Málefni fatlaðs fólks.

(Mál nr. 11866/2022)

Kvartað var yfir því að viðeigandi búsetuúrræði hefði ekki verið úthlutað hjá Reykjanesbæ þrátt fyrir úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála um að afgreiðsla sveitarfélagsins hefði ekki verið í samræmi við málshraðareglu stjórnsýslulaga. Lagði nefndin fyrir sveitarfélagið að hraða afgreiðslu málsins og veita samþykkta þjónustu svo fljótt sem auðið yrði.  

Í svari sveitarfélagsins við fyrirspurn umboðsmanns kom fram að á undanförnum árum hefði ekki orðið nein uppbygging  á sértækum búsetuúrræðum þar. Nú væri breyting í vændum og húsnæði fengist afhent í júlí á næsta ári. Viðkomandi yrði upplýstur um það og mögulega tímasetningu flutninga þegar nær drægi. Að þessu gættu taldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast frekar að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 2. nóvember 2022.

   

    

Vísað er til kvörtunar yðar f.h. A yfir því að hann hafi ekki enn fengið úthlutað viðeigandi búsetuúrræði hjá Reykjanesbæ þrátt fyrir úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála 10. mars sl. í máli nr. 600/2021. Í úrskurðinum kom fram að afgreiðsla sveitarfélagsins í máli Þórðar Inga hafi ekki verið í samræmi við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Lagt var fyrir sveitarfélagið að hraða afgreiðslu málsins og veita samþykkta þjónustu svo fljótt sem auðið væri.

Í tilefni af kvörtuninni var Reykjanesbæ ritað bréf 4. október sl. þar sem þess var óskað að sveitarfélagið veitti umboðsmanni nánari upplýsingar um hvort og þá hvaða ráðstafanir hafi verið gerðar af hálfu sveitarfélagsins í kjölfar úrskurðarins. Í svari sveitarfélagsins sem barst 27. október sl. kemur fram að á undanförnum árum hafi ekki orðið nein uppbygging á sértækum búsetuúrræðum í sveitarfélaginu. Nú væri hins vegar í byggingu húsnæði sem ætlað væri undir slík úrræði. Í september sl. hafi borist staðfesting á því að húsnæði fengist afhent í júlí á næsta ári. A og lögráðamaður hans yrðu upplýst um það svo og mögulega tímasetningu flutninga þegar nær dregur. Að þessu gættu tel ég ekki tilefni til þess að aðhafast frekar vegna kvörtunarinnar að svo stöddu.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég umfjöllun minni vegna kvörtunarinnar.