar rannsóknarskyldu stjórnvalda í slíkum tilvikum, sbr. 4. mgr. 31. gr. laga nr. 48/1988 og 10. gr. stjórnsýslulaga, minni ég á ofangreint álit mitt frá 7. júlí 2000 í málinu nr. 2426/1998.

Í því máli var sérstaklega vikið að málsmeðferð við undirbúning ákvörðunar um að vista fanga í einangrun vegna agabrots. Tók ég fram að í þeim tilvikum þegar beita ætti agaviðurlögum samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 31. gr. yrði rannsókn forstöðumanns fangelsis samkvæmt 4. mgr. 31. gr. laganna ekki takmörkuð við skýrslutöku og gagnaöflun er snerta agabrotið sjálft. Í ljósi 1. mgr. 38. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna yrði rannsóknin jafnframt að taka til þess hvort fanginn myndi þola slík viðurlög.

Í nefndu ákvæði Evrópsku fangelsisreglnanna kemur fram að vegna agabrots megi aðeins beita fanga innilokun eða einhverri annarri refsingu sem haft geti skaðleg áhrif á líkamlega eða andlega heilsu hans ef fangelsislæknir hefur staðfest skriflega að lokinni skoðun að fanginn þoli slík viðurlög. Með 2. mgr. 38. gr. er þó skýrt tekið fram að slík agaviðurlög megi aldrei vera andstæð eða ósamrýmanleg meginreglum 37. gr. sem meðal annars banna með öllu að beita vistun í dimmum klefa eða nokkrum agaviðurlögum sem teljast grimmileg, ómannleg eða vanvirðandi.

Í áliti mínu sem að framan er nefnt vakti ég einnig athygli á skyldum íslenska ríkisins sem leiða af ákvæði 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994, um sama efni. Í ákvæðinu eru fortakslaus fyrirmæli um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Benti ég á að stofnanir Evrópuráðsins hefðu litið svo á að skortur á viðeigandi og nauðsynlegri læknismeðferð gæti talist brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans og að lögfesting mannréttindasáttmálans hér á landi hefði falið í sér skuldbindingu af hálfu íslenska ríkisins að haga löggjöf sinni og stjórnsýslu þannig að réttindi samkvæmt honum væru virt. Varð það því niðurstaða mín að stjórnvöldum bæri skylda til að haga refsifullnustu þannig að gætt væri að líkamlegri og andlegri velferð fanga og þeim tryggð viðeigandi læknisþjónusta.

Í þessu sambandi bendi ég á dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 30210/96, Kud A g. Póllandi, sem upp var kveðinn 26. október 2000. Í 94. mgr. niðurstöðunnar tók dómstóllinn fram að samkvæmt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu bæri aðildarríkjum skylda til að sjá til þess að tryggð væri nauðsynleg læknisþjónusta þannig að gætt væri að líkamlegri og andlegri velferð manns sem sviptur hefði verið frelsi sínu, sjá hér dóma Mannréttindadómstólsins í málum Peers gegn Grikklandi frá 19. apríl 2001 og máli Valašinas gegn Litháen frá 25. júlí 2001. Ég tek fram að rök standa ekki til annars en að miða við að þessi skylda hvíli á fangelsisyfirvöldum hér á landi hvort sem um er að ræða ákvörðun um einangrun á grundvelli 30. eða 31. gr. laga nr. 48/1988.

Í ljósi þess sem að framan er rakið tel ég að almennt verði að leggja til grundvallar að ef fangelsisyfirvöld gera ekki reka að því að fá fram sjónarmið læknis um líkamlegt og andlegt ástand fanga áður en honum er gert að sæta einangrun á grundvelli 30. eða 31. gr. laga nr. 48/1988 leiði það til þess að meðferð málsins verði ekki talin uppfylla kröfur lokamálsliðar 4. mgr. 31. gr. laga nr. 48/1988 og 10. gr. stjórnsýslulaga. Þá minni ég á að með því að fanga sé ekki tryggð nauðsynleg læknisþjónusta við vistun hans í fangelsi, og þá einkum þegar honum er gert að sæta einangrun, eigi stjórnvöld á hættu að meðferð slíks máls verði talin brjóta í bága við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994. Ég tek það fram að nauðsyn þessarar málsmeðferðar á hins vegar ekki að girða fyrir að gerðar séu nauðsynlegar aðgerðir til að aðgreina fanga í skamman tíma ef brýn þörf er á slíku vegna ástands í fangelsinu enda sé kostur á öðrum úrræðum en einangrun í framangreindum skilningi.



V.

Birting reglna um vistun á áfangaheimili Verndar



Í áliti mínu frá 15. júní 2001 í máli nr. 3034/2000 fjallaði ég meðal annars um reglur fangelsismálastofnunar um vistun fanga á áfangaheimili Verndar í Reykjavík og þá hvort umræddar reglur hefðu verið birtar með lögformlegum hætti. Í niðurlagi álits míns vakti ég athygli á þeirri ákvörðun minni að taka til skoðunar að eigin frumkvæði atriði er lytu meðal annars að reglum um agaviðurlög og framkvæmd þeirra. Rakti ég að eitt af þeim atriðum lyti í því sambandi að hinum formlega grundvelli reglna um agaviðurlög og þá meðal annars einnig birtingarmáta þeirra, sbr. það sem rakið er hér að framan í kafla III. Í ljósi þessa og að því virtu að umfjöllun um hvaða kröfur yrðu leiddar af lögum og vönduðum stjórnsýsluháttum til birtingar á umræddum reglum um afplánun á áfangaheimili Verndar væri almenns eðlis og í nánum tengslum við þau atriði sem frumkvæðisathugun mín fjallaði um tók ég fram að ég hefði ákveðið, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, að fjalla einnig um það atriði á vettvangi þessarar frumkvæðisathugunar.

Í ofangreindu máli nr. 3034/2000 ritaði ég bréf til dóms- og kirkjumálaráðherra, dags. 12. september 2000, og óskaði þess meðal annars að ráðuneytið upplýsti hvort reglur um vistun á áfangaheimili Verndar frá 13. október 1999 hefðu verið birtar í B-deild Stjórnartíðinda. Hefði svo ekki verið var óskað eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort það væri viðhorf þess að af 2. gr. laga nr. 64/1943, um birtingu laga og stjórnvaldaerinda, leiddi til þess að birta hefði átt reglurnar með þeim hætti sem ákvæðið byði.

Í svarbréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til mín af þessu tilefni, dags. 26. september 2000, sagði meðal annars svo um þetta atriði:



„Reglur fangelsis og reglur um afplánun á áfangaheimili Verndar fela í sér vinnu- og starfsreglur stjórnvalds en eru ekki almennar stjórnvaldsreglur sem birtar eru samkvæmt 2. gr. laga um birtingu laga og stjórnvaldaerinda, nr. 64/1943. Þessar reglur hafa því aldrei verið birtar en þess í stað hafa þær verið kynntar föngum. [...] Þá skal það tekið fram að umboðsmaður Alþingis hefur ítrekað fjallað um agaviðurlög á hendur föngum, sem ákveðin eru á grundvelli brota á reglum fangelsis, sbr. 31. gr. laga um fangelsi og fangavist. Í þeim álitum hefur umboðsmaður hvorki vefengt lagagrundvöll slíkra reglna né gert athugasemdir við birtingu þeirra með kynningu innan fangelsa. Ekki verður séð að önnur sjónarmið eigi við um hliðstæðar reglur sem gilda um afplánun utan fangelsa.“



Í ofangreindu áliti mínu frá 15. júní 2001 rakti ég að ekki væri í sjálfu sér ástæða til að gera athugasemdir við að fangelsismálastofnun hefði sett almennar og hlutlægar reglur um vistun fanga á áfangaheimilinu Vernd, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 48/1988. Ég tek hins vegar fram að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 64/1943 skal meðal annars birta reglugerðir, samþykktir og auglýsingar sem gefnar eru út eða staðfestar af ráðherra, og ákvarðanir og úrlausnir ráðuneyta sem almenna þýðingu hafa, í B-deild Stjórnartíðinda. Með 1. gr. laga nr. 95/1994 var bætt við nýjum málslið við ofangreinda 1. mgr. 2. gr. laga nr. 64/1943. Þar segir að einnig skuli birta reglur sem opinberum stjórnvöldum og stofnunum, öðrum en ráðuneytum, er falið lögum samkvæmt að gefa út.

Samkvæmt fyrri málslið 7. gr. laga nr. 64/1943 er óheimilt að beita fyrirmælum laga, auglýsinga, tilskipana, reglugerða, opinna bréfa, samþykkta eða öðrum slíkum ákvæðum almenns efnis fyrr en birting samkvæmt 1. og 2. gr. laganna hefur farið fram nema þau geymi ákvæði algerlega einkamálaeðlis og aðilar hafi komið sér saman um það að skipti þeirra skuli fara eftir óbirtum fyrirmælum.

Umboðsmaður Alþingis hefur áður rakið í áliti frá 14. maí 1998 í máli nr. 2140/1997 að fyrirmæli laga nr. 64/1943 eru sett til verndar réttaröryggi borgaranna. Á þetta að mínu áliti sérstaklega við þegar um almennar reglur er að ræða sem ráða samskiptum tiltekins hóps einstaklinga, s.s. fanga, eða lögaðila og stjórnvalda.

Reglur þær sem fangelsismálastofnun hefur sett vegna vistunar fanga á áfangaheimili Verndar í Reykjavík eru þáttur í framkvæmd stofnunarinnar á heimild þeirri sem henni er fengin með 2. mgr. 11. gr. laga nr. 48/1988, sbr. 2. gr. laga nr. 22/1999. Eru þessar reglur allsherjarréttarlegs eðlis og almennar í þeim skilningi að þær eiga við um alla þá fanga sem fá leyfi til að ljúka afplánun sinni með þeim hætti sem lagaákvæðið heimilar. Hafa reglurnar þannig að geyma fyrirmæli um mögulegan dvalartíma á áfangaheimilinu, um skyldur fanga til að stunda reglulega vinnu eða nám á tilteknum svæðum, um greiðslu fanga á dvalar- og fæðiskostnaði til heimilisins, um form umsókna um vistun á áfangaheimili Verndar og um töku ákvarðana fangelsismálastofnunar um hvort umsækjandi uppfylli skilyrði til afplánunar þar. Eru skilyrðin til vistunar á áfangaheimilinu rakin sérstaklega í 4. gr. reglnanna. Auk þess er mælt fyrir um það í 3. gr. að afplánun á áfangaheimilinu sé háð því skilyrði að húsnefnd Verndar samþykki umsóknina og telji hún umsækjanda ekki hæfan til afplánunar á heimilinu sé sú ákvörðun endanleg. Þá er að finna kæruheimild til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins telji fangelsismálastofnun að fangi uppfylli ekki skilyrði til vistunar á áfangaheimilinu. Einnig er að finna almennar reglur um vistun á heimilinu í 5. gr., s.s. um það hvenær fanga sé heimilt að vera fjarri því, um bann við neyslu áfengis- og vímuefna, um skyldu til að hlíta fyrirmælum starfsmanna áfangaheimilisins og um skyldu til að láta í té öndunar- og/eða þvagsýni vegna áfengis- eða vímuefnaeftirlits þegar þess er óskað.

Að virtu orðalagi 1. mgr. 2. gr. laga nr. 64/1943, sbr. 1. gr. laga nr. 95/1994, verður að mínu áliti ekki fullyrt að lagaskylda hafi staðið til þess að birta umræddar reglur um vistun á áfangaheimili Verndar í B-deild Stjórnartíðinda. Minni ég á að ákvæðið virðist takmarkað við þær reglur sem opinberum stjórnvöldum og stofnunum, öðrum en ráðuneytum, er „falið“ með lögum að gefa út. Eins og áður er rakið gerir 2. mgr. 11. gr. laga nr. 48/1988 ekki ráð fyrir því að fangelsismálastofnun sé skylt að gefa út almennar reglur þegar ákveðið er að beita þeirri heimild sem ákvæðið mælir fyrir um. Á hinn bóginn legg ég á það áherslu að umræddar reglur eru fyrirmæli opinbers eðlis um samskipti fanga

og stjórnvalda í tilefni af beitingu tiltekins lögbundins úrræðis. Sökum þessa og í ljósi réttaröryggissjónarmiða tel ég það betur í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að slíkar reglur séu birtar með almennum og opinberum hætti. Ég tel þá eftir atvikum rétt að dóms- og kirkjumálaráðuneytið láti fara fram athugun á því hvort ekki sé rétt að færa slíkar reglur í búning almennra stjórnvaldsfyrirmæla sem birtar eru í B-deild Stjórnartíðinda samkvæmt lögum nr. 64/1943.

VI.

Reglur og framkvæmd við töku þvagsýna

Í bréfi mínu til dóms- og kirkjumálaráðherra 3. ágúst 1999 óskaði ég eftir því að ráðuneytið gerði grein fyrir þeim sjónarmiðum sem lögð væru til grundvallar þegar ákveðið væri að taka þvagsýni úr afplánunarföngum. Óskaði ég eftir afstöðu ráðuneytisins til þess hvort og þá með hvaða hætti það teldi að þau sjónarmið sem lögð væru til grundvallar við töku ákvarðana um þvagsýnatöku væru í samræmi við meginreglur stjórnsýslulaga um jafnræði og meðalhóf, sbr. 11. og 12. gr. laganna. Í svarbréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 16. nóvember 1999, er um þetta atriði alfarið vísað til greinargerðar fangelsismálastofnunar frá 28. september s.á. Í greinargerðinni segir meðal annars svo um töku þvagsýna:

„[...] Þvagsýni eru tekin við komu fanga í fangelsi. Jafnframt eru þvagsýni tekin í fangelsinu af eftirtöldum ástæðum (c. og d. liður á við um Litla-Hraun):

a. Sem hluti af reglubundnu eftirliti til að fylgjast með fíkniefnaneyslu.

b. Í tengslum við dagsleyfi fanga úr fangelsinu.

c. Við flutning úr öryggisdeild á almenna deild.

d. Áður en skólavist hefst.

e. Ef grunur er um fíkniefnaneyslu.

Með reglubundnu eftirliti, sbr. a. lið, er ekki átt við að á fyrirfram ákveðnum tíma séu teknar prufur af öllum föngum reglubundið, heldur er um að ræða sérstaka ákvörðun hverju sinni, tekna af varðstjórum í samráði við forstöðumann. Þegar ákveðið er að tiltekinn fjöldi þvagprufa verði tekinn er það ýmist að allir fangarnir eru látnir skila prufu eða þá að ákveðinn fjöldi er valinn af handahófi. Um tvenns konar prófun er að ræða. Annars vegar innanhúss-prófun, þar sem starfsmenn kanna hvort sýni er jákvætt eða neikvætt með þar til gerðum mælitækjum, t.d. við komu í fangelsið. Hins vegar eru sýni, sem augljóslega bera jákvæða svörun gagnvart fíkniefnainnihaldi í þvagi, send til rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfjafræði þar sem þau eru vísindalega prófuð. Það skal skýrt tekið fram að einungis útkoma úr hinu síðarnefnda getur orðið grundvöllur agaviðurlaga.

Fangelsismálastofnun beindi með bréfi, dags. 1. september [1999], þeim tilmælum til forstöðumanna fangelsanna að þeir hlutuðust til um að tekin yrði þvagsýni úr föngum sem ákveðið væri að vista hjá Vernd í lok afplánunar, áður en þeir væru fluttir þangað.

