Fangelsismál.

(Mál nr. 11885/2022)

Kvartað var yfir ákvörðunum Fangelsismálastofnunar í tengslum við afplánun.  

Þar sem ekki hafði verið leitað til dómsmálaráðuneytisins með athugasemdirnar voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 2. nóvember 2022.

   

  

Vísað er til kvörtunar yðar 15. október sl. og frekari upplýsinga frá yður í kjölfar hennar, bæði í tölvubréfi 17. þess mánaðar og símtali við starfmann umboðsmanns 20. sama mánaðar. Verður ekki annað ráðið en að kvörtunin lúti að ákvörðunum Fangelsismálastofnunar í tengslum við afplánun yðar, einkum nýlega ákvörðun um að þér skylduð vistaðir í fangelsinu á Kvíabryggju.

Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að í 1. mgr. 21. gr. laga nr. 15/2006, um fullnustu refsinga, er kveðið á um að Fangelsismálastofnun ákveði í hvaða fangelsi afplánun skuli fara fram. Samkvæmt 1. mgr. 95 gr. sömu laga eru ákvarðanir samkvæmt lögum þessum kæranlegar til dómsmálaráðuneytis nema annað sé tekið fram.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fyrst fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en kvartað sé til aðila utan stjórnkerfis þeirra. Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið leitað til ráðuneytisins með athugasemdir yðar, eftir atvikum á grundvelli stjórnsýslukæru og brestur því lagaskilyrði til þess að hún verði tekin til frekari meðferðar að svo stöddu.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ég bendi yður hins vegar á að ef þér leitið til dómsmálaráðuneytis og teljið yður enn rangsleitni beitta að fenginni niðurstöðu þess getið þér leitað til umboðsmanns á ný með kvörtun þar að lútandi.

Í tilefni af athugasemdum í kvörtun yðar minni ég þó á að umboðsmaður Alþingis hefur m.a. því hlutverki að gegna að hafa eftirlit með aðstæðum frelsissviptra, þ.á m. fanga, á almennum grunni. Athugasemdir yðar verða hafðar til hliðsjónar við framkvæmd þessa eftirlits. Áréttað er að það hefur ekki áhrif á framangreinda niðurstöðu mína um að ekki séu forsendur til að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar.