Húsnæðismál.

(Mál nr. 11863/2022)

Kvartað var yfir málsmeðferð Reykjavíkurborgar í tengslum við umsókn um félagslegt húsnæði en áður hafði úrskurðarnefnd velferðarmála ógilt fyrri ákvörðun sveitarfélagsins og málið því á ný komið til kasta þess. 

Þar sem ekki hafði verið leitað til úrskurðarnefndar velferðarmála vegna endanlegrar niðurstöðu borgarinnar voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 17. október 2022.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 29. september sl. sem ráðið verður að beinist að málsmeðferð Reykjavíkurborgar í tengslum við umsókn yðar um félagslegt leiguhúsnæði í framhaldi af því að úrskurðarnefnd velferðarmála kvað upp úrskurð 10. febrúar sl. í enduruppteknu máli nr. 368/2019 þar sem nefndin ógilti ákvörðun sveitarfélagsins 12. júlí 2019 um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis til yðar.

Með kvörtun yðar fylgdi erindi yðar frá 29. september sl. til Reykjavíkurborgar þar sem þér tilkynntuð um áfrýjun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar vegna ákvörðunar borgarinnar 2. september sl. um afturköllun samþykktar á biðlista um félagslegt húsnæði. Með tölvubréfi 12. október sl. bárust viðbótargögn frá yður, þ. á m. afrit af tilkynningu Reykjavíkurborgar til yðar 5. október sama mánaðar þar sem þér voruð upplýstir um að fyrirhugað hafi verið að áfrýjunarnefnd velferðarráðs Reykjavíkurborgar tæki mál yðar fyrir á fundi sínum 12. sama mánaðar. Með tölvubréfi 13. sama mánaðar upplýstuð þér um að áfrýjunarnefndin hefði á fundi sínum degi áður staðfest synjun um endurskoðun á ákvörðun um afturköllun samþykktar á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði hjá Reykjavíkurborg.

Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Af þessu ákvæði leiðir að almennt er ekki gert ráð fyrir því að umboðsmaður hafi afskipti af málum á meðan þau eru til meðferðar hjá stjórnvöldum.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að enda þótt fyrir liggi endanleg ákvörðun Reykjavíkurborgar, hefur hún ekki sætt endurskoðun æðra stjórnvalds. Í því efni vek ég athyli yðar á því að samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, er heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir teknar samkvæmt lögunum til úrskurðarnefndar velferðarmála. Teljið þér yður enn beitta rangsleitni að fenginni niðurstöðuúrskurðarnefndar velferðarmála, getið þér leitað til umboðsmanns á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.

Í samræmi við framangreint lýk ég hér með umfjöllun minni um mál yðar að svo stöddu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.