Fangelsismál. Reynslulausn. Lögmætisreglan. Stjórnarskrá. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Skyldubundið mat. Meinbugir á almennum stjórnvaldsfyrirmælum.

(Mál nr. 3028/2000)

A kvartaði yfir úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins þar sem staðfest var synjun fangelsismálastofnunar á umsókn hans um reynslulausn að lokinni afplánun á helmingi dæmds refsitíma. Var synjun ráðuneytisins byggð á 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 29/1993, um fullnustu refsidóma.

Umboðsmaður rakti ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um veitingu reynslulausnar. Þá rakti hann ákvæði 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 29/1993 þar sem segir að fanga verði að jafnaði ekki veitt reynslulausn ef hann á ólokið máli í refsivörslukerfinu á hendur honum þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi. Með vísan til efnis 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 29/1993 taldi hann rétt að benda á að samkvæmt ákvæði 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 skal hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi talinn saklaus uns sekt hans er sönnuð, og væri það efnislega samhljóða ákvæði 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í ljósi dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu taldi umboðsmaður að 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar gerði þá kröfu til stjórnvalda við framkvæmd þeirra málefna sem þeim væru falin að ekki væru teknar stjórnvaldsákvarðanir sem stríddu gegn þeim hagsmunum sem ákvæðinu væri ætlað að vernda.

Í ljósi skýringa dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um það hvernig 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 29/1993 hefði verið beitt í máli A taldi umboðsmaður varhugavert að fullyrða að framkvæmd stjórnvalda væri almennt með þeim hætti að beinlínis væri metið og lagt til grundvallar í hverju tilviki fyirr sig að fangi væri annað hvort sekur eða saklaus í þeim málum sem hann ætti ólokið í refsivörslukerfinu. Virtist það fremur vera afstaða ráðuneytisins að ákvæðinu væri beitt með þeim hætti að einungis væri lagt til grundvallar að ef afplánunarfangi ætti ólokið málum í refsivörslukerfinu þegar umsókn um reynslausn kæmi fram leiddi það eitt og sér til þess að hann fengi ekki reynslulausn.

Umboðsmaður tók fram að eins og lagagrundvelli ákvörðunar fangelsisyfirvalda um reynslulausn væri háttað teldi hann að hún þyrfti að byggjast á heildarmati á aðstæðum fangans með tilliti til þess hvort líkur væru á að reynslulausnin myndi skila þeim árangri sem hún ætti lögum samkvæmt að stefna að. Taldi hann því fortakslausa beitingu 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 29/1993, sem stjórnvöld hefðu lagt til grundvallar í máli A, ekki samrýmast lagareglum um reynslulausn. Var það niðurstaða umboðsmanns að slíku skilyrði yrði í samræmi við lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins ekki beitt með svo fortakslausum hætti nema löggjafinn hefði beinlínis í lögum tekið afstöðu til þess en slík heimild væri ekki til staðar. Þá taldi umboðsmaður að slík beiting reglugerðarákvæðisins gengi lengra í að afnema það einstaklingsbundna mat sem stjórnvöldum væri falið í lögum. Sökum þessa var það niðurstaða umboðsmanns að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefði í úrskurði sínum ekki leyst úr máli A í samræmi við lög.

Umboðsmaður tók loks fram að eins og lagagrundvelli ákvarðana um reynslulausnir væri háttað væri vandmeðfarið með hvaða hætti litið skyldi til ólokinna mála í refsivörslukerfinu andspænis grundvallarreglu 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Taldi hann því að fara yrði sérstaklega varlega í að taka inn í mat stjórnvalda, um hvort veita ætti fanga reynslulausn, hugsanleg atvik í framtíðinni, t.d. um afplánun í fangelsi, þegar fyrirsjáanlegt væri vegna stöðu málsins í refsivörslukerfinu að úrslit myndu ekki ráðast fyrr en að liðnum nokkrum tíma.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að það tæki mál A til endurskoðunar kæmi fram ósk þess efnis frá honum og leitaði leiða til að rétta hlut hans. Þá ákvað hann, sbr. 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að beina þeim tilmælum til ráðherra að ákvæði 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 29/1993, um fullnustu refsidóma, yrði endurskoðað með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.

I.

Hinn 2. ágúst 2000 leitaði til mín A sem þá afplánaði refsidóm í fangelsinu að Kvíabryggju. Beindist kvörtun hans að því að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefði ekki afgreitt kæru hans til ráðuneytisins sem laut að ákvörðun fangelsismálastofnunar frá 5. júlí 2000 um að synja honum um reynslulausn. Er fyrir lá úrskurður ráðuneytisins í málinu, dags. 17 ágúst 2000, þar sem staðfest var synjun fangelsismálastofnunar, gerði A athugasemdir við efnislega niðurstöðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

Ég tel rétt að taka fram að þegar ljóst varð að máli þessu yrði ekki lokið af minni hálfu áður en lok yrðu á afplánun A ákvað ég, með tilliti til þeirra álitaefna sem á reynir í þessu máli, að vinna að því samhliða athugun sem ég hafði hafið að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, á ýmsum atriðum um réttarstöðu afplánunarfanga og meðferð mála hjá fangelsisyfirvöldum. Hafði ég þá m.a. í huga að við þá athugun þurfti ég heildstætt að taka afstöðu til fyrirkomulags og lagagrundvallar ýmissa stjórnvaldsfyrirmæla sem gilda um meðferð mála af hálfu fangelsisyfirvalda. Með áliti mínu í máli nr. 2805/1999 frá 27. nóvember 2001 hef ég lokið umfjöllun minni um hluta þeirrar athugunar.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 7. desember 2001.

II.

Málavextir eru þeir að með dómi Hæstaréttar [...]. Hóf hann afplánun 5. apríl 2000. Með bréfi, dags. 21. júní 2000, sótti A um reynslulausn að lokinni afplánun helmings dæmds refsitíma. Í bréfinu segir meðal annars:

„Ég undirritaður sæki hér með um reynslulausn, en þann 4. júlí hef ég afplánað helming 6 mánaða dóms.

Mér er það fullljóst að ég flokkast undir það að vera með mál í kerfinu en bendi á að ég hef ekki verið yfirheyrður vegna þess máls í þrjú ár. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir lögmanns míns, þá eru aðeins um fáar vikur síðan embætti Ríkislögreglustjóra afhenti gögn varðandi málið. Það er álit lögfróðra að í þeim gögnum komi ekkert fram sem réttlæti ákæru á hendur mér [...].

Ég tel að sú grundvallarregla að hver maður sé saklaus þar til að sekt sannist eigi við hér og hana beri að virða þegar tekin verður ákvörðun um reynslulausn.

Ég var ákærður, hlaut dóm og er að taka út mína refsingu. Það er fáránlegt ef ég á ekki að njóta sömu réttinda og aðrir fangar vegna þess að hugsanlega verði ég ákærður seinna. Þá kannski eftir eitt, tvö eða þrjú ár? Hljóti ég ekki ákæru og dóm þá sit ég uppi með það að hafa setið í fangelsi í 6 mánuði að ósekju, þ.e.a.s. [...] ég hefði átt að geta tekið út mína refsingu með samfélagsþjónustu og á ég þá rétt á skaðabótum?

Ég geri mér grein fyrir því að kerfið er þungt í vöfum og þó að ég leitaði réttar míns fyrir dómstólum þá tæki það langan tíma og kæmi mér sennilega ekki að gagni. En það er álit lögmanns míns að þessi reglugerð standist ekki lög, því eins og áður sagði stangast hún á við þá meginreglu að hver maður sé saklaus, þangað til sekt hans sannast og með þessari reglugerð er verið að mismuna föngum vegna einhvers sem hugsanlega getur gerst einhvern tímann í framtíðinni.“

Með bréfi frá 5. júli 2000 synjaði fangelsismálastofnun A um reynslulausn að lokinni afplánun helmings dæmds refsitíma. Í bréfinu segir meðal annars:

„Fangelsismálastofnun hefur ákveðið að synja yður um reynslulausn samkvæmt 1. mgr. 5. gr. reglugerðar um fullnustu refsidóma þar sem þér eigið ólokið málum í refsivörslukerfinu.“

Með bréfi, dags. 5. júlí 2000, kærði A synjun fangelsismálastofnunar til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Með bréfi 11. s.m. óskaði ráðuneytið eftir gögnum málsins frá stofnununni og athugasemdum hennar ef einhverjar væru. Bárust þær ráðuneytinu með bréfi fangelsismálastofnunar, dags. 21. júlí 2000. Þar segir meðal annars:

„Með bréfi, dags. 21. júní sl., óskaði [A] eftir því að verða veitt reynslulausn þegar afplánaður væri helmingur refsitímans. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. alm. hgl. er heimilt að veita fanga reynslulausn þegar hann hefur afplánað 2/3 hluta fangelsisrefsingar sinnar. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar má þó, ef sérstaklega stendur á, veita reynslulausn þegar liðinn er helmingur refsitímans. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. reglugerðar um fullnustu refsidóma skal að jafnaði ekki veita fanga reynslulausn ef hann á ólokið málum í refsivörslukerfinu. Samkvæmt athugun í málaskrá lögreglu 17. júlí eru [mál][A] í rannsókn hjá Ríkislögreglustjóranum og hafa verið í all nokkurn tíma. Hefur Fangelsismálastofnun fengið staðfestingu frá Ríkislögreglustjóra um að vinna við rannsóknina sé í fullum gangi, en sé seinleg vegna umfangs og eðli brotanna. Meðan að svo er telur stofnunin ekki skilyrði fyrir því að gera undantekningu frá meginreglunni sem fram kemur í 1. mgr. 5. gr. reglugerðar um fullnustu refsidóma í tilviki [A].“

Hinn 2. ágúst 2000 leitaði A til mín vegna tafa ráðuneytisins á afgreiðslu erindis hans. Ritaði ég dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bréf samdægurs og óskaði upplýsinga með vísan til 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, um hvað liði afgreiðslu á kæru hans. Svar ráðuneytisins barst með bréfi, dags. 8. ágúst 2000, og segir þar meðal annars svo:

„Af því tilefni upplýsist að ráðuneytinu barst þann 10. júlí sl. bréf [A], dags. 5. s.m., þar sem hann kærir umrædda ákvörðun. Í framhaldi af því sendi ráðuneytið Fangelsismálastofnun ríkisins bréf, dags. 11. s.m., þar sem óskað var eftir öllum gögnum í tilefni af kærunni og jafnframt var stofnuninni gefinn kostur á að tjá sig um kæruna, ef hún hefði einhverjar athugasemdir fram að færa. Umbeðin gögn og upplýsingar bárust með bréfi fangelsismálastofnunar, dags. 21. júlí sl. Að fengnum gögnum frá fangelsismálastofnun fer málið í vinnslu og undirbúning fyrir næsta náðunarnefndarfund og er sú undirbúningsvinna nú í gangi. Verður málið tekið fyrir á næsta fundi náðunarnefndar sem haldinn verður þann 15. þ.m. Ráðuneytið tekur fram að fundir nefndarinnar eru haldnir á u.þ.b. 3 – 5 vikna fresti. Síðasti fundur nefndarinnar var haldinn 12. júlí sl. og er því um samsvarandi tíma að ræða á milli funda og almennt er. Erindi [A] barst rétt fyrir síðasta fund nefndarinnar og var því ekki unnt að taka erindi hans fyrir á þeim fundi, þar sem afla þurfti nauðsynlegra gagna áður en málið yrði tekið fyrir. Ráðuneytið bendir enn fremur á að mál sem það er hér um ræðir eru almennt að lágmarki um 3 vikur í vinnslu og er því ekki um óvenju langan afgreiðslutíma að ræða í tilviki [A].“

Hinn 15. ágúst 2000 óskaði ég þess í bréfi að dóms- og kirkjumálaráðuneytið afhenti mér gögn málsins og upplýsti hvort fangelsismálastofnun hefði verið settur ákveðinn frestur til að svara bréfi ráðuneytisins, dags. 11. júlí 2000. Í bréfi mínu sagði meðal annars:

„Í framangreindu bréfi ráðuneytisins til mín, dags. 8. ágúst sl., kemur að auki fram að ráðuneytinu hafi borist umbeðin gögn og upplýsingar frá fangelsismálastofnun með bréfi, dags. 21. júlí sl. Þá segir að fengnum þessum gögnum hafi málið farið í vinnslu og undirbúning fyrir næsta náðunarnefndarfund og sé sú undirbúningsvinna nú í gangi. Af þessu tilefni óska ég þess að ráðuneytið geri grein fyrir því í hverju þessi undirbúningsvinna sé fólgin.

Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skulu ákvarðanir í málum teknar svo fljótt sem unnt er. Að þessu virtu, og í ljósi atvika máls þessa, er óskað skýringa ráðuneytisins á því hvort tekið sé tillit til lengdar refsidóms og þess hversu langt er eftir af afplánunartíma við meðferð kærumála í ráðuneytinu, þar sem hafnað hefur verið að veita reynslulausn.”

Svar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins barst með bréfi, dags. 30. ágúst 2000. Þar segir meðal annars:

„[...] Í bréfinu var fangelsismálastofnun ekki settur ákveðinn frestur til að svara. Ráðuneytið telur það hins vegar ekki hafa haft áhrif á gang málsins, þar sem svarbréf stofnunarinnar barst 24. s.m., sem telst að mati ráðuneytisins ekki langur tími til gagnaöflunar í kærumálum. Ráðuneytið bendir einnig á að það ritar fangelsismálastofnun nokkur sams konar bréf í mánuði hverjum og er stofnunin vel meðvituð um þann hraða sem þarf að vera á afgreiðslu þessara mála, svo og um fyrirhugaða fundi náðunarnefndar, sem að jafnaði eru haldnir á 3 – 5 vikna fresti. Upplýsingar frá stofnuninni hafa enda jafnan borist innan skamms tíma frá beiðni ráðuneytisins þess efnis.

Hvað varðar undirbúning á málum fyrir fund náðunarnefndar, þá felst hann í því að farið er vandlega yfir gögn þeirra mála sem lögð eru fyrir fund og efni þeirra tekin saman í nákvæma greinargerð. Undirbúningur getur einnig falist í gagna- og upplýsingaöflun, telji ráðuneytið einhverjar upplýsingar vanta til að unnt sé að taka ákvörðun í máli. Á milli funda berast jafnan nokkur mál og fer undirbúningstíminn að einhverju leyti eftir fjölda og umfangi þeirra mála. Gögn þeirra mála sem lögð eru fyrir fund náðunarnefndar, ásamt greinargerðum, eru síðan send nefndarmönnum til skoðunar og yfirlestrar 2 – 5 dögum fyrir fund. Er ráðuneytinu hafa borist tillögur náðunarnefndar að loknum fundi hennar fer fram lokavinna í málunum, sem felst í samningu úrskurða og bréfa og tekur sú vinna um 4 – 7 daga.

Ráðuneytið hefur haft þá stefnu að taka ákvarðanir í þeim málum sem lögð eru fyrir náðunarnefnd svo fljótt sem kostur er. Er í því sambandi vissulega horft til þess hversu langan tíma viðkomandi á eftir að afplána, ef kærð er ákvörðun er varðar synjun á reynslulausn. Hafa ber þó í huga að undirbúningur málanna tekur óhjákvæmilega einhverjar vikur svo sem að framan er lýst. Reynt er eftir föngum að taka tillit til þess ef mál virðist þurfa skjóta umfjöllun, svo sem ef tiltekinn afplánunartími, sem óskað er reynslulausnar á, er að verða liðinn. Í sumum tilvikum liggur ákvörðun hins vegar ekki fyrir fyrr en að liðnum þeim tíma sem beðið er um reynslulausn á. Stafar það oftast af því að umsókn um reynslulausn er lögð fram skömmu áður en tiltekin afplánunartími er liðinn. Umsækjendur verða að gæta þess að bera beiðni sína fram tímanlega, eigi afgreiðslu máls að vera lokið áður en helmingur eða 2/3 hlutar afplánunartíma eru liðnir. Að öðrum kosti er nær fyrirsjáanlegt að afgreiðslu máls verði ekki lokið fyrr en komið er fram yfir þann tíma sem sótt er um reynslulausn á. [A] lagði fram beiðni um reynslulausn að lokinni afplánun helmingi refsitíma til Fangelsismálastofnunar ríkisins með bréfi, dags. 21. júní sl., sem barst stofnuninni 23. s.m. Helmingur afplánunartíma hans var liðinn þann 4. júlí sl., og er ákvörðun fangelsismálastofnunar dags. degi síðar. Barst ráðuneytinu kæra á ákvörðun stofnunarinnar fimm dögum frá dagsetningu hennar. [A] hlaut því að vera ljóst að mál hans gat ekki hlotið afgreiðslu í ráðuneytinu fyrr en nokkuð var komið fram yfir helming afplánunartíma hans. Ráðuneytið ítrekar að frá því kæra barst ráðuneytinu og þar til úrskurður er kveðinn upp í máli sem lagt er fyrir náðunarnefnd líða óhjákvæmilega nokkrar vikur, sbr. það sem að framan greinir. Náðunarnefnd var boðuð til fundar svo fljótt sem kostur var er mál [A] var tekið fyrir og úrskurður kveðinn upp í því tveimur dögum síðar. Telur ráðuneytið að afgreiðsla á máli hans hafi ekki tekið óeðlilega langan tíma í ráðuneytinu, enda sambærilegur afgreiðslutími og almennt gerist um sams konar mál.“

Áður er rakið staðfesti dóms- og kirkjumálaráðuneytið ákvörðun fangelsismálastofnunar um synjun reynslulausnar með úrskurði, dags. 17. ágúst 2000. Í niðurstöðukafla úrskurðarins er tillaga náðunarnefndar tekin upp orðrétt. Síðan segir svo:

„Með vísun til fyrirliggjandi gagna málsins og til þess er greinir í framanritaðri tillögu náðunarnefndar telur ráðuneytið rétt að staðfesta hina kærðu ákvörðun fangelsismálastofnunar.“

Í tilvitnaðri tillögu náðunarnefndar, dags. 15. ágúst 2000, kemur meðal annars fram:

„Samkvæmt gögnum málsins á kærandi fjölda mála til meðferðar í refsivörslukerfinu fyrir sams konar brot og þau er hann afplánar nú refsingu fyrir og er rannsókn þeirra í gangi hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. reglugerðar um fullnustu refsidóma er það meginregla að ekki er veitt reynslulausn, hvorki af afplánun helmings né 2/3 hluta refsitíma, ef þannig er ástatt. Skiptir í því sambandi ekki máli hverjar líkur eru á að lyktir máls verði, heldur einungis það að mál er til meðferðar í refsivörslukerfinu þegar ákvörðun um reynslulausn er tekin. Með vísun til þess að kærandi á ólokið málum í refsivörslukerfinu leggur náðunarnefnd til að hin kærða ákvörðun Fangelsismálastofnunar ríkisins, dags. 5. júlí 2000, verði staðfest.“

III.

Hinn 30. ágúst 2000 ritaði ég dóms- og kirkjumálaráðherra bréf og óskaði þess, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að ráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A. Sérstaklega var þess óskað að ráðuneytið gerði grein fyrir lagagrundvelli 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 29/1993, um fullnustu refsidóma, sem stuðst var við í málinu. Þá var þess óskað að afstaða yrði tekin til þess hvort og þá hvernig nefnt reglugerðarákvæði, og eftir atvikum sá lagagrundvöllur sem það styddist við, samrýmdist 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995 og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994. Svar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins barst skrifstofu minni með bréfi, dags. 7. september 2000. Þar segir meðal annars svo:

„[...] Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 24/1999, getur Fangelsismálastofnun ríkisins látið fanga lausan til reynslu þegar liðnir eru 2/3 hlutar refsitímans. Ef sérstaklega stendur á má veita fanga reynslulausn að afplánuðum helmingi refsitíma, sbr. 2. mgr. 40. gr. sömu laga. Það er meginregla í íslenskum rétti að dæmda refsingu skuli afplána að fullu. 40. gr. almennra hegningarlaga hefur að geyma undantekningarheimild frá þeirri meginreglu, þar sem heimilt er að veita eftirgjöf refsivistar að hluta í vissum tilvikum. Þar sem reynslulausnarreglurnar eru einungis heimildarákvæði, sem eru ívilnandi, en ekki sjálfkrafa eftirgjöf refsingar, þurfa fangar að uppfylla tiltekin skilyrði til að hljóta þá ívilnun. Skilyrði sem sett eru fyrir reynslulausn miða að því að hún nái að þjóna tilgangi sínum, og að hún verði ekki veitt ef líkur geta verið á að markmið hennar náist ekki. Með veitingu reynslulausnar er stefnt að því markmiði að veita fanga tækifæri til að fara inn á nýja braut og með reynslutímanum er brúað bilið milli refsivistar og fullkomins frelsis. Til að það markmið nái tilgangi sínum er eitt af grundvallarskilyrðum að fangi eigi ekki mál til meðferðar í refsivörslukerfinu á þeim tíma er umsókn um reynslulausn kemur til afgreiðslu. Að öðrum kosti gæti fangi þurft að hefja afplánun að nýju síðar og þar með væri tilgangi reynslulausnar ekki náð. Í 5. gr. reglugerðar um fullnustu refsidóma nr. 29/1993 er að finna nánari skilgreiningu á því hvenær rétt er að beita hinum ívilnandi ákvæðum sem felast í 40. gr. almennra hegningarlaga. Eru þar settar ákveðnar viðmiðunarreglur, sem í flestum tilvikum byggjast jafnframt á mati á aðstæðum viðkomandi fanga. Reglurnar miða enn fremur að því að skapa jafnræði með þeim föngum sem óska reynslulausnar. Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar er sú grundvallarregla að hvorki er veitt reynslulausn að afplánuðum helmingi né 2/3 hlutum refsitíma ef ólokið er í refsivörslukerfinu máli á hendur fanga þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi. Eins og fram kemur í úrskurði ráðuneytisins frá 17. ágúst sl., var beiðni [A] um reynslulausn að afplánuðum helmingi refsitíma synjað með vísun til 1. mgr. 5. gr. reglugerðar um fullnustu refsidóma, þar sem hann á fjölda mála til meðferðar í refsivörslukerfinu fyrir sams konar brot og þau sem hann afplánar nú 6 mánaða refsingu fyrir og er rannsókn þeirra í gangi hjá Ríkislögreglustjóra. Er hér um umfangsmikla rannsókn að ræða á málum sem að mati ráðuneytisins geta ekki talist smávægileg. Ráðuneytið bendir á að þegar fanga er synjað um reynslulausn á grundvelli ákvæðis 1. mgr. 5. gr. reglugerðar um fullnustu refsidóma er ekki verið að leggja mat á það hvort hann sé sekur eða saklaus í þeim málum sem ólokið er í refsivörslukerfinu. Ef um smærri mál er að ræða og ætla verður að máli muni ljúka með sekt hefur þó verið litið framhjá óloknu máli og sömuleiðis ef í ljós kemur að mál hefur legið óafgreitt um mjög langan tíma, þannig að líkur eru á að það falli niður. Þar sem ákvæði 1. mgr. 5. gr. reglugerðar um fullnustu refsidóma miðar ekki að því að lagt sé mat á sekt eða sakleysi þess er óskar reynslulausnar, heldur að því einu hvort mál er til meðferðar, telur ráðuneytið að ákvæðið samrýmist 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995 og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994. Þessi ákvæði verða ekki skilin svo afdráttarlaust að mál til meðferðar hafi engin áhrif þótt ekki sé lagt mat á sekt eða sakleysi. Í því sambandi má hafa til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 1189/1994 þar sem segir að í rökstuðningi í úrlausn um reynslulausn útiloki mannréttindasáttmálinn ekki, að byggt sé á því að rökstuddur grunur liggi fyrir um refsivert brot. Um kæruefnið vísar ráðuneytið að öðru leyti til þeirra gagna er send voru umboðsmanni með bréfi, dags. 30. f.m.

