Fullnusta refsinga.

(Mál nr. 11819/2022)

Kvartað var yfir því annars vegar að hafa ekki fengið að leggja fram kvörtun símleiðis til dómsmálaráðuneytis og hins vegar að hafa ekki fengið að senda tölvubréf í Fangelsinu Litla-Hrauni til að leggja fram kvörtun til ráðuneytisins.  

Í svari ráðuneytisins kom fram að viðkomandi hefði ekki verið meinað að leggja fram kvörtun símleiðis heldur leiðbeint um möguleikann á að gera það skriflega enda væri þá líklegra að málið yrði lagt í réttan farveg. Svo virtist sem misskilningur hefði komið upp milli viðkomandi og starfsfólks fangelsisins. Tryggt yrði að hægt yrði að bera erindið upp við ráðuneytið með tölvubréfi. Umboðsmaður taldi því ekki forsendur til að halda athugun sinni áfram.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 31. október 2022.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 25. ágúst sl. annars vegar yfir því að þér hafið ekki fengið að leggja fram kvörtun símleiðis til dómsmálaráðuneytisins og hins vegar því að þér fáið ekki að senda tölvubréf í Fangelsinu Litla-Hrauni til að leggja fram kvörtun til ráðuneytisins.

Í tilefni af kvörtuninni var dómsmálaráðuneytinu ritað bréf 29. ágúst sl., sem þér fenguð sent afrit af, þar sem óskað var eftir að veittar yrðu upplýsingar um þau atriði sem kvörtun yðar lýtur að.

Í svari ráðuneytisins 24. október sl. kom fram að yður hafi ekki verið meinað að leggja fram kvörtun til ráðuneytisins símleiðis. Hins vegar hafi yður verið leiðbeint um möguleikann á að leggja fram kvörtun skriflega enda væri þá líklegra að málið yrði lagt í réttan farveg.  Þá var í svarinu gerð grein fyrir að athugun ráðuneytisins hefði leitt í ljós að misskilningur virtist hafa komið upp á milli yðar og starfsfólks fangelsisins. Hafi niðurstaða samtals starfsmanns ráðuneytisins og varðstjóra í fangelsinu verið sú að hinn síðarnefndi myndi tryggja að þér gætuð borið upp erindi yðar við ráðuneytið með tölvubréfi. Slíkt erindi hafi hins vegar enn ekki borist ráðuneytinu.

Í ljósi þess sem rakið hefur verið um viðbrögð ráðuneytisins við umkvörtunum yðar tel ég ekki forsendur til að halda áfram athugun minni á þeim. Yður er í samræmi við framangreint fært að freista þess, eftir atvikum fyrir atbeina varðstjóra fangelsisins, að bera mál yðar undir ráðuneytið með tölvubréfi. Ef þér kjósið að gera slíkt og teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins getið þér leitað til umboðsmanns á ný með kvörtun þar að lútandi.

Í tilefni af athugasemdum í kvörtun yðar minni ég þó á að umboðsmaður Alþingis hefur m.a. því hlutverki að gegna að hafa eftirlit með aðstæðum frelsis­sviptra, þ. á m. fanga, á almennum grunni. Athugasemdir yðar verða hafðar til hliðsjónar við framkvæmd þessa eftirlits. Áréttað er að það hefur ekki áhrif á framangreinda niðurstöðu mína um að ekki séu forsendur til að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um málið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.