Þess má geta að á fyrrgreindum fundi Fangelsismálastofnunar og forstöðumanna fangelsanna var m.a. rætt um framkvæmd þvagsýnataka. Lögð var áhersla á að þvagsýnataka væri ekki niðurlægjandi athöfn fyrir fangann. Fangavörður stendur því ekki yfir fanga á meðan hann skilar þvagi. Hefur það reyndar gert það að verkum að fangaverðir eiga ekki eins auðvelt með að fylgjast með því hvort einhverju sé smeygt í þvagsýnaglas í því skyni að menga þvagsýni. Jafnframt var það rætt hvort unnt væri að draga úr hinu reglubundna eftirliti vegna fíkniefnaneyslu. Kom fram að rík áhersla væri lögð á það, sérstaklega í Fangelsinu Litla-Hrauni, vegna stærðar fangelsisins, að sporna við vímuefnanotkun, enda er langstærsti hluti þeirra ákvarðana um agaviðurlög, sem teknar eru í fangelsinu, vegna brota á reglum um vímuefnavörslu eða neyslu. Nauðsynlegt væri að veita föngum aðhald vegna þessa. Tíðni þvagsýnataka færi hins vegar eftir ástandinu í fangelsinu hverju sinni.“

Ég tel rétt að taka fram að í tilefni af kvörtun fanga, sem barst mér 18. maí 1999, þar sem kvartað var yfir því að ekki hefði verið tilefni til líkamsleitar á honum í ákveðnu tilviki, ritaði ég dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bréf sama dag og ég sendi framangreint bréf mitt til ráðuneytisins í tilefni af þessu frumkvæðismáli mínu. Í því bréfi óskaði ég sérstaklega eftir afstöðu ráðuneytisins til þess í hverju „líkamsleit á fanga“ í merkingu upphafsákvæðis 1. mgr. 28. gr. laga nr. 48/1988 gæti verið fólgin. Þá óskaði ég einnig eftir sjónarmiðum ráðuneytisins um hvort og þá með hvaða hætti framkvæmd líkamsleitar á föngum væri í samræmi við meginreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum um jafnræði og meðalhóf, sbr. 11. og 12. gr. laganna. Ég vek athygli á því að í niðurlagi bréfs míns til ráðuneytisins út af framangreindu máli tók ég sérstaklega fram að ef umrædd kvörtun tæki að öðru leyti til þeirra atriða sem óskað væri skýringa á út af frumkvæðisathugun minni teldi ég rétt að sjónarmið dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til þeirra kæmu fram í svari þess við bréfi mínu af því tilefni.

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið svaraði bréfi mínu með bréfi, dags. 26. nóvember 1999, og sagði þar meðal annars svo:

„Altítt er í íslenskum fangelsum, þó einkanlega á Litla-Hrauni, að fangar reyni að verða sér úti um hvers kyns vímugjafa. Vegna fyrirferðar áfengisdrykkja og augljósum vandkvæðum á að smygla þeim inn í fangelsi reyna fangar frekar að smygla ávana- og fíkniefnum eða lyfjum, sem þeir nota til þess að komast í vímu.

Ekki þarf að taka fram að margir fangar hafa fyrir komu í fangelsi misnotað og verið háðir vímuefnum um skemmri eða lengri tíma. [...]

Þá er ástæða til að taka fram að fangar, sem eru undir áhrifum ávana- og fíkniefna, skapa oft erfiðleika í umhverfinu kringum sig og valda verulegum óróa í fangasamfélaginu, þannig að oft skapast meiri háttar vandræði af fyrir aðra fanga og fangavörsluna. Uppþot og ólæti sem verða í fangelsunum eiga oft rót að rekja til þess að menn hafa komist yfir aðra vímugjafa og neytt þeirra.

Margir fangar hafa ekki vilja til að taka sig á, ýmist meðvitað eða ómeðvitað, og eru staðnir að því ítrekað að smygla og/eða neyta ávana- og fíkniefna.

Af þessum ástæðum telja fangelsisyfirvöld afar mikilvægt að reynt sé að hamla gegn því að ávana- og fíkniefni berist inn í fangelsin. Ávana- og fíkniefnin berast eftir ýmsum leiðum, og talið er að mikið af þeim berist með heimsóknargestum. Dæmi eru um að heimsóknargestir fela þessi efni innvortis. Fangelsisyfirvöld eru tregari að leita að heimsóknargestum en föngum, og leita frekar á föngum eftir heimsóknir sem fara fram án eftirlits.

[...]

Samkvæmt [29. gr. laga nr. 48/1988, um fangelsi og fangavist] er heimilt ef grunur leikur á að fangi feli á sér innan klæða efni eða hluti sem honum er bannað að hafa, að framkvæma líkamsleit á fanga. Slíka leit má gera við komu fanga í fangelsi, ef grunur leikur á að fanginn feli slíka hluti á sér eða þegar gerð er skyndikönnun eða eftir heimsókn, hafi hún farið fram án eftirlits.

Í bréfi Fangelsismálastofnunar ríkisins, dags. 28. sept. sl., er fylgdi bréfi ráðuneytisins til yðar varðandi svör við frumkvæðisathugun yðar um málefni fanga, er tilgreint í kafla 2, lið 6 við hvaða fleiri aðstæður þvagsýni eru tekin.

Rétt er að víkja að því hvernig líkamsleit er framkvæmd. Ávallt er byrjað að leita í fatnaði, en síðan er ýmist látið nægja að þukla utan á fatnaði um líkamann eða þá að viðkomandi er látinn afklæðast. Menn sem geyma nokkur grömm af ávana- og fíkniefnum geta hæglega falið þau þannig, að nauðsynlegt sé að láta þá afklæðast. Sem dæmi um felustaði má nefna í skó, í sokk, undir kynfærum o.fl.

Eins og forstjóri fangelsismálastofnunar nefndi í áðurnefndu bréfi sínu er ávallt reynt að hafa að leiðarljósi við bæði leit svo og þvagsýnatöku, að athöfnin verði sem minnst niðurlægjandi fyrir fangann. Lögfest er að leit á fanga innan klæða skuli gerð af starfsmanni sama kyns.

Hvað meðalhóf snertir, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, þá hefur fangelsismálastjórnin ekki önnur úrræði til að fá staðfestingu á fíkniefnaneyslu fanga, sem byggja megi agaviðurlög á, en að sýni úr fanga verði tekin og þau rannsökuð hjá viðurkenndum rannsóknaraðila. Þykir ekki nægilegt að byggja á einföldum prófunartækjum, sem fangelsin hafa yfir að ráða, en þau gefa vísbendingu þegar um neyslu fíkniefna hefur verið að ræða. Það er einungis þegar þau tæki gefa jákvæða svörun, sem sýni er sent áfram til frekari greiningar hjá Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfjafræði. Ráðgert er að festa kaup á sérstöku bandarísku leitartæki fyrir fangelsið á Litla-Hrauni, þegar fjárveiting fæst, sem kostar yfir 5 milljónir króna, en með tilkomu þess má draga verulega úr þvagsýnatökum úr föngum til að staðfesta fíkniefnaneyslu. Langmest af þvagsýnum, sem tekin eru í fangelsum, eru tekin í fangelsinu að Litla-Hrauni.

Hvað jafnræði, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga, áhrærir skal tekið fram að fyrir utan þær tilgreindu ástæður sem getið er um í liðum b-e í svari forstjóra fangelsismálastofnunar við kafla 2.8, er gert ráð fyrir að úrtakskannanir séu hluti af reglulegu eftirliti til að fylgjast með fíkniefnaneyslu. Varðstjórar í samráði við forstöðumann ákveða hvenær slíkar úrtakskannanir séu gerðar. Er fjöldinn hverju sinni valinn af handahófi, og ræðst það af ástandinu í fangelsinu hverju sinni hve oft slíkar kannanir eru gerðar, og hversu margir eru valdir úr. Stundum tekur könnun til allra fanga.

Fangelsisyfirvöld hafa talið, og ráðuneytið hefur stutt það sjónarmið, að hagsmunir þess að sporna gegn því að fangar neyti ávana- og fíkniefna í refsvistinni vegi verulega mikið þyngra en tímabundið óhagræði sem af leit og þvagsýnatöku leiðir fyrir fangana, en þar lenda þá stundum þeir fangar í úrtakskönnun sem enginn sérstakur grunur hefur beinst að um fíkniefnaneyslu.“

Með öðru bréfi vegna sama máls, dags. 15. mars 2000, til dóms- og kirkjumálaráðherra óskaði ég þess að ráðuneytið gerði nánar grein fyrir viðhorfi sínu til kvörtunarinnar með tilliti til athugasemda kvartanda við fyrra bréfi ráðuneytisins til mín. Óskaði ég sérstaklega eftir því að nánari grein yrði gerð fyrir túlkun ráðuneytisins á 28. gr. laga nr. 48/1988 með tilliti til líkamsleitar. Í því sambandi óskaði ég jafnframt eftir því að ráðuneytið lýsti afstöðu sinni til þess að reglubundið eftirlit teldist ástæða til líkamsleitar samkvæmt ákvæðinu. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið svaraði þessu erindi mínu með bréfi, dags. 18. maí 2000. Með því bréfi fylgdi greinargerð fangelsismálastofnunar, dags. 11. s.m. Í bréfi ráðuneytisins sagði meðal annars svo:

„Í 28. gr. laga nr. 48/1988, um fangelsi og fangavist, segir að ef grunur leikur á að fangi feli á sér innan klæða efni eða hluti sem honum er bannað að hafa í fangelsinu er heimilt að framkvæma líkamsleit á honum. Slíka leit megi gera þegar m.a. „ástæða þyki til að gera skyndileit meðal fanga“, sbr. 3. tl. 1. mgr. 28. gr., og þegar „fangi hefur fengið heimsókn sem farið hefur fram án eftirlits“, sbr. 4. tl. 1. mgr. 28. gr. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 48/1988, um fangelsi og fangavist, segir um núverandi 28. gr. laganna að þau atriði í greininni sem talin eru upp séu leiðbeiningarreglur um hvenær slík leit sé heimil. Ekki sé um tæmandi upptalningu að ræða heldur miðað við að ef um aðrar sambærilegar aðstæður sé að ræða sé leit leyfileg. Af þessu er ljóst að ætlun löggjafans hefur verið að fangelsisyfirvöld hefðu rúmar heimildir til þess að framkvæma líkamsleit á fanga, en ekki einvörðungu í þeim tilvikum sem greinir í 28. gr. laganna.

Ákvæði 3. tl. 1. mgr. 28. gr. hefur verið túlkað svo af fangelsismálayfirvöldum að ekki þurfi að liggja fyrir sérstakur grunur varðandi þá einstöku fanga sem fyrir valinu verða hverju sinni. Ljóst er að meðferð og neysla fíkniefna er verulegt vandamál í íslenskum fangelsum og eru ofangreind úrræði 28. gr. þau mikilvægustu sem fangelsisyfirvöld hafa í baráttunni við dreifingu, vörslu og notkun fíkniefna innan veggja íslenskra fangelsa. Líkamsleit er því mikilvæg öryggisráðstöfun í fangelsi, sem veitir föngum virkt aðhald og hefur rík varnaðaráhrif, þar sem allir fangar mega búast við því að lenda í slíkum leitum óháð því hvernig hegðun þeirra hefur verið í fangelsinu.

Í 4. tl. 1. mgr. 28. gr. er heimilað að gera líkamsleit á fanga þegar „fangi hefur fengið heimsókn sem farið hefur fram án eftirlits“. Samkvæmt þessu var fangelsisyfirvöldum heimilt að framkvæma líkamsleit á X í umrætt sinn í kjölfar heimsóknar [Z] til hans enda var sú heimsókn án eftirlits. Þegar [X] svo neitaði að afklæðast, var gripið til hefðbundinna ráðstafana. Í 2. gr. húsreglna segir að fanga beri að koma kurteislega fram við starfsfólk fangelsisins og hlýða tilmælum þess. Eru fangar aðvaraðir í fangelsisreglum um að þeir kunni að verða fluttir af deild ef þeir brjóta gegn reglum fangelsisins. Mega þeir búast við slíkum viðbrögðum þegar litið er á hegðun þeirra sem agabrot. [X] var vistaður í Fangelsinu Litla-Hrauni á tímabilinu 9. september 1998 til 27. desember 1999. Samkvæmt upplýsingum fangelsisyfirvalda var leitað alls sjö sinnum á [X] á þessu tímabili þar af tvisvar sinnum vegna reglubundins eftirlits.

Við mat á því hvort ástæða sé til líkamsleitar á fanga og hvort hún sé forsvaranleg verður einnig að hafa hliðsjón af sakarferli fanga. [X] hafði hlotið dóm fyrir innflutning á miklu magni fíkniefna til landsins og var hann að afplána þann dóm þegar umrædd líkamsleit fór fram. Þó svo [X] hafi ekki orðið uppvís af neyslu eða dreifingu fíkniefna þann tíma er hann sat inni verður ekki litið framhjá sakarferli hans.“

Í áðurnefndri greinargerð fangelsismálastofnunar, dags. 11. maí 2000, sem fylgdi tilvitnuðu svarbréfi ráðuneytisins, sagði meðal annars svo:

„Í 28. gr. laga um fangelsi og fangavist segir að ef grunur leiki á að fangi feli á sér innan klæða efni eða hluti sem honum er bannað að hafa í fangelsinu sé heimilt að framkvæma líkamsleit á fanga. Slíka leit megi gera þegar m.a. „ástæða þyki til að gera skyndileit meðal fanga“. Í greinargerð með lögunum segir um þessa heimild að þau atriði sem talin eru upp í greininni séu leiðbeiningarreglur um hvenær slík leit sé heimil. Ekki sé um tæmandi upptalningu að ræða. Bendir þetta til þess að ekki hafi verið ætlast til að þetta ákvæði yrði túlkað þröngt. Það að ákvæðið tilgreinir sérstaklega í 3. lið að heimilt sé að framkvæma líkamsleit þegar ástæða þyki til að gera skyndileit meðal fanga hefur verið túlkað á þá leið að ekki þurfi að liggja fyrir sérstakur grunur varðandi þá einstöku fanga sem fyrir valinu verða hverju sinni. Nauðsynlegt þykir að gera öðru hvoru slíkar leitir meðal fanga. Litið er á líkamsleit sem mikilvæga öryggisráðstöfun í fangelsi þar sem reynt er eftir fremsta megni að hafa eftirlit með því að fangar fremji ekki afbrot í refsivistinni og virði reglur fangelsisins. Slíkt reglubundið eftirlit, eins og það hefur verið kallað, þykir hafa mikið forvarnargildi sérstaklega að því er varðar vörslu fíkniefna í fangelsum. Mega því allir fangar búast við að lenda einstöku sinnum í slíkum leitum óháð því hvernig hegðun þeirra hefur verið í fangelsinu. Hins vegar er ljóst að beita verður heimildum sem þessum af hófsemi. Samkvæmt upplýsingum frá Fangelsinu Litla-Hrauni voru gerðar 500 líkamsleitir árið 1998 og 650 árið 1999. Um 170 fangar komu- til afplánunar í fangelsið árið 1998 og 180 árið 1999.

Þegar [X] neitaði að undirgangast líkamsleit var gripið til hefðbundinna ráðstafana. Í 2. gr. húsreglna segir að fanga beri að koma kurteislega fram við starfsfólk fangelsisins og hlýða fyrirmælum þess. Eins og áður segir eru fangar aðvaraðir í fangelsisreglum varðandi það að verða fluttir af deild ef þeir brjóta gegn reglum fangelsisins. Mega þeir því búast við slíkum viðbrögðum þegar litið er á hegðun þeirra sem agabrot. [X] var vistaður í Fangelsinu Litla-Hrauni á tímabilinu 9. september 1998 til 27. desember 1999. Samkvæmt upplýsingum fangelsisins var leitað alls 7 sinnum á [X] á þessu tímabili þar af tvisvar sinnum vegna reglubundins eftirlits.“

Í tilefni af kvörtun fanga sem barst mér 23. október 1998 og varðaði beitingu agaviðurlaga í því tilviki er fangi neitaði að láta í té þvagsýni ritaði ég sambærilegt bréf til dóms- og kirkjumálaráðherra, dags. 3. ágúst 1999, og að framan greinir. Tel ég rétt að taka hér orðrétt upp eftirfarandi skýringar úr svarbréfi ráðuneytisins sem barst mér af því tilefni, dags. 21. desember 1999:

„Í fangelsum landsins hefur ekki reynst kleift að útrýma fíkniefnum og fíkniefnaneyslu, þrátt fyrir markvissar aðgerðir fangelsisyfirvalda í því skyni. Verulega mikið er lagt upp úr því að stemma stigu við slíkri neyslu, þannig að fangar, hvort sem þeir hafa misnotað áfengi eða fíkniefni, geti farið aftur út í lífið án þess að vera háðir slíkum efnum. Það gefur því auga leið að auk eftirlits með því að fíkniefni berist ekki inn í fangelsi verður reglubundið að gera úrtakskönnun meðal fanga, til þess að vita hvort þeir séu að neyta fíkniefna og hvernig ástandið sé almennt séð. Þess utan eru tekin sýni hjá föngum sem eru beinlínis grunaðir um fíkniefnaneyslu.

Við framkvæmd úrtakskönnunar af þessu tagi kemur talsvert oft upp að viðkomandi fangar neita að gefa þvagsýni. Hefur verið litið á slíka synjun sem brot á húsreglum sem mönnum beri að hlýða. Í lögum um fangelsi og fangavist nr. 48/1988 með síðari breytingum segir í l. mgr. 29. gr. að heimilt sé að taka þvag- og blóðsýni úr fanga. Þá segir í 5. mgr. sömu greinar að ákvörðun um leit skuli bóka og tilgreina ástæður.

Í 31. gr. sömu laga segir að fyrir brot á reglum fangelsis megi beita fanga eftirtöldum agaviðurlögum:

1. Áminningu.

