Bótaábyrgð ríkisins.

(Mál nr. 11893/2022)

Kvartað var yfir opinberri birtingu greinargerðar Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála um meðferðarheimili. Vinnsla og útgáfa skýrslunnar hafi brotið í bága við reglur stjórnsýsluréttar þannig að friðhelgi viðkomandi hafi verið fyrir borð borin.

Ekki varð ráðið að leitað hefði verið til Persónuverndar vegna skýrslunnar og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 31. október 2022.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 24. október sl. fyrir hönd A yfir opinberri birtingu greinargerðar Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála um meðferðarheimilið X og Y 1997-2007. Nánar tiltekið segir í kvörtuninni að með vinnslu og útgáfu skýrslunnar hafi reglur stjórnsýsluréttar verið brotnar með þeim afleiðingum að friðhelgi umbjóðanda yðar hafi verið fyrir borð borin. Verður ekki annað ráðið en að með því sé átt við að meðferð Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála á persónulegum upplýsingum um umbjóðanda yðar hafi ekki verið í samræmi við lög.

Samkvæmt 39. gr. laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, er Persónuvernd eftirlitsstjórnvald á sviði persónuverndar. Í 2. mgr. 39. gr. laga nr. 90/2018 kemur fram að einstaklingur geti kvartað til Persónuverndar telji hann að að vinnsla persónuupplýsinga um hann hér á landi brjóti í bága við nánar tilgreindar lagareglur um vinnsluna.

Ástæða þess að þetta er tekið fram er sú að í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er á því byggt að mál skuli ekki tekin til athugunar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar nema endanleg afgreiðsla þar til bærs stjórnvalds liggi fyrir og þá eftir atvikum ákvörðun æðra stjórnvalds eftir að málinu hefur verið skotið til þess í samræmi við almennar reglur, sbr. 3. mgr. 6. gr. laganna. Þetta ákvæði byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Á grundvelli þessa ákvæðis hefur verið talið rétt að eftir atvikum hafi verið leitað til þeirra sérhæfðu eftirlitsaðila sem kunna að vera fyrir hendi innan stjórnsýslunnar áður en umboðsmaður tekur mál til meðferðar á grundvelli kvörtunar. Í því máli sem kvörtun yðar varðar er sá eftirlitsaðili Persónuvernd. Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið leitað til Persónuverndar vegna téðrar skýrslu og brestur því lagaskilyrði til þess að hún verði tekin til frekari meðferðar að svo stöddu.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ég bendi yður hins vegar á að ef þér leitið til Persónuverndar og teljið umbjóðanda yðar enn rangsleitni beittan að fenginni niðurstöðu hennar getið þér leitað til umboðsmanns á ný með kvörtun þar að lútandi.