Lögreglu- og sakamál.

(Mál nr. 11871/2022)

Kvartað var yfir starfsaðferðum aðstoðarsaksóknara lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við niðurfellingu máls.  

Þar sem málið hafði ekki komið til kasta nefndar um eftirlit með lögreglu voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 13. október 2022.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 3. október sl. fyrir hönd A er lýtur að starfsaðferðum aðstoðarsaksóknara lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við niðurfellingu máls gagnvart honum hjá embættinu 13. júní sl.

Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Á grundvelli þessa ákvæðis hefur verið talið rétt að eftir atvikum hafi verið leitað til þeirra sérhæfðu eftirlitsaðila sem kunna að vera fyrir hendi innan stjórnsýslunnar áður en umboðsmaður tekur mál til meðferðar á grundvelli kvörtunar.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að nefnd um eftirlit með lögreglu starfar á grundvelli lögreglulaga nr. 90/1996 og er hlutverk nefndarinnar m.a. að taka til meðferðar kvartanir vegna starfsaðferða lögreglu eða framkomu starfsmanns lögreglu sem fer með lögregluvald, sbr. a-lið 1. mgr. 35. gr. a. laganna. Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið leitað til nefndarinnar með erindi yðar og brestur því lagaskilyrði til þess að hún verði tekin til frekari meðferðar að svo stöddu.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ég bendi yður hins vegar á að ef þér leitið til nefndar um eftirlit með lögreglu og teljið yður enn rangsleitni beittan að fenginni niðurstöðu nefndarinnar getið þér leitað til umboðsmanns á ný með kvörtun þar að lútandi.