Í bréfi yðar óskið þér eftir að ráðuneytið geri grein fyrir lagagrundvelli 1. mgr. 5. gr. reglugerðar um fullnustu refsidóma nr. 29/1993. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið fór með fangelsismál fram til þess tíma er Fangelsismálastofnun ríkisins tók til starfa á grundvelli laga um fangelsi og fangavist nr. 48 frá 19. maí 1988. Voru verkefni ráðuneytisins á þessu sviði skilgreind í starfsreglum fyrir fangelsismáladeild dóms og kirkjumálaráðuneytisins nr. 409 frá 9. nóvember 1977, en þær reglur voru m.a. settar með stoð í 39. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 101/1976. Eitt af verkefnum deildarinnar var að annast veitingu reynslulausnar samkvæmt ákvæðum 40. – 42. gr. almennra hegningarlaga. Með setningu laga um fangelsi og fangavist nr. 48 frá 19. maí 1988, var 39. gr. almennra hegningarlaga felld niður er Fangelsismálastofnun ríkisins tók við verkefnum fangelsismáladeildar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Á grundvelli þeirra laga var sett reglugerð um upphaf og lok fangavistar nr. 569 frá 30. desember 1988. Var reglugerðin sett með stoð í 30. gr. laga um fangelsi og fangavist, þar sem var að finna almenna reglugerðarheimild, sbr. nú 36. gr. sömu laga, og 40. – 42. gr. almennra hegningarlaga. Með þeirri reglugerð voru starfsreglur fyrir fangelsismáladeild dóms- og kirkjumálaráðuneytisins felldar niður. Reglugerð um upphaf og lok fangavistar var síðan felld brott með reglugerð um fullnustu refsidóma nr. 29/1993 sem tók við af henni og sett er með heimild í sömu lögum. Tilvísun í reglugerðum nr. 569/1988 og 29/1993 til 40. – 42. gr. almennra hegningarlaga vísar til heimildar dómsmálaráðherra að fela öðru stjórnvaldi að fara með úrlausn þeirra mála sem um er fjallað í þeim ákvæðum, þar sem Fangelsismálastofnun ríkisins er falið að sjá um veitingu reynslulausnar samkvæmt ákvæðum reglugerðanna.

Hvað varðar 5. gr. reglugerðar um fullnustu refsidóma almennt má geta þess að í máli umboðsmanns Alþingis nr. 1699/1996 segir að hvorki verði talið að reglugerðarákvæðið né beiting þess í máli viðkomandi byggi á ólögmætum sjónarmiðum né að umsókn viðkomandi hafi verið afgreidd á annan hátt en aðrar umsóknir fanga, sem lúta sömu sjónarmiðum.“

Með bréfum, dags. 5. og 8. september 2000, gaf ég A kost á að gera athugasemdir við bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 30. ágúst og 7. september 2000. Athugasemdir hans bárust mér 13. september 2000.

IV.

1.

Kvörtun A til mín laut upphaflega að töfum á afgreiðslu kæru hans til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í kjölfar synjunar fangelsismálastofnunar 5. júlí 2000 á að veita honum reynslulausn. Af því tilefni ritaði ég ráðuneytinu bréf, dags. 15. s.m., og óskaði eftir skýringum og upplýsingum um nánar tilgreinda þætti í málsmeðferð ráðuneytisins og náðunarnefndar við afgreiðslu kærumála á þessu sviði. Skýringar ráðuneytisins bárust mér með bréfi, dags. 30. ágúst 2000.

Þegar litið er til atvika málsins tel ég að ekki sé tilefni til að fjalla hér sérstaklega um framangreint atriði í kvörtun A, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég tek aðeins fram að málshraðaregla 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er afstæð að efni til. Mál er snúast um reynslulausn fanga varða þýðingarmikla hagsmuni þeirra og ber því stjórnvöldum á grundvelli 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga að hraða málsmeðferð og ljúka afgreiðslu slíkra mála eins fljótt og unnt er þó að teknu tilliti til rannsóknarskyldu 10. gr. sömu laga. Á þetta ekki síst við þegar kæra berst dóms- og kirkjumálaráðuneytinu til úrlausnar sem æðra settu stjórnvaldi í þessum málum.

Ráðuneytið bendir í skýringum sínum á að mikilvægt sé að umsóknir um reynslulausn berist með nægjanlegum fyrirvara áður en því tímamarki í afplánun fanga er náð sem hann miðar umsókn sína við, þ.e. helming eða 2/3 hlutar. Ég bendi í þessu sambandi á að í kafla VII í áliti mínu í máli nr. 2805/1999 frá 27. nóvember 2001 er fjallað um upplýsingagjöf til fanga við móttöku í afplánun og áform fangelsisyfirvalda um að bæta þá upplýsingagjöf. Af þessu tilefni tek ég fram að þar væri æskilegt að fram kæmu leiðbeiningar til fanga um tímasetningar umsókna þeirra um reynslulausn.

2.

Með úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í máli A frá 17. ágúst 2000 var staðfest ákvörðun fangelsismálastofnunar 5. júlí 2000 um að synja honum um reynslulausn að lokinni afplánun á helmingi dæmds refsitíma. Í úrskurðinum er vísað til umsagnar náðunarnefndar, dags. 15. ágúst 2000, til stuðnings þeirri niðurstöðu. Í umsögninni er tillaga náðunarnefndar um synjun umsóknarinnar rökstudd með vísan til 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 29/1993, um fullnustu refsidóma.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 24/1999, um breytingu á þeim lögum, getur fangelsismálastofnun ákveðið að fangi skuli látinn laus til reynslu þegar fangi hefur afplánað 2/3 hluta refsitímans. Með 2. mgr. 40. gr. hegningarlaga má þó veita fanga reynslulausn að liðnum helmingi refsitímans þegar sérstaklega stendur á. Af athugasemdum greinargerðar frumvarps þess er varð að lögum nr. 16/1976, sem breyttu ákvæðum hegningarlaga um reynslulausnir, má ráða að lögfesting þessa úrræðis hafi átt að miða að því að takmarka andfélagsleg áhrif frelsisskerðingar til lengri tíma og vera til aðstoðar föngum í þeim aðlögunarerfiðleikum sem bíða þeirra er refsivist lýkur. (Alþt. 1975-1976, A-deild, bls. 267.) Sjónarmið þessi má einnig ráða af ákvæði 3. mgr. 40. gr. hegningarlaga en þar segir að reynslulausn verði ekki veitt ef slíkt þyki óráðlegt vegna haga fangans enda skuli honum vís hentugur samastaður og vinna eða önnur kjör sem nægja honum til framfærslu.

