Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11897/2022)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu dómsmálaráðuneytisins á stjórnsýslukæru vegna frávísunar sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á kröfu um endurupptöku á skipun lögráðamanns. Laut kvörtunin einnig að því að kröfu um flýtimeðferð stjórnsýslukærunnar hefði ekki verið svarað.

Þótt sá tími sem ráðuneytið hafði tilkynnt viðkomandi að það gæti tekið að afgreiða málið væri nokkuð rúmur varð ekki talið að enn hefði slíkur dráttur orðið á málsmeðferðinni að nægt tilefni væri fyrir umboðsmann til að aðhafast. Ekki yrði annað ráðið en sá tími væri almennur í málum af þessum toga og ekki bundinn við þetta mál sérstaklega.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 4. nóvember 2022.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 26. október sl., f.h. A, yfir töfum á afgreiðslu dómsmálaráðuneytisins á stjórnsýslukæru 21. júní sl. vegna frávísunar sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á kröfu yðar fyrir hönd A um endurupptöku á skipun lögráðamanns. Kvörtun yðar lýtur einnig að því að kröfu yðar um flýtimeðferð ofangreindrar stjórnsýslukæru 13. október sl. hafi ekki enn verið svarað.

Fyrir liggur að 28. júní sl. staðfesti dómsmálaráðuneytið móttöku á ofangreindri kæru og gerði yður grein fyrir því að vegna fjölda mála, sem væru til umfjöllunar í ráðuneytinu, mætti vænta þess að afgreiðsla málsins drægist og að öllu óbreyttu væri ákvörðunar að vænta innan sex mánaða. Í kvörtun yðar gerið þér athugasemdir við þennan áætlaða afgreiðslutíma, sem þér teljið of langan. Þótt sá tími sem ráðuneytið áætlar sé nokkuð rúmur verður ekki talið að enn hafi orðið slíkur dráttur á málsmeðferðinni að nægt tilefni sé til nánari skoðunar hjá umboðsmanni að svo stöddu. Í því sambandi er haft í huga að miðað við það sem fram kemur af hálfu ráðuneytisins verður ekki annað ráðið en að téður afgreiðslu tími sé almennur í málum af þessum toga en ekki bundinn við mál umbjóðanda yðar sérstaklega. 

Þá beinist kvörtun yðar að því að fyrrnefnt erindi yðar 13. október sl. til ráðuneytisins hafi enn ekki verið svarað. Af því tilefni er bent á að umboðsmaður hefur almennt gengið eftir því að viðkomandi er ber kvörtun fram til mín, leiti fyrsta kastið sjálfur til stjórnvalds með ítrekun telji hann drátt vera orðinn á svörum og gefi því færi á að bregðast við ef rétt reynist að erindi hafi ekki verið afgreitt á eðlilegum hraða eða þá gefa viðkomandi upplýsingar um hver eðlilegur afgreiðslutími er og hvenær vænta megi afgreiðslu. Af kvörtun yðar verður hins vegar ekki ráðið að erindi yðar hafi verið ítrekað. Verði frekari tafir á meðferð erindis yðar um flýtimeðferð getið þér, að undangenginni ítrekun, leitað á ný til umboðsmanns með kvörtun þar að lútandi. Þá getið þér og leitað til umboðsmanns á nýjan leik standist áform ráðuneytisins ekki.

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.