Umhverfismál.

(Mál nr. 11875/2022)

Kvartað var yfir málsmeðferð í aðdraganda þess að norðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs var stækkað og beindist að Þingeyjarsveit og umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. 

Af kvörtuninni varð ekki ráðið að stækkunin snerti beinlínis hagsmuni viðkomandi eða réttindi umfram aðra og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um hana.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. október 2022.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar f.h. A frá 7. október sl. sem þér beinið að umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og sveitarstjórn Þing­eyjar­­sveitar. Af kvörtuninni verður ráðið að hún lúti að málsmeðferð í aðdraganda þess að norðursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs var stækkað sl. haust með reglugerð nr. 1135/2021, um breytingu á reglugerð nr. 300/2020, um þjóðgarðinn, en stækkunin var öll á þjóðlendu innan sveitar­félagsins.

Hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafn­ræði sé í heiðri haft í stjórn­sýslunni og hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórn­sýsluhætti og tilgreindar siðareglur, sbr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 85/1997 getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit umboðs­manns samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna kvartað af því tilefni til hans. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með því frumvarpi sem varð að lögum nr. 85/1997 kemur fram að aðrir geti ekki borið fram kvörtun en þeir sem haldi því fram að þeir hafi sjálfir orðið fyrir rangsleitni af hálfu stjórnvalda. Kvörtun af hálfu aðila sem ekki sýnir fram á að brot geti snert beinlínis hagsmuni hans eða réttindi geti þó vakið athygli umboðsmanns á vandamáli. Sé umboðsmanni þá heimilt að taka það mál upp að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. frum­varpsins (Alþt. 1996-1997, A-deild, bls. 2329-2330).

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að fyrrgreind stækkun á Vatna­jökuls­þjóðgarði snerti beinlínis hagsmuni yðar eða réttindi umfram aðra. Af þeim sökum brestur lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997.

Samkvæmt 5. gr. sömu laga getur umboðsmaður að eigin frumkvæði ákveðið að taka mál til meðferðar. Þá segir að hann geti einnig tekið starfsemi og málsmeðferð stjórnvalda til almennrar athugunar. Í sam­ræmi við það sem kemur fram í áðurröktum athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 85/1997 verður litið á kvörtun yðar sem ábendingu um mál sem þér teljið tilefni fyrir umboðsmann að taka til athugunar á grundvelli frumkvæðisheimildar 5. gr. laganna.

Þegar umboðsmanni berast erindi sem fela í sér ábendingu eða eru að öðru leyti almenns eðlis þá er því verklagi fylgt að erindið er yfir­farið með tilliti til þess hvort tilefni sé til að taka atriði sem koma fram í því til athugunar á grundvelli frumkvæðisheimildarinnar. Við mat á því er m.a. litið til starfssviðs og áherslna umboðsmanns, hags­muna sem tengjast málefninu sem um ræðir og málastöðu og nýtingar mannafla hjá embættinu. Verði málefnið tekið til athugunar er almennt ekki upplýst um það sérstaklega heldur er tilkynnt um athugunina á vefsíðu umboðsmanns, www.umbodsmadur.is.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar.