Áfengismál.

(Mál nr. 11845/2022)

Kvartað var yfir viðbrögðum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu við ábendingum vegna brota á áfengislögum.  

Af gögnum málsins varð ráðið að lögreglan hefði almennt tekið ábendingarnar til meðferðar og ráðið þeim til lykta. Óánægja viðkomandi virtist fyrst og fremst lúta að forgangsröðun lögreglunnar og mati á sönnunargögnum í tengslum við rannsókn málanna. Þar sem ekki varð ráðið að þær athugasemdir hefðu verið bornar undir lögreglustjórann sjálfan eða ríkissaksóknara voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði frekar um kvörtunina að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 25. október 2022.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 15. september sl. fyrir hönd A yfir lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Í kvörtuninni eru gerðar almennar athugasemdir við viðbrögð lögreglustjórans við ábendingum sem samtökin hafa beint til hans í gegnum tíðina vegna brota á áfengislögum nr. 75/1998. Í því sambandi er bent á að ábendingum samtakanna sé svarað bæði seint og illa auk þess sem lögreglustjórinn hafi ekki tekið fyrir allar tilkynningar samtakanna.

Þar sem engin gögn fylgdu kvörtun yðar hafði starfsmaður umboðsmanns samband við yður 4. október sl. og óskaði eftir því að þér afhentuð umboðsmanni upplýsingar og gögn sem varpað gætu ljósi á samskipti yðar við lögregluna og þær ákvarðanir lögreglustjórans sem hugsanlega lægju fyrir í tengslum við téðar ábendingar. Gögn og upplýsingar bárust 18. október sl.

Af þeim verður ráðið að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi svarað beiðni yðar um upplýsingar um stöðu þeirra mála sem samtökin hefðu beint til lögreglunnar 6. júlí sl. með bréfi 19. sama mánaðar. Þar kemur fram að lögreglustjóranum hafi frá árinu 2008 borist 63 tilkynningar og kærur frá samtökunum. Þau mál hafi verið tekin til meðferðar hjá embættinu, sakarefni rannsakað og skýrslur teknar af sakborningum. Einu máli hafi lokið með dómi. Fimm hafi verið felld niður með vísan til 145. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, og rannsókn hætt í 51 máli með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008. Tveimur þeirra hafi verið vísað til ríkissaksóknara sem hafi staðfest ákvarðanir lögreglustjórans. Loks hafi fimm málum verið vísað frá og eitt sé enn í rannsókn.

Af framangreindu er ljóst að lögreglunni hafa borist fjölmargar ábendingar frá yður og þær almennt teknar til meðferðar og þeim ráðið til lykta. Hins vegar fæ ég ráðið af kvörtuninni að óánægja yðar lúti fyrst og fremst að forgangsröðun lögreglunnar og mati á sönnunargögnum í tengslum við rannsókn umræddra mála. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að þér hafið borið athugasemdir yðar að þessu leyti undir lögreglustjórann sjálfan eða ríkissaksóknara en samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 20. gr. og 2. málslið 1. mgr. 21. gr. laga nr. 88/2008 er ríkissaksóknari æðsti handhafi ákæruvalds. Hann hefur jafnframt eftirlit með framkvæmd ákæruvalds hjá öðrum ákærendum.

Ástæða þess að ég geri yður grein fyrir framangreindu er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæðið byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er úrbóta hjá aðila utan stjórnkerfis þeirra. Í samræmi við þetta sjónarmið hefur umboðsmaður almennt talið rétt að æðra stjórnvaldi sé gefið færi á að fjalla um mál og taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að beita þeim heimildum sem það hefur áður en umboðsmaður tekur mál til athugunar á grundvelli kvörtunar. Það á einnig við í þeim tilvikum þar sem afstaða þess til málsins verður ekki fengin fram á grundvelli stjórnsýslukæru. Ekki er því tímabært að ég taki mál yðar til frekari meðferðar. Ef samtökin telja sig enn beitt rangsleitni að fulltæmdum leiðum innan stjórnsýslunnar er yður fært að leita til mín á ný innan árs frá því er lyktir máls liggja fyrir, sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.

Í samræmi við framagreint lýk ég meðferð minni á málinu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.