Börn.

(Mál nr. 11851/2022)

Kvartað var yfir málsmeðferð barnaverndar í tilteknu sveitarfélagi.  

Fram kom hjá viðkomandi að ákvarðanir barnaverndarnefndar um vistun barna viðkomandi utan heimilis sættu nú endurskoðun dómstóla auk þess sem nefndin hefði gert kröfu fyrir dómstólum um forsjársviptingu. Ekki voru því skilyrði til að umboðsmaður tæki þann þátt kvörtunarinnar til meðferðar. Hvað snerti athugasemdir við framgöngu tiltekins starfsmanns sveitarfélagsins benti umboðsmaður á að þar sem Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála hefði ekki fjallað um þann þátt voru ekki skilyrði til að hann gerði það.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 2. nóvember 2022.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 20. september sl. en af henni verður ráðið að hún beinist að málsmeðferð barnaverndar X í málum barna yðar.

Í tilefni kvörtunarinnar hafði starfsmaður umboðsmanns samband við yður símleiðis þar sem óskað var eftir frekari upplýsingum um sem varpað gætu frekara ljósi á kvörtun yðar. Í símtalinu kom fram að þér væruð aðallega ósáttar við málsmeðferð barnaverndar X og tiltekins starfsmanns bæjarins á því sviði. Tókuð þér og fram að ákvarðanir barnaverndarnefndar um vistun barna yðar utan heimilis sættu nú endurskoðun dómstóla auk þess sem barnaverndarnefnd hefði gert kröfu fyrir dómstólum um forsjársviptingu. Var yður þá gerð grein fyrir því að samkvæmt b-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns Alþingis ekki til starfa dómstóla. Í samræmi við þetta brestur lagaskilyrði til þess að ég geti tekið þennan þátt kvörtunar yðar til meðferðar.

Eftir standa því athugasemdir yðar við framgöngu umrædds starfsmanns sveitarfélagsins. Samkvæmt 8. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og 2. mgr. 1. gr. laga nr. 88/2021, um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, fer stofnunin með eftirlit með gæðum þjónustu sem veitt er á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í III. kafla laga nr. 88/2021 er fjallað um eftirlit. Þar er í 1. málslið 1. mgr. 17. gr. gr. laganna að notendur þjónustu sem lýtur að eftirliti Gæða- og eftirlits­stofnunar velferðarmála geti beint kvörtun yfir gæðum þjónustunnar til stofnunarinnar. Þá tekur stofnunin einnig við ábendingum um þjónustu undir eftirliti stofnunar­innar sem er ekki í samræmi við gæðaviðmið eða ákvæði laga, reglugerða, reglna, samninga og leiðbeininga, sbr. 1. málsliður 1. mgr. 13. gr. laganna.

Í framkvæmd umboðsmanns Alþingis hefur, með hliðsjón af sjónarmiðum sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, verið litið svo á að þegar með lögum hefur verið komið á fót sérstökum eftirlitsaðila innan stjórnsýslunnar til að fjalla um tilteknar kvartanir eða kærur, sé rétt að slík leið hafi verið farin áður en kvörtun vegna sama máls kemur til umfjöllunar hjá umboðsmanni. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til leiðréttingar áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Í fyrrnefndu símtali yðar við starfsmann umboðsmanns kom fram að þér hefðuð ekki borið umræddar athugasemdir undir Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Af þessum sökum brestur einnig lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar að þessu leyti. Teljið þér yður enn rangindum beitta að fenginni niðurstöðu framangreinds stjórnvalds getið þér leitað til umboðsmanns á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.