Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11850/2022)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins á erindi.  

Í ljós kom að ráðuneytið hafði ítrekað svarað erindinu og því ekki ástæða til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 27. október 2022.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 18. september sl. yfir töfum á afgreiðslu félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins á erindi yðar 19. apríl sl. sem lýtur að málsmeðferð Vinnueftirlits ríkisins í máli er þér störfuðuð að sem starfsmaður eftirlitsins árið 1990.

Í tilefni af kvörtun yðar var félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu ritað bréf 27. september sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvort erindið hefði borist ráðuneytinu og þá hvað liði meðferð og afgreiðslu þess. Var erindið ítrekað 20. október sl.

Svar ráðuneytisins barst 26. október sl. en þar kemur fram að sama dag hafi yður verið ritað svarbréf þar sem fram kemur sú afstaða ráðuneytisins að það líti svo á að erindi yðar hafi þegar hlotið endanlega afgreiðslu af hálfu þess. Í því sambandi er vísað til svars ráðuneytisins til yðar 16. júlí 2008 sem margítrekað hefur verið af þess hálfu og tekið fram að frekari erindum sama efnis verði ekki svarað sérstaklega.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum á afgreiðslu framangreinds erindis og nú liggur fyrir að ráðuneytið hefur svarað erindi yðar tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af henni. Lýk ég því meðferð minni á kvörtuninni með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.