Samgöngumál.

(Mál nr. 11789/2022)

Kvartað var yfir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, nú innviðaráðuneytinu, og gerðar athugasemdir við synjun lögreglustjóra á beiðni um endurveitingu ökuréttinda.  

Ekki varð ráðið að leitað hefði verið til ráðuneytisins vegna málsins og því ekki skilyrði til að umboðsmaður tæki kvörtunina til frekari athugunar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 26. október 2022.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 22. júlí sl., sem þér beinið að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, nú innviðaráðuneytið. Í henni eru gerðar athugasemdir við synjun lögreglustjórans á Suðurnesjum 17. ágúst 2021 á beiðni yðar um endurveitingu ökuréttinda.

Í ofangreindri ákvörðun lögreglustjórans var yður leiðbeint um að samkvæmt 5. mgr. 105. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 væri heimilt að kæra synjun lögreglustjóra um endurveitingu ökuréttinda til innviðaráðherra. Þar var auk þess tekið fram að kærufrestur væri þrír mánuðir frá dagsetningu bréfsins í samræmi við 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem hugsanlega ekki er í samræmi við lög áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Af því leiðir m.a. að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt í stjórnsýslunni, eftir atvikum með tæmingu þeirra kæruleiða sem kunna að standa til boða að lögum. Þar sem ekki verður ráðið af kvörtun yðar að þér hafið leitað til ráðuneytisins í samræmi við framangreint brestur lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar að svo stöddu.  

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég því umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.