Í áliti umboðsmanns Alþingis frá 22. júlí 1998 í máli nr. 2424/1998 var lagt til grundvallar að ákvæði V. kafla almennra hegningarlaga um reynslulausnir hafi að geyma almenna heimild fyrir stjórnvöld til að leysa úr refsivist þá menn sem skertir hafi verið frelsi sínu vegna refsiverðra athafna. Eftir setningu áðurnefndra laga nr. 16/1976 hafi framkvæmd þessa úrræðis verið sú að refsifangar fá nær undantekningarlaust reynslulausn eftir helming eða tvo þriðju hluta refsitímans svo framarlega sem skilyrðum 40. gr. almennra hegningarlaga sé fullnægt. Verði því að telja að löng venjuhelguð framkvæmd hafi, þrátt fyrir heimildarform ákvæða V. kafla almennra hegningarlaga, í reynd áunnið dómþolum réttindi að því marki sem framkvæmdin uppfyllir nefnd skilyrði.

Ljóst er að löggjafinn hefur ætlað stjórnvöldum svigrúm við framkvæmd reynslulausnarbeiðna og að sá lagagrundvöllur heimili setningu almennra stjórnsýslufyrirmæla þar sem útfærð eru nánar skilyrði reynslulausnar, sbr. reglugerð nr. 29/1993. Efni almennra stjórnvaldsfyrirmæla og framkvæmd stjórnvalda verða hins vegar að byggja á málefnalegum sjónarmiðum og vera í eðlilegu samræmi við tilgang lagareglna um reynslulausnir. Þá mega ákvæði stjórnvaldsfyrirmæla ekki afnema eða þrengja óhæfilega það mat sem löggjafinn hefur falið stjórnvöldum að framkvæma með tilliti til atvika í hverju máli fyrir sig og markmiða að baki lagaákvæðum um reynslulausnir.

3.

Fyrirmæli 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 29/1993, um fullnustu refsidóma, eru svohljóðandi:

„Að jafnaði verður fanga ekki veitt reynslulausn ef ólokið er í refsivörslukerfinu máli á hendur honum þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi.“

Með bréfi mínu til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 30. ágúst 2000, óskaði ég eftir viðhorfi ráðuneytisins til kvörtunar A. Sérstaklega var þess óskað að sjónarmið ráðuneytisins kæmu fram um hvort og þá hvernig ofangreint reglugerðarákvæði, og eftir atvikum sá lagagrundvöllur sem það styddist við, væri samrýmanlegt 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og ákvæði 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Í svarbréfi ráðuneytisins, dags. 7. september 2000, sem tekið er upp orðrétt í kafla III hér að framan, kemur meðal annars fram að með „veitingu reynslulausnar [sé] stefnt að því markmiði að veita fanga tækifæri til að fara inn á nýja braut og með reynslutímanum [sé] brúað bilið milli refsivistar og fullkomins frelsis. Til að það markmið nái tilgangi sínum [sé] eitt af grundvallarskilyrðum að fangi eigi ekki mál til meðferðar í refsivörslukerfinu á þeim tíma er umsókn um reynslulausn kemur til afgreiðslu. Að öðrum kosti gæti fangi þurft að hefja afplánun að nýju síðar og þar með væri tilgangi reynslulausnar ekki náð“. Þá kemur fram í bréfinu að „þegar fanga [sé] synjað um reynslulausn á grundvelli ákvæðis 1. mgr. 5. gr. reglugerðar um fullnustu refsidóma [sé] ekki verið að leggja mat á það hvort hann sé sekur eða saklaus í þeim málum sem ólokið er í refsivörslukerfinu. Ef um smærri mál [sé] að ræða og ætla [verði] að máli muni ljúka með sekt [hafi] þó verið litið framhjá óloknu máli og sömuleiðis ef í ljós kemur að mál [hafi legið] óafgreitt um mjög langan tíma, þannig að líkur [séu] á að það falli niður“.

Áður er rakið að samkvæmt 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 29/1993 verður fanga að jafnaði ekki veitt reynslulausn ef ólokið er í refsivörslukerfinu máli á hendur honum þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi. Í skýringum sínum til mín lýsir dóms- og kirkjumálaráðuneytið undirstöðurökum þessa ákvæðis með þeim hætti að það stríði gegn tilgangi reynslulausnar sem úrræðis til að aðstoða fanga í að „brúa bilið milli refsivistar og fullkomins frelsis“ að veita honum reynslulausn þegar hann á enn mál til meðferðar í refsivörslukerfinu enda „gæti fangi þurft að hefja afplánun að nýju síðar og þar með væri tilgangi reynslulausnar ekki náð“.

Ég tek fram að í ljósi þess svigrúms sem löggjafinn hefur veitt stjórnvöldum við mat á skilyrðum reynslulausnar og þeirra sjónarmiða sem að baki því úrræði búa er ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við að stjórnvöld leggi til grundvallar skilyrði sem með beinum og málefnalegum hætti tengjast tilgangi úrræðisins. Atvik eða atriði sem stjórnvöld gera að skilyrðum fyrir veitingu reynslulausnar verða þvert á móti að vera í málefnalegu samræmi við þann lögmælta tilgang sem reynslulausn er ætlað að þjóna.

Stjórnvöldum er með lagareglum um reynslulausnir veittar heimildir til að gefa afplánunarföngum kost á því að njóta óskerts frelsis fyrir lok dæmds afplánunartíma ef heildstætt mat á aðstæðum fangans, bæði innan fangelsisins og utan þess, bendir til þess að slík úrlausn mála muni vera honum til hagsbóta. Ekki er í sjálfu sér hægt að útiloka að það samrýmist lagareglum um reynslulausnir og tilgangi þeirra, sem að framan er rakin, að stjórnvöld taki tillit til þess að afplánunarfangi muni innan skamms tíma þurfa að sæta afplánun að nýju vegna mála sem hann á „ólokið í refsivörslukerfinu“. Ég legg hins vegar áherslu á að hvað sem líður stoð slíkrar framkvæmdar í almennum lögum verður hún einnig að vera í samræmi við meginreglur stjórnarskrárinnar og þjóðréttarlegar skuldbindingar sem íslenska ríkið hefur undirgengist og eftir atvikum veitt lagagildi.

Vegna þessa tel ég rétt að benda hér á að samkvæmt 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, skal hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi talinn saklaus uns sekt hans er sönnuð. Ákvæðið er efnislega samhljóða 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá er ákvæði einnig skylt 14. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. auglýsingu nr. 10/1979.

