Opinberir starfsmenn.

(Mál nr. 11892/2022)

Kvartað var yfir ráðningu í starf hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og að meðferð málsins hefði ekki verið í samræmi við stjórnsýslulög.  

Af rökstuðningi ráðuneytisins og gögnum málsins varð ekki annað ráðið en fram hefði farið heildstætt mat og samanburður umsækjenda á grundvelli þeirra meginsjónarmiða sem gefin höfðu verið til kynna í auglýsingu um starfið. Að virtu svigrúmi stjórnvalds taldi umboðsmaður sig því ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við það hver hefði verið metinn hæfastur og ákvörðun um ráðninguna. Sama máli gegndi um önnur atriði sem tíunduð voru í kvörtuninni.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 3. nóvember 2022.

   

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar 24. október sl. yfir ráðningu í starf móttökustjóra hjá réttindagæslu fatlaðs fólks í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Í kvörtuninni er því haldið fram að meðferð ráðningarmálsins hafi ekki verið í samræmi við stjórnsýslulög nr. 37/1993. Meðal annars gerið þér athugasemdir við málsmeðferðartíma bæði við undirbúning ákvörðunar og síðar við afgreiðslu á beiðni yðar um rökstuðning, mat á umsækjendum og upplýsingagjöf um málið eftir að ákvörðun var tekin.

  

II

Við ráðningar í opinber störf ber stjórnvöldum að fylgja stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og grundvallarreglum stjórnsýsluréttar um undirbúning ráðningar og mat á hæfni umsækjenda. Að íslenskum rétti hafa hins vegar ekki verið lögfestar almennar reglur um hvaða sjónarmið stjórnvöld eigi að leggja til grundvallar slíkri ákvörðun þegar almennum hæfisskilyrðum sleppir. Meginreglan er því sú að stjórnvaldið ákveður á hvaða sjónarmiðum það byggir ákvörðunina ef ekki er sérstaklega mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.

Í samræmi við réttmætisreglu stjórnsýsluréttar verða slík sjónarmið allt að einu að vera málefnaleg, eins og sjónarmið um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum aðra persónulega eiginleika sem viðkomandi stjórnvald telur máli skipta um starfshæfni. Þegar þau sjónarmið sem stjórnvaldið ákveður að byggja ákvörðun sína á leiða ekki öll til sömu niðurstöðu þarf að meta þau innbyrðis. Við slíkt mat gildir sú meginregla að það er stjórnvaldið sem ákveður á hvaða sjónarmið það leggur áherslu ef ekki er mælt fyrir um það í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.

Í ljósi þeirrar skyldu sem hvílir á stjórnvöldum að velja þann sem telst hæfastur til að gegna viðkomandi starfi verða þau að geta sýnt fram á að heildstæður samanburður hafi farið fram á væntanlegri frammistöðu umsækjenda í starfinu og þá með vísan til þeirra sjónarmiða sem ákveðið hefur verið að leggja til grundvallar. Hafi stjórnvald aflað fullnægjandi upplýsinga um það hvernig einstakir umsækjendur falla að þeim málefnalegu sjónarmiðum sem ákveðið hefur verið að leggja til grundvallar, svo og sýnt fram á að slíkur heildstæður samanburður hafi farið fram, hefur hins vegar verið litið svo á, í framkvæmd umboðsmanns sem og dómstóla, að það njóti töluverðs svigrúms við mat á því hvaða umsækjandi teljist hæfastur.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í því sambandi legg ég á það áherslu að umboðsmaður er við athugun sína ekki í sömu stöðu og það stjórnvald sem tekur ákvörðun um hvern á að ráða í opinbert starf. Af þessu leiðir að það er ekki verkefni mitt að taka afstöðu til þess hvern hefði átt að ráða í tiltekið starf heldur að fjalla um hvort málsmeðferð og ákvörðun stjórnvalds hafi verið lögmæt.

Af rökstuðningi ráðuneytisins 21. október sl. og þeim gögnum sem honum fylgdu verður ekki annað ráðið en að fram hafi farið heildstætt mat og samanburður umsækjenda á grundvelli þeirra meginsjónarmiða sem gefin voru til kynna í auglýsingu um starfið. Að virtu svigrúmi stjórnvalds tel ég mig því ekki hafa forsendur til athugasemda við niðurstöðu ráðuneytisins um hvaða umsækjandi hafi verið hæfastur og ákvörðun um að ráða hann.

  

III

Vegna athugasemdar um að ekki hafi verið aflað sérstakra upplýsinga hjá yður um nám yðar skal áréttað að af gögnum sem fylgdu kvörtuninni verður, með vísan til þess að þér fenguð tvö stig af tveimur mögulegum fyrir hæfniþáttinn „menntun sem nýtist í starfi“, ekki annað ráðið en að námið hafi verið metið í samræmi við þau viðmið sem ráðuneytið lagði til grundvallar.

Vegna athugasemdar um ráðuneytið hafi ekki rannsakað eða haft nægilegar upplýsingar um starfsreynslu yðar skal bent á að meðal auglýstra hæfniskrafna voru þekking á málaflokki fatlaðs fólks svo og starfsþjálfun og reynsla af sambærilegum störfum. Af því leiðir að það var á ábyrgð umsækjenda að upplýsa um meginatriði slíkrar reynslu í umsókn auk þess sem þeim sem komust í viðtal gafst kostur á að gera nánari grein fyrir henni, en fyrir liggur að þér voruð á meðal þeirra sem fengu boð í viðtal. Umboðmaður telur því ekki tilefni til sérstakra athugasemda við mat á framangreindum atriðum. 

Í kvörtuninni kemur fram að þér teljið upplýsingagjöf ráðuneytisins ekki í samræmi við 15. gr. stjórnsýslulaga. Í því sambandi bendið þér á að þér hafið óskað eftir frekari rökstuðningi vegna hæfnismats 21. október sl. og verður ekki annað ráðið en að beiðni yðar um upplýsingar vegna málsins sé enn til meðferðar.

Af því tilefni tek ég fram að af 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 leiðir að umboðsmaður fjallar að jafnaði ekki um mál fyrr en þau hafa verið leidd til lykta innan stjórnsýslunnar. Með vísan til framangreindra upplýsinga um að félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hafi ekki lokið afgreiðslu framangreindrar beiðni eru ekki skilyrði að lögum til þess að umboðsmaður fjalli að svo stöddu um þann þátt málsins.

Aðrar athugasemdir sem fram koma í kvörtuninni gefa að mínu áliti ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar.

 

IV

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.