Skipulags- og byggingarmál.

(Mál nr. 11874/2022)

Kvartað var yfir aðgerðaleysi byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá árinu 2005 vegna tiltekins húsnæðis.

Þar sem deiluefnið sem kvartað var undan var eldri en eins árs þegar kvörtunin barst voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um hana.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 19. október 2022.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 5. október sl. yfir því að byggingar­full­trúi Hafnarfjarðarbæjar hafi á árinu 2005 látið hjá líða að stöðva fram­kvæmdir við byggingu einbýlishúss við [...] í sveitar­félaginu þegar í ljós kom að byggingarstjóri mannvirkisins hefði ekki lengur gilda starfsábyrgðartryggingu. Virðist sem þessi aðstaða hafi leitt til þess að engin lokaúttekt hafi enn farið fram á mannvirkinu í samræmi við ákvæði laga nr. 160/2010, um mannvirki.

Með kvörtuninni fylgdu ýmis samskipti yðar við sveitarfélagið vegna málsins, m.a. bréf sveitarfélagsins frá 2012 þar sem athygli var vakin á því að lokaúttekt hefði ekki farið fram og áréttuð skylda byggingar­stjóra til að ráðast í slíka úttekt að viðlögðum dagsektum og áminningu. Þá fylgdu erindi yðar til byggingarfulltrúa sveitar­félagsins frá 2012 sem ekki var svarað.

Um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns er fjallað í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þar segir í 2. mgr. að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur.  Í ljósi þess sem fyrr greinir um samskipti þessa máls er ljóst að kvörtunin lýtur að ágreiningi sem er töluvert utan frestsins.

Athugasemdir yðar er lúta að því að  fyrrgreindu erindi yðar til sveitarfélagsins frá 2012 hafi ekki verið svarað hagga ekki þeirri niðurstöðu. Í því sambandi tek ég fram að af þeim gögnum sem fylgdu kvörtuninni er ljóst að þér virðist hafa átt í nokkrum samskiptum við sveitarfélagið síðar sem nýlega hafnaði bótaskyldu þess vegna galla á umræddri fasteign. 

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.