Fyrirmæli 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar fela í sér efnislegar takmarkanir á valdheimildum almenna löggjafans til að setja lög þar sem mælt er fyrir um skilyrði og framkvæmd refsimála. Kröfur 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar eiga hins vegar ekki aðeins við í refsimálum fyrir dómi, sbr. álit umboðsmanns Alþingis frá 9. ágúst 1995 í máli nr. 1189/1994. Í álitinu tók umboðsmaður fram að brotið væri í bága við 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem eins og fyrr greinir er efnislega samhljóða 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, ef „handhafar opinbers valds lýsa mann sekan um refsiverðan verknað, áður en sekt hans hefur verið slegið fastri með dómi“. Er í þessu sambandi vísað til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Minellis frá 25. mars 1983, Series A no. 62, bls. 18. grein 37, í máli Lutz frá 25. ágúst 1987, Series A no. 123, bls. 25, grein 60, og í máli Salabiaku frá 7. október 1988, sjá Decisions and Reports, 64, bls. 264, sjá hér nú mál Allenet de Ribemont frá 10. febrúar 1995, Series A 308, bls. 16 og einnig nýlegan dóm í máli Daktaras gegn Litháen frá 10. október 2000, bls. 11, grein 41.

Ákvæði 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, eins og skýra verður það með hliðsjón af 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, gerir þannig að mínu áliti þá kröfu til stjórnvalda við framkvæmd þeirra málefna sem þeim eru falin að ekki séu teknar stjórnvaldsákvarðanir sem stríða gegn þeim hagsmunum sem ákvæðunum er ætlað að vernda.

Í bréfi sínu til mín heldur dóms- og kirkjumálaráðuneytið því fram að í ljósi þess að ákvæði 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 29/1993 miði ekki að því „að lagt sé mat á sekt eða sakleysi þess er óskar reynslulausnar, heldur að því einu hvort mál er til meðferðar“ telji það að ákvæðið samrýmist 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Rétt er þó að nefna að í skýringum ráðuneytisins er sérstaklega á það bent að ef um „smærri mál“ er að ræða og ætla verði að máli muni ljúka með sekt hafi þó verið „litið framhjá óloknu máli“ og sömuleiðis ef í ljós kemur að mál hafi legið óafgreitt um mjög langan tíma þannig að líkur séu á að það falli niður.

Ég tek fram að orðalag 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 29/1993 gerir ráð fyrir að fram fari mat stjórnvalda í hverju tilviki fyrir sig hvort sú aðstaða fanga að hann eigi mál til meðferðar í refsivörslukerfinu leiði til synjunar á veitingu reynslulausnar, sbr. orðalagið „að jafnaði“ í upphafsmálslið ákvæðisins. Þá tel ég rétt að benda á að ákvæðið er að öðru leyti óskýrt, sbr. orðalagið „grunaður eða sakaður um [...]“ enda kemur ekki fram nein afmörkun á því hvenær málsmeðferð telst hafin í refsivörslukerfinu. Ákvæðið nær samkvæmt orðalagi sínu jafnvel til þeirrar aðstöðu að lögreglu hafi aðeins borist kæra um refsiverða háttsemi fangans án þess að rannsókn í tilefni kærunnar hafi farið fram eða sé lokið.

Í ljósi skýringa dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og beitingu þess á umræddu reglugerðarákvæði í máli A er hins vegar varhugavert að fullyrða að framkvæmd stjórnvalda sé almennt með þeim hætti að beinlínis sé metið og lagt til grundvallar í hverju tilviki að fangi sé annað hvort sekur eða saklaus í þeim málum sem hann á ólokið í refsivörslukerfinu. Það virðist vera afstaða ráðuneytisins í bréfi þess til mín að ákvæði 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 29/1993 sé beitt með þeim hætti að einungis sé lagt til grundvallar að ef afplánunarfangi eigi ólokið málum í refsivörslukerfinu þegar umsókn um reynslulausn kemur fram leiði það eitt og sér til þess að ekki sé rétt að veita honum reynslulausn. Því fari, eins og áður greinir, ekki fram neitt mat stjórnvalda á efnisatriðum þeirra mála sem um ræðir eða að tekin sé afstaða til þess hvort sakargiftir þær sem bornar eru á viðkomandi fanga séu réttar eða rangar. Ég minni á að þessi afstaða ráðuneytisins styðst við eftirfarandi forsendur í tillögu náðunarnefndar í máli A sem ráðuneytið vísaði til í úrskurði sínum:

„[...] Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. reglugerðar um fullnustu refsidóma er það meginregla að ekki er veitt reynslulausn, hvorki af afplánun helmings né 2/3 hluta refsitíma, ef þannig er ástatt. Skiptir í því sambandi ekki máli hverjar líkur eru á að lyktir máls verði, heldur einungis það að mál er til meðferðar í refsivörslukerfinu þegar ákvörðun um reynslulausn er tekin. [...]“

Samkvæmt skýringum ráðuneytisins að öðru leyti er ákvæði 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 29/1993 ætlað að koma í veg fyrir þá aðstöðu að lögmæltum tilgangi reynslulausnar um aðlögun viðkomandi fanga sé stefnt í hættu með því að hann þurfi hvort sem er að sæta afplánun að nýju.

Eins og lagagrundvelli ákvörðunar fangelsisyfirvalda um reynslulausn er háttað tel ég að hún þurfi að byggjast á heildarmati á aðstæðum fangans með tilliti til þess hvort líkur séu á að reynslulausnin skili þeim árangri sem hún á lögum samkvæmt að stefna að. Sé því skilyrði sem fram kemur í 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 29/1993 beitt fortakslaust, eins og náðunarnefnd leggur til grundvallar og ráðuneytið miðar við sem meginreglu, kemur ekki til þessa mats í tilviki fanga „ef ólokið er í refsivörslukerfinu máli á hendur honum þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi“. Ég tel að slíku skilyrði verði í samræmi við lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins ekki beitt með svo fortakslausum hætti nema löggjafinn hafi beinlínis í lögum tekið afstöðu til þess. Ákvæði almennra hegningarlaga um veitingu reynslulausnar veita stjórnvöldum ekki slíka heimild. Þá tel ég að beiting 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 29/1993 með þeim hætti sem náðunarnefnd og dóms- og kirkjumálaráðuneytið byggir á sem meginreglu gangi lengra heldur en samrýmst getur núverandi lagagrundvelli ákvarðana um reynslulausn í að afnema það einstaklingsbundna mat sem stjórnvöldum er falið.