2. Sviptingu réttinda sem fangar njóta almennt samkvæmt þessum lögum eða reglugerðum.

3. Sviptingu vinnulauna.

4. Einangrun í allt að 30 daga.

Þegar fangar eru beittir agaviðurlögum fyrir fíkniefnaneyslu, yrði að telja mjög óeðlilegt að þeir fangar sem neita að gefa sýni, sleppi án viðurlaga, þar sem ekki er unnt að útiloka að þeir hafi einnig neytt fíkniefna. Af jafnréttissjónarmiðum hljóta agaviðurlög að eiga að vera svipuð og sambærileg hjá öllum þeim sem neytt hafa fíkniefna, hvort sem slíkt er staðreynt með því að taka hjá þeim þvagsýni eða ekki. Því hefur sú leið verið valin að telja synjun á að láta í té þvagsýni sé óhlýðni við fyrirmæli starfsmanna fangelsisins, er varði viðurlögum. Ekki er unnt að útiloka að einhverjir sem neita að gefa þvagsýni hafi ekki neytt fíkniefna nýlega. Föngum í fangelsum landsins eru þessar reglur vel kunnar, og væri í lófa lagt að láta í té þvagsýni, ef þeir telja sig ekki hafa neitt að fela og vilja komast hjá agaviðurlögum.

Hvað meðalhófsreglu áhrærir er rétt að greina frá því að ráðuneytið telur að valið hafi verið vægt úrræði, þegar menn synja um að láta í té þvagsýni. Sú leið er ekki valin, sem væri vel fær, en það er að fara út í sýnatöku með valdi, gegn neitun viðkomandi, svo staðreynt yrði með óyggjandi hætti hvort um fíkniefnaneyslu hafi verið að ræða. Þar er um miklu strangara úrræði að ræða er felur í sér valdbeitingu, sem menn hafa skirrst við að beita, enda vandkvæðum bundið þegar um þvagsýnatöku er að ræða. Niðurstaðan hefur því orðið sú að ekki er farið út í blóð- eða þvagsýnatöku með valdi, þegar viðkomandi neitar að láta í té sýni. Þess í stað er neitunin flokkuð sem óhlýðni við fyrirmæli starfsmanna þar sem lögin heimila, eins og áður hefur verið rakið, að taka megi sýni að vissum skilyrðum uppfylltum.

Þau álitaefni eru reglubundið til skoðunar hvers langt eigi að ganga eða hversu ströngum agaviðurlögum eigi almennt að beita í fangelsum fyrir hin margvíslegustu brot á húsreglum. Er þar höfð hliðsjón af gildandi reglum í nágrannalöndum okkar á Norðurlöndum. Jafnt hér á landi sem á Norðurlöndum er mikið lagt upp úr því að stemma stigu við fíkniefnaneyslu fanga, því hún er mönnum fjötur um fót þegar þeir eru látnir lausir úr fangelsi, og skapar líka slæman anda og hindrar að góð regla haldist í fangelsum. Virk aðgerð til þess að koma í veg fyrir að fíkniefni berist inn í fangelsi með heimsóknargestum er að takmarka heimsóknirnar á þann veg, að heimsóknargestir fá ekki að komast í beina snertingu við fangann, þ.e. plast- eða glerplata er höfð á milli þeirra. Yfirmenn fangelsa hafa almennt talið að þetta úrræði hafi dregið nokkuð úr smygli fíkniefna inn í fangelsi, eftir að það var innleitt.“

Þegar fangelsisyfirvöldum, sem og öðrum stjórnvöldum, er veitt heimild í lögum til að taka matskenndar og íþyngjandi ákvarðanir um hvort ráðstafanir í þágu rannsóknar máls verði framkvæmdar er slíkt mat meðal annars bundið af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Samkvæmt meðalhófsreglunni skulu stjórnvöld því aðeins taka ákvörðun um beitingu íþyngjandi ráðstafana þegar lögmætu markmiði sem að er stefnt verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skulu stjórnvöld þá gæta þess að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.

Í meðalhófsreglunni er þannig einkum lagt til grundvallar að gætt sé hófs í beitingu þess úrræðis sem valið hefur verið miðað við þá hagsmuni sem í húfi eru og má ekki ganga lengra en nauðsyn ber til. Þegar stjórnvald ákveður hvernig eigi að beita því úrræði sem valið hefur verið er því skylt að vega og meta þá andstæðu hagsmuni sem togast á í málinu og fara meðalveginn á milli þeirra. Enda þótt slíkt mat sé að jafnaði örðugt minni ég á að löggjöf á einstökum sviðum og meginreglur laga geyma oft vísbendingar um vægi hagsmuna.

Almennt verða stjórnvöld að ganga út frá því að hagsmunir einstaklinga er varða frelsi manna og friðhelgi líkama vegi þungt enda eru þeir sérstaklega verndaðir í 67. og 68. gr. stjórnarskrárinnar og 3. og 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994. Í þeim tilvikum þegar einstaklingur hefur verið löglega sviptur frelsi sínu, og er vistaður í fangelsi eða á annarri stofnun á vegum ríkisins, skapast oft og tíðum hætta á því að árekstur verði á milli stjórnarskrárverndaðra hagsmuna hans á því að virt sé friðhelgi líkama og heilbrigði og almannahagsmuna tengdum virkri og öruggri stjórnsýslu innan stofnunarinnar. Slíkum aðstæðum er jafnan til að dreifa við vistun afplánunarfanga í fangelsum enda er þörf á að játa fangelsisyfirvöldum nokkurt svigrúm til að framkvæma ráðstafanir sem oft geta falið í sér beina valdbeitingu gagnvart föngum til þess að halda uppi friði og öryggi í fangelsinu. Slíkri valdbeitingu eru hins vegar takmörk sett. Kann því meðferð fanga í einstökum tilvikum að ganga lengra en heimilt er samkvæmt framangreindum ákvæðum stjórnarskrárinnar og ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. til hliðsjónar dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Valašinas gegn Litháen frá 24. júlí 2001 og í máli Peers gegn Grikklandi frá 19. apríl 2001, sem áður hefur verið vikið að.

Ákvæði 1. mgr. 29. gr. laga nr. 48/1988, sbr. 4. gr. laga nr. 123/1997, er svohljóðandi:

„Heimilt er að taka þvag- og blóðsýni úr fanga.

Ef grunur leikur á að fangi feli innvortis efni eða hluti sem honum er bannað að hafa í fangelsi er heimilt að framkvæma leit að fengnu áliti læknis.

Taka blóðsýnis og leit innvortis skal gerð af lækni eða hjúkrunarfræðingi.

Vitni sama kyns og fangi skal vera viðstatt ef aðstæður leyfa.

Ákvörðun um leit samkvæmt þessari grein skal bókuð og ástæður tilgreindar.“

Löggjafinn hefur samkvæmt orðalagi 1. mgr. 29. gr. laga nr. 48/1988 veitt fangelsisyfirvöldum svigrúm við mat á því hvort taka skuli þvagsýni af fanga. Samkvæmt 2. mgr. sama ákvæðis eru hins vegar gerðar strangari kröfur til þess að heimilt sé að gera innvortis leit. Þegar litið er til lögskýringargagna verður þó ráðin nokkur afmörkun á heimild fangelsisyfirvalda til að taka þvagsýni. Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að lögum nr. 48/1988 sagði meðal annars svo um þetta ákvæði:

„Í 1. mgr. er heimild til að taka þvag- og blóðsýni úr fanga. Tilgangurinn með þessari heimild er tvíþættur. Í fyrsta lagi þykir nauðsynlegt að hægt sé að ganga úr skugga um hvort fangi sé undir áhrifum áfengis og/eða lyfja. Í öðru lagi eru fangar áhættuhópur margra alvarlegra smitsjúkdóma og er nauðsynlegt að hægt sé að staðreyna hvort þeir séu smitaðir, jafnvel án vilja þeirra.

Í 2. mgr. er heimild til innvortis leitar á föngum. Skilyrði þess að framkvæma megi slíka leit er að grunur leiki á að fangi feli innvortis efni eða hluti sem honum er bannað að hafa í fangelsum og að áður en sú leit er framkvæmd skal leita álits læknis. Á undanförnum árum hefur í þó nokkrum tilfellum fíkniefnum verið smyglað innvortis. Þykir nauðsynlegt að hægt sé að ganga úr skugga um hvort svo sé gert í fangelsum. Til þess þarf að vera ótvíræð lagaheimild.“ (Alþt. 1987-1988, A-deild, bls. 2096.)

Enda þótt í ákvæði 1. mgr. 29. gr. laga nr. 48/1988 sé ekki að finna skýrgreiningu á þeim tilvikum þar sem heimilt er að taka þvag- og blóðsýni úr fanga tel ég, með tilliti til sjónarmiða um áhrif meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins við þessar aðstæður, að skýra verði ákvæðið með þeim hætti að ef vafi leikur á því hvort nauðsynlegt sé að beita slíku úrræði verði fangelsisyfirvöld að láta hjá líða að framkvæma það.

Ég tel ekki tilefni til að gera athugasemdir við að settar séu almennar og hlutlægar viðmiðunarreglur í slíkum tilvikum af hálfu fangelsisyfirvalda svo lengi sem þær eru byggðar á málefnalegum sjónarmiðum og þeim beitt með þeim hætti að samrýmist meginreglum stjórnsýslulaga um meðalhóf og jafnræði.

Í tilvitnuðu bréfi fangelsismálastofnunar til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, sem ritað var í tilefni af athugun minni, kemur fram að tekið sé þvagsýni úr afplánunarföngum við komu þeirra í fangelsið. Þá sé slíkt sýni tekið í eftir-greindum tilvikum:

„a. Sem hluti af reglubundnu eftirliti til að fylgjast með fíkniefnaneyslu.

b. Í tengslum við dagsleyfi fanga úr fangelsinu.

c. Við flutning úr öryggisdeild á almenna deild.

d. Áður en skólavist hefst.

e. Ef grunur er um fíkniefnaneyslu.“

Áður en lengra er haldið tel ég rétt að vekja hér athygli á ákvæði 28. gr. laga nr. 48/1988 en þar er að finna svohljóðandi ákvæði um heimild fangelsisyfirvalda til að framkvæma líkamsleit á fanga:

„Ef grunur leikur á að fangi feli á sér innan klæða efni eða hluti sem honum er bannað að hafa í fangelsinu er heimilt að framkvæma líkamsleit á fanga. Slíka leit má gera þegar eftirfarandi ástæður gefa tilefni til:

1. Þegar fangi kemur í fangelsi í upphafi afplánunar eða kemur aftur eftir dvöl utan þess.

2. Grunur leikur á að fangi feli á sér hluti eða efni sem honum er bannað að hafa í fangelsinu.

3. Ástæða þykir til að gera skyndileit meðal fanga.

4. Fangi hefur fengið heimsókn sem farið hefur fram án eftirlits.

Leit á fanga innan klæða skal gerð af starfsmanni sama kyns og fanginn.“

Það má ráða af ákvæði 28. gr. laga nr. 48/1988 að löggjafinn hefur talið rétt að kveða skýrt á um þau tilvik þar sem heimilt er að beita líkamsleit á fanga. Með þessu fyrirkomulagi er svigrúm fangelsisyfirvalda til að framkvæma þetta úrræði þrengt. Enda þótt líkamsleit sé ekki með öllu sambærileg þvagsýnatöku tel ég að sömu grundvallarsjónarmið eigi við um þá hagsmuni sem vegast á í slíkum tilvikum. Sökum þessa tel ég rétt að hafa efnisatriði 28. gr. laga nr. 48/1988 til hliðsjónar við skýringu 1. mgr. 29. gr. sömu laga.

Almennt verður að játa fangelsisyfirvöldum þá heimild, með tilliti til sjónarmiða um að viðhalda öryggi og friði í fangelsinu og vegna hagsmuna einstakra fanga, að gera fanga að gefa þvagsýni ef rökstuddur grunur er fyrir hendi um fíkniefnaneyslu viðkomandi fanga. Ég tel að miða verði við það sem meginreglu við framkvæmd þessa lögbundna úrræðis, með tilliti til þeirra hagsmuna sem hér vegast á, að slíkur grunur verði að liggja fyrir áður en ákvörðun er tekin um að framkvæma þvagsýnatöku. Ég fellst hins vegar á að orðalag 1. mgr. 29. gr. laga nr. 48/1988 girði ekki í sjálfu sér fyrir það að heimilt kunni að vera að framkvæma slíka ráðstöfun í ákveðnum almennum tilvikum án þess að rökstuddur grunur liggi fyrir um fíkniefnaneyslu í hverju tilviki fyrir sig. Gera verður þó þá kröfu að skýrlega liggi fyrir að framkvæmd úrræðisins í slíkum tilvikum sé reist á sjónarmiðum sem með beinum og málefnalegum hætti tengjast tilgangi þess og gangi ekki lengra en nauðsyn ber til.

Ég tel samkvæmt framangreindu að ekki sé í fyrsta lagi tilefni til að gera athugasemdir við að jafnan sé tekið þvagsýni úr föngum við komu þeirra í fangelsið enda þótt ekki liggi beinlínis fyrir rökstuddur grunur um fíkniefnaneyslu. Tel ég rétt að hafa hér hliðsjón af 1. tl. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 48/1988 þar sem segir að heimilt sé að framkvæma líkamsleit á fanga þegar hann kemur í fangelsi í upphafi afplánunar. Þó tek ég fram að aðstæður kunna að vera með þeim hætti að fangi hafi áður sætt slíkri rannsókn á fyrri stigum máls hans áður en afplánun hefst. Verður í slíkum tilvikum að gæta varúðar við töku ákvörðunar um að láta fanga sæta á ný slíku úrræði við komuna í fangelsið.

Í öðru lagi tel ég það styðjast við málefnaleg sjónarmið að gera fanga að gefa þvagsýni við endurkomu í fangelsið úr dagsleyfi, sbr. til hliðsjónar 1. tl. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 48/1988, þar sem kveðið er á um að heimilt sé að framkvæma líkamsleit á fanga þegar hann kemur aftur eftir dvöl utan fangelsisins. Ég legg þó áherslu á að tilvik þetta er orðað með almennum hætti í ofangreindu bréfi fangelsismálastofnunar þannig að það sé tekið þvagsýni „í tengslum við dagsleyfi fanga úr fangelsinu“. Samkvæmt upplýsingum þeim sem ég hef aflað mér vegna athugunar minnar er framkvæmdin sú að föngum er ávallt gert að sæta þvagsýnatöku áður en þeir fá leyfi til dvalar utan fangelsis en að jafnaði ekki við endurkomu úr slíku leyfi. Byggist sú framkvæmd á b-lið 11. gr. reglugerðar nr. 719/1995, um leyfi afplánunarfanga til dvalar utan fangelsis, sem veitir fangelsisyfirvöldum heimild til að setja tiltekin skilyrði fyrir veitingu leyfis. Ég bendi á að heimild fangelsisyfirvalda til að veita fanga „leyfi til skammrar dvalar utan fangelsis ef slíkt telst heppilegt sem þáttur í refsifullnustu eða til að búa hann undir að afplánun ljúki“ er reist á 1. mgr. 21. gr. laga nr. 48/1988. Enda þótt heimilt kunni að vera að setja skilyrði fyrir slíkum leyfum við beitingu heimildarákvæðisins, sbr. 10. og 11. gr. nefndrar reglugerðar nr. 719/1995, með síðari breytingum, tel ég að slík skilyrði verði að vera samrýmanleg öðrum ákvæðum laga nr. 48/1988. Þá verða þau að vera í málefnalegu og eðlilegu samræmi við tilgang 21. gr. laganna, sbr. til hliðsjónar álit mitt frá 15. júní 2001 í máli nr. 3034/2000.

Í ljósi þessa og að virtum framangreindum sjónarmiðum um skýringu 29. gr. laga nr. 48/1988, sem heimilar töku þvagsýna, tel ég það vafasamt að byggt sé á almennri reglu þess efnis að allir fangar skuli sæta þvagsýnatöku áður en þeir fara í dagsleyfi án þess að fyrir liggi grunur um fíkniefnaneyslu í því tiltekna tilviki. Þá tel ég að sama eigi við um a-lið í umræddri upptalningu fangelsismálastofnunar, þ.e. að tekið sé þvagsýni sem „hluti af reglubundnu eftirliti til að fylgjast með fíkniefnaneyslu“.

Í áðurnefndu bréfi fangelsismálastofnunar, dags. 28. september 1999, til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins segir meðal annars svo um framkvæmd úrræðisins á þessum grundvelli:

„Með reglubundnu eftirliti, sbr. a. lið, er ekki átt við að á fyrirfram ákveðnum tíma séu teknar prufur af öllum föngum reglubundið, heldur er um að ræða sérstaka ákvörðun hverju sinni, tekna af varðstjórum í samráði við forstöðumann. Þegar ákveðið er að tiltekinn fjöldi þvagprufa verði tekinn er það ýmist að allir fangarnir eru látnir skila prufu eða þá að ákveðinn fjöldi er valinn af handahófi.“

Enda þótt lög nr. 48/1988 geri ráð fyrir að veita beri fangelsisyfirvöldum nokkurt svigrúm við framkvæmd ráðstafana til að hafa raunhæft og virkt eftirlit með fíkniefnaneyslu í fangelsinu legg ég áherslu á að vafasamt er að beita íþyngjandi ráðstöfun á borð við þvagsýnatöku á grundvelli „reglubundins eftirlits“ gagnvart fanga þar sem á skortir málefnalegt og rökstutt tilefni til að ætla að hann stundi slíka neyslu. Samkvæmt þessu tel ég, með tilliti til íþyngjandi eðlis þessa úrræðis, að ekki verði leidd af orðalagi 1. mgr. 29. gr. laga nr. 48/1988 almenn heimild til að beita slíku úrræði vegna „reglubundins eftirlits“. Ég tel að slík ákvörðun um töku þvagsýna verði þannig að jafnaði ekki tekin á almennum grundvelli nema sá fangi sem látinn er sæta slíkri ráðstöfun af því tilefni hafi áður orðið uppvís að fíkniefnaneyslu eða að einhver sérstök atvik eða aðstæður réttlæta með málefnalegum hætti að slík ákvörðun sé tekin í hans tilviki.

Um þau tilvik sem talin eru upp í liðum c og d í bréfi fangelsismálastofnunar er ekki nánar fjallað í bréfinu eða skýringum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til mín. Aðeins er tekið fram að þau eigi einungis við í fangelsinu að Litla-Hrauni. Við mat á því hvort heimilt sé að gera fanga að gefa þvagsýni þegar hann er fluttur úr öryggisdeild á almenna deild tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við slíka framkvæmd að því tilskildu að grundvöllur hennar sé sá sami og byggt er á þegar tekin eru þvagsýni úr fanga við komu hans í fangelsi. Ég legg þó áherslu á að fangelsisyfirvöld verða með reglulegu millibili að endurskoða þau atvik og þær aðstæður sem slík almenn ákvörðun er byggð á og kanna hvort rétt sé að gera einhverjar breytingar á framkvæmdinni að þessu leyti vegna breyttra aðstæðna.

Að því er varðar töku þvagsýna áður en skólavist hefst minni ég á athugasemdir mínar hér að framan um það að við athuganir mínar á kvörtunum og öðrum erindum sem mér hafa borist frá föngum hafi ég veitt því athygli að í framkvæmd kunni athafnir fanga sem fela í sér brot á reglum fangelsisins að leiða til þess að breyting verður á högum þeirra án þess að um slíkt sé tekin ákvörðun í formi agaviðurlaga. Með tilliti til þess hvernig þessi frumkvæðisathugun er afmörkuð hef ég samkvæmt þessu ákveðið að fjalla ekki frekar á þessu stigi um þetta atriði. Hef ég þá einnig haft það í huga að mat á lögmæti þvagsýnatöku áður en skólavist hefst tengist með beinum hætti nýtingu fanga almennt á lögbundnum rétti þeirra til að stunda nám, sbr. 14. gr. laga nr. 48/1988. Einnig verður að horfa til þess að nám það sem boðið er upp á í fangelsinu að Litla-Hrauni er byggt á samkomulagi á milli fangelsisyfirvalda og Fjölbrautaskólans á Suðurlandi. Ég tek fram að ég mun hins vegar hafa framangreint atriði í huga við frekari athuganir mínar á málefnum er varða réttarstöðu fanga.

Í framangreindu bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 26. nóvember 1999, í tilefni af kvörtun tiltekins fanga til mín, er vikið að því hvort og þá með hvaða hætti framkvæmd líkamsleitar á föngum samrýmist hverju sinni meginreglum stjórnsýsluréttarins um jafnræði og meðalhóf. Í upphafi tekur ráðuneytið fram að ávallt sé reynt að hafa „að leiðarljósi við bæði leit svo og þvagsýnatöku, að athöfnin verði sem minnst niðurlægjandi fyrir fangann“.

Ég tel rétt að ítreka mikilvægi þessa sjónarmiðs sökum þess að ráða má af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu að við mat á því hvort meðferð fanga í einstökum tilvikum brjóti í bága við 3. gr. mannréttindasáttmálans tekur dómstóllinn einkum mið af því hvort tilgangur ráðstöfunar hafi verið sá að niðurlægja eða vanvirða viðkomandi fanga, sbr. áðurnefndan dóm dómstólsins í máli Valašinas gegn Litháen frá 24. júlí 2001, 101. mgr., sbr. og dóm í máli Labita gegn Ítalíu frá 6. apríl 2000, 119. mgr. Að öðru leyti leggur dómstóllinn heildstætt mat á atvik og aðstæður í hverju máli við mat sitt á því hvort yfirvöld hafi við meðferð fanga gengið lengra en heimilt er samkvæmt 3. gr. mannréttindasáttmálans en ég minni á að það ákvæði var lögfest hér á landi með 1. gr. laga nr. 62/1994.

Ég tel að ekki sé ástæða fyrir mig til að fjalla frekar um almenn sjónarmið við framkvæmd fangelsisyfirvalda á ákvæði 29. gr. laga nr. 48/1988.

VII.

Upplýsingagjöf til fanga við móttöku í afplánun

Í bréfi mínu til dóms- og kirkjumálaráðherra, dags. 3. ágúst 1999, rakti ég ákvæði 41. og 45. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna um upplýsingagjöf til fanga við móttöku þeirra í afplánun. Tók ég fram að ekki væri að finna skráðar reglur í lögum eða reglugerðum um upplýsingagjöf til fanga í slíkum tilvikum. Óskaði ég þess að ráðuneytið gerði grein fyrir skýringum sínum í tilefni af tilgreindum spurningum og léti mér í té þau gögn sem lægju fyrir og veittu frekari upplýsingar um þetta atriði. Spurningar mínar lutu meðal annars að tilvist skráðra reglna um upplýsingagjöf til fanga við móttöku í afplánun, að framkvæmd fangelsisyfirvalda í slíkum tilvikum og samræmi hennar við ákvæði 41. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna. Þá lutu spurningar mínar að réttarstöðu erlendra fanga að þessu leyti.

Með greinargerð fangelsismálastofnunar til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 28. september 1999, fylgdi með „upplýsingapakki“ sem afhentur er föngum við móttöku þeirra í afplánun í fangelsið að Litla-Hrauni. Fram kemur að til standi að útbúa sambærilegan „pakka“ fyrir önnur fangelsi. Ennfremur sé í vinnslu upplýsingabæklingur ætlaður föngum þar sem fram koma svör við algengustu spurningum þeirra um fangavistina og réttindi fanga, t.d. um dagsleyfi og reynslulausnir. Um málsmeðferð við móttöku fanga í afplánun segir síðan meðal annars svo í greinargerð fangelsismálastofnunar:

„Hegningarhúsið við Skólavörðustíg 9 hefur um margra ára skeið verið móttökufangelsi. Heyrir það til undantekninga ef að fangar hefja ekki afplánun sína þar. Við komu í fangelsið tekur fangavörður á móti fanganum, fer yfir helstu atriði, leiðir hann í gegnum þær rútínur sem tengjast komu í fangelsi og fylgir honum í fangaklefa sinn. Starfsmaður Fangelsismálastofnunar kemur fljótlega eftir að afplánun hefst og ræðir við fangann. Af honum er tekin persónuskýrsla, þar sem fram koma ýmsar upplýsingar um persónulega hagi hans. Skýrsla þessi fylgir fanganum við flutning í annað fangelsi. Að því búnu er rætt við fangann almennt um fangavistina, m.a. um umsóknir um reynslulausn og vistun utan fangelsis í lok afplánunar, t.d. í meðferð eða á áfangaheimili Verndar. Fanganum gefst þá tækifæri til að koma óskum sínum og væntingum á framfæri, m.a. um vistunarstað, hafi hann ekki rætt þær við starfsmenn stofnunarinnar áður en afplánun hefst.“

Engin ákvæði laga nr. 48/1988 fjalla um móttöku fanga í afplánunarfangelsi. Þá er ekki að finna slíkar reglur í almennum stjórnvaldsfyrirmælum. Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna skal hverjum fanga við móttöku látnar í té skriflegar upplýsingar um þær reglur sem gilda um meðferð fanga í þeim hóp sem fanginn tilheyrir, agakröfur stofnunarinnar, réttar leiðir til öflunar upplýsinga og til að leggja fram kvartanir. Jafnframt um öll önnur málefni sem þörf er á til að hann skilji réttindi og skyldur fanga og aðlagist lífsháttum innan stofnunarinnar. Ef fangi skilur ekki hinar skriflegu upplýsingar sem honum eru látnar í té skulu þær skýrðar fyrir honum munnlega, sbr. 2. mgr. 41. gr. reglnanna.

Þegar frelsissviptur einstaklingur kemur í fyrsta sinn til afplánunar í fangelsi kynnist hann nýju umhverfi þar sem eðli máls samkvæmt gilda strangar reglur um daglegt líf og félagslegt samneyti við aðra fanga, fangaverði og aðra starfsmenn fangelsisyfirvalda. Það er því mikilvægt að mínu áliti, og býr raunar að baki ofangreindum ákvæðum 41. gr. Evrópsku fangelsireglnanna, að föngum séu veittar skýrar og aðgengilegar upplýsingar um allt það sem máli skiptir um líf þeirra í fangavistinni þegar í upphafi afplánunar þannig að þeir geti aðlagast hinum nýju aðstæðum eins fljótt og unnt er. Þá er slík upplýsingagjöf einnig nauðsynleg til þess að gæta réttaröryggis fanga og tryggja eðlileg og traust samskipti þeirra við fangelsisyfirvöld. Ber því fangelsisyfirvöldum í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti, sbr. 1. mgr. 41. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna, að veita föngum fullnægjandi upplýsingar um réttarstöðu þeirra í vistinni, meðal annars um dagsleyfi og reynslulausnir, um þær bann- eða boðreglur sem kunna að liggja til grundvallar agaviðurlögum, um aðrar almennar umgengnisreglur og heimildir fanga til að kæra ákvarðanir forstöðumanna fangelsa og fangelsismálastofnunar til dóms- og kirkjumálaráðherra. Þá verður að upplýsa fanga um möguleika þeirra til að leita til umboðsmanns Alþingis og kynna þeim þær málskotsleiðir til dómstóla sem þeim eru færar að lögum.

Í þeim „upplýsingapakka“ sem afhentur er föngum sem koma til afplánunar á Litla-Hrauni, og fylgdi með svarbréfi dóms- og kirkjumálaráðherra til mín, er meðal annars að finna upplýsingar um heimsóknir og sendingar til fanga, símtöl, viðtalstíma við yfirmenn fangelsisins, sálfræði- og læknisþjónustu, afgreiðslutíma lyfja, um útivistartíma fanga og opnunartíma verslunar. Þá er greint frá möguleikum fanga til að fá lánaðar bækur á bókasafni, um móttöku á þvotti fanga og reglur um reykingar. Þá er rakið að á hverri deild fangelsisins sé að finna „[möppu] með lögum um fangelsi og fangavist, ásamt þeim reglugerðum sem settar hafa verið samkvæmt heimild í lögunum. Í möppunni [sé] einnig að finna húsreglur fyrir fanga á Litla-Hrauni og almennar reglur um klefabúnað í fangelsinu, sem föngum er bent á að kynna sér ýtarlega. Á deildum í Húsi-4 [séu] möppurnar í vörslu deildarformanns, en í Húsi-3 [séu] þær geymdar á varðstofu“. Þá kemur eftirfarandi fram:

„Ath. Ef fangi telur sig þurfa á einhverjum upplýsingum að halda um atriði sem ekki koma fram í innihaldi möppunnar eða ef hann óskar eftir að fá til aflestrar lög eða reglugerðir sem þar er ekki að finna, er honum bent á að snúa sér til varðstjóra eða senda skriflega beiðni um gögnin til skrifstofu fangelsisins.“

Ekki verður annað séð en að föngum á Litla-Hrauni séu við upphaf afplánununar látnar í té eða kynnt hvar finna megi upplýsingar sem 41. gr. Evrópsku fangelsisreglanna hljóðar um. Ég tek þó fram að ekki verður séð af þeim gögnum sem eru í nefndum „upplýsingapakka“ að föngum sé skriflega kynntur réttur þeirra samkvæmt 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, til að leita í trúnaði til umboðsmanns, skriflega eða símleiðis. Þá er hvorki að finna heimilisfang skrifstofu minnar eða símanúmer. Beini ég því þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að það sjái til þess að þeim upplýsingum sé bætt við þau gögn sem fangar fá við móttöku þeirra í afplánunarfangelsi.

Eins og lýst hefur verið hér að framan eru upplýsingar til fanga við upphaf afplánunar á Litla-Hrauni látnar þeim í té á nokkrum blöðum eða þá vísað til þess hvar upplýsingarnar megi finna. Ekki er að sjá að þessi blöð hafi nema í undantekningartilvikum sérstaklega verið útbúin til að gegna þessu upplýsingahlutverki. Þetta efni er ekki í samræmdu og heildstæðu formi. Ég tel að það væri í betra samræmi við þær kröfur sem 41. gr. Evrópsku fangelsisreglanna hljóðar um og vandaða stjórnsýsluhætti að umrætt efni yrði samræmt og því búinn staður í einum samfelldum upplýsingapakka í stað þess að afhenda slíkar upplýsingar sem laus blöð.

Ég legg áherslu á að hraðað verði eftir mætti fyrirætlan fangelsisyfirvalda um að útbúa sambærilegan upplýsingapakka, og fangar á Litla-Hrauni fá afhentan við móttöku, fyrir önnur afplánunarfangelsi.

Í greinargerð fangelsismálastofnunar er einnig vikið að upplýsingagjöf til erlendra fanga. Fram kemur að í fangelsinu að á Litla-Hrauni sé að finna „húsreglur“ í enskri þýðingu. Þá segir að „helstu atriði varðandi fangavistina [séu] útskýrðar fyrir erlendum föngum eftir bestu getu í fangelsunum, á ensku, þýsku, hollensku og skandinavisku“. Þá segir að „starfsmaður fangelsismálastofnunar [ræði] við erlenda fanga við komu þeirra í afplánun á sama hátt og íslenska og tekur af þeim persónuskýrslu“. Þá sé haft samband við sendiráð eða ræðismannaskrifstofur og óskað aðstoðar ef því er að skipta og þörf krefur. Að lokum er þess getið að í vinnslu sé upplýsingabæklingur á ensku þar sem fram komi svör við algengustu spurningum fanga um fangavistina og réttindi fanga meðan á afplánun stendur.

Ég tel í ljósi þeirra lágmarkskrafna sem Evrópsku fangelsisreglurnar gera varðandi upplýsingagjöf til erlendra fanga, sbr. ákvæði 2. mgr. 41. gr. reglnanna, að ekki sé tilefni af minni hálfu til að gera sérstakar athugasemdir við framkvæmd fangelsisyfirvalda í því efni að virtum ofangreindum skýringum. Í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti tel ég þó rétt að til staðar sé sambærilegur „upplýsingapakki“ og afhentur er íslenskum afplánunarföngum í enskri þýðingu. Í því efni er það mikilvægast að mínu áliti vegna réttaröryggis erlendra afplánunarfanga að þeir geti með raunhæfum hætti kynnt sér lagareglur um réttarstöðu þeirra á ensku. Geti þeir ekki lesið ensku þá tel ég draga megi þá ályktun af 2. mgr. 41. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna að það sé í betra samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti og sjónarmið um réttaröryggi viðkomandi fanga að fangelsisyfirvöld veiti honum munnlegar upplýsingar um réttarstöðu sína á máli sem hann skilur.

VIII.

Tilfærsla fanga á milli húsa og deilda á Litla-Hrauni

Samkvæmt 10. gr. laga nr. 48/1988, um fangelsi og fangavist, er heimilt að skipta fangelsum upp í deildir. Fangelsinu að Litla-Hrauni er á grundvelli þessa ákvæðis skipt upp í 7 afplánunardeildir og eru 10 – 11 fangar á hverri deild. Eru þessar deildir skiptar milli þess sem nefnt er hús 3, eða eldri hluti fangelsisins sem enn er notaður til afplánunar, og húss 4, nýjustu byggingar fangelsisins. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað vegna þessa máls er nokkur munur á klefum og öðrum aðbúnaði milli húsanna, eins og síðar verður vikið að. Þó hefur dregið úr þessum mun með þeim endurbótum sem nýlega voru gerðar á húsi 3.

Við athugun mína á málum fanga sem mér hafa borist hefur komið í ljós að í fangelsinu að Litla-Hrauni er nokkuð um það að fangar séu færðir gegn vilja þeirra á milli deilda og húsa í fangelsinu, meðal annars í tilefni af agabroti, eins og síðar verður nánar vikið að. Þá kom fram í heimsókn kjörins umboðsmanns Alþingis og starfsmanna hans í fangelsið í október 1998 að komið hafði verið á fót 11 klefa deild, svonefndum „fyrirmyndargangi“. Rakti ég framangreint í bréfi mínu, dags. 3. ágúst 1999, til dóms- og kirkjumálaráðherra. Tók ég þar fram að með tilliti til eðlis þeirra ákvarðana sem hér væri um að ræða, þ.e. tilfærslu fanga á milli húsa og deilda, meðal annars tengdri hegðun þeirra í vistinni, óskaði ég sérstaklega eftir afstöðu ráðuneytisins í tilefni af tilgreindum spurningum er lutu að því hvort til væru skráðar reglur um slíkar ákvarðanir, hvaða sjónarmið væru lögð til grundvallar við töku ákvarðana um tilfærslu fanga milli húsa og deilda og loks hvernig háttað væri málsmeðferð í slíkum tilvikum.

Í svarbréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins er vísað í þessu sambandi til greinargerðar fangelsismálastofnunar, dags. 28. september 1999. Í greinargerðinni kemur fram að rétt sé að á efstu hæð húss nr. 4 að Litla-Hrauni, svokallaðri „lyfjalausri deild“, njóti fangar nokkurra fríðinda umfram aðra fanga og er þeim lýst. Þá eru raktar „viðamiklar endurbætur“ á húsi nr. 3 sem leitt hafi til þess að „sá mismunur sem áður var á aðbúnaði milli húsa 3 og 4 hefur nú minnkað verulega“. Þá segir meðal annars svo í greinargerðinni:

„Á undanförnum mánuðum hefur verið unnið að því á vegum Fangelsismálastofnunar að festa á blað nokkrar helstu staðreyndir um fangelsin, þau sjónarmið sem ráða vistunarstað afplánunarfanga og flutningi þeirra milli deilda og fangelsa. Ætlunin er að þessar upplýsingar séu hluti þeirra upplýsinga sem fanga er afhentar við komu í fangelsi. […] Föngum á Litla-Hrauni er raðað niður á 7 afplánunardeildir sem í eru 10-11 fangar. Við val á deildir er m.a. tekið tillit til hegðunar, vímuefnaneyslu, aldurs, tengsla fanga og áforma þeirra á afplánunartímanum. Við komu í fangelsið er föngum gerð grein fyrir því fyrirkomulagi sem tíðkast um vistun á mismunandi deildum í fangelsinu svo og ástæðum sem geta orðið þess valdandi að þeir geti flust milli deilda eða bygginga. Þær ástæður geta verið góð eða slæm hegðun, brot á reglum fangelsis og ýmislegt annað sem getur valdið því að talið er heppilegt að flytja fanga til. Samkomulag og óvild milli fanga, hræðsla við samfanga o.fl. getur verið ástæða til flutnings og er oft að þeirra eigin ósk. Hinsvegar hefur það ekki tíðkast að föngum sé alltaf gerð sérstök grein fyrir ástæðum flutnings milli klefa eða deilda. Kann stundum að vera erfitt um vik að tilgreina nákvæmlega hvað það er sem gefur tilefni til flutnings og frjálst mat nauðsynlegt, einkum í þeim tilvikum þegar fangar eiga við geðræn eða persónuleg vandamál að stríða sem gera það að verkum að yfirmenn telja heppilegt að þeir skipti um umhverfi.

Það hefur verið til skoðunar hjá Fangelsismála-stofnun hvort tilfærslur fanga á milli húsa og deilda þurfi að haga á annan veg þegar þeir eru fluttir gegn vilja þeirra. Ýmsir vankantar eru þó á því eins og að framan getur og má þá sérstaklega nefna andmælarétt í þeim tilvikum þegar tafarlaus brottflutningur er nauðsynlegur.“

Í þeim gögnum sem bárust mér með svarbréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins er að finna „drög“ sem ber heitið „Fangelsin í landinu og önnur refsivistarúrræði – Helstu sjónarmið sem ráða því hvar afplánunarfangi er vistaður“. Af þeirri lýsingu sem þar kemur fram má ráða að aðeins fangelsið að Litla-Hrauni sé deildaskipt. Um Litla-Hraun segir meðal annars svo í „drögunum“:

„Í húsi 4 eru 5 deildir með 11 klefum í hverri deild. Allir klefar og deildir í húsinu eru með sama sniði og er enginn munur á aðstöðu hvað húsnæði varðar. Hinsvegar er munur á deildum á efstu hæð 3 A og B gagnvart deildunum þremur á neðri hæðunum hvað varðar útivist og aðgengi að íþróttasal, þ.e. deildir á efstu hæð hafa rýmri aðgang að íþróttasal og einnig rýmri útivist. Þá hefur slík hegðun einnig áhrif á veitingu dagsleyfa án fylgdar.

Deild 3A á efstu hæð hússins hýsir fanga sem sýna af sér góða hegðun, eru í vinnu eða stunda nám og eru lyfjalausir. Sama gildir um deild 3B nema að þar eru fangar sem þurfa að nota lyf að einhverju leyti. Fangar á þessum deildum hafa það einnig umfram aðra fanga að geta fengið leyfi til þess að hafa myndbandsupptökutæki í klefum sínum. Með þessu er komið á móts við fanga sem sýnt hafa fyrirmyndar hegðun og stunda vinnu og/eða skóla.“

Í tilefni af kvörtun fanga, sem barst mér 18. maí 1999, þar sem meðal annars var kvartað yfir því að ekki hefði verið tilefni til færa hann á milli deilda vegna agabrots, ritaði ég dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bréf, dags. 15. mars 2000. Í bréfinu óskaði ég upplýsinga frá ráðuneytinu um lagagrundvöll þeirrar ákvörðunar að flytja umræddan fanga á milli deilda af framangreindu tilefni. Í svarbréfi ráðuneytisins, dags. 18. maí 2000, sagði meðal annars svo um þetta atriði:

„[...]

Í 10. gr. laga nr. 48/1988 segir að heimilt sé að fangelsum sé skipt upp í deildir. Er þar ekki útlistað nánar hvert hlutverk einstakra deilda geti eða eigi að vera. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 48/1988 eru tekin dæmi um hvernig þessari skiptingu megi hátta til. Í umsögn Fangelsismálastofnunar sem barst ráðuneytinu 15. maí sl. segir meðal annars að stofnunin telji að í 10. gr. felist heimild til þess að færa fanga milli deilda.

Fangelsið Litla-Hrauni er eina fangelsið hér á landi sem er deildaskipt. Samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun eru þar 7 afplánunardeildir auk gæsluvarðhaldsdeildar. Dómþolar hefja almennt afplánun á sömu deildinni sem er deild lA (í húsi 4). Í húsi 4 eru 5 deildir. Lítilsháttar munur er á fríðindum varðandi útivist um helgar milli þeirra deilda sem eru á 1. og 2. hæð hússins en á einni deildinni (3. hæð hússins) er gert ráð fyrir því að þar dvelji aðeins fangar sem ekki eru að staðaldri háðir vanabindandi lyfjum og hafi sýnt góða hegðun. Á þeirri deild og á annarri deild á sömu hæð er um mest fríðindi að ræða. Annars er munur á aðbúnaði og aðstöðu óverulegur milli deilda, sérstaklega eftir að breytingar voru gerðar á aðbúnaði á þeim deildum sem eru í eldra húsnæðinu. Við komu í fangelsið er föngum gerð grein fyrir því fyrirkomulagi sem tíðkast um vistun á mismunandi deildum svo og ástæðum sem geta orðið þess valdandi að þeir geti flust milli deilda eða bygginga. Þær ástæður geta verið góð eða slæm hegðun, brot á reglum fangelsis og ýmislegt annað sem getur valdið því að talið er heppilegt að flytja fanga til.

[...]

Með lögum og reglugerðum er forstöðumanni fangelsis falið ákvörðunarvald í málum er varða réttindi og skyldur fanga. Forstöðumaður ákveður ennfremur agaviðurlög samkvæmt 3. mgr. 31. gr. laga nr. 48/1988. Þessar ákvarðanir forstöðumanns fangelsisins eru stjórnvaldsákvarðanir í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. álit umboðsmanns Alþingis nr. 170/1989. Það er skilningur dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og fangelsismálayfirvalda að ákvörðun forstöðumanns fangelsis um að færa fanga á milli deilda sé ekki beiting agaviðurlaga í skilningi 31. gr. laga nr. 48/1988. Þar segir ekki að flutningur fanga á milli deilda teljist beiting agaviðurlaga í skilningi ákvæðisins. Ef fangar í kjölfar slíkra flutninga þyrftu að þola sviptingu réttinda, sem þeir almennt njóta samkvæmt lögum nr. 48/1988 og reglugerðum, þá félli slíkt undir 2. tl. 1. mgr. 31. gr. laganna. Hér er aðstaðan önnur, því þrátt fyrir slíka flutninga njóta fangar, í öllum deildum fangelsisins, allra þeirra réttinda sem þeim eru áskilin í lögum og reglugerðum. Ekki er um að ræða neina sérstaka "refsiálmu" í fangelsinu, sem fangar eru fluttir í, en vistun í einangrun er í húsi l. Með mismunandi aðstöðu á afplánunardeildum er samt sem áður unnt að umbuna föngum fyrir góða hegðun og er það talið æskilegt. Eðlilegt er að fangelsisyfirvöldum sé játað ákveðið svigrúm í þessum efnum, enda deginum ljósara að fangar brjóta síður af sér innan veggja fangelsisins ef þeir vita að þeim verður umbunað fyrir slíkt. Í húsreglum fyrir fanga á Litla-Hrauni segir að brot á reglunum geti leitt til þess að fangi verði fluttur á aðra deild. Ekki má missa sjónar af því að þeir dómþolar er í fangelsinu sitja eru að taka út refsingu. Fangelsi eru ekki og verða aldrei hótel eða einhvers konar gistiheimili, og því mega fangar búast við einhverju óhagræði og óþægindum vegna refsivistarinnar í kjölfar ráðstafana og athafna fangelsisyfirvalda, s.s. við flutning fanga milli deilda. Slíkt felst í eðli refsivistar. Á meðan lágmarksréttindi fanga samkvæmt lögum og reglugerðum verða ekki skert við flutning fanga milli deilda fangelsisins, getur slíkur flutningur ekki falið í sér beitingu agaviðurlaga í skilningi 31. gr. laga nr. 48/1988, enda felst í þeim viðurlögum sem þar greinir tímabundin réttinda- eða frelsisskerðing.

Í framangreindri 1. mgr. 31. gr. segir að fyrir brot á reglum fangelsis megi beita fanga þeim agaviðurlögum er greinir í 1. - 4. tl. ákvæðisins. Í umræddu máli neitaði X að gangast undir líkamsleit í kjölfar heimsóknar til hans sem hafði farið fram án eftirlits. Eins og fram kom í skýrslu frá Fangelsinu Litla-Hrauni, dags. 29. apríl 1999, var X ljóst að neitun hans varðaði agaviðurlögum. Í ákvörðun fangelsisins kom fram að [X] hafi vegna þessa verið ákvörðuð viðurlög samkvæmt 2. og 3. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 48/1988. Sætti [X] samkvæmt þessu skerðingu vinnulaunadagpeninga í 14 daga, símabanni í 14 daga og heimsóknir til hans fóru fram í sérstakri öryggisálmu fangelsisins, í takmarkaðan tíma, í 1 mánuð. Ekki er í viðurlagaákvörðuninni minnst á flutninginn milli deilda, enda fellur slíkt ekki undir 2. eða 3. tl. 1. mgr. 31. gr.

Með vísan til framanritaðs telur dóms- og kirkjumálaráðuneytið svo og fangelsismálayfirvöld, að ákvörðun fangelsisyfirvalda um að flytja [X] milli deilda, í kjölfar neitunar hans að gangast undir líkamsleit, hafi verið fullkomlega lögmæt ráðstöfun.“

Með tilvitnuðu svarbréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til mín vegna ofangreindrar kvörtunar fylgdi greinargerð frá fangelsismálastofnun, dags. 11. maí 2000. Í henni sagði meðal annars svo um þetta atriði:

„Samkvæmt 10. gr. laga um fangelsi og fangavist er heimilt að skipta fangelsum upp í deildir. Ekki er skilgreint í lögunum hvert hlutverk einstakra deilda geti eða eigi að vera. Segir um þetta í greinargerð að nefna megi sem dæmi að hægt væri að hafa þá sem vilja vera án vímuefna og sýna góða hegðun sér í deild, erfiða síbrotamenn, yngri fanga o. s. frv. Fangelsismálastofnun telur að í þessari grein felist heimild til þess að færa fanga milli deilda.

[...] Munur á aðbúnaði og aðstöðu er að mati stofnunarinnar ekki verulegur milli deilda, sérstaklega eftir að breytingar voru gerðar á aðbúnaði á þeim deildum sem eru í eldra húsnæðinu (húsi 3). [...] Með mismunandi aðstöðu á afplánunardeildum er samt sem áður unnt að umbuna föngum fyrir góða hegðun og er það talið æskilegt. Jafnframt segir í húsreglum fyrir fanga á Litla-Hrauni að brot á reglunum geti leitt til þess að fangi verið fluttur á aðra deild. Tíðkast hefur að færa fanga á milli deilda brjóti þeir reglur fangelsisins. Er það nú almenn regla. Í öllum deildum fangelsisins hafa fangar öll réttindi sem þeim eru áskilin í lögum. Engin sérstök „refsiálma“ er í fangelsinu, en vistun í einangrun er í húsi l.

Nauðsynlegt er að bregðast við því þegar forsendur bresta fyrir því að vista fanga á viðkomandi deild eigi deildaskipting á þessum grundvelli að ganga upp. Ýmsar ástæður geta leitt til þess að færa þurfi fanga milli deilda. Ekki er þá alltaf um agabrot að ræða. Á það sérstaklega við þegar einungis er um það að ræða að forsendur breytast í sambandi við lyfjaneyslu. Einnig getur sambúðarvandi af ýmsum toga komið upp. Dæmi um það er að fangi óttast samfanga sinn eða að tiltekinn fangi sýnir af sér yfirgang gagnvart öðrum föngum. Fangelsissamfélagið er viðkvæmt samfélag. Þar eru einstaklingar sem hafa verið dæmdir til vistunarinnar í refsiskyni. Þeir verða að þola návist hvers annars á afar takmörkuðu svæði. Úrræði fangelsisins takmarkast einnig af því að það hefur ekki val um það hvort eða hve lengi einstaklingurinn er vistaður í fangelsinu. Oft þykir þá nauðsynlegt en jafnframt nægilegt að leysa málið með þeim hætti að færa fanga milli deilda.

Sama vinnulag hefur verið viðhaft í öllum tilfellum þegar fangi er færður milli deilda, hvort sem það er í tengslum við agaviðurlög ekki. Hefur hingað til verið litið á þær ráðstafanir sem stjórnvaldsathafnir. Samkvæmt upplýsingum danska dómsmálaráðuneytisins hafa dönsk fangelsisyfirvöld þetta sama viðhorf. Þykir þó rétt að gera nánari grein fyrir framkvæmdinni hér á landi. Fanga er ekki gefinn sérstaklega kostur á að tjá sig áður en ákveðið er að flytja hann. Ákvörðunin er munnleg en ef fangi óskar eftir skýringum á því hvers vegna hann er færður er jafnan orðið við því, ef flutningurinn er ekki í tengslum við agaviðurlög. Í áðurgreindu bréfi stofnunarinnar, dags. 28. september 1999, kemur fram í lokamálsgrein að það hafi verið til skoðunar hvort haga þyrfti flutningi fanga milli deilda á annan veg en nú er gert þegar þeir eru fluttir milli deilda gegn vilja sínum en jafnframt að ýmsir vankantar séu á því sérstaklega varðandi andmælarétt. Tekið skal þó fram að ef hegðun fanga þykir ámælisverð er skrifuð skýrsla um það. Stundum þykir þá nægilegt að aðvara fangann og það þá áritað á skýrsluna í hans viðurvist. Fangelsisyfirvöldum er vandi á höndum varðandi það að gefa fanga kost á að tjá sig áður en ákveðið er að flytja hann þegar um sambúðarvanda er að ræða. Aðstaðan getur verið sú að það að ávirðingar eru bornar á fanga sem annar fangi óttast sé talið líklegt að leiði til þess að hann láti verða af hótun sinni eða að ástandið versni til muna.

Benda má á að í stóru fangelsi koma á hverjum degi upp vandamál sem þarf að leysa úr. Varðar miklu að unnt sé að leysa þau með skilvirkum hætti. Ákvarðanir um að færa fanga af deild er eðlilegt að bera saman við aðrar ákvarðanir sem teknar eru nær daglega í fangelsinu svo sem: Ákvarðanir um að færa fanga milli vinnustaða, ákvörðun um hvort leyfa eigi eða banna tiltekna heimsókn til fanga, ákvarðanir um hvort leyfa eigi eða fjarlægja aukabúnað á klefum, ákvarðanir um líkamsleit o.s.frv. Í fangelsinu eru að jafnaði vistaðir um 60 fangar. Það að gefa föngum ávallt kost á að tjá sig um fyrirhugaða ákvörðun um að færa þá af deild og aðrar sambærilegar ákvarðanir myndi draga verulega úr skilvirkni. Líklegt er að það myndi einnig draga úr virkni þeirra úrræða sem fyrir hendi eru til að hafa styrka stjórn á fangahópnum og þannig leiða til þess að stjórn fangelsisins yrði í heild ómarkvissari. Stofnunin dregur í efa að niðurstaðan yrði bættir stjórnsýsluhættir.

Að framansögðu má sjá að æskilegt væri að farið yrði yfir valdheimildir fangelsisyfirvalda með tilliti til stjórnsýslulaga og það skoðað hversu ítarlegri málsmeðferð unnt er að koma við án þess að draga verulega úr skilvirkni. Hafa verður í huga tilgang með fangavist og refsifullnustu almennt. Stofnunin telur að sérákvæði um málsmeðferð í fangelsum þyrftu að vera til staðar í nokkrum tilfellum.“

Með bréfi 1. júlí 1998 skipaði dóms- og kirkjumálaráðherra nefnd til að annast óháða rannsókn á sjálfsvígum þriggja fanga í fangelsinu að Litla-Hrauni á tímabilinu mars til júní 1998. Lauk nefndin störfum með útgáfu skýrslu 15. janúar 1999. Á bls. 34 er vikið að „deildaskiptingu fangelsisins að Litla-Hrauni“. Þar segir meðal annars svo:

„Fangelsið að Litla-Hrauni er deildaskipt. Í fangelsinu eru samtals 87 fangaklefar á níu deildum. Á hverri deild eru vistaðir fjórir til ellefu fangar. Á sjö þessara deilda, með samtals 77 fangaklefa, eru vistaðir afplánunarfangar, gæsluvarðhaldsfangar í lausagæslu og nokkrir fangar, sem eru að afplána vararefsingu fésekta.

Í skýrslu Jóns Friðriks Sigurðssonar, sálfræðings, dags. 18. september 1998, kemur fram, að röðun fanga á deildir fari eftir ýmsu, en fyrst og fremst eftir hegðun þeirra og fíkniefnaneyslu. Fleira sé þó haft til hliðsjónar, s.s. aldur fanganna, almennt ástand þeirra og hverjir séu líklegir til þess að lynda saman hverju sinni. Aðstaða fanganna og réttindi séu misgóð eftir deildum, en segja megi að með góðri hegðun geti fangar almennt aflað sér betri réttinda.

Fangar, sem hegða sér illa í refsivist eða eru staðnir að því að hafa neytt fíkniefna í fangelsinu, hafa því minni réttindi og eru vistaðir með öðrum föngum sem eru í svipuðum vanda. Þeir sem eru erfiðastir eru vistaðir í húsi 3, gangi 3, þar sem aðstaða þeirra er mjög takmörkuð. Margir sem þar vistast eru óvinnufærir og sumir fara lítið sem ekkert í útivist. Viðurkennt er af fangelsisyfirvöldum, að vegna takmarkaðra atvinnutækifæra eigi fangar sem vistast í húsi 3 í reynd ekki alltaf möguleika á að stunda vinnu þótt þeir vilji vinna.“

Á fundi mínum með fulltrúa dóms- og kirkjumálaráðherra og forstjóra fangelsismálastofnunar 22. október 2001 kom fram að fangelsismálastofnun hefði ákveðið að breyta því fyrirkomulagi sem viðhaft hafði verið með hinni sérstöku deild í húsi 4, eða svokölluðum „fyrirmyndargangi“. Þannig yrðu felld niður þau sérstöku fríðindi sem fangar þar hefðu notið jafnframt því sem val á föngum til afplánunar þar yrði ekki byggt á sérstökum viðmiðunum eins og verið hefði. Fram kom að þessi breyting kæmi til framkvæmda 15. nóvember 2001. Í samræmi við þetta er hér miðað við að eftir þessa breytingu sé ekki að þessu leyti lengur gerður greinarmunur milli deilda fangelsisins hvað sem síðar kann að verða ákveðið. Þrátt fyrir þessa breytingu verður eins og áður greinir að hafa í huga að vegna fyrirkomulags og mismunandi aldurs bygginga fangelsisins er nokkur munur á aðbúnaði og aðstöðu milli afplánunardeilda fangelsisins eftir því hvort þær eru í húsi 3 eða 4. Eru þannig klefar í húsi 3 minni. Þá verður ljóst við skoðun á deildunum að yfirbragð þeirra og sambýli þar er mismunandi og af samtölum við fanga verður ráðið að í þeirra huga leiðir þessi munur til þess að þeir telja að það skipti þá verulegu máli á hvaða deild þeir eru látnir afplána. Þannig hafa fangar ítrekað komið á framfæri við mig athugasemdum um að þeir hafi verið fluttir úr húsi 4 í hús 3 gegn vilja sínum og þar með hafi aðbúnaður þeirra orðið lakari. Oft hefur þessi flutningur verið í tengslum við agabrot viðkomandi fanga. Ég vænti þess að þessi sjónarmið mín geti meðal annars orðið ráðuneytinu og fangelsismálastofnun vegvísir við samantekt á þeim reglum um flutning fanga sem áform hafa verið uppi um að setja.

Af framangreindum bréfum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og fangelsismálastofnunar verður ráðið að á þeim vettvangi hafa verið uppi hugleiðingar um málsmeðferð við flutning fanga milli deilda og þá hvort haga þurfi þeim málum með öðrum hætti en nú er gert þegar fangar eru fluttir gegn vilja sínum. Þá hefur því verið lýst í greinargerð fangelsismálastofnunar til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 28. september 1999, að unnið hafi verið að því meðal annars að festa á blað „sjónarmið sem ráða vistunarstað afplánunarfanga og flutningi þeirra á milli deilda og fangelsa“. Sé ætlunin að þessar upplýsingar verði „hluti þeirra upplýsinga sem fanga eru afhentar við komu í fangelsið“. Samkvæmt þeim upplýsingum sem forstjóri fangelsismálastofnunar hefur veitt mér hafa slíkar reglur enn ekki verið settar. Með tilliti til framangreinds hef ég ákveðið að fjalla hér með almennum hætti um þær lagareglur og sjónarmið sem koma til skoðunar þegar ákveðið er hvar fangi skuli vistaður og um tilfærslu hans á milli deilda og húsa fangelsis.

Samkvæmt 10. gr. laga nr. 48/1988, er eins og áður greinir, heimilt að skipta fangelsum upp í deildir. Í athugasemdum greinargerðar með 10. gr. frumvarps þess er varð að nefndu ákvæði í lögum nr. 48/1988 segir meðal annars svo um þetta ákvæði:

„Í þessari grein er almennt ákvæði um að heimilt sé að skipta fangelsum upp í deildir án þess að það sé skilgreint hvernig þær deildir verði, en nefna má sem dæmi að hægt væri að hafa þá sem vilja vera án vímuefna og sýna góða hegðun sér í deild, erfiða síbrotamenn, yngri fanga o.s.frv.“ (Alþt. 1987-1988, A-deild, bls. 2093.)

Framangreindar skýringar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og fangelsismálastofnunar og athugasemdir úr framangreindri skýrslu nefndar dóms- og kirkjumálaráðherra 15. janúar 1999 bera það með sér að ákveðið hefur verið að nýta heimild 10. gr. laga nr. 48/1988 í fangelsinu að Litla-Hrauni. Skipting fanga á deildir virðist fyrst og fremst vera ákveðin á grundvelli aðstæðna og hegðunar hvers fanga fyrir sig.

Framkvæmd refsivörslu með rekstri fangelsa er hluti af stjórnsýslu ríkisins. Það er síðan sjálfstætt úrlausnarefni hverju sinni hvort þær athafnir sem viðhafðar eru af starfsmönnum ríkisins við þá starfrækslu teljast til stjórnvaldsákvarðana og lúta þeim sérstöku reglum sem um þær ákvarðanir gilda eða ekki. Það er ljóst að við rekstur fangelsis og í samskiptum fangelsis og fanga þarf daglega að ákveða fyrirkomulag og framkvæmd ýmissa mála án þess að um sé að ræða ákvarðanir sem teljast stjórnvaldsákvarðanir í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hins vegar verður í þessu efni að hafa í huga að eftir að afplánun fanga hefst er hann sviptur frelsi sínu og þarf meðal annars að lúta ákvörðunum fangelsisyfirvalda um dvalarstað sinn og samneyti við aðra. Þær ákvarðanir sem þannig eru teknar um hvar hann skuli vistaður í fangelsi geta því haft verulega þýðingu fyrir daglegt líf fangans í afplánuninni. Sérstaklega kunna hagsmunir fangans að vera ríkir sé ákveðið að færa hann til með þeim hætti að aðbúnaður hans og möguleikar til að njóta réttinda og þess sem stundum eru nefnd fríðindi innan fangelsisins verði lakari.

Ljóst er, eins og áður greinir, að það er að jafnaði hagsmunamál fanga að hann sé vistaður í húsi nr. 4 enda er aðstaða þar og aðbúnaður að nokkru betri en í húsi nr. 3, einkum að því er varðar stærð klefa. Ég vek að auki athygli á því að almennt verður að ganga út frá því að mikilvægt sé fyrir fanga að stöðugleiki skapist í lífi hans á meðan afplánun stendur og því eigi að forðast óþarfa rask og breytingar á vistunarstað hans af hálfu fangelsisyfirvalda nema málefnalegar ástæður séu til staðar. Sökum þessa tel ég að þegar fangi hefur verið vistaður í tilteknum klefa, hann komið sér þar fyrir og kynnst því umhverfi, er að mínu áliti betur í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að miðað sé við að ákvarðanir um tilfærslu hans og flutning, án samþykkis hans, heyri til undantekninga. Þá legg ég áherslu á að fyrirkomulag þessara mála, bæði reglur og framkvæmd, sé með þeim hætti að tilfærslur fanga milli deilda og húsa séu ekki handahófskenndar og gerðar af tilefnislausu.

Í greinargerð fangelsismálastofnunar 28. september 1999 er vikið að því að ekki hafi tíðkast að föngum sé alltaf gerð sérstök grein fyrir ástæðum flutnings milli klefa eða deilda. Þá segir að það kunni „stundum að vera erfitt um vik að tilgreina nákvæmlega hvað það er sem gefur tilefni til flutnings og frjálst mat nauðsynlegt, einkum í þeim tilvikum þegar fangar eiga við geðræn eða persónuleg vandamál að stríða sem gera það að verkum að yfirmenn telja heppilegt að þeir skipti um umhverfi“. Þá kemur fram að það hafi verið til skoðunar hjá Fangelsismálastofnun hvort tilfærslur fanga á milli húsa og deilda þurfi að haga á annan veg þegar þeir eru fluttir gegn vilja þeirra. „Ýmsir vankantar [séu] þó á því [..] og [megi] þá sérstaklega nefna andmælarétt í þeim tilvikum þegar tafarlaus brottflutningur er nauðsynlegur“. Er þetta sjónarmið rakið nánar í greinargerð stofnunarinnar, dags. 11. maí 2000, sem ég rakti hér að framan. Er þó meðal annars tekið sérstaklega fram að stofnunin hafi hingað til litið á ráðstafanir um tilfærslu fanga á milli húsa og deilda sem „stjórnvaldsathafnir“. Er í því sambandi sérstaklega vísað til upplýsinga frá danska dómsmálaráðuneytinu um að dönsk fangelsisyfirvöld byggi á sama viðhorfi.

Í lögum er ekki að finna neinar lögbundnar takmarkanir á gildissviði stjórnsýslulaga að því er varðar ákvarðanir sem teknar eru af hálfu fangelsisyfirvalda í málefnum fanga. Það verður því að ganga út frá því sem meginreglu að lágmarksréttindi þau sem mælt er fyrir um í stjórnsýslulögum eigi að jafnaði við í slíkum tilvikum ef slíkar ákvarðanir verði taldar stjórnvaldsákvarðanir í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga gilda lögin þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um „rétt eða skyldu manna“. Í lögunum er ekki skilgreint nánar hvað átt sé við með hugtökunum „rétti“ og „skyldur“ í merkingu ákvæðisins. Í athugasemd við 1. gr. frumvarps til stjórnsýslulaga sagði meðal annars að það gæti vissulega verið álitamál hvort ákvarðanir sem tengjast opinberri þjónustu falli undir gildissvið laganna. Bent er á að líta verði til þess hvers eðlis ákvörðunin er „en ekki eingöngu til þess hver tekur ákvörðunina og hvers efnis hún er“. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3284.) Hér skiptir því máli hvort ákvörðun færir mönnum réttindi eða skerðir þau, léttir skyldum af mönnum eða leggur á þá auknar byrðar. Þetta mat verður þannig ekki eingöngu byggt á formlegum mælikvarða heldur með því að meta hver hin raunverulegu áhrif eru sem ákvörðunin hefur fyrir þann sem í hlut á. Og með tilliti til hversu rúmt orðalag 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaganna er verður að telja líkur til þess að hugtakið réttur í merkingu ákvæðisins verði ekki í framkvæmd einskorðað við lögvarinn rétt heldur taki það einnig til þess sem stjórnvöldum er heimilt en ekki skylt að veita. Þá geti þar einnig fallið undir aðstaða sem stjórnvöld hafa komið á með athöfnum sínum og ætlunin er að gera breytingar á. Ég minni líka á að þegar afmarkað er gildissvið stjórnsýslulaga þarf að huga að niðurlagsorðum athugasemda við 1. gr. frumvarps til laganna að orðalag ákvæðisins sé „annars svo rúmt að í algjörum vafatilvikum [beri] að álykta svo að lögin gildi fremur en að þau gildi ekki“.

Ég tel í sjálfu sér ekki ástæðu til að gera athugasemdir við það fyrirkomulag að láta hegðun fanga í refsivist hafa áhrif við ákvarðanir um vistunarstað hans. Eins og ráða má af tilvitnuðum athugasemdum lögskýringargagna að baki 10. gr. laga nr. 48/1988 gerði löggjafinn beinlínis ráð fyrir því að fangelsisyfirvöld ákveddu tilhögun deildarskiptingar innan fangelsa með hliðsjón af slíkum atriðum. Þá bendi ég hér á a- og b-liði 12. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna en þar kemur fram að tilgangur „flokkunar eða endurflokkunar fanga“ skuli vera að skilja frá öðrum föngum þá sem vegna lundarfars síns eða afbrotaferils eru líklegir til að njóta góðs af því eða hafi slæm áhrif á aðra og að auðvelda vistun fanga þar sem til bóta horfir við meðferð og félagslega endurhæfingu. Einnig að hliðsjón sé höfð af stjórnunar- og öryggiskröfum.

