Skipulags- og byggingarmál.

(Mál nr. 11879/2022)

Kvartað var yfir að ekki fengist leyfi til að breyta notkun á hluta fasteignar.  

Í málinu lá fyrir að borgin hafði lýst þeirri afstöðu að ekki stæði til að ráðast í endurskoðun aðalskipulags á næstunni að þessu leyti. Að þessu virtu og því svigrúmi  sem játa yrði sveitarfélaginu að þessu leyti taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við afstöðu þess.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 4. nóvember 2022.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 10. október sl. yfir því að ekki fáist leyfi til að breyta notkun á hluta fasteignar í yðar eigu.

Samkvæmt kvörtuninni hafið þér óskað eftir leyfi til að breyta neðri hæð fasteignarinnar sem er atvinnuhúsnæði í íbúðir. Í umsögn skipulagsfulltrúa frá 7. júlí sl. kom fram að samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 sé téð lóð skilgreind sem nærþjónustukjarni. Því myndi slík breyting á húsinu kalla á breytingu á aðalskipulagi þar sem lóð hússins yrði felld út sem nærþjónustukjarni. Ekki stæði til að fara í slíka endurskoðun á skipulaginu. Var því tekið neikvætt í erindið af hálfu skipulagsfulltrúa. Þá umsögn staðfesti umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar á fundi ráðsins 5. október sl. Í kvörtuninni kemur fram að þér séuð ósáttar við afstöðu sveitarfélagsins og teljið fullreynt að unnt sé að stunda atvinnurekstur í húsnæðinu sem hafi verið í yðar eigu í rúm 20 ár.

Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að telji umboðsmaður þegar í upphafi að kvörtun gefi ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar eða uppfylli ekki skilyrði laganna til frekari meðferðar skuli hann tilkynna þeim sem kvartað hefur þá niðurstöðu.

Um aðalskipulag er fjallað í VII. kafla skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laganna er í aðalskipulagi sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins varðandi landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál. Í 2. mgr. sömu greinar segir að í aðalskipulagi sé lagður grundvöllur fyrir gerð deiliskipulags varðandi landnotkun, takmarkanir á landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi og byggðamynstur, þar með talið þéttleika byggðar. Í 4. mgr. greinarinnar kemur fram að í aðalskipulagi skuli marka stefnu til að minnsta kosti tólf ára. Samkvæmt 2. mgr. 29. gr. laganna ber sveitarstjórn ábyrgð á gerð og afgreiðslu aðalskipulags. Um breytingar á aðalskipulagi er því næst fjallað í 36. gr. laganna. Þar segir í 1. mgr. að nú telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingu á gildandi aðalskipulagi og fari þá um málsmeðferð eins og um gerð aðalskipulags sé að ræða. Í 2. mgr. kemur fram að telji sveitarstjórn að gera þurfi breytingar á gildandi aðalskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 30. til 32. gr. og skuli þá sveitarstjórn senda rökstudda tillögu um breytinguna til Skipulagsstofnunar. 

Samkvæmt framangreindu er ljóst að aðalskipulagi er almennt ætlað að marka stefnu til lengri tíma. Þó er gert ráð fyrir að sveitarstjórn sé heimilt að breyta aðalskipulagi eftir gerð þess, sbr. meðal annars 2. mgr. 28. gr. og 36. gr. skipulagslaga. Hins vegar er ljóst af framangreindu lagaumhverfi að frumkvæði að gerð og breytingum á aðalskipulagi liggur hjá sveitarstjórn. Þannig verður að telja að mat á nauðsyn slíkra breytingar sé háð mati sveitarstjórnar sem geri tillögu að þeim og verður almennt að telja að sveitarstjórn hafi við það mat verulegt svigrúm. Í málinu liggur fyrir að sveitarfélagið hefur lýst þeirri afstöðu að ekki standi til að ráðast í endurskoðun aðalskipulags á næstunni að þessu leyti. Í því sambandi hefur m.a. komið fram að í núgildandi aðalskipulagi sé lögð áhersla á að halda í verslunar og atvinnuhúsnæði á jarðhæðum í nærþjónustukjörnum.

Að framangreindu virtu, einkum því svigrúmi sem ég tel að játa verði sveitarfélögum að þessu leyti, tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við fyrrgreinda afstöðu Reykjavíkurborgar. Lýk ég því umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.