Almannatryggingar.

(Mál nr. 11691/2022)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti ákvörðun Tryggingastofnunar um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum.  

Óumdeilt var að Tryggingastofnun greiddi samkvæmt greiðsluáætlun sem miðaði við að viðkomandi hefði lægri tekjur en raunin varð og því greiddar hærri bætur en lög gera ráð fyrir. Ekki voru því efni til að gera athugasemdir við niðurstöðu nefndarinnar fremur en annað sem fram kom í kvörtuninni.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 24. október 2022.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 12. maí sl. yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 15. september 2021 í máli nr. 484/2020 þar sem ákvörðun Tryggingastofnunar um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum yðar á árinu 2019 var staðfest. Af kvörtun yðar verður ráðið að þér teljið yður ekki hafa fengið fullnægjandi upplýsingar um tilkomu endurgreiðslukröfu Tryggingastofnunar og önnur atriði.

Í III. kafla laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, er mælt fyrir um lífeyristryggingar, þ. á m. greiðslur örorku- og ellilífeyris svo og fyrirkomulag þeirra. Í 16. gr. laganna er fjallað um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun skuli standa að útreikningi þeirra greiðslna sem þar um ræðir. Er meginreglan sú, sbr. 2. mgr. 16. gr., að hvers kyns skattskyldar tekjur hafa áhrif á fjárhæð þeirra bóta sem Tryggingastofnun greiðir. Samkvæmt 5. mgr. greinarinnar byggist útreikningur bóta í upphafi á upplýsingum um tekjur bótaþega sem m.a. stafa frá honum sjálfum, sbr. einnig 1. mgr. 39. gr. laganna, en bótaþega er á grundvelli þess ákvæðis einnig skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur.

Líkt og fram kemur í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli yðar er mælt svo fyrir um í 7. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 að eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Komi í ljós við þann endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar skal Tryggingastofnun draga hinar ofgreiddu bætur frá bótum sem bótaþegi kann síðar að öðlast rétt til en stofnunin öðlast þó einnig endurkröfurétt á hendur viðkomandi bótaþega, sbr. 8. mgr. 16. gr. og 1. mgr. 55. gr. laganna.

Af gögnum málsins verður ráðið að við endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar fyrir árið 2019 hafi komið í ljós að þér hefðuð verið með hærri tekjur á árinu en áætlað var í upphafi og sem greiðsluáætlun miðaðist við. Niðurstaða stofnunarinnar hafi verið sú að þér hefðuð fengið 216.321 kr. ofgreiðslu. Á grundvelli breytinga á skattframtali yðar hafi Tryggingastofnun þó tekið nýja ákvörðun 11. mars 2021 sem hafi leitt í ljós ofgreiðslu að fjárhæð 110.061 kr. Í úrskurði nefndarinnar eru forsendur endurreiknings og uppgjörs Tryggingastofnunar ítarlega raktar.

Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins, málsástæður yðar og forsendur nefndarinnar tel ég ekki efni til þess að gera athugasemdir við niðurstöðu hennar. Í þeim efnum hef ég einkum í huga að óumdeilt er í málinu að Tryggingastofnun greiddi yður samkvæmt greiðsluáætlun sem miðaði við að þér hefðuð lægri tekjur á árinu en raunin varð og að þér fenguð þar af leiðandi greiddar hærri bætur en lög gera ráð fyrir.

Vegna athugasemda yðar í þá veru að yður hafi ekki borist fullnægjandi svör frá Tryggingastofnun um nánar tiltekin atriði verður af gögnum málsins ráðið að þér beinduð ýmsum erindum um frekari upplýsingar til stofnunarinnar, svo sem um misræmi upphæða í bréfum til yðar annars vegar og Skattsins hins vegar. Tryggingastofnun hafi svarað bréfi yðar 28. maí 2020 með bréfi 4. september 2020, þar sem útskýrt var m.a. hver hin rétta upphæð væri, auk þess sem frekari upplýsingar voru veittar um endurreikning og uppgjör bóta. Þá verður einnig ráðið af gögnum málsins að stofnunin hafi svarað erindi yðar frá 17. febrúar 2021 með bréfi 15. mars þess árs. Tryggingastofnun hafi í bæði skiptin talið sig hafa svarað erindum yðar að fullu en þó sent yður frekari upplýsingar í kjölfar athugasemda yðar, m.a. með bréfum 7. janúar og 8. nóvember sama ár.

Önnur atriði sem þér rekið í kvörtuninni og teljið yður ekki hafa fengið svör við eru atriði sem þér fjölluðuð um í greinargerðum yðar til úrskurðarnefndar velferðarmála við meðferð máls nr. 484/2020, svo sem um tiltekið frítekjumark og „flökt“ í upphæð lífeyrisgreiðslna. Í þeim efnum tek ég fram að í íslenskum stjórnsýslurétti hefur ekki verið talið að á stjórnvöldum hvíli fortakslaus skylda til að taka sérhverja málsástæðu sem aðili hefur fært fram til rökstuddrar úrlausnar heldur er heimilt að vissu marki að líta til þess hvort þær geta haft þýðingu fyrir úrlausn málsins, sbr. til hliðsjónar álit  umboðsmanns Alþingis frá 7. júní 2004 í málum nr. 4030/2004 og 3960/2003. 

Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins get ég ekki betur séð en að erindum yðar hafi að meginstefnu og eftir bestu getu verið svarað af hálfu Tryggingastofnunar, auk þess sem stofnunin bað yður afsökunar á seinum svörum í september 2020. Þá liggur fyrir að úrskurðarnefnd velferðarmála tók afstöðu til hluta þeirra svara sem yður bárust frá Tryggingastofnun með því að gera athugasemdir við þau. Til þess er einnig að líta að nefndin fór yfir útreikning og uppgjör í máli yðar með ítarlegum hætti í forsendum sínum og verður að ætla að það hafi  m.a. verið í því skyni að skýra málið betur fyrir yður. Með hliðsjón af framangreindu tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við þennan þátt kvörtunar yðar.

Í samræmi við framagreint lýk ég meðferð minni á málinu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.