Ég tek fram að eins og núverandi lagagrundvelli ákvarðana um reynslulausnir er háttað er vandmeðfarið með hvaða hætti skuli litið til ólokinna mála í refsivörslukerfinu andspænis þeirri grundvallarreglu 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, að hver maður skuli talin saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð. Eins og áður er komið fram tel ég í sjálfu sér ekki hægt að útiloka að það samrýmist lagareglum um reynslulausnir og tilgangi þeirra að stjórnvöld taki tillit til þess að afplánunarfangi muni innan skamms tíma þurfa að sæta afplánun að nýju vegna mála sem hann á „ólokið í refsivörslukerfinu“. Ég legg hins vegar áherslu á að niðurstaða þar um þarf að byggjast á einstaklingsbundnu mati á högum viðkomandi fanga um það hvaða líkur séu á að tilgangi reynslulausnar verði náð í tilviki hans eins og aðstæður hans eru þegar fjallað er um reynslulausnarbeiðnina. Ég tel því að fara verði sérstaklega varlega í að taka inn í þetta mat hugsanleg atvik í framtíðinni, t.d. um afplánun í fangelsi, þegar fyrirsjáanlegt er vegna stöðu málsins í „refsivörslukerfinu” að úrslit ráðast ekki fyrr en að liðnum nokkrum tíma. Ég ítreka að með því væru stjórnvöld að byggja ákvörðun sína beinlínis á atviki eða atvikum þar sem umsækjandi er borinn sökum um refsiverða háttsemi án þess að skorið hefði verið úr um sekt eða sakleysi viðkomandi með þeim hætti sem stjórnarskráin kveður á um. Ættu stjórnvöld þá á hættu að framkvæmd þeirra yrði talin vera í ósamræmi við grunnreglu 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995.

4.

Athugun mín á meðferð fangelsisyfirvalda á beiðni A, sem var tilefni áðurnefnds úrskurðar dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 17. ágúst 2000, leiðir eins og fyrr greinir í ljós að synjun á beiðni hans um reynslulausn var alfarið byggð á því að hann ætti ólokið málum í refsivörslukerfinu þegar ákvörðunin var tekin. Ég hef hér að framan komist að þeirri niðurstöðu að skilyrði 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 29/1993, um fullnustu refsidóma, verði ekki án sérstakrar lagaheimildar beitt með svo fortakslausum hætti eins og fangelsismálastofnun, náðunarnefnd og dóms- og kirkjumálaráðuneytið leggja til grundvallar í máli A. Slíka heimild er hins vegar ekki að finna í lögum. Vegna þessa var beiðni A ekki tekin til umfjöllunar á grundvelli heildarmats á aðstæðum hans með tilliti til þeirra sjónarmiða sem ákvæði laga um reynslulausn byggja á.

Af gögnum málsins verður ráðið að ráðuneytið kynnti A ekki umsögn náðunarnefndar þegar hún lá fyrir og áður en það kvað upp úrskurð sinn í málinu. Ég vísa vegna þessa til þeirra sjónarmiða sem ég hef áður lýst í álitum mínum frá 16. mars 2000 í máli nr. 2512/1998 og frá 29. desember 1999 í máli nr. 2679/1999 að þótt það verði ekki talið leiða af atvikum málsins að umsækjandi eigi rétt á að tjá sig vegna ákvæða 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 tel ég að í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti sé rétt að kynna aðila máls slíka umsögn náðunarnefndar og gefa honum kost á að tjá sig um hana áður en ráðuneytið kveður upp úrskurð sinn.

V.

Niðurstaða.

Það er niðurstaða mín samkvæmt framanrituðu að í úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 17. ágúst 2000, þar sem staðfest var synjun fangelsismálastofnunar 5. júlí s.á. á umsókn A um reynslulausn, hafi ekki verið leyst úr máli hans í samræmi við lög. Sökum þessa beini ég þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að það taki mál A til endurskoðunar komi fram ósk þess efnis frá honum og leiti leiða til að rétta hlut hans.

Þá hef ég ákveðið á grundvelli 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að beina þeim tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðherra að ákvæði 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 29/1993, um fullnustu refsidóma, verði endurskoðað með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem ég hef sett fram í þessu áliti.

VI.

Í tilefni af áliti mínu barst mér bréf frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, dags. 17. janúar 2002. Í því segir meðal annars svo:

„Í áliti yðar, herra umboðsmaður Alþingis, í máli nr. 3028/2000 beinduð þér tilmælum til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að ef [A] bæri fram ósk þar að lútandi skyldi ráðuneytið taka málið til endurskoðunar og leita leiða til að rétta hlut hans.

Einnig var beint tilmælum til ráðuneytisins um að endurskoðun fari fram á ákvæði 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 29/1993 um fullnustu refsidóma. Undirbúningur að endurskoðun ákvæðisins er hafinn.

Þá skal yður ennfremur tjáð að með bréfi, dags. 12. desember 2001, óskaði [A] eftir því að mál hans yrði tekið til endurskoðunar. Einnig innti hann ráðherra eftir því hvort og þá með hvaða hætti ráðherra ætli að fara að tilmælum háttvirts Umboðsmanns. Erindi [A] hefur verið svarað með bréfi ráðuneytisins, dags. 11. þ.m., og sendist ljósrit þess bréfs hjálagt til fróðleiks.“

Í niðurlagi bréfs ráðuneytisins til A, dags. 11. janúar 2001, segir meðal annars svo:

„Að því er varðar beiðni yðar um endurskoðun telur ráðuneytið ljóst, að þar sem þér hafið afplánað refsingu yðar með fullri dagatölu […] sé ekki tilefni til að taka upp fullnustuna að nýju, því ekki er unnt að vinda tímann til baka.

Ráðuneytið telur sér ekki fært að taka upp samningaviðræður um bætur við yður né leita annarra leiða í því skyni að rétta hlut yðar og bendir yður á að leita til dómstóla með úrlausn slíkrar kröfu.“