Hæfi.

(Mál nr. 11867/2022)

Kvartað var yfir ákvörðun fjölmiðlanefndar að ekki væru forsendur til að taka kvörtun til frekari meðferðar. Formaður nefndarinnar hafi verið vanhæfur í málinu. 

Þótt nefndarmaðurinn starfaði á sömu lögmannstofu og tveir lögmenn sem gætt höfðu hagsmuna B í deilum við A var það ekki nægjanlegt til vanhæfis að mati umboðsmanns. Eftirlit og möguleg úrræði fjölmiðlanefndar í málinu hefðu ekki lotið að neinu leyti að störfum lögmannanna heldur því hvort fjölmiðill hefði hagað umfjöllun sinni í samræmi við lög.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 2. nóvember 2022.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 30. september sl. fyrir hönd A yfir ákvörðun fjölmiðlanefndar 30. september 2021 á þá leið að ekki væru forsendur til að taka kvörtun hans frá 20. júní þess árs, sem laut að [...], til frekari meðferðar. Lýtur kvörtun hans til umboðsmanns að því að formaður fjölmiðlanefndar hafi verið vanhæfur til meðferðar málsins þar sem tveir nafngreindir lögmenn, sem gætt hafi hagsmuna B í deilum þeirra hjá sýslumanni og dómstólum, starfi og séu meðeigendur á sömu lögmannsstofu.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla, er fjölmiðlanefnd sjálfstæð stjórnsýslunefnd og í 7. málslið 1. mgr. 8. gr. sömu laga segir að um hæfi nefndarmanna fari eftir ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 38/2011 segir að fjölmiðlanefnd skuli fara með þau verkefni sem henni séu falin lögum samkvæmt, m.a. að fylgjast með því að fjölmiðlaveitur fari að fyrirmælum laganna, taka ákvarðanir í málum samkvæmt þeim og beita viðurlögum þegar við á. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laganna tekur fjölmiðlanefnd ákvörðun um það hvort erindi sem berst henni gefi nægar ástæður til meðferðar.

Sem fyrr greinir teljið þér að formaður fjölmiðlanefndar hafi verið vanhæfur til meðferðar málsins á grundvelli 6. töluliðar 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga. Í l. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um ástæður sem geta leitt til vanhæfis starfsmanns eða nefndarmanns til meðferðar máls. Í téðum 6. tölulið ákvæðisins felst matskennd regla þar sem segir að starfsmaður eða nefndarmaður sé vanhæfur til meðferðar máls ef að öðru leyti, en mælt er fyrir um í 1. til 5. tölulið, séu fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu. Í athugasemdum við 3. gr. í frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum segir m.a.:

Svo starfsmaður teljist vanhæfur á grundvelli hinnar matskenndu hæfisreglu 6. tölul. verður hann að hafa einstaklega hagsmuni af úrlausn málsins, svo sem ágóða, tap eða óhagræði. Hér koma einnig til skoðunar hagsmunir venslamanna og annarra þeirra sem eru í svo nánum tengslum við starfsmanninn að almennt verður að telja hættu á að þau geti haft áhrif á hann. Þá verður eðli og vægi hagsmunanna að vera þess háttar að almennt verði hætta á að ómálefnaleg sjónarmið geti haft áhrif á ákvörðun málsins. Af framansögðu má því ljóst vera að meðal þess sem meta verður hverju sinni, miðað við allar aðstæður, er hvort hagsmunirnir eru einstaklegir, hversu verulegir þeir eru og hversu náið þeir tengjast starfsmanninum og úrlausnarefni málsins. (Alþt. 1992-1993, A-deild, bls. 3288.)

Sérhver tengsl nefndarmanns við þá sem kunna að tengjast eða koma að máli með beinum eða óbeinum hætti valda ekki vanhæfi heldur verða að vera fyrir hendi atvik eða aðstæður sem samkvæmt heildstæðu mati eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni nefndarmanns í efa með réttu. Við það mat er m.a. litið til þess hvort almennt verði talin hætta á að ómálefnaleg sjónarmið hafi áhrif á úrlausn máls. Til þess að svo sé þurfa að vera fyrir hendi sannanlegar hlutlægar ástæður sem almennt verða taldar til þess fallnar að draga megi í efa óhlutdrægni nefndarmannsins í efa með réttu.

Hjá fjölmiðlanefnd var til úrlausnar hvort kvörtun A, er laut að umfjöllun X, gæfi tilefni til frekari meðferðar hjá nefndinni. Lagði nefndin mat á það á grundvelli þeirra lagaákvæða sem hún taldi eiga við í málinu og þeirra úrræða sem henni stóðu til boða lögum samkvæmt. Það að umræddur nefndarmaður starfi á sömu lögmannsstofu og áðurnefndir lögmenn sem hafi gætt hagsmuna B í deilum þeirra á milli er að mínu mati ekki nægjanlegt til þess að umræddur nefndarmaður teljist af þeim sökum vanhæfur til meðferðar málsins. Í því sambandi bendi ég á að eftirlit og möguleg úrræði fjölmiðlanefndar í málinu lutu ekki að neinu leyti að störfum lögmannanna heldur því hvort X hefði hagað umfjöllun sinni í samræmi við lög.  Í ljósi framangreinds og eftir að hafa kynnt mér athugasemdir yðar við hæfi téðs nefndarmanns tel ég ekki tilefni til að taka kvörtun yðar til nánari athugunar.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.