Skattar og gjöld.

(Mál nr. 11886/2022)

Kvartað var yfir fyrirkomulagi álagningar fasteignaskatts vegna fasteigna á leigulóðum og óskað eftir afstöðu umboðsmanns til þess. 

Það er hvorki hlutverk umboðsmanns að láta í té almennar álitsgerðir né tekur starfssvið hans til starfa Alþingis og því voru ekki skilyrði til að taka kvörtunina til meðferðar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. október 2022.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 17. október sl. sem beinist að fyrirkomulagi álagningar fasteignaskatts vegna fasteigna sem eru á leigulóðum. Þá kemur fram í kvörtuninni að sveitarfélög hafi aukið verðmæti lóða undanfarin ár til að auka tekjur. Af kvörtuninni verður ráðið að þér farið þess á leit við umboðsmann að hann lýsi afstöðu sinni til þessa fyrirkomulags.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðs­­mann Alþingis, er hlut­verk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórn­­sýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Af ákvæðum laganna leiðir m.a. að það er ekki hlutverk umboðsmanns Alþingis að láta í té almennar álitsgerðir eða svör við almennum fyrirspurnum um gildandi rétt, heldur að fjalla um kvartanir yfir því að stjórnvöld hafi ekki í ákveðnum tilvikum farið að lögum eða fylgt vönduðum stjórnsýsluháttum í störfum sínum. Kvörtun í máli einstaklings eða lögaðila verður þannig að lúta að tilteknum athöfnum, athafnaleysi eða ákvörðunum stjórn­valda sem beinast sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varða beinlínis hagsmuni hans eða réttindi. Af kvörtun yðar, en henni fylgdu engin frekari gögn, verður ekki ráðið að hún beinist að tiltekinni ákvörðun eða athöfn stjórnvalds. Því eru ekki skil­yrði að lögum fyrir því að ég fjalli frekar um kvörtunina.

Vegna kvörtunar yðar skal þess loks getið að samkvæmt a-lið 1. mgr. 1. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, er fasteignaskattur á meðal tekjustofna sveitarfélaga. Skal hann lagður árlega á allar fasteignar sem metnar eru í fasteignamati 31. desember á næstliðnu ári og skal stofn til álagningar fasteignaskatts á allar fasteignir vera fasteignamat þeirra, sbr. 1. og 2. mgr. 3. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna hafa sveitarfélög jafnframt tekjur af eignum sínum, eigin atvinnurekstri og stofnunum sem reknar eru í almenningsþágu, s.s. vatns-, rafmagns- og hitaveitum o.fl., og enn fremur ýmsar aðrar tekjur, s.s. af holræsagjaldi, lóðarleigu, leyfisgjöldum o.fl., allt eftir því sem lög og reglugerðir mæla fyrir um. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. getur sveitarstjórn ákveðið að gjalddagar m.a. lóðarleigu skuli vera þeir sömu og gjalddagar fasteignaskatts og jafnframt að innheimtu þeirra verði hagað á sama hátt og innheimtu skattsins.

Ástæða þess að ég tek þetta fram er sú að í a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 er kveðið á um að starfssvið umboðsmanns taki ekki til starfa Alþingis. Það er því almennt ekki í verkahring umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Í ákvæðum þessa stafliðar felst að ekki er unnt að kvarta til umboðsmanns yfir laga­setningu Alþingis. Þar sem ég fæ ekki betur séð en að efni kvörtunar yðar lúti að þáttum sem löggjafinn hefur tekið afstöðu til brestur því einnig á þessum grundvelli skilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég athugun minni á kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.