Enda þótt 10. gr. laga nr. 48/1988 geri beinlínis ráð fyrir því að fangelsisyfirvöld geti tekið ákvarðanir um tilflutning fanga á milli húsa og deilda í fangelsi, meðal annars vegna hegðunar fanga, verður með því einu ekki slegið föstu að slíkar ákvarðanir séu ekki stjórnvaldsákvarðanir í merkingu stjórnsýslulaga. Mat á því hvort um slíka ákvörðun sé að ræða verður að eiga sér stað í hverju tilviki fyrir sig að teknu tilliti til allra aðstæðna. Í því sambandi tel ég að hafa verði í huga að aðstæður og „lífskjör“ manns sem sviptur hefur verið frelsi sínu með vistun í afplánunarfangelsi hljóta eðli máls samkvæmt að ráðast verulega af einstökum ákvörðunum fangelsisyfirvalda sem hafa áhrif á líf hans í afplánuninni. Að mínu áliti verður þannig ekki hjá því komist að skilgreina og afmarka hagsmuni fanga í lagalegum skilningi með tilliti til þess aðbúnaðar og þeirra aðstæðna sem hafa bein áhrif á líf hans í afplánuninni. Tel ég því að hafi ákvörðun um tilfærslu fanga á milli húsa og deilda í fangelsi veruleg áhrif á líf hans í afplánuninni, sökum þess að hún er tekin gegn vilja hans, vegna hegðunar hans og leiðir til verri aðbúnaðar fyrir hann, er þannig ekki útilokað að líta verði svo á að um sé að ræða ákvörðun um „rétt“ fanga í rýmri merkingu þess hugtaks sem þannig verði að telja stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga í samræmi við þau sjónarmið sem ég rakti hér að framan og þeirra athugasemda sem fram koma í greinargerð með frumvarpi til stjórnsýslulaga. Ég tel því að haga beri hinni almennu framkvæmd þessara mála, og þá reglum sem settar verða um hana, þannig að vafi leiði frekar en ekki til þess að reglum stjórnsýslulaga verði fylgt við undirbúning og töku ákvörðunar. Þá ber einnig að hafa í huga að þessar reglur laganna eru byggðar á óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttarins sem hafa oft rýmra gildissvið. Ég tel jafnframt að í þessu efni þurfi fangelsisyfirvöld að gæta þess að haga störfum sínum með þeim hætti að fylgt sé vönduðum stjórnsýsluháttum. Ég tek hins vegar fram að með þessu er ekki verið að útiloka að tilfærsla fanga á milli húsa og deilda geti í ákveðnum tilvikum, m.a. vegna hreinna skipulagsákvarðana, verið ákvörðun sem fellur utan þess að vera stjórnvaldsákvörðun í merkingu laga nr. 37/1993.

Vegna tilvísunar fangelsisyfirvalda til afstöðu danskra yfirvalda tek ég fram að við samanburð á gildissviði dönsku og íslensku stjórnsýslulaganna verður að gæta þess að það er ekki víst að það verði afmarkað með sama hætti í báðum lögunum meðal annars vegna þeirra ummæla sem fram koma í lögskýringargögnum. Athugun mín á framkvæmdinni í Danmörku og Noregi sýnir að þar er almennt byggt á því að fylgja beri málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga þessara landa við ákvarðanir um flutning fanga milli deilda og fangelsa þegar slíkt leiðir til verulegra breytinga á afplánunarstöðu fanga. Frá þessu geta hins vegar verið undantekningar meðal annars á grundvelli sérstakra lögfestra heimilda þar um.

Í greinargerð fangelsismálastofnunar er að því vikið að stofnunin hafi ekki hingað til veitt fanga kost á því að tjá sig áður en ákveðið er að flytja hann. Þá sé ákvörðunin munnleg „en ef fangi óskar eftir skýringum á því hvers vegna hann er færður [sé] jafnan orðið við því, ef flutningurinn er ekki í tengslum við agaviðurlög“.

Áréttað er í greinargerðinni að fangelsisyfirvöldum sé vandi á höndum varðandi það að gefa fanga kost á að tjá sig áður en ákveðið er að flytja hann þegar um sambúðarvanda er að ræða. Þá er lögð áhersla á það að leysa þurfi mál í stóru fangelsi með skilvirkum hætti. Af þessum sökum myndi það „að gefa föngum ávallt kost á að tjá sig um fyrirhugaða ákvörðun um að færa þá af deild [...] draga verulega úr skilvirkni“. Er loks tekið fram að það sé skoðun stofnunarinnar að „sérákvæði um málsmeðferð í fangelsum þyrftu að vera til staðar í nokkrum tilfellum“.

Ef talið er að ákvörðun fangelsisyfirvalda um tilfærslu fanga sé stjórnvaldsákvörðun, með tilliti til þeirra sjónarmiða sem ég rakti hér að framan, minni ég á að þá gilda að jafnaði öll þau fyrirmæli um málsmeðferð við slíka ákvarðanatöku sem fram koma í stjórnsýslulögum. Verður því almennt að gæta að því að mál sé nægjanlega upplýst áður en slík ákvörðun er tekin, sbr. 10. gr. laganna, að sambærileg tilvik hljóti sömu meðferð, sbr. 11. gr., og að ekki sé gengið lengra en nauðsyn ber til í hvert sinn, sbr. 12. gr. laga nr. 37/1993. Þá verður að jafnaði að gefa fanga kost á því að tjá sig um slíka ákvörðun áður en hún er tekin. Ég vek hins vegar athygli á því að ekkert er því til fyrirstöðu samkvæmt andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga að gerðar séu bráðabirgðaráðstafanir um tilfærslu eða flutning fanga við þær aðstæður þegar m.a. liggur fyrir bráð hætta á líkams- eða eignatjóni. Verður þó að mínu áliti að gefa fanga kost á því að tjá sig, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, ef fyrirhugað er að taka varanlega ákvörðun um tilflutning hans af því tilefni þó að því gættu að undantekningarákvæði 13. gr. eigi ekki við.

Ég tel í þessu sambandi rétt að taka fram að af hálfu fangelsisyfirvalda hefur því ekki verið haldið fram að ákvörðun um tilfærslu fanga teljist beinlínis ein tegund agaviðurlaga í merkingu 1. mgr. 31. gr. laga nr. 48/1988. Þó má ráða af framangreindum skýringum og einstökum málum sem til mín hafa borist að almennt er fangi, sem látin hefur verið sæta agaviðurlögum, jafnframt færður á deild í húsi nr. 3 á Litla-Hrauni í slíkum tilvikum. Ég tek fram að ég geri ekki athugasemd við það að hegðun fanga sem jafnframt felur í sér agabrot geti leitt til þess að nauðsynlegt verði talið að flytja hann á milli deilda innan fangelsis. Minni ég á að gert er ráð fyrir því í framangreindum lögskýringargögnum að baki 10. gr. laga nr. 48/1988 að slík tilfærsla geti verið þáttur í því að bregðast við hegðunarvandamáli fanga. Á hinn bóginn legg ég á það áherslu að líta verður svo á að ákvörðun um tilfærslu fanga í slíkum tilvikum sé sjálfstæð ákvörðun sem uppfylla verður framangreindar kröfur laga nr. 37/1993. Verður því eftir atvikum að kynna fyrir viðkomandi fanga að samfara beitingu agaviðurlaga kunni að koma til tilfærslu hans á aðra deild og gefa honum kost á því að tjá sig sérstaklega um það atriði.

Ég tel hér loks rétt að leggja áherslu á mikilvægi þess að málsmeðferð fangelsisyfirvalda í einstökum málum sé gagnsæ og sanngjörn þannig að með henni sé ekki raskað því trausti sem ríkja þarf á milli fanga og starfsmanna fangelsa. Ef ákvarðanir fangelsisyfirvalda á borð við tilfærslu þeirra á milli deilda hafa á sér þann blæ að vera að jafnaði teknar án þess að gætt sé með fullnægjandi hætti að hagsmunum fangans, honum tilkynnt um efni málsins og honum að jafnaði veittur kostur á því að tjá sig, kann það að leiða til þess að torveldað sé eðlilegum samskiptum á milli fanga og fangelsisyfirvalda. Með því er einnig stefnt í hættu því öryggi og þeim friði sem verður að vera til staðar svo að markmið raunhæfrar og virkrar refsifullnustu um félagslega aðlögum fanga náist og að auki sé gætt að þeim sjónarmiðum um virðingu fyrir mannlegri reisn sem leggja verður til grundvallar þegar frelsissviptir menn afplána refsingu sína í fangelsi, sbr. hér til hliðsjónar 1. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna. Ég vek athygli á því að þessi sjónarmið eiga einnig alfarið við þegar ákvarðanir eru teknar á grundvelli ákvæða V. kafla laga nr. 48/1988 m.a. um vistun fanga í einangrun vegna öryggishagsmuna og töku ákvarðana um agaviðurlög.

Í greinargerð fangelsismálastofnunar 28. september 1999 er, eins og fyrr er rakið, að því vikið að unnið hafi verið að því á vegum stofnunarinnar að festa á blað nokkrar helstu staðreyndir um fangelsin, og þá einkum þau sjónarmið sem ráða vistunarstað afplánunarfanga og flutningi þeirra milli deilda og fangelsa. Fram kemur að ætlunin sé að þessar upplýsingar séu hluti þeirra upplýsinga sem fanga eru afhentar við komu í fangelsi.

Ég tel mikilvægt í ljósi réttaröryggis fanga og vandaðra stjórnsýsluhátta við meðferð mála hjá fangelsisyfirvöldum að til staðar séu skráðar og samræmdar reglur um þau sjónarmið sem geta legið að baki ákvörðun um að færa fanga af einni deild yfir á aðra. Þá tel ég nauðsyn á því að föngum séu kynntar þær málsmeðferðarreglur sem gilda eiga í slíkum tilvikum meðal annars um andmælarétt og rétt viðkomandi til að krefjast rökstuðnings. Í þessu sambandi tel ég loks rétt að vekja hér athygli á 11. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna en þar er að finna ákvæði um vistunarstað og „flokkun“ fanga. Þar segir meðal annars í 1. mgr. ákvæðisins að þegar ákveðið er hvar fangi skuli vistaður og hver skipan skuli vera á meðferð hans skuli taka tillit til sérstakra meðferðarþarfa, heilsufars, kynferðis og aldurs. Þá segir í 4. mgr. 11. gr. að unga fanga skuli vista við aðstæður sem vernda þá eins og unnt er fyrir slæmum áhrifum og taka skal fullt tillit til sérþarfa þeirra vegna aldurs.

IX.

Fyrirætlanir stjórnvalda um setningu almennra reglna o.fl.

Í framangreindum bréfum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og fangelsismálastofnunar til mín í tilefni af þessari athugun minni hefur í nokkrum tilvikum verið vikið að þeirri fyrirætlan stjórnvalda að setja almennar og skráðar reglur um tiltekin atriði í málefnum fanga og gera aðrar ráðstafanir af því tilefni. Hefur sá tími sem athugun þessi hefur tekið meðal annars markast af þessum fyrirætlunum stjórnvalda.

Í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til mín frá 16. nóvember 1999 var, eins og fyrr greinir, rakið að þrátt fyrir þá skoðun ráðuneytisins að húsreglur fangelsanna teljist fullnægjandi stjórnsýslufyrirmæli hefði það í hyggju að setja á árinu 2000 „almennar reglur um notkun og beitingu agaviðurlaga gagnvart föngum og málsmeðferð slíkra mála, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga nr. um fangelsi og fangavist“. Ég hef áður bent á að með tilliti til tilvísunar ráðuneytisins í umræddu bréfi til almennrar reglugerðarheimildar 2. mgr. 36. gr. laga nr. 48/1988 gangi ég út frá því að um sé að ræða almenn stjórnsýslufyrirmæli í reglugerðarformi.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk frá fulltrúa ráðuneytisins á fundi mínum með honum og forstjóra fangelsismálastofnunar 22. október 2001 liggur hins vegar fyrir að umræddar reglur hafa enn ekki verið settar þrátt fyrir ofangreinda yfirlýsingu ráðuneytisins í bréfi til mín um að þær yrðu settar á árinu 2000.

Í greinargerð fangelsismálastofnunar til ráðuneytisins, dags. 28. september 1998, sem ritað var í tilefni af athugun minni, kemur fram að „upplýsingapakki“ hafi verið afhentur föngum við komu þeirra í fangelsið að Litla-Hrauni, sbr. að öðru leyti sjónarmið mín um það efni í kafla 5 hér að framan. Þá segir í greinargerðinni að það hafi staðið til að útbúa sambærilegan upplýsingapakka fyrir önnur fangelsi. Auk þess hafi verið í vinnslu upplýsingabæklingur ætlaður föngum þar sem fram komi svör við algengustu spurningum þeirra varðandi fangavistina og réttindi fanga. Loks segir í greinargerðinni að í vinnslu hafi verið samsvarandi upplýsingabæklingur á ensku. Á fundi mínum 22. október 2001 með fulltrúa dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og forstjóra fangelsismálastofnunar kom einnig fram að umræddur upplýsingapakki og bæklingar hafa enn ekki verið útbúnir í samræmi við þær fyrirætlanir í tengslum við upplýsingagjöf fanga sem lýst er í áðurnefndri greinargerð fangelsismálastofnunar til ráðuneytisins 28. september 1999.

Ég minni á að í umræddri greinargerð stofnunarinnar frá 28. september 1999 er því loks lýst yfir að unnið hafi verið að því á vegum hennar að festa á blað nokkrar helstu staðreyndir um fangelsin, þau sjónarmið sem ráða vistunarstað afplánunarfanga og flutningi þeirra á milli deilda og fangelsa. Sé ætlunin að þessar upplýsingar verði hluti þeirra upplýsinga sem fanga eru afhentar við komu í fangelsi. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið hjá forstjóra fangelsismálastofnunar er umræddri vinnu ekki lokið.

Af framangreindu verður ráðið að stjórnvöld hafa í tilefni af þessari athugun annars vegar lýst yfir fyrirætlunum sínum um setningu almennra reglna um tiltekin atriði innan ákveðins tíma. Þá hafa stjórnvöld tekið fram að til hafi staðið að auka upplýsingagjöf til fanga með ákveðnum ráðstöfunum. Stjórnvöld hafa ekki staðið við þessar fyrirætlanir sínar en af hálfu þeirra hafa verið gefnar þær skýringar í þessu sambandi að erfitt hafi verið að framkvæma umræddar fyrirætlanir vegna tilflutnings starfsmanna og annarra breytinga á starfsmanna-haldi í ráðuneytinu og hjá fangelsismálastofnun. Sökum þessa hef ég ákveðið að taka eftirfarandi almenn atriði fram.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í 5. gr. laga nr. 85/1997 er mælt fyrir um heimild umboðsmanns til að taka að eigin frumkvæði mál til meðferðar. Getur hann jafnframt samkvæmt ákvæðinu tekið starfsemi og málsmeðferð stjórnvalds til almennrar athugunar. Í ljósi framangreinds er með 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997 gert ráð fyrir tilteknum rannsóknarheimildum umboðsmanns og skyldum stjórnvalda til að veita umboðsmanni aðgang að réttum upplýsingum og veita honum nauðsynlegar skriflegar skýringar.

Hlutverk umboðsmanns Alþingis að lögum er einkum það að „kappkosta að tryggja góða opinbera stjórnsýslu, og að stjórnarvöld beiti ekki nokkurn mann rangindum“, sbr. athugasemdir við 2. gr. í frumvarpi því er varð að eldri lögum um umboðsmann Alþingis nr. 13/1987. (Alþt. 1987-1988, A-deild, bls. 2559.) Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir því að það sé „einn þáttur í starfi umboðsmanns að gera tillögur almenns eðlis til endurbóta í stjórnsýslu“. (Alþt. 1987-1988, A-deild, bls. 2560.)

Ég legg á það áherslu að starf umboðsmanns samkvæmt lögum nr. 85/1997, og þá einkum í tilefni af ákvörðun hans um að taka almennt til athugunar starfsemi tiltekinna stjórnvalda og málefna ákveðins hóps einstaklinga, mun vart ná tilgangi sínum ef það á sér ekki stað í virkri og góðri samvinnu umboðsmanns og stjórnvalda. Af ákvæðum 5., 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997 leiðir meðal annars að stjórnvöldum er skylt að gefa umboðsmanni réttar upplýsingar um ástand mála á hverjum tíma og um fyrirætlanir þeirra meðal annars í tilefni af athugunum umboðsmanns á málefnum sem falla undir starfssvið þeirra. Það gerir umboðsmanni erfitt um vik við framkvæmd lögbundinna verkefna sinna ef stjórnvöld lýsa því yfir skriflega að tilteknar endurbætur séu fyrirsjáanlegar innan ákveðins tíma ef slíkum yfirlýsingum fylgja ekki raunhæfar ráðstafanir. Í því sambandi tek ég fram að stjórnvöld verða að gæta þess að haga starfsmannahaldi og verkefnaskiptingu milli starfsmanna með þeim hætti að samrýmist slíkum yfirlýsingum. Ástæðan er sú að ákvarðanir umboðsmanns um hvort og þá hvaða athuganir skuli framkvæmdar af hans hálfu markast að verulegu leyti af viðbrögðum og yfirlýsingum stjórnvalda hverju sinni. Því verður almennt að vera hægt að treysta því að yfirlýsingum stjórnvalda fylgi vilji til athafna og að staðið sé við slíkar yfirlýsingar innan þess tíma sem upp er gefinn af viðkomandi stjórnvaldi hverju sinni.

X.

Niðurstöður

Ég hef hér að framan rakið sjónarmið mín og niðurstöður í tilefni athugunar minnar á tilgreindum þáttum um réttarstöðu afplánunarfanga og meðferð mála hjá fangelsisyfirvöldum. Ég tel rétt að draga þær saman með eftirfarandi hætti:

1. Á þessu stigi hef ég ákveðið að taka ekki til heildstæðrar og sérstakrar athugunar hvernig háttað er eftirliti hér á landi af því tagi sem mælt er fyrir um í 5. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna. Í ákvæðinu segir að vernd persónulegra réttinda fanga með sérstöku tilliti til lögmætis ráðstafana sem fela í sér innilokun skuli tryggð með eftirliti samkvæmt þeim reglum er gilda í viðkomandi landi og skuli því sinnt af yfirvaldi á sviði dómsýslu eða öðrum aðila sem til þess er löglega skipaður og heimild hefur til að vitja fanga og tilheyrir ekki fangelsisyfirvöldum. Í samræmi við þá stöðu sem umboðsmaður Alþingis hefur talið að Evrópsku fangelsisreglurnar hafi hér á landi hef ég ákveðið að láta við það sitja að svo stöddu að vekja aðeins athygli stjórnvalda á framangreindu atriði og þá með það í huga að litið verði svo á að með 5. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna sé markmiðið að auka og bæta réttaröryggi á þessu sviði.

2. Ég fjalla í álitinu um þær kröfur sem gera verði til forms agaviðurlaga. Athugun mín leiðir í ljós að agaviðurlögum er nú beitt vegna brota fanga á „húsreglum“ sem settar hafa verið einhliða af viðkomandi forstöðumanni. Niðurstöður mínar um þetta atriði eru þær að ekki er unnt að fullyrða að lög nr. 48/1988 girði fyrir að lægra sett stjórnvöld, s.s. fangelsismálastofnun eða eftir atvikum forstöðumenn einstakra fangelsa, setji við ákveðnar aðstæður almennar reglur um beitingu agaviðurlaga. Ég legg þó áherslu á að þegar ekki nýtur við skýrrar lagaheimildar er það í betra samræmi við almenn réttaröryggissjónarmið sem dregin verða af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins og mannréttindareglum á þessu sviði að til grundvallar beitingu agaviðurlaga vegna agabrota liggi almenn stjórnvaldsfyrirmæli sett af ráðherra og birt með þeim opinbera hætti sem og lög kveða á um. Ég bendi á að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur í þessu máli tekið fram að það hafi haft í hyggju að setja slíkar almennar reglur um notkun og beitingu agaviðurlaga gagnvart föngum og málsmeðferð slíkra mála. Eru það því tilmæli mín til ráðuneytisins að það framkvæmi sem fyrst þau áform sem að framan er lýst. Eru það jafnframt tilmæli mín að við setningu þeirra reglna verði fylgt þeim sjónarmiðum sem ég geri grein fyrir í áliti þessu og þá einnig um efnislegt inntak reglna um agaviðurlög og málsmeðferð.

3. Ég fjalla í álitinu almennt um kröfur sem gera verður til efnislegs inntaks reglna um agaviðurlög meðal annars í tilefni af því að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur nú í hyggju að setja almennar reglur um notkun og beitingu agaviðurlaga. Við skýringu laga nr. 48/1988 um þetta atriði hef ég tekið nokkurt tillit til ákvæða 35. gr. Evrópsku fangelsisreglnanna. Niðurstöður mínar um þetta atriði eru þær að í reglum sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið áformar að setja sé rétt að afstaða verði tekin til þess í fyrsta lagi hvaða athafnir, eða eftir atvikum athafnaleysi, eigi að leiða til beitingar agaviðurlaga og þá nánar til hvaða tegundar slíkra viðurlaga. Þá er rétt að tekin verði afstaða til þess hvert skuli vera leyfilegt hámark einstakra tegunda agaviðurlaga.

4. Ég fjalla almennt um svokallað „pakkafyrirkomulag“ við ákvörðun tegundar og umfangs agaviðurlaga. Niðurstaða mín er sú að ég tel vafasamt að umrætt fyrirkomulag, sem almennt hefur verið viðhaft við ákvörðun agaviðurlaga, sé alfarið í samræmi við þann lagagrundvöll sem ákvarðanir um agaviðurlög eiga að byggjast á. Beini ég því þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að það láti fara fram athugun á því hvort ekki sé rétt og nauðsynlegt að gera breytingar á framkvæmd ákvarðana um agaviðurlög að þessu leyti að teknu tilliti til þeirra sjónarmiða sem ég hef rakið í álitinu um þetta atriði.

5. Ég fjalla með almennum hætti um málsmeðferðarreglur við framkvæmd agaviðurlaga samkvæmt lögum nr. 48/1988. Ég tek fram að ekki hafa verið sett nánari fyrirmæli um meðferð mála þegar fyrir liggur grunur um agabrot. Þá hefur athugun mín leitt í ljós að ekki eru til staðar skráðar reglur um meðferð mála í slíkum tilvikum í „húsreglum“ fangelsa eða í öðrum almennum fyrirmælum settum af fangelsisyfirvöldum. Niðurstöður mínar um þetta atriði eru þessar:

i. Með tilliti til réttaröryggis fanga og sjónarmiða um sanngjarna málsmeðferð þegar tekin er ákvörðun um beitingu agaviðurlaga tel ég að skilja beri 4. mgr. 31. gr. laga nr. 48/1988 með þeim hætti að það áskilji að forstöðumaður leggi að jafnaði í hverju tilviki mat á hvort rannsókn hafi verið fullnægjandi. Þá verður hann jafnframt við töku ákvörðunar um hvort beita eigi agaviðurlögum að leggja sjálfstætt mat á öll atvik málsins.

ii. Að því er varðar beitingu einangrunar sem einni tegund agaviðurlaga er það niðurstaða mín að í ljósi eðlis þess úrræðis sem einangrun er í samanburði við önnur agaviðurlög verði að miða við að gerðar séu ríkar kröfur til stjórnvalda um að mál sé nægjanlega upplýst áður en til greina kemur að beita einangrun og að sú ráðstöfun gangi ekki lengra en nauðsyn ber til. Að því er varðar rannsóknarskyldu fangelsisyfirvalda í slíkum tilvikum minni ég meðal annars á álit mitt frá 7. júlí 2000 í máli nr 2426/1998. Nánar tiltekið tel ég að almennt verði að leggja til grundvallar að ef ekki er gerður reki að því að fá fram sjónarmið læknis um líkamlegt og andlegt ástand fanga áður en honum er gert að sæta einangrun á grundvelli 30. eða 31. gr. laga nr. 48/1988 leiði það til þess að meðferð málsins verði ekki talin uppfylla lagakröfur um rannsókn máls. Þá er það niðurstaða mín að með því að fanga sé ekki tryggð nauðsynleg læknisþjónusta við vistun hans í fangelsi, og þá einkum þegar honum er gert að sæta einangrun, eigi stjórnvöld á hættu að meðferð slíks máls verði talin brjóta í bága við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994.

6. Ég fjalla um birtingu reglna fangelsismálastofnunar um afplánun fanga á áfangaheimili Verndar í Reykjavík. Legg ég áherslu á það að umræddar reglur eru opinbers eðlis og taka til samskipta fanga og stjórnvalda í tilefni af beitingu tiltekins lögbundins úrræðis. Sökum þessa og í ljósi réttaröryggissjónarmiða tel ég það betur í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að slíkar reglur séu birtar með almennum og opinberum hætti. Beini ég því þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að það láti fara fram athugun á því hvort ekki sé rétt að færa umræddar reglur í búning almennra stjórnvaldsfyrirmæla sem birtar eru í B-deild Stjórnartíðinda samkvæmt lögum nr. 64/1943, um birtingu laga og stjórnvaldaerinda.

7. Ég fjalla í álitinu um þau almennu sjónarmið sem hafa þarf í huga við framkvæmd lagareglna sem gilda um töku þvagsýna hjá föngum. Beini ég þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að það sjái til þess að ákvarðanir um töku þvagsýna og meðferð slíkra mála verði hagað í samræmi við þau sjónarmið:

i. Það er niðurstaða mín að skýra verði ákvæði 1. mgr. 29. gr. laga nr. 48/1988, þar sem heimilt er að taka þvag- og blóðsýni úr fanga, með þeim hætti, með tilliti til sjónarmiða um áhrif meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins við þessar aðstæður, að ef vafi leikur á því hvort nauðsynlegt sé að beita slíku úrræði verði stjórnvöld að láta hjá líða að framkvæma það.

ii. Það er niðurstaða mín að miða verði við það sem meginreglu við framkvæmd þvagsýnatöku, með tilliti til þeirra hagsmuna sem hér vegast á, að rökstuddur grunur verði að liggja fyrir um fíkniefnaneyslu áður en ákvörðun er tekin um að framkvæma slíkt úrræði. Ég fellst hins vegar á að 1. mgr. 29. gr. laga nr. 48/1988 girði ekki fyrir það að heimilt kunni að vera að framkvæma slíka ráðstöfun í ákveðnum almennum tilvikum án þess að rökstuddur grunur liggi fyrir um neyslu fíkniefna í hverju tilviki fyrir sig. Gera verður þó þá kröfu að skýrlega liggi fyrir að framkvæmd úrræðisins í slíkum tilvikum sé reist á sjónarmiðum sem með beinum og málefnalegum hætti tengjast tilgangi þess og gangi ekki lengra en nauðsyn ber til.

iii. Það er niðurstaða mín að ekki sé tilefni til að gera athugasemdir við að jafnan sé tekið þvagsýni úr föngum við komu þeirra í fangelsi.

iv. Það er niðurstaða mín að það styðjist við málefnaleg sjónarmið að gera fanga að gefa þvagsýni við endurkomu í fangelsið úr dagsleyfi. Á hinn bóginn tel ég það vafasamt að byggt sé á almennri reglu þess efnis að allir fangar skuli sæta þvagsýnatöku áður en þeir fara í dagsleyfi án þess að fyrir liggi grunur um neyslu fíkniefna í því tiltekna tilviki. Þá tel ég heimild til töku þvagsýna í tilefni af reglubundnu eftirliti til að fylgjast með neyslu fíkniefna verði ekki leidd af orðalagi 1. mgr. 29. gr. laga nr. 48/1988 án þess að málefnalegt og rökstutt tilefni sé til að ætla að viðkomandi fangi stundi fíkniefnaneyslu.

v. Það er niðurstaða mín að ekki sé tilefni til að gera athugasemdir við það að tekið sé þvagsýni úr fanga þegar hann er fluttur úr öryggisdeild á almenna deild að því tilskildu að grundvöllur slíkrar ráðstöfunar sé sá sami og byggt er á þegar tekin eru þvagsýni úr fanga við komu hans í fangelsið.

8. Ég fjalla um upplýsingagjöf til fanga við móttöku þeirra í afplánun. Geri ég athugasemdir við það að þær upplýsingar sem fangar fá við móttöku í fangelsi samkvæmt upplýsingum sem mér voru afhentar eru ekki samræmdar og þeim búinn staður í einum samfelldum upplýsingapakka í stað þess að þær séu afhentar sem laus blöð. Legg ég einnig áherslu að hraðað sé fyrirætlan stjórnvalda um að útbúa slíkan upplýsingapakka, sem fangar á Litla-Hrauni fá við móttöku þeirra, fyrir önnur fangelsi. Þar að auki bendi ég á að fangelsisyfirvöld hafa lýst því yfir að unnið hefur verið að því að útbúa upplýsingabækling handa íslenskum og erlendum föngum en því verki sé ekki lokið. Samkvæmt þessu beini ég þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að leitast verði við að framkvæma nefndar ráðstafanir til bættrar upplýsingagjafar til fanga sem fyrst. Þá eru það tilmæli mín til ráðuneytisins að það sjái til þess að upplýsingum um möguleika fanga til að leita til umboðsmanns Alþingis í trúnaði, skriflega eða símleiðis, verði bætt við þau gögn sem fangar fá afhent við móttöku í afplánun og að þar fylgi heimilisfang skrifstofu minnar eða símanúmer.

9. Ég fjalla um tilfærslu fanga á milli húsa og deilda í fangelsinu að Litla-Hrauni. Niðurstöður mínar eru þessar:

i. Það er niðurstaða mín að ganga verði út frá því sem meginreglu að lágmarksréttindi þau sem fram koma í stjórnsýslulögum eigi að jafnaði við að því er varðar ákvarðanir sem teknar eru af hálfu fangelsisyfirvalda í málefnum fanga um rétt eða skyldu þeirra. Enda þótt 10. gr. laga nr. 48/1988 geri beinlínis ráð fyrir því að fangelsisyfirvöld geti tekið ákvarðanir um tilflutning fanga á milli húsa og deilda í fangelsi, meðal annars vegna hegðunar fanga, tel ég að með því einu verði ekki slegið föstu að slíkar ákvarðanir séu ekki stjórnvaldsákvarðanir í merkingu stjórnsýslulaga. Er það niðurstaða mín að hafi ákvörðun um tilfærslu fanga á milli húsa og deilda í fangelsi veruleg áhrif á líf hans í afplánuninni sökum þess að hún er tekin gegn vilja hans, vegna hegðunar hans og leiðir til verri aðbúnaðar fyrir hann, sé ekki útilokað að slík ákvörðun teljist hafa slík áhrif á „rétt“ fanga í merkingu þess hugtaks, eins og afmarka verður það á grundvelli lögskýringargagna, að hún teljist stjórnvaldsákvörðun sem fellur undir 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Það er því niðurstaða mín að haga beri hinni almennu framkvæmd þessara mála, og þá reglum sem settar verða um hana, þannig að vafi leiði frekar en ekki til þess að reglum stjórnsýslulaga verði fylgt við undirbúning og töku slíkrar ákvörðunar. Þá er það niðurstaða mín að í þessu efni þurfi stjórnvöld að gæta þess að haga störfum sínum með þeim hætti að fylgt sé vönduðum stjórnsýsluháttum. Ég tel að niðurstöður mínar hér að framan leiði hins vegar ekki til þess að útilokað sé að tilfærsla fanga á milli húsa og deilda geti í ákveðnum tilvikum, m.a. vegna hreinna skipulagsákvarðana, verið talin ákvörðun sem fellur utan þess að vera stjórnvaldsákvörðun í merkingu stjórnsýslulaga.

ii. Það er niðurstaða mín að ekki séu forsendur til að gera athugasemd við það að hegðun fanga sem jafnframt felur í sér agabrot geti leitt til þess að nauðsynlegt verði talið að flytja hann á milli deilda innan fangelsis. Á hinn bóginn er það niðurstaða mín að líta verði svo á að ákvörðun um tilfærslu fanga í slíkum tilvikum sé sjálfstæð ákvörðun sem uppfylla verði kröfur laga nr. 37/1993. Verði því eftir atvikum að kynna fyrir viðkomandi fanga að samfara beitingu agaviðurlaga kunni að koma til tilfærslu hans á aðra deild og gefa honum kost á því að tjá sig sérstaklega um það atriði.

Ég ítreka það að lokum að dóms- og kirkjumálaráðuneytið og fangelsismálastofnun hafa lýst því yfir í tilefni af þessari athugun að þau hafi haft í hyggju að framkvæma tilteknar ráðstafanir, bæði um setningu almennra reglna um ákveðin atriði og einnig að því er varðar framkvæmdaratriði. Eins og ég fjalla um í kafla IX hér að framan hefur ekki enn orðið af þessum fyrirætlunum. Sökum þessa bendi ég á að niðurstöður mínar hér að framan leiða einkum í ljós mikilvægi þess að ráðuneytið og fangelsismálastofnun framkvæmi eins fljótt og kostur er umræddar fyrirætlanir. Það verður áhersluatriði í störfum mínum og frekari athugunum á málefnum fanga að fylgja því eftir.

XI.

Í inngangi að þessari skýrslu, sjá kafla I (6.3.), kemur fram að í kjölfar ofangreinds álits leitaði ég bréflega og á fundum eftir viðbrögðum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og fangelsismálastofnunar af því tilefni. Eins og þar er lýst kom ekki annað fram en að vilji væri til þess af hálfu þessara aðila að gera nauðsynlegar breytingar í samræmi við þau sjónarmið sem ég setti fram í álitinu. Síðan er vitnað til bréfs dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til mín, dags. 22. apríl 2002, þar sem lýst er nánar fyrirætlunum ráðuneytisins í þessu efni. Vísast til þeirrar umfjöllunar.

XII.

Fjallað er um framvindu þessa máls í ársskýrslum mínum fyrir árið 2002, bls. 16—18, og fyrir árið 2003, bls. 234. Ný lög um fullnustu refsinga nr. 49/2005 voru samþykkt á Alþingi 4. maí 2005 og tóku þau gildi 1. júlí 2005.